02.04.1979
Efri deild: 74. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3735 í B-deild Alþingistíðinda. (2921)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Frsm. meiri hl. (Jón Helgason):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til l. um stjórn efnahagsmála o. fl. Í nál. meiri hl. kemur fram, að haldnir voru sameiginlegir fundir með fjh.- og viðskn. beggja deilda og á þá fundi komu til viðtals fulltrúar ýmissa samtaka. Enn fremur mættu á fundum n. Jóhannes Nordal bankastjóri Seðlabankans, Georg Ólafsson verðlagsstjóri og Jón Sigurðsson forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar, sem mætti á flestum fundum nefndarinnar.

N. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu frv. Meiri hl. leggur til að það verði samþ. með þeim breyt. sem fram koma á þskj. 500, en minni hl. skilar séráliti.

Við 7. umr. hér í d. gerði hæstv. forsrh. ítarlega grein fyrir efni frv. og er því ekki ástæða til að endurtaka það nú. Ég vil hins vegar fara nokkrum orðum um þær brtt. sem meiri hl. flytur.

Við 2. málsgr. 1. gr. er orðalagsbreyting, þar sem skýrð er betur sú áhersla sem lögð er á að ekki sé reynt að ná einhverju þeirra markmiða, sem nefnd eru í fyrri hluta 1. gr., á kostnað hinna, þar sem taka þarf tillit til þeirra allra.

Í 2. brtt. er aðeins um að ræða orðalagsbreytingu á 6. gr.

Það sama er að segja um 3. brtt., sem á við 7. gr. frv. 4. brtt. er við 10. gr., þar sem dagsetningum í þeirri grein er breytt. Slíkt er nauðsynlegt þar sem dráttur hefur orðið á að málið væri afgreitt frá Alþingi.

5. brtt. a-liður fellir niður síðari málslið 1. tölul. 13. gr., þar sem óeðlilegt þótti að setja þar inn reglu sem skilja mætti,e. t. v. þannig, að hún takmarkaði óeðlilega mikið möguleika Alþ. á samþykkt fjárveitinga. En fyrri málsliðurinn ætti að segja nægilega skýrt það sem við er átt.

Hins vegar er í b-lið 5. brtt. sett inn nokkuð svipað ákvæði í 2. tölul. sömu greinar, sem leggur áherslu á að þn. leiti sem bestra upplýsinga um væntanleg útgjöld ríkissjóðs, sem mundi leiða af samþykkt frv., og að slíkar upplýsingar fáist áður en þau eru afgreidd frá nefnd.

Við umr. í fjh.- og viðskn. kom fram spurning um það, hvaða kostnað það aukna verkefni, sem fjárlaga- og hagsýslustofnun er falið samkv. þessari grein, hefði í för með sér fyrir ríkissjóð. Forstöðumaður stofnunarinnar skýrði frá því, og það kemur einnig fram í drögum að verkefnaskrá samkv. frv. sem lögð var fram í n., að þetta mundi kalla á tvo nýja menn — a. m. k. til að byrja með — hjá fjárlaga- og hagsýslustofnun. Annar þeirra mundi annast hagsýsluverkefni og eftir fenginni reynslu af þeim störfum ætti vinna hans við þau að leiða til sparnaðar í ríkisrekstrinum sem væri margfaldur á við launakostnað hans. Hinum starfsmanninum mundi einkum vera falið að sjá um að finna út kostnaðarmat á till. frv., sem talað er um í 2. tölul. og reyndar þeim 1. líka, og hv. þm. munu geta sjálfir sagt sér að það er æskilegt og nauðsynlegt fyrir þá að fá slíkt í hendur til þess að geta sem best gert sér grein fyrir málunum. Auðvitað hlýtur að vera erfitt að meta nákvæmlega fyrir fram hvers virði það er fyrir ríkissjóð, en óhætt ætti að mega fullyrða að ýmislegt mundi fara betur ef þetta væri skoðað nánar.

Þá er 6. brtt. við 16. gr. frv., en í síðari málslið þeirrar greinar er mjög afdráttarlaust ákvæði um að fylgja skuli rammaáætlun um erlendar lántökur einkaaðila. Í þessari brtt. er lagt til að bæta orðunum „sem hámarksáætlun“ aftan við greinina, þannig að ekki sé endilega skylt að fylgja þessari rammaáætlun að fullu. Það er þá sambærilegt við lánsfjáráætlun ríkisstj.

Þá er það brtt. sú sem er númeruð 7. Hún er við VI. kafla frv. og gerir ráð fyrir að bæta þar við nýrri grein, sem verður 31. gr. Þar er Seðlabanka Íslands veitt heimild til að hækka bindiskyldu innlánsstofnana hjá Seðlabankanum úr 25%, eins og hún er nú, í allt að 28% af heildarinnstæðufé hjá þessum stofnunum:

Að undanförnu hefur Seðlabankinn orðið að draga úr endurkaupahlutfalli sínu á afurðalánum, þar sem þau hafa orðið hærri en bundna féð og til viðbótar hefur svo komið skuld ríkissjóðs, sem allir vita að er orðin mjög mikil. Með þessari breytingu ætti að vera auðveldara að hafa afurðalánin viðunandi. Auk þess eru Seðlabankanum lagðar auknar skyldur á herðar í 28. gr. frv., sem einnig kallar á eitthvað meira svigrúm í þessu máli. En nánari reglur um framkvæmd þessarar heimildar eru háðar samþykki ríkisstj.

Í 8. brtt. er 36. gr. breytt þannig, að Seðlabankinn skuli gefa út hvaða reglur skuli gilda um rekstrar- og afurðalán atvinnuveganna að fengnu samþykki ríkisstj. og er þetta gert til samræmis við það sem venja er við slíkar ákvarðanir. Það er Seðlabankinn sem gefur þær út.

Í VII. kafla frv. er í heild fjallað um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár og virðast flestir sammála um að þar sé um mikilsverða breytingu að ræða sem kunni að marka tímamót í baráttunni við verðbólguna, eins og fleira í þessu frv. Í n. komu fram ábendingar í sambandi við grundvöll að verðtryggingu. Væri æskilegt að hann þyrfti ekki að vera bundinn við eina vísitölu eða gengi erlends gjaldeyris, eins og kveðið er á um í 4. tölul. 38. gr., heldur gæti verið heppilegra að miða við meðaltal af tveimur eða fleiri opinberum vísitölu. Um þessa breyt. er gerð till. í 9. lið brtt.

Þá er komið að VIII. kaflanum. Í upphafi 2. tölul. 49. gr. segir: „Breytingar á sköttum eða gjöldum eða álagning sérstakra skatta í því skyni að afla fjár til þess að draga úr áhrifum hækkunar olíuverðs á árunum 1979 og 1980 á framfærslukostnað þeirra heimila, sem hita hús sín með olíu, eða til annarra ráðstafana til þess að milda áhrif hækkunar olíuverðs innanlands.“

Meiri hl. n. leggur til, að setningin „eða til annarra ráðstafana til þess að milda áhrif hækkunar olíuverðs innanlands“ falli niður. Það er enn ekki ljóst hvað olíuhækkunin muni verða mikil á þessu og næsta ári. Ekki hefur heldur verið ákveðið til hvaða ráða verður gripið til að draga úr áhrifum olíuverðshækkunarinnar á annað en framfærslukostnað heimila, enda þótt það blasi við að þar er við ærinn vanda að eiga sem sjálfsagt kallar á einhverja lagasetningu sem leysi þar úr. En þar sem það er enn óljóst þótti rétt að fella hið óákveðna orðalag niður.

Í 11. tölul. brtt. er viðbót við ákvæði til bráðabirgða á eftir 51. gr. Þar er gert ráð fyrir að aftan við bráðabirgðaákvæði frv. komi:

„Grunnkaup þetta skal haldast óbreytt þar til um annað hefur verið samið. Ákvæði þessara laga breyta í engu rétti til að gerðir séu nýir kjarasamningar, jafnt um grunnlaun sem verðbætur á laun.“`

Með þessari viðbót yrði þetta I. tölul. bráðabirgðaákvæðanna. Samkv. þessu skal kaupið í mars teljast grunnkaup við gildistíma laganna og haldast óbreytt þar til um annað hefur verið samið, þannig að aðstaða allra verði að því leyti hin sama. Hins vegar er tekið fram, að ákvæði laganna breyta ekki rétti til nýrra samninga.

Í upphafi II. kafla bráðabirgðaákvæðanna samkv. brtt. segir:

„Þrátt fyrir ákvæði 50. gr. skal frádráttur frá verðefnahagsmála o. fl. 3738 bótavísitölu hinn 1. júní 1979 vegna rýrnandi viðskiptakjara hæst nema 2% af verðbótavísitölu þann dag. Það, sem umfram 2% frádrátt kann að reynast, skal tekið til greina þegar reiknuð verður verðbótavísitala frá 1. sept. 1979.“

Og enn fremur: „Þó skal frádráttur frá hækkun verðbóta samkv. ákvæðum 50. gr. ekki breyta rétti til verðbóta hinn 1. júní 1979 á laun, sem lægri eru en 210 þús. kr. á mánuði fyrir fulla dagvinnu, sbr. 1. málsgr. þessara ákvæða til bráðabirgða. Hinn 1. sept. 1979 skal breyting verðbóta frá 1. júní vegna viðskiptakjaraáhrifa vera hin sama fyrir þessi laun og aðra launataxta. Hinn 1. des. 1979 skal síðan gilda sama vísitala við ákvörðun verðbóta á öll laun eins og hún verður ákveðin samkv. 47.–50. gr. þessara laga.“

Það var áætlað, að áhrif frv. á júnílaun mundu nema 5.1–6.1% til lækkunar frá því sem annars hefði orðið og færi þessi tala eftir því hvaða rýrnun viðskiptakjaranna o. fl. næmi miklu þá. En með bráðabirgðaákvæðum þessum er áhrifum, sem eru umfram 2% lækkun vegna viðskiptakjaraviðmiðunar, frestað til 1. sept. á öll laun og síðan er samkv. síðari hlutanum, sem ég las, kveðið á um að þessi 2%, sem koma inn 1. júní, skuli þó ekki breyta rétti til verðbóta hinn 1. júní og 1. sept. á laun sem eru lægri en 210 þús. kr. samkv. ákvæðunum um grunnlaun í I. kafla bráðabirgðaákvæða þessara. Hinn 1. des. gildir svo sama vísitala á öll laun.

Með þessu er áhrifum af VIII. kafla frv. á greiðslu verðbóta á laun, sem eru í dagvinnu lægri en 210 þús. kr., er átti að koma til framkvæmda 1. júní samkv. frv., dreift á 1. júní, 1. sept. og 1. des. Um áhrif af ákvæðum frv. á verðbætur síðar á árinu hefur verið áætlað að þær gætu verið 0.5–1% umfram það sem ég ræddi um að væri frestað, enda þótt erfitt sé að meta það. Enn fremur getur enginn sagt til um breytingu viðskiptakjara fram að 1. des., en hefðu þau þá eitthvað snúist til betri vegar mundu þessi 2%, sem frestað var 1. júní, lækka sem því næmi. Þessi frestun á 2% lækkun verðbótavísitölu á lægri laun er mjög lauslega áætlað að muni nema rúmlega 1% hækkun á heildarlaunagreiðslur í landinu.

Í bráðabirgðaákvæðum þessum er sagt: „Kveða skal nánar á með reglugerð um framkvæmd þessara ákvæða, þar með hvað telja skuli laun fyrir fulla dagvinnu.“ Varðandi ákvæði kaflans um skilgreiningu á dagvinnukaupi er einkum stuðst við sambærileg ákvæði brbl. nr. 88/1974, um launajöfnunarbætur o. fl., en þá var gefin út reglugerð og samdar reglur, sem var lögð mjög mikil vinna í og farið var eftir þá á eftir. Þó er rétt að vekja athygli á að með orðinu „erfiðisálagi“, sem nú er sett þarna inn og draga skal frá áður en endanlegur kauptaxti er metinn, er átt við þegar unnið er í tönkum og við aðrar sérstaklega erfiðar aðstæður. Ákvæði kaflans munu leiða til þess, að samkv. reglugerðinni mun þessi 2% frádráttur 1. júní ekki lenda á bónusvinnu við fiskvinnslu og verksmiðjuiðnað, þ. e. a. s. að sú vinna mun fá sömu vísitölu og lægra kaupið.

Fulltrúar Alþýðusambands Íslands komu á fundinn, eins og áður hefur komið fram, og skýrðu þar frá sjónarmiðum sínum og lögðu þar m. a. fram fréttabréf ASÍ, 8. tölubl. þessa árgangs, sem allir hv. alþm. munu einnig hafa fengið. Á öftustu síðu fréttabréfs þessa er sýndur kaupmáttur síðustu missira og spá fram til áramóta miðað við annars vegar óbreytt ástand frá því sem það hefur verið og hins vegar ástandið eins og það væri ef frv. hefði verið samþ. óbreytt eins og það var lagt fram. Í samræmi við það, sem ég hef sagt um frestun á ákvæðum viðskiptakjaraviðmiðunarinnar á lægri laun, er ljóst að bilið milli toppanna á aftari hluta línuritsins hinn 1. júní mun minnka um u. þ. b. helming, þannig að toppurinn færist upp og nálgast það sem hann var 1. mars, og eitthvað svipað mun gerast 1. sept. Að öðru leyti líta menn vafalaust misjöfnum augum á þetta línurit.

Athyglisverðasta myndin, sem það gefur mér, er hvað kemur skýrt í ljós að kaupmátturinn fellur strax eftir hverja kauphækkun og að loknum tveimur mánuðum er hann yfirleitt fallinn niður í það sama og hann var fyrir síðustu kauphækkun. En tækist okkur að ráða niðurlögum verðbólgunnar yrði línuritið ekki eins og stórtennt sög, heldur mundi það nálgast beina línu og þá yrði kaupmáttur verkamannsins jafnmikill eða meiri, þó að boginn væri ekki spenntur eins hátt og gert hefur verið þegar toppunum hefur verið náð.

Við vitum ekki hvað langt við verðum komin að draga úr verðbólgunni um næstu áramót, en við sjáum þó, að á línunni, sem dregin er samkv. frv. óbreyttu, en á eftir að færast öll ofar, eins og ég sagði, vegna breytinga, eru skörðin minni. Virðist það ótvíræð vísbending um það, að með samþykkt frv. erum við að stefna í rétta átt. Við erum að draga úr sveiflunum.

Í III. kafla bráðabirgðaákvæðanna segir:

„Þá skulu elli- og örorkulaun og aðrar hliðstæðar tryggingabætur njóta sömu meðferðar og laun undir 210 þús. kr. markinu og frá sama tíma.“

Síðasta brtt. meiri hl. n. er við 58. gr. frv., sem fjallar um verðlagsmál. Með breyt. þessari er m. a. fellt niður ákvæði um að það skuli vera meginregla að vöruverð sé háð verðlagseftirliti og verðlagsákvæðum. Í staðinn kemur, eins og þar segir: „Þegar samkeppni er nægjanleg getur verðlagsráð að fengnu samþykki ríkisstj. vikið frá þessum reglum og m. a. heimilað að fella einstaka flokka vöru og þjónustu undan verðlagsákvæðum.“ — Með þessu: „að fengnu samþykki ríkisstj.“ — er átt við að ríkisstj. þurfi eingöngu að taka ákvörðun um það einu sinni að hverfa inn á þessa braut og frá núverandi ástandi, en síðan hafi verðlagsráð heimild að meta hvenær það telur breytingar æskilegar. Munu flestir sammála um að í ljós hafi komið að undanförnu, að einhverra breytinga sé þörf frá því ástandi sem ríkt hefur í þessum málum, þar sem úr ýmsum áttum hafa verið höfð allstór orð um það ástand.

Ég hef þá reynt að skýra þær breytingar sem felast í till. meiri hl. fjh.- og viðskn.

Það hefur verið sagt, að þetta frv. sé merkasta tilraun sem gerð hafi verið til heilsteyptrar og samræmdrar löggjafar um mótun efnahagsstefnu. (Gripið fram í: Hver sagði það?) Sú skoðun hefur komið fram, hv. þm., ef hann heyrir til mín, frá fleiri en þeim sem beinlínis er hægt að segja að styðji þessa ríkisstj.

Þegar verðbólga fer af stað stafar það af því að jafnvægi raskast í þjóðarbúskapnum. Orsökin er oft sú, að einhverjir telja sér ávinning að breytingum, sem því valda, og með því er verið að taka forskot á sæluna. Við því má þess vegna búast, að þegar draga á úr verðbólgunni þurfi eitthvað á sig að leggja. Margir hafa sagt, að þeir vildu að með þessu frv. væri hægt að ganga lengra í lækkun verðbólgunnar. En þá mætti vænta þess, að álagið, sem af því leiddi, yrði heldur meira. Það hlýtur að vera matsatriði og eitthvað skiptar skoðanir um það, hvar hinn rétti meðalvegur liggur, en niðurstaða núv. stjórnarflokka um það kemur fram í þessu frv. og með þeim brtt. sem meiri hl. fjh.- og viðskn. hefur flutt.

Það hefur verið svo mikið rætt um bölvun verðbólgunnar og allir virðast sammála um nauðsyn þess að ráða niðurlögum hennar, að ég sé ekki ástæðu til að fjalla meira um það mál að þessu sinni, en vænti þess, að sem flestir fagni því mikla átaki sem nú hefur verið ákveðið að gera í því skyni. Ég hygg að flestir hafi líka orðið varir við, á meðan á meðferð frv. þessa hefur staðið, óvanalega mikinn áhuga almennings á því að samkomulag tækist um afgreiðslu þess. Ég tel því, að um einsdæmi muni vera að ræða þegar efnahagsmál eru annars vegar. Slíkt er ákaflega mikils virði, því það skiptir tvímælalaust einna mestu máli að almenningur hafi trú á því að hér sé verið að gera rétt.