10.05.1979
Efri deild: 95. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4595 í B-deild Alþingistíðinda. (3732)

160. mál, forfalla- og afleysingaþjónusta í sveitum

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það mál, sem ég mæli nú fyrir, hefur verið alllengi í undirbúningi. Sérstök n., sem fyrrv. landbrh. skipaði að ósk bændasamtakanna, vann að þessu máli, en í ýmsum samþykktum bænda hafði verið lögð áhersla á að forfalla- og afleysingaþjónustu fyrir bændur yrði komið á.

N. þessi skilaði áliti fyrir nokkru, en jafnframt var þá ákveðið að athuga mál þetta í tengslum við orlofsmál bænda. Eftir nokkra vinnu að því kom í ljós að ekki var samstaða um það mál m. a. og ekki síst hjá bændum sjálfum. Í dag er gert ráð fyrir um 8.3% af tekjulið grundvallarins vegna orlofs og ekki varð samkomulag um að sá liður yrði dreginn þaðan út.

Ég ákvað því að setja þetta mál sérstaklega í athugun að nýju og fól þeirri n., sem um þetta hafði fjallað og orlofsmálin í tíð fyrrv. landbrh., að skoða þetta mál.

Málið var síðan tekið upp í viðræðum við launþega um það sem nefnt hefur verið félagslegur pakki og afgreitt var í sambandi við efnahagsmálin 1. des. s. l. Hér er því um einn þátt í þeim loforðum að ræða.

Í frv. þessu er gert ráð fyrir að ráðinn verði einn maður fyrir hver 7.5 býli til þess að sinna afleysingum á sviði landbúnaðarins þegar forföll verða, t. d. í veikindum, slysum og slíkum tilfellum. Samtals er gert ráð fyrir að þannig verði ráðnir 60 manns yfir landið. Gert er ráð fyrir að það gerist smám saman á næstu 4 árum. Jafnframt er gert ráð fyrir að laun þessara manna verði greidd úr ríkissjóði, þeir taki laun eins og frjótæknar taka nú. Annar kostnaður við þessa þjónustu yrði greiddur af bændum sjálfum. Þessir menn yrðu starfsmenn búnaðarsambanda og búnaðarfélaga um landið og yrði ráðstafað af þeim samkv. þeim reglum sem fram koma í þessu frv.

Hér er farið að dæmi nágranna okkar, einkum Norðmanna og Svía, sem um árabil hafa starfrækt slíka þjónustu með mjög svipuðum grundvallarreglum og hér er lagt til, þ. e. a. s. verulegur hluti þessa kostnaðar er greiddur af hinu opinbera. Í Svíþjóð er það gert með ákveðinni gjaldtöku frá bændum til þess að greiða þann kostnað sem er umfram föst laun.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta langa framsögu. Ég hygg að segja megi að hér sé um mjög mikið félagslegt mál og réttlætismál að ræða, ekki aðeins fyrir bændastéttina heldur má einnig sannarlega vekja athygli á því, að vafasamt er að bændur þurfi, ef þeir eiga við sjúkdóma að stríða, að sinna skepnum. Frá heilbrigðissjónarmiði er eðlilegt að þeir verði leystir frá slíkum störfum á meðan þannig er ástatt. Jafnframt víl ég geta þess, að meðal bænda er lítið svo á að hér sé um ákaflega mikilvægt mál að ræða, þannig að þeir geti þá fengið þá hvíld frá störfum sem nauðsynleg kann að verða í slíkum tilfellum. Hygg ég að sú hafi orðið raunin erlendis þar sem slíkri þjónustu hefur verið komið á.

Ég vil að lokinni þessari stuttu framsöguræðu, herra forseti, leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn. þegar umr. þessari lýkur.