30.04.1979
Neðri deild: 79. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4295 í B-deild Alþingistíðinda. (3408)

44. mál, þingfararkaup alþingismanna

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil lýsa furðu minni á því nál. sem fyrir liggur frá meiri hl. allshn. um þingfararkaup alþm. Eins og öllum er kunnugt hafa launakjör þm. sætt mikilli gagnrýni og er sú gagnrýni fyllilega réttmæt, miðað við að það hlýtur að vera mjög óeðlilegt, svo að ekki sé sterkara til orða tekið, að þm. hafi einhliða ákvörðunarvald til að skammta sér laun og hlunnindi sjálfir og hækka þau að vild þegar þeim býður svo við að horfa. Því ættu þm. að fagna því frv. sem fram er komið um að launakjör þm. verði framvegis ákveðin af utanaðkomandi aðilum, eins og Kjaradómi, þannig að þeir verði hafnir yfir allan grun um að þeir séu að skammta sér óeðlileg laun eða hlunnindi. Er ég með þessu ekki að gefa í skyn að svo sé, heldur tel ég að með frv. sé í eitt skipti fyrir öll girt fyrir efasemdir sem uppi hafa verið í þessu máli.

Þau forréttindi, sem alþm. hafa umfram aðra þegna þjóðfélagsins með því að hafa einhliða ákvörðunarvald í launamálum sínum, er brýnt að afnema. Þess vegna er þetta frv. tímabært og þarft og mun koma í veg fyrir tortryggni almennings í garð þm. vegna launamála þeirra. Ég held að fáir kunni að meta eða taka undir þá afstöðu sem kemur fram í nál. meiri hl. allshn., að ákvörðun um launamál þm. sé betur komið hjá kjörnum fulltrúum þjóðarinnar sem, eins og segir í nál. meiri hl. allshn., taka á sig það álag, auk þess að skipa málum manna af fyllsta drengskap og réttsýni, að ákveða laun sín sjálfir og skorast ekki undan gagnrýni í því efni. Þetta er furðuleg ástæða miðað við tortryggni almennings vegna einhliða ákvörðunar þeirra um launakjör sín.

Ég styð þetta frv. og tel til bóta þær brtt. sem koma fram í nál. minni hl. allshn.