09.05.1979
Efri deild: 93. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4514 í B-deild Alþingistíðinda. (3623)

270. mál, aðstoð við þroskahefta

Bragi Níelsson:

Herra forseti. Ég ætla að byrja mál mitt á því að þakka hv. félmn. sérstaklega fyrir hin rösklegu vinnubrögð sem hún hefur sýnt í þessu máli. Það er afskaplega gaman að sjá að menn geta staðið svo vel að verki á skömmum tíma, þegar við höfum líka í huga að frv. um aðstoð við þroskahefta hefur fengið tengingu við frv. um framkvæmdasjóðinn — við frv. sem svo sannarlega hefur ekki fengið góðan byr á þingi á þessum vetri. En nú skulum við vænta þess, að því frv., sem tengt var við þetta og hefur átt í miklu basli að komast í gegnum hv. Nd., vegni vel hér. — Ég sé ekki betur en svo ætli að verða. Það kunna að vera á því einhverjir gallar, en ég er alveg viss um að ef þeir koma í ljós verður hægt að laga þá. Ég held að við getum vérið nokkuð bjartsýnir um að þau ákvæði, sem eru í frv., verði ekki skemmd með einhverju kukli frá hagsýslustofnuninni. Ef þeir menn, sem standa að þessari lagasetningu, verða á þingi áfram vonast ég til þess að við getum staðið vörð um þetta atriði.

Það hafa fallið orð um að óæskilegt sé að vera að draga menn í dilka og leggja eitt frv. fram fyrir þroskahefta, annað um einhverja annars konar fötlun og þriðja um vanheila á enn öðru sviði. Það er mjög sennilegt að heppilegt sé að fá heildarlöggjöf um vanheilt fólk eða andlega og líkamlega fatlað. En þetta frv. er áreiðanlega mjög gott skref í áttina til slíkrar heildarlöggjafar, ef hún er æskileg, sem ég álít frá mínu sjónarmiði.

Eins og komið hefur fram í umr. kann vel að vera að framkvæmd þessara laga yrði á ýmsan hátt erfið og það yrðu einhverjir til þess að bregða fæti fyrir hana á einn eða annan hátt. En ég treysti því, að við stöndum vörð um framkvæmd þessara laga þegar þau eru komin til framkvæmda. Erfiðleikarnir eru ekki meiri en okkur finnast þeir vera á hverjum tíma, og við hljótum að geta gert frv. að góðum lögum.

Meðan frv. hefur verið til umr. hér og reyndar áður fóru mér að berast bréf og skeyti þar sem óskað var eftir, reyndar að þarflausu, að ég veitti þessu frv. þann stuðning sem ég frekast gæti. Má kalla að þarna hafi verið um þrýstihóp að ræða. En ég vil benda á að ekki eru allir þrýstihópar af hinu illa. Hafi ég þurft hvatningu til þakka ég þeim sem sendu mér hvatninguna. Ég vona að frv. þetta gangi greiðlega í gegnum þingið.