09.05.1979
Efri deild: 93. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4516 í B-deild Alþingistíðinda. (3627)

184. mál, tollskrá

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það hefur löngum verið rætt um að nauðsynlegt væri að þeir, sem stýrðu þjóðum, hefðu leiðsögn um það siðferði og þann lífsstíl sem efla ætti með þjóðinni. Í því þjóðfélagi, sem við lifum í, má vissulega segja að á miklum erfiðleikatímum, þegar lagt er hart að alþýðu manna að takmarka kjör sín, sé óeðlilegt að ráðamenn þjóðarinnar gangi á undan, þeir sýni í verki að þeir hafi ekki aðra skoðun á því hvar þurfi að spara. Það hefur vakið athygli margra, að á sama tíma og núv. hæstv. ríkisstj. hefur lagt hart að þjóðinni að gangast undir töluverða skerðingu á kjörum hafa flestir, en það skal skýrt tekið fram alls ekki allir ráðh. í þessari ríkisstj., ýmist látið ríkið kaupa handa sér nýjar lúxusbifreiðar í sérstökum gæðaflokkum, sem sjá má fyrir utan Alþingishúsið á hverjum degi, eða þá tekið sérstök lán fyrir tilstuðlan hins opinbera til þess að fjármagna þær lúxuskerrur sem standa fyrir utan þinghúsið . sem tákn þess fyrir gangandi alþýðu, sem leið á fram hjá, að það sé eitthvað annað en að sumir hæstv. ráðh. í þessari ríkisstj. vilji sýna það fordæmi sem nauðsynlegt er í þessum efnum.

Það er greinilegt að sumir hæstv. ráðh. í ríkisstj. hafa talið brýnt og nauðsynlegt verkefni að flagga sérstökum lúxusketrum sem tákni um þau þáttaskil sem hafa átt sér stað. Þar hefur hæstv. fjmrh. verið framarlega í flokki á sama tíma og hann kemur til þingheims og til þjóðarinnar hvað eftir annað og óskar eftir að menn sýni að íslenska þjóðin hafi ekki efni á að ráðast í ýmis menningarleg mannvirki, bæta kjör fólksins í landinu o. s. frv. Hæstv. forsrh. hefur einnig gefið alþjóð sérstaklega til kynna með kaupum sínum á sérstakri lúxusbifreið með, að því að sagt er, þeim sérstæðu lánakjörum, sem voru til áður fyrr a. m. k. á þessum vettvangi, að hann sér ekki ástæðu til að spara og hæstv. ráðh. hafi ekki getað látið sér nægja fyrri bíl. (Forsrh.: Hæstv. forsrh. hefur ekki fengið neitt lán.) Það er ánægjulegt að hæstv. ráðh. hefur ekki fengið neitt sérstakt lán. Og þar kem ég einmitt að því atriði sem ég vildi biðja hæstv. fjmrh. að upplýsa við þessa umr., hvort og þá á hvern hátt opinber fyrirgreiðsla hefur verið veitt til kaupa á þeim sérstöku lúxuskerrum sem sumir talsmenn þess að herða ólina í þessari ríkisstj. hafa lagt undir sig á undanförnum mánuðum. Ég óska eftir að hæstv. fjmrh. geri grein fyrir hvernig þeim bílakaupum hefur verið háttað, enn fremur geri hann grein fyrir hvernig eru staddar þær nýju reglur sem rætt var um þegar þetta mál var til umr. í Nd. og hörð gagnrýni var sett fram, hvort þær standa enn þá óbreyttar eða ekki. Í þriðja lagi vil ég gera fsp. um hvort hæstv. ráðh. finnist eðlilegt að ríkisstj. landsins geti gert sérstakt samkomulag um bílakaup ráðh. ríkisstj. án þess að það samkomulag sé þess eðlis að það sé sérstaklega til birtingar sem formleg reglugerð, því mér skilst, ef dæma má af umr. í hæstv. Nd., að það hafi verið fyrir hreina tilviljun að upplýst var hvaða till. hæstv. fjmrh. hefði gert og samkomulag varð um í ríkisstj.

Ég tel að það sé algerlega óviðeigandi og óþolandi með öllu að innan ríkisstj. sé hægt að gera einhvers konar einkasamkomulag um málefni af þessu tagi, þ. e. ráðstöfun á fjármunum þjóðarinnar, fjármunum landsmanna, án þess að slíkt samkomulag gangi sjálfkrafa til birtingar í Stjórnartíðindum eins og hver önnur reglugerð eða aðrar þær samþykktir um meðferð opinberra fjármála sem hæstv. ríkisstj. gerir eða hvaða ríkisstj. á hverjum tíma. Mig langar af þessu tilefni til að gera fsp. til hæstv. fjmrh. um hvort fleiri slíkar samþykktir séu gerðar í ríkisstj. eða hvort hann hafi gert sjálfur till. um fleiri slíkar samþykktir um ráðstöfun opinberra fjármála sem ekki eru birtar í Stjórnartíðindum eða koma fram á opinberum vettvangi. Það á að vera liðin tíð að verið sé að gera einhvers konar laumusamþykktir um meðferð opinberra fjármála innan ríkisstj., án þess að þær séu jafnóðum tilkynntar þjóðinni. Það er í algerri andstöðu við hið opna lýðræðiskerfi, sem ég tel að eigi að ríkja í þessu landi, að bókstaflega allar reglur um meðferð opinberra fjármála eiga að vera opinberar. Það eiga ekki að vera til neinar reglur sem séu einhvers konar innanhússamþykktir ríkisstj., stjórnarstofnana eða annarra opinberra aðila og feli í sér ráðstöfun á opinberum fjármálum án þess að þær séu jafnóðum tilkynntar.

Ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. veiti nú við umr. í Ed. svör við þessum spurningum.