23.04.1979
Efri deild: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4098 í B-deild Alþingistíðinda. (3196)

263. mál, eftirlaun aldraðra

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. lagði áherslu á þá ósk sína, að ágreiningur um tekjuöflun vegna þessa frv. yrði ekki til að draga samþykkt þess á langinn. Þetta er vitanlega fróm ósk og góð svo langt sem hún nær, en það er svo, að til þess að hægt sé að framkvæma ákvæði þessa frv. verður tekjuöflunin auðvitað að liggja alveg ljós fyrir. Varla ætlast hæstv. ráðh. til þess að tekjuöflunarákvæðunum sé sleppt að sinni og „geymt að rífast um þau þangað til í haust“, eins og hæstv. ráðh. orðaði það, því að ekki er það nóg til þess að fólkið fái peninga sína. Það verður að vera ljóst, hvaðan þeir eiga að koma.

Hæstv. ráðh. upplýsti, hverjir hefðu verið fulltrúar ríkisvaldsins sem stóðu að tillögu II í fskj. II. Það voru embættismenn allt saman. Valið á milli þessara leiða er pólitískt. Þess vegna er eðlilegt að hæstv. ráðh. skýri frá því, hver er till. ríkisstj. (Gripið fram í). Já, ef það liggur fyrir, að ríkisstj. öll standi að þeirri leið sem lögð er til í frv., er spurningunni svarað. Mér virtist ekki vera ljóst, hvort ríkisstj. öll stæði að þessari leið eða hvort hæstv. ráðh. hefði aðrar hugmyndir en ríkisstj. að öðru leyti.

Ég kvaddi mér annars hljóðs til þess að leiðrétta misskilning sem ég varð vör við út af þeirri litlu ábendingu sem fram kom í sambandi við skattlagningu aldraðra sem njóta tryggingabóta eða eftirlauna. Þannig getur staðið á, að slíkir skattar hækki þó að tekjurnar lækki, vegna þess að um lífeyristekjur gildir ekki sú regla sem er í enn gildandi skattalögum um 50% frádrátt af tekjum konunnar. Hins vegar leggjast tekjur hjóna saman með einföldum hætti án 50% frádráttar þegar þær eru fólgnar í eftirlaunum eða fólgnar í tryggingabótum. Það er í því sem vandinn liggur þegar sú einkennilega staða kemur upp. Segja má að á þeim skamma tíma sem eftir er, á því eina ári sem eftir er af gildistíma þeirra laga sem nú gilda, væri e. t. v. hægt að gefa þetta eftir með þeim hætti að litið yrði á lífeyristekjur aldraðra og tryggingatekjur aldraðra frá sjónarmiði skattyfirvalda með sama hætti og launatekjur.

Herra forseti. Það er eitt atriði sem ég vildi undirstrika í þessu sambandi, og er það í sambandi við allt þetta mál og lífeyrissjóðamálin yfirleitt. Þetta atriði tengist þeim vanda sem alltaf verður á meðan verðbólgan er eins og nú er, eða jafnvel þótt minni sé. Að því hlýtur að koma að lífeyrissjóðirnir greiði ekki einungis verðtryggðan lífeyri, heldur verði um leið verðtryggt það sem í þá kemur. Undir verðtryggingu lífeyris úr lífeyrissjóðum hljóta, þegar fram líða stundir, lífeyrissjóðirnir sjálfir að verða að standa. Eðlilegast er að þeir ávaxti sitt fé þannig að það sé verðtryggt, til þess að öruggt sé að þeir, sem njóta eiga eftirlauna eða bóta úr þeim, fái það fé, sem í þá hefur verið lagt, verðtryggt. Mér hefur aldrei virst það rökrétt þegar menn eru ákveðnir í því að bætur lífeyrissjóða skuli verða verðtryggðar, en hins vegar ekki þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að ávöxtun lífeyrissjóðanna sé einnig verðtryggð. Þetta tvennt hlýtur að verða að fara saman, hvort sem menn svo hafa einn sameiginlegan lífeyrissjóð, marga lífeyrissjóði eða hvernig sem þessum málum verður fyrir komið. Aðalatriðið er að samræmi sé á milli þeirra reglna sem gilda um það fé, sem úr sjóðunum fer, og um það fé sem í þá kemur.