05.04.1979
Sameinað þing: 79. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3950 í B-deild Alþingistíðinda. (3093)

185. mál, almennar skoðanakannanir

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég held að það hafi komið glögglega fram í þeirri ræðu sem flutt var áðan, að það er því miður ekki meginatriðið í huga a. m. k. fyrsta flm. þessarar till. að setja almennar leiðbeinandi reglur um skoðanakannanir í því skyni að styðja það þarfa fyrirbæri sem skoðanakannanir eru, heldur sé ástæðan fyrir tillöguflutningnum sú, hverjar hafi verið niðurstöður þeirra skoðanakannana sem gerðar hafa verið. Mér finnst á málflutningi hv. þm. að hann sé miklu frekar að flytja þetta mál sitt til þess, eins og segir í grg., að amast frekar við ákveðnum skoðanakönnunum sem að hans mati sýna pólitíska niðurstöðu sem hv. þm. er ekki þóknanleg. Ég held að orðræður hv. þm. áðan hafi glögglega leitt það í ljós, hvar honum brennur eldurinn heitastur í þessu sambandi, og það er að til skuli vera blað á Íslandi, hvaða nafni sem það nefnist, sem hv. þm. telur að sé sér og sínum flokki pólitískt óhagstætt, en eitthvað hagstæðara að sama skapi öðrum flokkum. Og af því að þetta tiltekna blað hefur birt skoðanakannanir sem viðkomandi flokki eru ekki að skapi, þá á Alþ. að reisa skorður við pólitískum skoðanakönnunum af hálfu slíkra aðila. Þetta er að sjálfsögðu algerlega fráleitt. Það væri alveg eins hægt að flytja hér till. til þál. um að skora á ríkisstj. að hún beiti sér fyrir setningu löggjafar sem afnemi rétt aðila til þess að framkvæma pólitískar skoðanakannanir, nema þeirra sem séu tilteknum flokkum þóknanlegir. Og ég held, því miður fyrir hv. þm., að það sé nokkurn veginn sama hvað Alþ. samþykkir í þessu sambandi, þá verði það ekki til að breyta niðurstöðum slíkra skoðanakannana, en auðvitað er það fyrst og fremst það sem þessi hv. þm. stefnir að. Hann hefur ekki mestar áhyggjur af því, hvernig skoðanakannanir eru framkvæmdar, heldur hinu, hvað þær sýna. Og ég vil taka það sérstaklega fram, að um slíka hluti var ekki rætt í þeirri n. sem ég átti aðild að, en er nú víst sofnuð út af, eins og hv. fyrsti flm. tók með réttu fram, og var undir forustu þess ágæta manns prófessors Ólafs Björnssonar.

Það er sagt hér að það sé tvímælalaust hægt með óvönduðum og hlutdrægum skoðanakönnunum, sem blásnar eru út í fjölmiðlum, að hafa veruleg áhrif á skoðanamyndanir almennings í landinu. Hvaða dæmi hefur hv. þm. um það? Eru þessar óvönduðu og hlutdrægu skoðanakannanir t. d. skoðanakannanir Dagblaðsins og Vísis sem birtar voru áður en var farið að spá flokki hv. þm. nokkurri fylgisaukningu, eða er sú skoðanakönnun undanþegin í þessum ábendingum í grg. með þessari þáltill. sem var vitaskuld skrifuð áður en síðasta skoðanakönnun Vísis var birt?

Ég vil alls ekki að Alþ. fari að setja neina almenna löggjöf sem banni aðila í þjóðfélaginu að framkvæma slíkar kannanir, hvort sem það eru síðdegisblöð eða árdegisblöð, og jafnvel ekki þó að Tímanum dytti í hug ettir svo sem 20 ár að beita sér fyrir að framkvæma skoðanakannanir. Mér kemur ekki til hugar að stjórnvöld eigi að fara að reisa einhverjar skorður við því, að hvaða aðili á Íslandi sem er sem detti í hug að framkvæma skoðanakönnun geti gert það. Ég tel að það eigi að beita sér fyrir því, að ekki endilega verði sett lög, heldur einhverjar almennar viðmiðanir um hvaða almennum reglum skoðanakannanir þyrftu að lúta til þess að teljast fyllilega marktækar, t. d. um stærð úrtaks og vinnslu úrtaks og annað eftir því. En ég vísa aðeins til þess, og það skiptir engu máli í þessu sambandi hver hefur framkvæmt skoðanakönnunina, hvort niðurstöðurnar eru hagkvæmar eða óhagkvæmar mínum flokki eða þeim mönnum sem með mér eru í flokki, að ég held að það fari ekki fram hjá neinum að reynslan er auðvitað hinn endanlegi dómari. Reynslan staðfesti fyrir tæplega einu ári að þær skoðanakannanir, sem enginn vildi trúa að gæfu rétta mynd af viðhorfi almennings, reyndust réttar, þær reyndust gefa sanna og rétta mynd. En allur tónninn í málflutningi hv. fyrsta flm. þessarar þáltill. og raunar í grg. einnig ber þess merki, að till. er ekki sprottin af því að menn hafi áhuga á að vanda gerð skoðanakannana og styðja að slíkri framkvæmd, heldur er till. ávöxtur mikils og stöðugt vaxandi áhyggna af þeim niðurstöðum sem þessar skoðanakannanir leiða í ljós. En auðvitað verður því ekki breytt, nema þá með betri frammistöðu þeirra ágætu manna sem telja sig eiga undir dómi almennings í skoðanakönnunum og í sambandi við atkvgr. Að ætla að fara óbeinlínis að banna einhverjum aðilum úti í þjóðfélaginu, sem áhuga hafa á að framkvæma skoðanakannanir, er að sjálfsögðu algerlega út í hött og ég vil eindregið vara hv. þm. við slíkri stefnu, því að það gæti vel verið að svo færi eftir svo sem hálfa öld að blað hans kæmist að þeirri niðurstöðu, að þetta væri nokkuð þörf og snjöll framkvæmd í takt við nýja tímann.