02.05.1979
Neðri deild: 80. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4315 í B-deild Alþingistíðinda. (3439)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Þetta frv. um heimild til lántöku, ábyrgðarheimildir og aðrar ráðstafanir vegna fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar er ærið seint á ferðinni hér á hinu háa Alþingi, eins og kom fram í framsögu frá hálfu frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. Hæstv. fjmrh. viðhafði þau orð, þegar hann mælti fyrir frv., að það væri réttnefnt frv. að lánsfjárlögum fyrir árið 1979. Það hefur verið að velkjast í þessari hv. d. í fjh.- og viðskn. og samkomulagið er ekki betra um þetta frv. en kom fram í máli síðasta hv. ræðumanns, hv. 1. þm. Austurl., en hann hafði svo veigamiklar aths. við frv. að gera að hann kallaði eina grein þess, sem þó mun umsamið að svo skuli óbreytt fram ganga frá hálfu stjórnarflokkanna, siðleysi. Ég fæ því ekki betur séð en það fari svo, að það liði a. m. k. hálfur mánuður í viðbót við þann tíma sem liðinn er þangað til frv. til lánsfjárlaga, sem hæstv. fjmrh. kallaði svo réttilega, verður afgreitt af þessu þingi. Þá eru liðnir nokkuð margir mánuðir af því lánsfjárlagaári sem þetta frv. á að gilda fyrir. Og það vita að sjálfsögðu allir, sem koma nálægt stjórn efnahagsmála, að slíkt er fyrr neðan allar hellur og stuðlar að þeirri upplausn í stjórn efnahagsmála sem nú er nánast alger. Það má heita að fjárfestingarsjóðirnir séu óstarfhæfir og hafi verið allt þetta ár og svo mætti lengi telja.

Hæstv. fjmrh. sagði við þessari gagnrýni við 1. umr., að nú væri búið að setja það í lög að lánsfjáráætlun skuli liggja fyrir hinu háa Alþingi á sama tíma sem frv. til fjárl. og þá væntanlega að afgreiðast í hæstv. ríkisstj. á þeim tíma að slíkt sé auðið. Ég vil benda hæstv. ráðh. á að frv. til næstu lánsfjárlaga, eins og hann nefndi, og frv. til fjárl. þarf að afgreiða í hæstv. ríkisstj. í sept. til þess að þeirri þingvenju verði haldið að þessi frv. komi fram í byrjun næsta þings, á næsta hausti. Og ég óska honum til hamingju ef hann er svo bláeygur að hann líti svo á, miðað við reynslu af samherjum hans í hæstv. ríkisstj., að það nái fram að ganga. Ég veit raunar að hæstv. ráðh. er það raunsær maður að hann gerir sér ekki um þetta neinar gyllivonir, enda horfir ekki vel um þetta, t. d. ef mið er tekið af síðustu ræðu formanns þingflokks stærsta stjórnarflokksins.

Í frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1979 eru veigamiklir efnisþættir sem ég leyfi mér að gagnrýna mjög harðlega ef frv. yrði lögfest eins og meiri hl. fjh.- og viðskn. hefur afgreitt það. Ég vil nefna helstu þessara þátta.

Fjárlögum yrði breytt í veigamiklum atriðum án rökrétts samhengis við ákvarðanir sem teknar voru við fjárlagaafgreiðslu. Lögfest yrði alger þvingun á ráðstöfun mikils hluta fjármuna lífeyrissjóðanna í landinu. Húsnæðismálastjórn yrði svipt meira en öllum skyldusparnaði í ár. Útlánageta ýmissa sjóða, sem hafa markaða tekjustofna, yrði stórlega skert. Með því er m. a. dregið verulega úr lánagetu til íbúðabygginga, endurhæfingar fatlaðra og fleiri félagslegra verkefna. Frv. felur í sér stórfelldan niðurskurð á fjármagni til hitaveituframkvæmda. Orkuöflun við Kröflu yrði stöðvuð, en hafnar byrjunarframkvæmdir við virkjanir sem ekki koma að gagni fyrr en eftir mörg ár. Í þetta frv. og væntanleg lög vantar stórar fjárfúlgur sem ríkisstj. er nauðbeygð að reiða fram á árinu, t. d. til þess að standa við verksamninga Landsvirkjunar við Hrauneyjafoss. Þar er um að ræða a. m. k. 1.5–2 milljarða kr. Og í þetta frv. vantar upphæð sem svarar 3–4 milljörðum kr. og vitað er að ríkisstj. fyrirhugar að taka að láni til þess að greiða bændum útflutningsbætur umfram fjárlög.

Þetta frv. og væntanleg lög, lánsfjárlög fyrir árið 1979, sýnir því glöggt að það er í raun grein á sama meiði og meginstefna ríkisstj., þ. e. sem sagt viðbót við það neðanjarðarhagkerfi, sem ég vil nefna svo, sem núv. stjórnarflokkar hafa beitt sér fyrir að koma á hér á landi. Þeir hafa beitt sér fyrir því að draga verulega þætti íslenskra efnahagsmála niður í undirheima. Aðgerðir þeirra hafa fært þessa þætti niður í undirheima niðurgreiðslna, skattaálaga, verðlagshafta, launafeluleiks og millifærslna, sem gera ýmsa þætti íslenskra efnahagsmála ósýnilega öllum íslenskum almenningi.

Ég er þeirrar skoðunar, að þetta neðanjarðarhagkerfi stjórnarflokkanna, sem er orðið hrikalegt, sé jafnvel enn þá hættulegra en það neðanjarðarhagkerfi sem mikið var til umr. fyrir nokkrum mánuðum, fyrir stjórnarskipti, og mun þar hafa verið átt við þá afkima hagkerfisins þar sem lög og reglur eru brotin og þola ekki dagsljós laga og reglna. En ég skal koma nánar að þessu síðar.

Ég vil þá fara nokkrum orðum um þá meginþætti þessa frv. sem ég hef hér gagnrýnt. Fjárl. er breytt í veigamiklum atriðum. Lánsfjárheimildir í erlendum lánum eru auknar um rúma 5 milljarða samkv. A- og B-hluta í gildandi fjárl. Fjvn. hefði að sjálfsögðu ekki neinn möguleika til þess að vita um þessar ákvarðanir þegar fjárlög voru afgreidd í des. Þetta frv. er því í veigamiklum atriðum ekki í rökréttu samhengi við afgreiðslu fjárl. Afleiðingin er fálm og stefnuleysi í íslenskum efnahagsmálum og ríkisfjármálum. Ég hef áður gagnrýnt þessi vinnubrögð og að fjvn. skuli ekki hafa haft tækifæri til þess að fara yfir þetta mál og segja álit sitt á því við hv. Alþ. og þarf ekki við það að bæta, enda hefur hæstv. fjmrh. viðurkennt að þessi vinnubrögð séu ekki skynsamleg. En þrátt fyrir þessar auknu lántökur, sem þetta frv. veitir hæstv. ríkisstj. heimildir til, þá er enn — ég undirstrika það — haldið fast við niðurskurð ýmissa lífsnauðsynlegra framkvæmda úti um land sem voru verulega skornar niður áður og núv. hv. stjórnarsinnar gagnrýndu allharkalega fyrr á árum. Þetta er eitt dæmi um hvað þeir segja fyrir og eftir kosningar, að nú vega þeir enn í þann knérunn sem þeir töldu veikastan fyrr á árum. Hér á ég ekki síst við framkvæmdir eins og t. d. fjárveitingar til fiskihafna, til vega o. s. frv., en eins og hv. þingheimi er kunnugt var niðurskurður á þessum framkvæmdum, sem fyrrv. ríkisstj. taldi nauðsynlegan vegna stjórnar efnahagsmála, harðlega gagnrýndur af núv. stjórnarsinnum og að sumu leyti kannske réttilega til einstakra verkþátta eins og fiskihafna.

Með þessu frv., eins og fjh.- og viðskn. hefur afgreitt það, fær ríkisstj. einhliða ráðstöfunarrétt á miklum hluta af fjármagni frjálsra lífeyrissjóða í landinu. Fyrri ríkisstj. var harðlega gagnrýnd af núv. stjórnarflokkum fyrir að lögfesta ávöxtunarskyldu lífeyrissjóðanna að hluta í formi verðtryggingar. Nú snýst sú gagnrýni í að lögfesta algera þvingun á ráðstöfunarfjármagni þessara sjóða. Þetta er annað dæmið um þann margslungna blekkingavef sem núv. stjórnarflokkar hafa haft í frammi fyrir og eftir síðustu alþingiskosningar. Húsnæðismálastjórn er svipt samkv. þessu frv. meira en öllum skyldusparnaði sem áætlað er að komi inn á þessu ári samkv. bréfi frá húsnæðismálastjórn — og er þar vel að verki staðið. Ég get tekið undir ummæli hv. 1. þm. Austurl. í þessu efni. Ég fæ ekki betur séð en þarna sé á ferðinni algert siðleysi: að taka skyldusparnað ungmenna, sem ætlaður er til íbúðabygginga fyrir ungt fólk í landinu, til allt annarra verkefna en ætlað er að sinna samkv. lögunum sem þessi skattur er innheimtur eftir.

Samkv. þessu frv. er útlánageta ýmissa sjóða verulega skert og fjármagn þeirra tekið til annarra nota en ætlað er og látið sumpart standa undir eyðslu ríkissjóðs, ríkisbákninu. Sá sjóður almennings, sem lánar til íbúðarbygginga, verður harðast fyrir þessu ákvæði og er engu líkara en hæstv. ríkisstj. segi húsbyggjendum og byggingariðnaði stríð á hendur með lögfestingu þessa frv., bæði með því ákvæði, sem ég áður gerði að umtalsefni um skyldusparnaðinn, og eins með því að skerða verulega aðra tekjustofna til Byggingarsjóðs ríkisins, þ. e. launaskatt. Sama gildir þó í raun um ýmsa aðra sjóði, eins og t. d. Erfðafjársjóð. Það fólk, sem hefur á hendi umsjón með endurhæfingu fatlaðra, hefur mótmælt þeirri skerðingu mjög kröftuglega, en þau mótmæli eru ekki tekin til greina, og svo er raunar um ýmsa aðra þætti er varða félagslegar framkvæmdir.

Frv. þetta, ef að lögum verður, felur í sér mjög verulegan niðurskurð á fjármagni til hitaveituframkvæmda. Það kemur mér á óvart að hæstv. fjmrh. hafði það á orði við 1. umr. þessa máls, að t. d. til hitaveituframkvæmda á Akureyri, ef þær ættu að ganga fram eins og eðlilegt væri, skorti samkv. hugmynd í þessari lánsfjáráætlun um 700–800 millj. kr. Hv. fjh.- og viðskn. hefur ekki séð sér fært að gera ráð fyrir að þetta verði leiðrétt. Ég vil því enn inna hæstv. ráðh. eftir því, hvort hann hyggist ekki standa við þau orð að skoða rækilega hvort ekki ætti að láta verkefni eins og Hitaveitu Akureyrar njóta viss forgangs um framkvæmdir á þessu ári og útvega þær 700–800 millj. sem á skortir í því sambandi. Ef þetta frv. verður að lögum verða framkvæmdir við Kröflu enn fremur stöðvaðar, orkuöflun verður stöðvuð við Kröflu. En það er svo, að með tiltölulega lágum fjárhæðum mætti afla meiri orku við Kröflu og sú orka kæmi strax í gagnið og yrði tiltölulega ódýr ef miðað er við þann viðbótarkostnað sem í þarf að leggja. Á sama tíma er eftir þessari lánsfjáráætlun hugmyndin að byrja framkvæmdir á öðrum stöðum, t. d. við Bessastaðaárvirkjun, sem af sumum er talin vafasöm virkjun, en látum það nú alveg vera. Ætlunin er að byrja þar á virkjun sem mundi ekki koma í gagnið fyrr en eftir mörg ár, en skilja Kröfluvirkjun eftir í miðjum klíðum. Ég hef því leyft mér ásamt hv. þm. Ingvari Gíslasyni að flytja brtt á þskj. 459 í sambandi við þetta mál, þar sem gert er ráð fyrir að ríkisstj. sé heimilt að taka lán að fjárhæð allt að 660 millj. kr. til borunar tveggja vinnsluhola fyrir Kröfluvirkjun árið 1979. Ég skal ekki í því sambandi fara að gera hér upp beint á milli framkvæmda við Kröflu eða við Bessastaðaárvirkjun, en ég vil benda á þann gífurlega mun sem á því er að ljúka þeim verkefnum, sem í hefur verið ráðist, þegar þrengir að og menn þurfa að spara, frekar en að drepa kröftunum á dreif, hætta við hálfnað verk og byrja á nýjum.

Þá sagði ég áðan, að í þetta frv. skorti ákvæði um heimildir til þess að greiða fyrir framkvæmdir sem er alveg borðleggjandi í dag að kosta miklu meira fé en í lánsfjáráætluninni er gert ráð fyrir, t. d. að því er varðar Landsvirkjun, og eins benti ég á að utan þessarar lánsfjáráætlunar mun það vera hugmynd ríkisstj. að taka ákvörðun um að taka erlend lán til þess að liðsinna bændum um auknar útflutningsbætur umfram það sem gert er ráð fyrir á fjárl. Hér er sem sagt um að ræða að taka á eins konar neðanjarðarákvarðanir um þessi efni. Þær eru faldar, þær eru ekki látnar koma fram í dagsljósið. Þarna er um að ræða vinnubrögð af nákvæmlega sama toga og hæstv. ríkisstj. hefur tamið sér á nánast, öllum sviðum íslenskra efnahagsmála. Þetta frv. er því grein á sama meiði og er hluti af neðanjarðarhagkerfi núv. hv. stjórnarflokka.

Ég vil í þessu sambandi benda á að einstakir mjög mikilvægir þættir efnahagsmálanna hafa verið huldir almenningi og — eins og ég sagði áðan — dregnir niður í undirheima niðurgreiðslna, skattpíningar, verðlagshafta, vísitölufeluleiks og millifærslna. Ég vil aðeins ítreka þetta með því að telja upp nokkur dæmi.

Neðanjarðarhagkerfið, sem ég hef talað hér um, felst m. a. í því að ausa fjármunum almennings til niðurgreiðslna á vöruverði í miklu stærri stíl en gert hefur verið. Almenningur veit ekkert hvað sú vara kostar í raun sem er niðurgreidd í verslunum. Neðanjarðarhagkerfið felst í því að taka þessa fjármuni með gífurlega auknum sköttum, sem ekki mælast sem lífskjaraskerðing í vísitölunni, en mælast í niðurgreiðslunni til lækkunar vísitölu og lækkaðra launa. Þetta neðanjarðarhagkerfi felst líka í gegndarlausum blekkingum stjórnarflokkanna og algerri ríkisforsjá í launamálum, feluleik með vísitöluna, lítt skiljanlegum félagsmálapökkum o. s. frv., í stað loforðsins um beinharða peninga: „samningana í gildi“. Þetta neðanjarðarhagkerfi felst í skattheimtu sem er gífurleg og sumpart hefur verið ákveðin eftir að tekna er aflað, þannig að enginn veit lengur hvaða tekjum hann má sjálfur ráðstafa. Samkv. reynslu má alltaf eiga von á út allt tekjuárið að nýjum skattaálögum verði bætt við. Neðanjarðarhagkerfið, sem núv. stjórnarflokkar bera ábyrgð á, er ekki síst fólgið í því, að ríkisstj. neitar staðreyndum um raunverulegar kostnaðarhækkanir á vörum og þjónustu. Hún bannar samsvarandi hækkanir á söluverði þeirra, t. d. á orku, síma, bensíni o. s. frv.

Það mætti telja miklu fleiri veigamikla þætti íslenskra efnahagsmála hluta neðanjarðarhagkerfis núverandi stjórnarflokka. Í þessu frv., eins og ég sagði áðan, má benda á sjónarspilið sem á sér stað f tekjuöflun til ríkissjóðs þar sem selst er í markaða tekjustofna, feluleikinn um fjármögnun virkjunarframkvæmda og útflutningsbóta til bænda. Fjölmörg önnur atriði mætti nefna, en ég læt þessi nægja til að lýsa þeim frumskógi feluleiks og blekkinga sem núv. hv. stjórnarflokkar eru ábyrgir fyrir að hafa dregið íslenska hagkerfið út í.

Afleiðingar þessa neðanjarðarhagkerfis á fjármála- og viðskiptasiðgæði alls almennings eru margvísleg. Menn hafa enga hugmynd um hvað mikilvægir liðir í útgjöldum heimilanna kosta í raun. Þar má nefna rafmagn, hita, síma, bensín á bifreiðina o. s. frv. Menn vita ekki heldur hvaða framleiðslukostnaður er á ýmsum matvælum, hvað hann er í raun þegar þeir kaupa í matinn. Fáir gera sér grein fyrir hvaða summur eru faldar og skotið er á frest að borga af samfélaginu, t. d. með skuldasöfnun ýmissa stofnana eins og Pósts og síma, Ríkisútvarpsins, Rafmagnsveitnanna og hitaveitnanna, svo að dæmi séu tekin. Allur almenningur veit ekki hvort vænta skal vísitölubóta á laun eða þau verði afnumin með nýjum feluleik, hvort vænta má nýrra skatta o. s. frv., o. s. frv. Menn vita ekki í raun, úr hverju þeir hafa að spila, og eru algerlega ruglaðir í því, hvað mikilvægustu þjónustuliðir og vörur sem þeir nota, kosta samfélagið í raun og veru.

Þetta neðanjarðarblekkingahagkerfi núv. stjórnarflokka ruglar sem sagt allan almenning í ríminu, í því að stjórna skynsamlega eigin fjármálum, en fátt fullkomnar betur þá siðferðilegu og fjármálalegu upplausn, sem óðaverðbólgan hefur í för með sér, og leiðir því til enn þá illkynjaðra þjóðarmeins. En með þessu er þó ekki öll sagan sögð. Undirheimahagkerfið felur ýmsa grundvallarþætti efnahagsmála þannig að t. d. Hagstofan, sem reiknar nákvæmlega út þá þætti verðlags sem komnir eru upp á yfirborðið, gefur út vísitölu í samræmi við það, en ekki þær raunverulegu verðlagsbreytingar sem faldar eru í undirheimum kerfisins, flestar í verðlagshaftaskúffu ríkisstj. Hagstofan reiknar rétta yfirborðsverðlagsvísitölu, en enginn veit hvað raunverulegt verðlag breytist frá einum tíma til annars. Hagstofan veit það ekki, Alþ. og ríkisstj. vita það ekki og jafnvel Þjóðhagsstofnun, sem flest veit, á sjálfsagt fullt í fangi með að reikna það út með aðstoð tölvu.

Herra forseti. Ég held að engum, sem íhugar efnahagsvanda þjóðar okkar í alvöru, geti blandast hugur um að það neðanjarðarhagkerfi, sem hæstv. núv. ríkisstj. hefur hróflað upp að undanförnu, eykur á verðbólguvandann, en læknar hann ekki. Aðferð strútsins að stinga höfðinu í sandinn hefur ekki gefist vel við úrlausn aðsteðjandi vandamála.

Það neðanjarðarhagkerfi stjórnarflokkanna, sem þetta frv. er mikilvægur hluti af, er dæmigerð strútsaðferð, auk þess sem margar greinar þess eru meingallaðar og að mati sumra stjórnarsinna siðspillandi. Á hinn bóginn ber nauðsyn til, eins og fram hefur komið, að lánsfjárlög séu til fyrir þessa þjóð fyrir árið 1978. En ég tel að sú afgreiðsla verði að þessu sinni að verða á ábyrgð stjórnarflokkanna einna.