02.04.1979
Neðri deild: 69. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3764 í B-deild Alþingistíðinda. (2949)

7. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Lúðvík Jósepsson:

[frh.] Herra forseti. Þegar mál þetta var síðast á dagskrá hafði ég rétt byrjað á ræðu minni um það, en varð þá að fresta máli mínu og mun nú halda áfram þar sem frá var horfið.

Ég hafði gert nokkra almenna grein fyrir því, hvað hér er um mikilvægt mál að ræða þar sem er ráðstöfun á gengishagnaði sem nemur rúmlega 7 milljörðum kr. Reyndar kemur í ljós að gengishagnaðurinn allur er rúmlega 7.5 milljarðar kr., en um 500 millj. koma í rauninni ekki til skipta, heldur verða greiddar þeim aðilum sem hlut eiga að máli samkv. 2. gr. frv.

Ég hafði minnst á að ráðgert væri að ráðstafa þessum miklu fjármunum þannig að um helmingur upphæðarinnar rynni til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Taldi ég það mjög réttmæta ráðstöfun vegna þess að þá verður þessi fjárhæð, sem tekin er af sjávarútveginum sem heild, áfram í höndum sömu aðila og kemur að sjálfsögðu til skipta eftir reglum þess sjóðs síðar. Ég hafði einnig á það minnst, að hinn helmingurinn ætti að skiptast að jöfnu á tvær deildir hjá Fiskveiðasjóði. Önnur þeirra á að veita lán til hagræðingarframkvæmda, en hin á hins vegar að styðja þá aðila sem orðið hafa fyrir gengistöpun við gengislækkunina í sambandi við skipalán.

Það er enginn vafi á því, að miklu máli skiptir, þegar á stendur eins og í þessu tilfelli, að eðlilega sé staðið að því að ráðstafa jafnmiklum fjármunum og hér er um að ræða. Ég tel varðandi það, sem á samkv. þessum lögum að renna til þeirrar deildar Fiskveiðasjóðs sem bætir skipaeigendum upp tap af gengislækkuninni, að sú ráðstöfun á fjármagninu sé eðlileg, en bendi á að þeir fá í rauninni með þessu fjármagni ekki bættan nema lítinn hluta af því tjóni sem þeir hafa orðið fyrir með gengislækkuninni. En þá er ég kominn að hinum hluta þessa fjármagns, þ. e. a. s. þeim hlutanum sem á að verja til hagræðingarframkvæmda. Eftir því sem ég hef sagt hér mun það verða svo, að hér verður um fjárhæð að ræða sem mun liggja á milli 1.5 og 1.7 milljarða kr., og því á að verja í þessu skyni.

Í brtt., sem ég flyt ásamt hv. þm. Kjartani Ólafssyni, leggjum við til að mörkuð verði skýrari stefna um það, hvernig ráðstafa skuli þessu fjármagni, en fram kemur í frv. Aðalefnið í till. okkar er að svo skuli mælt fyrir, að óheimilt sé að verja þeim hluta fjármagnsins, sem á að renna til hagræðingarframkvæmda, til annarra lána en þeirra sem geta með eðlilegum hætti flokkast undir hagræðingarlán. Það er enginn vafi á því, að það hefur borið nokkuð á því að af þessu fé ætti að taka óákveðinn hluta og veita mönnum sem lán til almennrar skuldagreiðslu til þess að greiða upp venjulegar rekstrarskuldir. Ég tel með öllu fráleitt að tiltekinn hluti, sem til fellur vegna gengislækkunar, sé fluttur frá vissum aðilum í sjávarútveginum til annarra til þess að greiða upp skuldir sem til hafa fallið. Ég vil fyrir mitt leyti vara við því að fara inn á slíka braut. Hún er ósæmileg. Þar sem svo vill til að miklar rekstrarskuldir hafa orðið til í sjávarútvegi t. d. eða öðrum rekstri, þá er það mál út,af fyrir sig sem er sjálfsagt að taka á, hvort hægt er að afla fjár til að rétta slíkan rekstur við að nýju. En standi þannig á að það sé nauðsynlegt á vitanlega að afla fjár til þess með öðrum hætti en þeim að ætla raunverulega að skattleggja tiltekna aðila í starfsgreininni, en það er það sem mundi verða gert í þessu tilfelli ef hluti af því fjármagni, sem fellur til í sambandi við gengislækkun, er fluttur til frá vissum aðilum í rekstrargreininni til annarra til þess að greiða upp almennar rekstrarskuldir þeirra. Ég vil koma í veg fyrir þetta og því tel ég rétt að flytja brtt. á þskj. 436, en þar eru að mínum dómi tekin af öll tvímæli um að þetta fjármagn á að ganga til hagræðingarlána, til þess að koma fram bættum rekstri í þessari starfsgrein, en það er óheimilt að veita fjármagni þessu til að greiða almennar rekstrarskuldir.

Ég hef sagt við þá, sem hafa áhuga á því í þessu tilfelli, eins og mál liggja fyrir nú, og telja nauðsynlegt að hægt sé að aðstoða tiltekin fyrirtæki sem hafa verið rekin með halla, að ég vil gjarnan eiga þátt í að útvega fjármagn til að rétta þeim hjálparhönd sem standa illa að vígi í rekstri, þó að sjálfsögðu eftir mati á því hvernig öll mál standa. En ég tel fráleitt að afla þess fjár á þann hátt að leggja sérstakan skatt á aðra í starfsgreininni, og ég vil koma í veg fyrir það. Alveg sérstaklega vegna þess er þessi till. flutt.

Þá er einnig í frv. þessu gert ráð fyrir að nokkur hluti af því fjármagni, sem á að renna til Fiskveiðasjóðs og bæta skipaeigendum það tjón sem þeir hafa orðið fyrir við gengislækkunina, skuli renna í svonefndan úreldingarsjóð fiskiskipa, þar sem ætlunin er að veita útgerðaraðilum nokkurn stuðning til þess að leggja niður rekstur á skipum sem ekki eru lengur talin fyllilega hæf til úthalds. Ég get fallist á það sjónarmið, að rétt sé að nokkrum hluta þess fjármagns, sem hér er um að ræða, verði varið í þessu skyni. En mér finnst óeðlilegt að hafa það alveg óákveðna fjárhæð, því að ekkert er sagt um hvað hún eigi að vera há eins og er í lögunum. Ég vil því taka af allan vafa í þeim efnum og ákveða tilteknum hluta af því fé, sem hér er um að ræða, sem eigi að verja í þessu skyni. Það er verkefni Alþingis að taka slíka ákvörðun og einskis annars. Í öðru lagi tel ég eðlilegt að það fjármagn, sem á að verja í þessu skyni, renni í þann sjóð sem myndaður hefur verið til þess að leysa af hendi einmitt þetta verkefni. Það hefur þegar verið komið á fót sjóði við Samábyrgð Íslands á fiskiskipum sem er nefndur Aldurslagasjóður, og ég tel sjálfsagt að láta þessa fjárhæð renna í þann sjóð, svo að um verði að ræða aðeins einn sjóð sem annist þetta verkefni. Ég sé enga ástæðu til að þeir aðilar, sem vilja leggja niður rekstur á fiskibátum sínum og telja þá vera orðna. óhæfa til rekstrar, þurfi fyrst að sækja til Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum og sækja þá um framlag úr Aldurslagasjóði og síðan eigi þeir að senda umsóknir líka til annarrar sérstakrar nefndar sem einnig hefur yfir fjármagni að ráða og úthlutar styrkjum í þessu skyni. Fjárúthlutun eftir svona leiðum er venjulega býsna hættuleg. Ég álít því að það eigi að hverfa frá þeirri hugmynd, sem hæstv. sjútvrh. hefur verið með, að hafa sérstakan sjóð sem úthluta ætti úr í þessum efnum, en hins vegar sé rétt að ákveða að fjárhæð þessi verði látin renna til Aldurslagasjóðs hjá Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Raunverulega er það svo, að öll fiskiskip greiða ákveðið tryggingagjald til þeirrar deildar, eru því í þessari tryggingu, eiga þar sinn rétt, og ef hægt er að styrkja þessa deild fjárhagslega er sjálfsagt að gera það þannig að umsóknir hvers og eins séu þá gerðar upp á einum stað. Till. okkar á þskj. 436 miðar m. a. að þessu atriði einnig.

Fjh.- og viðskn. þessarar d. fékk nokkrar upplýsingar frá Fiskveiðasjóði um það, hvað hefði þegar verið gert í sambandi við það fjármagn sem hér er um að ræða. Það kom þá í ljós að af svonefndu hagræðingarfjármagni, sem hér er um að ræða, hefðu þegar verið veitt loforð til nokkurra aðila suðvestanlands, eða sem nemur rúmlega 360 millj. kr. Það fer í rauninni ekkert á milli mála eftir þeim upplýsingum sem n. fékk, að hér er að verulegu leyti um að ræða að verið er að ráðstafa þessu hagræðingarfjármagni í gamla skuldasúpu ýmissa félaga sem þarna eiga hlut að máli. Hér er aðallega um að ræða útgerðarfélög á Reykjanesi og sunnanlands: eitt á Eyrarbakka og eitt á Stokkseyri og tvö í Vestmannaeyjum, en hin eru á Reykjanesi. Ég tel að það hafi verið gert meira en nóg að því að úthluta úr ýmsum sjóðum til aðila þar sem fyrst og fremst er við það miðað að reyna að grynna eitthvað á skuldum þeirra. Það liggja fyrir opinberar upplýsingar um slíkar úthlutanir sem hafa farið fram æ ofan í æ, en reynslan hefur sýnt að þær hafa harla lítið miðað að því að koma rekstri þessara fyrirtækja á viðunandi grundvöll. Ég álít því að í sambandi við ráðstöfun á þessu fjármagni eigi að draga skýrar línur. Alþ. á að standa að ákvörðun um það, hvernig eigi að verja þessu fjármagni, og taka þá alveg skýrt fram að óheimilt sé að verja því til þess að greiða almennar rekstrarskuldir. Ég álít líka að þessi till., sem við hv. þm. Kjartan Ólafsson flytjum á þskj. 436, sé fullkomlega í samræmi við brbl., af því að gengið var út frá því að þetta fjármagn ætti fyrst og fremst að renna til þess að koma fram ákveðnum rekstrarlegum umbótum í fyrirtækjum, en hér átti ekki að vera um neinar skuldagreiðslur að ræða. Ég vil taka það fram í þessu sambandi, að að sjálfsögðu getur verið um það að ræða að af þessu fjármagni verði veitt lán út á framkvæmdir sem fram hafa farið og geta flokkast undir hagræðingarframkvæmdir, þó að þær hafi farið fram fyrir einu eða tveimur árum og aðili hafi ekki fengið stofnlán eða hagræðingarlán til slíkra framkvæmda. Það er ekkert bundið við það. Það er aðeins þetta sem við leggjum til, að það komi skýrt fram að óheimilt sé að verja þessu fjármagni til þess að greiða venjulegar og almennar rekstrarskuldir. Það á að afla fjár til slíks með öðrum hætti.

Ég hef með þessum orðum í rauninni gert grein fyrir till. okkar. Ég get aðeins bætt því við, þó að ekki sé búið að tala fyrir annarri brtt. sem hér liggur fyrir, um smávægilegan stuðning til samtaka sjómanna, að ég er samþykkur þeirri till. sem er á þskj. 430, 1. flm. hv. þm. Matthías Bjarnason. Þar er um að ræða fjárveitingu sem er hliðstæð þeirri sem áður hefur verið innt af höndum í sambandi við gengishagnað, og ég tel að ráðstöfun á því tiltölulega litla fjármagni, sem þar er um að ræða, sé fullkomlega eðlileg. Ég mun styðja þá till. En á hitt legg ég ríka áherslu, að það er Alþ. sem á að setja aðalreglurnar um það, hvernig eigi að ráðstafa 7 milljörðum kr. Það þarf að leggja niður þann sið, sem farið er að bera hér á í vaxandi mæli, að einstakir ráðh. ætlist til þess að þeir geti síðar sett reglugerðir og ráðstafað milljörðum króna. Alþingi á að setja þessar reglur og taka skýrt fram til hvers eigi að verja fénu. Ég tel engan vafa leika á því, að fé það, sem hér um ræðir, sem á að ganga til hagræðingarframkvæmda eða til umbóta í rekstri, er ekki of há fjárhæð. Og auðvitað eiga allir, hvar sem þeir eru staddir á landinu, sem hafa með höndum sjávarútvegsrekstur, jafnan rétt til að sækja um þessi lán. Það á að meta þær lánsbeiðnir hjá hverjum og einum. En við eigum ekki að fara inn á þá hættulegu braut, að þessu fjármagni verði úthlutað til þess að grynna á einhverjum bankaskuldum fyrirtækja sem ekki hafa getað haldið uppi eðlilegum rekstri. Ég er á móti því.