06.04.1979
Neðri deild: 73. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3994 í B-deild Alþingistíðinda. (3145)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Frsm. meiri hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 527 er nál. frá meiri hl. fjh.- og viðskn. þessarar hv. d., en þar er skýrt frá því, að aðalstörf n. fóru fram í samstarfi við fjh.- og viðskn. hv. Ed. og var aðeins einn fundur haldinn í fjh.- og viðskn. Nd. vegna þess að 5 fundir höfðu verið sameiginlega haldnir í nefndum beggja deilda. Á þeim fundum lágu frammi þær umsagnir sem horist höfðu um frv., og enn fremur komu til fundar við n. þeir aðilar sem sérstaklega var talið að fallnir væru til þess að segja álit sitt á frv. Í hv. Ed. var svo að loknum þessum fundum gengið frá þeim brtt. sem fjh.- og viðskn. þeirrar d. gerði, og voru þær samþykktar. Þannig breytt leggur meiri hl. fjh.- og viðskn. Nd. til að frv. verði samþykkt. Einn meirihlutanm. hefur þó fyrirvara sem hann mun gera grein fyrir við umr.

Meginþættir þeirra breytinga, sem gerðar voru í hv. Ed., voru m. a. að tekið var tillit til álits, sem fram hefði komið frá Verkamannasambandinu, og till. því gerð um að viðskiptakjaravísitalan yrði tekin til framkvæmda af meiri mildi og hægar en gert hafði verið upphaflega ráð fyrir, og er þar átt við tekjur sem ná í venjulegri dagvinnu með þeim atriðum, sem þeim fylgja, að 210 þús. kr. mánaðarlaunum, og fjara út við 220 þús.

Annað, sem breytt var í frv. í hv. Ed., var að innstæðubinding er aukin úr 25 í 28%, en það er gert m. a. til þess að gera Seðlabankanum auðveldara að geta sinnt þeim verkefnum sem hann hefur annast í sambandi við afurða- og rekstrarlán.

Þriðja meginatriðið, sem gerð var á hreyting í hv. Ed., var viðvíkjandi verðlagslögunum, sem samþ. voru á s. l. þingi og eru nr. 56 frá 1978, um gildistöku 8. gr. laga þeirra, en henni var nokkuð breytt frá því sem var í frv. Var þar gert ráð fyrir rýmri tökum á þeim málum en frv. gerði áður ráð fyrir.

Fjórða atriðið, sem var einnig breytt í hv. Ed., var viðvíkjandi olíuverðshækkuninni. Þá er miðað við áhrif á vísitölu samkv. lagafrv. þessu eða þá tekjuöflun sem kann að eiga sér stað vegna niðurgreiðslu á olíu til húshitunar. En að öðru leyti verður um það mál, ef til kemur, fjallað sem sérstakt mál og ekki frekar í þessu frv.

Um þetta frv. þarf ég að sjálfsögðu ekki mikið að segja því að það hefur verið svo mikið til umr. hér á hv. Alþ. og utan þings og það m. a. s. áður en frv. hafði borist hv. Alþ. sem slíkt. Hins vegar vil ég geta þess, að eins og áður hefur komið fram í umr. hér á hv. Alþ. um stefnu núv. ríkisstj. eru það þrír þættir sem hún hefur tekist á við á þeim tíma sem hún hefur setið á valdastólum.

Í fyrsta lagi var ætlun hennar að ná niður vöruvísitölunni með aðgerðum þeim sem gerðar voru í sept., bæði með auknum niðurgreiðslum og niðurfellingu á söluskatti. Þessar ráðstafanir og aðrar þær, sem þá voru gerðar, voru gerðar til þess að koma atvinnuvegunum í fullan gang, en eins og ástandið var þá var mjög tvísýnt um stöðu þeirra í þjóðfélagi okkar. Þessar aðgerðir höfðu þegar þau áhrif sem að var stefnt, en ljóst var að það mundi ekki nægja til áframhaldandi sóknar gegn verðbólgunni sem er eitt af höfuðverkefnum hæstv. ríkisstj.

Annar þáttur í ráðstöfunum ríkisstj. í baráttunni gegn verðbólgu voru tímabundnar ráðstafanir sem gerðar voru í desember.

Við afgreiðslu þeirra mála og afgreiðslu fjárl. lýsti hæstv. forsrh. því yfir, að hann mundi beita sér fyrir áframhaldandi sókn í þessum málum, m. a. með því að setja sérstaka ráðherranefnd sem ynni að undirbúningi þess máls sem hér er nú til meðferðar. Þessu var fram haldið svo sem fyrirheit hæstv. forsrh. gáfu tilefni til, og ráðherranefnd sú, sem hann skipaði, skilaði 28. febr. áliti til hæstv. ríkisstj. Eftir að ríkisstj. hafði fjallað um málið varð niðurstaðan að forsrh. var falið að vinna að málinu með undirbúningi frv., sem hann og gerði. Í því sambandi hafði hann samstarf við aðila vinnumarkaðarins, eins og kom fram í störfum fjh.- og viðskn. í meðferð frv. á hv. Alþ., og enda þótt það sé svo, að þeim finnist sumum hverjum að minna tillit hafi verið til þess tekið, sem þeir vildu þar að vinna, kom þó fram að í ýmsum atriðum var tillit til þess tekið þegar frá frv. var endanlega gengið.

Veigamesti þáttur þessa frv. er að tryggja atvinnu í landinu. Eins og kunnugt er hefur tekist á síðustu árum að halda hér uppi verulegri og góðri atvinnu. Það er stefna hæstv. núv. ríkisstj. að fylgja því fast eftir að svo verði. Og þrátt fyrir að aðrir þættir séu hér veigamiklir, eins og verðbólguþátturinn, sem er hinn veigamesti á margan hátt, er það hugsun hæstv. ríkisstj. að ekkert skuli gert á kostnað atvinnuöryggis og ef svo horfi, að atvinnuöryggi sé ekki tryggt, verði að víkja frá þeim þáttum að einhverju leyti sem frv. þetta gerir ráð fyrir, þó að að því sé stefnt og í það fast haldið að úr verðbólgunni verði dregið.

Þá er og annar þáttur veigamikill í frv. þessu, sem er stjórn peningamála. Sérstaklega er það verðtrygging sparifjár og lánsfjár sem nú er tekin fastari tökum en áður fyrr. Ég leit svo á, þegar fyrrv. ríkisstj. tók upp nýjan útlánaþátt í sambandi við lánsfé, að með þeim hætti væri farið inn á þessa braut. En því miður hefur það ekki tekist sem skyldi. Nú er gengið lengra í þá átt að verðtryggja sparifé og lánsfé en gert hefur verið áður. Mun það án efa verða til þess að hafa veruleg áhrif til að reyna að ná tökum á verðbólgunni. Að því er stefnt með þessum hætti, og er vonandi að aðferðin reynist vel.

Þá er og það atriði, að viðskiptakjaravísitala skuli gilda. Það er mikilvægur þáttur, og enda þótt ég hefði kosið að fleiri þættir hefðu fylgt til breytinga á vísitölunni, þá finnst mér þetta mjög veigamikill þáttur og tel að hann muni tryggja afkomu þjóðarinnar betur en verið hefur, því að það er mjög fráleitt, eins og við höfum orðið við að búa, að þó að viðskiptakjör þjóðarinnar hafi versnað hefur vísitalan hækkað og kaupgjald í landinu hækkað þar með og gert stöðu atvinnuveganna enn þá verri en viðskiptakjararýrnunin gerði. Að því er spáð er á þessu ári er ekki reiknað með að þjóðartekjurnar muni aukast, heldur í mesta lagi haldast i því horfi sem þær voru á s. l. ári, jafnvel þó að þjóðarframleiðslan aukist eitthvað, sem þó er talið að muni verða lítið. Það mun og leiða til þess að viðskiptakjörin munu eitthvað versna, sérstaklega á fyrri hluta þessa árs. Er því brýn nauðsyn að taka þann þátt upp sem hér er gert, og er vel að um það skyldi nást samstaða í hæstv. ríkisstj. að þannig skyldi að verki staðið.

Þá er og í þessu, sem ég hef sagt, meiri festa á stjórn peningamála og fjármála en áður hefur verið. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að það hefur verið mikið framkvæmdatímabil hjá íslensku þjóðinni allt síðan 1970. Þess vegna er þjóðin að minni hyggju betur undir það búin að hægja á ferðinni, þó að það verði að gerast innan þeirra marka sem skapa atvinnuöryggi og eðlileg lok á verkum, sem í gangi eru, verði að eiga sér stað. En ég tel að bæði hjá atvinnuvegunum, því að veruleg uppbygging hefur átt sér stað hjá þeim, og þjóðfélaginu í heild sé hægt að draga úr hraða uppbyggingar vegna þess sem gert hefur verið á síðustu árum.

Ég vil einnig segja það, að atvinnuvegirnir eru á margan hátt betur undir þetta búnir, m. a. vegna útfærslu landhelginnar og annarra þátta í atvinnuvegum, bæði til lands og sjávar, þó að segja megi að iðnaðurinn sé skemmra á veg kominn en æskilegt væri í sambandi við atvinnuþátt hans.

Þá vil ég og geta þess, að á s. l. ári er talið að afkoma fólks hér á landi, þ. e. kaupgetan, ráðstöfunartekjur heimilanna, hafi verið betri en nokkru sinni fyrr. Þess vegna er það mikils um vert að hægt verði að auka þar við, meðan verið er að ná betri tökum á verðbólgunni en nú er.

Það er ljósara en frá þurfi að segja, að í landi okkar er nú meiri áhugi á því að ná tökum á verðbólgu en nokkru sinni fyrr. Það má vel vera að það sé af því, að ég hef haft betri tíma nú til að fylgjast með viðhorfi fólks á hinum einstöku vinnustöðum, en ég hef aldrei orðið eins vel var við að áhugi væri fyrir að hafa vald á verðbólgunni. Þeir, sem þar hafa verið að verki, hafa látið í ljós þá skoðun, að þeir legðu miklu meira upp úr minnkandi dýrtíð en 1, 2 eða 3% í kaupi, enda væri ekki séð hvað þeir þyrftu á annan hátt að greiða. Þess vegna er ljóst að áhugi á að ná tökum á verðbólgunni er meiri nú en nokkru sinni fyrr.

Ég held að það sé líka ljóst, að fólk gerir sér almennt grein fyrir því, að lífsafkoma þess getur ekki batnað frá því, sem nú er, nema með því að verðbólgunni sé haldið í skefjum. Sama er að segja um framfarir í þjóðfélagi okkar. Það verður ekki hægt að halda í þokkalegu horfi ef við höfum ekki vald á verðbólgunni. Kostnaðaraukinn, sem verður á framkvæmd hinna stærri verka á milli ára, er svo geigvænlegur, eins og nú hefur orðið upp á síðkastið, að slíkt verður að stöðva.

Ég skal, herra forseti, ekki lengja mál mitt. Ég vil endurtaka það, að meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. þessarar d. leggur til, að frv. verði samþykkt óbreytt, og treystir því, að undir giftudrjúgri forustu hæstv. forsrh. og flokks hans, Framsfl., verði haldið áfram þeirri baráttu gegn verðbólgunni sem nú hefur verið tekin skref frá skrefi til þess að koma þar vörnum við og sókn gegn. Hún treystir því að hæstv. ríkisstj. — hún má gjarnan vita að fólkið í landinu ætlast til þess — efli samstarf sitt til þess að vera betur undir það búin að takast á við þetta verkefni, sem þjóðin hefur áhuga á að tekist sé á við og treystir henni til að gera.