10.05.1979
Neðri deild: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4642 í B-deild Alþingistíðinda. (3793)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Vegna brtt. hv. þm. Eggerts Haukdals vil ég upplýsa það, að heildarkostnaður við að ljúka hitaveituframkvæmdum í Vestmannaeyjum var áætlaður í október s. l. 1300–1400 millj. kr. Þessar framkvæmdir mundu spara, miðað við olíuverðlag þá, 500 millj. kr. á ári, miðað við núverandi olíuverðlag um 750 millj. kr. Ef við lítum á olíustyrkinn mundi það spara ríkissjóði um 200 millj. kr. á ári ef þetta mál gengi fram. Ég held að engin framkvæmd á landinu í þessum efnum gefi eins fljótt af sér hagnað og þessi framkvæmd.

Það er rétt, sem hæstv. iðnrh. kom inn á, að hugmyndir eru um að auka fjármagn í þessa framkvæmd um 220 millj., sem ekki er að vísu búið að ákveða enn þá, en hann hefur hugmyndir uppi um. En ég sé ekki hvernig nokkur heilvita maður getur staðið á móti þeirri brtt. sem hv. þm. Eggert Haukdal ber fram. Ég sé ekki hvernig hægt er að nota fjármagn á betri hátt.