09.05.1979
Neðri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4548 í B-deild Alþingistíðinda. (3669)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Tolltekjur af innflutningi sjónvarpstækja hefur borið á góma í þessum umr. Ég vil minna á í því sambandi, að fyrir skömmu urðu umr. í Sþ. um fsp. sem einmitt varðaði þetta efni og þar tók ég skýrt fram að ég teldi að Ríkisútvarpið hefði ekki aðeins þörf fyrir að fá þetta fé allt með skilum fyrr eða síðar, heldur ætti líka kröfu til þess, enda þótt þar væri ekki um lögverndaða kröfu að ræða. Ég tel óhjákvæmilegt að Ríkisútvarpið fái allar tolltekjur af innfluttum sjónvarpstækjum, einnig það sem ekki hefur komið til skila 1977–1978 og á því ári sem nú er að líða. Ég tel hins vegar að ekki sé unnt að standa skil á þessu fé öllu í einu lagi, því að um mikla fjármuni er að ræða, og reyndar hafi mátt vænta þess þegar miklar sveiflur verða í innflutningi sjónvarpstækja — tekjurnar eru eitt árið mjög litlar, en annað árið upp á 1 milljarð eða meira — að ekki yrðu nákvæmlega staðin skil á því fé á því ári sem það kom inn á og í raun og veru fullkomlega eðlilegt að jafna tekjum til Ríkisútvarpsins á nokkurra ára bil. Hitt væri lakara, að þegar innflutningur sjónvarpstækja dettur aftur niður hefði Ríkisútvarpið ekki neinn samsvarandi tekjustofn. Mér finnst sem sagt fullkomlega eðlilegt að jafna þessum tekjum á allnokkur ár.

Hv. þm. Ellert B. Schram hefur flutt brtt. við frv. til l. um heimild til lántöku, ábyrgðarheimildir og aðrar ráðstafanir vegna fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar 1979. Í till. hans er ákvæði þess efnis, að fjmrh. sé heimilt að taka lán í því skyni að skila Ríkisútvarpinu eftirstöðvum af tolltekjum af innfluttum sjónvarpstækjum á árinu 1978 að upphæð 832 millj. kr. Ég held að sú hugsun, sem felst í till. hans, sé í sjálfu sér mjög eðlileg. En ég vil upplýsa í því sambandi, að ég hef tekið þetta mál upp innan ríkisstj. Það er þar til athugunar og umr. og verður væntanlega til umr. á næsta ríkisstjórnarfundi.

Ég tel að hvort tveggja sé nauðsynlegt, að sú stefna verði mörkuð að ætlunin sé að skila þessu fé og að Ríkisútvarpið fái nokkurt lán á árinu 1979 vegna fjárfestingarframkvæmda sem óhjákvæmilegt er að leggja í á því ári. Hvort upphæðin, sem nefnd er í till., er nákvæmlega sú rétta við ríkjandi aðstæður eða ekki verður að skoða sér á parti. En með hliðsjón af því að málið er til sérstakrar athugunar í ríkisstj., en við ráðh. í stjórninni erum ekki reiðubúnir til að skýra frá því að svo stöddu hver niðurstaðan verður, vil ég mælast til þess við hv. flm. þessarar till. að hann dragi hana aftur til 3. umr.