23.04.1979
Efri deild: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4091 í B-deild Alþingistíðinda. (3192)

263. mál, eftirlaun aldraðra

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil byrja mál mitt með því að lýsa yfir stuðningi við þetta frv. og fagna því, að hér er komið fram frv. til l. sem er virkilegur áfangi á þeirri leið að koma þeirri stefnu fram, sem við erum flestir sammála um, að verðtryggður lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn verði að veruleika áður en langt um líður.

En það, sem ég vildi koma á framfæri við 1. umr. þessa máls, er einmitt í sambandi við það, sem verður sjálfsagt aðalágreiningsefnið um þetta frv., þ. e. a. s. fjárhagsáætlun eða fjárhagshliðina að því er varðar Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Stjórn Sambands sveitarfélaga hélt fund um þetta mál núna fyrir helgina þar sem það var rætt sérstaklega. Sveitarfélögin og stjórn sambandsins eru samþykk frv. í heild, en geta ekki fellt sig við það ákvæði frv. sem gerir ráð fyrir að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fjármagni að hluta eftirlaun til aldraðra. Þetta er hægt að rökstyðja á margvíslegan hátt.

Eins og hæstv. félmrh. og raunar öllum hv. þm. er ljóst er Jöfnunarsjóður sveitarfélaga eini tekjustofn sveitarfélaganna sem er verðtryggður, og hann hefur í reynd verið mjög skertur á undanförnum árum með margvíslegum opinberum aðgerðum. Það er þess vegna ekki óeðlilegt að málsvarar sveitarfélaganna séu á verði í sambandi við þennan tekjustofn, þegar ný lagaákvæði sjá dagsins ljós sem við gerum ráð fyrir að höggvi í þennan sjóð án þess að annað komi í staðinn. Mér þykir rétt, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp bókun, sem samþ. var á fundi stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, sem á að vera innlegg í þetta mál, en taka jafnframt fram, að þar er ekki verið að mæla gegn frv. sem slíku. Um það eru allir sammála, en henda á að þessi þáttur fjáröflunar er ekki eðlilegur.

„Stjórn sambandsins mótmælir eindregið því ákvæði frv., sem gerir ráð fyrir að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fjármagni að hluta eftirlaun til aldraðra. Í þessu sambandi bendir stjórnin á eftirfarandi:

1. Sveitarfélögin hafa ítrekað mótmælt þeirri tilhneigingu ríkisvaldsins að velta nýjum útgjöldum yfir á sveitarfélög, án þess að ætla þeim nokkrar tekjur til að standa undir slíkum útgjöldum.

2. Þátttaka sveitarfélaga í lífeyristryggingum almennt umfram skyldu þeirra sem atvinnurekenda er í andstöðu við markaða stefnu í verkaskiptingarmálum ríkis og sveitarfélaga.

3. Tekjur Jöfnunarsjóðs, sem eru eini verðtryggði tekjustofn sveitarfélaga, hafa í reynd verið mjög skertar að undanförnu, auk þess sem tekna ríkissjóðs af óbeinum sköttum hefur í æ ríkara mæli verið aflað með álagningu vörugjalds, sem Jöfnunarsjóður fær enga hlutdeild í.

4. Tekjur sveitarfélaga af helstu tekjustofnum sínum, útsvörum, aðstöðugjöldum og fasteignagjöldum, hafa á undanförnum árum lækkað verulega að raungildi af völdum verðbólgunnar.“

Þannig hljóðar sú samþykkt, sem stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga gerði einróma á fundi sínum að því er varðar tekjuöflunarleið frv. Mér þótti rétt að láta þetta koma fram við 1. umr. þessa máls og vænti þess, að sú n., sem fær málið til umfjöllunar, skoði þá þætti vandlega, hvort ekki er hægt að koma því við að leysa Jöfnunarsjóð sveitarfélaga undan þessari skyldukvöð.

Ég hlustaði á rök hæstv. ráðh. í sambandi við það, sem hann taldi eðlilegt, að sveitarfélögin tækju þátt í þessu. Ég get ekki fallist á að þau rök vegi þungt í þessu máli, því að eins og kemur fram greiða sveitarfélögin sinn hluta í lífeyristryggingar fyrir það fólk sem hjá þeim starfar. Ég get ekki heldur séð að eins og þetta er hafi frv. afgerandi áhrif til hagsbóta á fjárhag sveitarfélaga að því er varðar framfærslubyrði. Ég held að það sé of langsótt til að taka það til viðmiðunar.

En ég vil endilega mælast til þess, að þetta mál verði skoðað vandlega í þeirri n. sem fær frv. Það er eðlilegt að viðbrögð sveitarfélaga verði á þennan hátt, þar sem þessi verðtryggði tekjustofn rýrnar svo mjög í meðferð og hefur þannig bein áhrif á almennan fjárhag sveitarfélaga og það hlutverk sem þau gegna í þjóðfélaginu.