11.05.1979
Efri deild: 97. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4658 í B-deild Alþingistíðinda. (3831)

259. mál, lausaskuldir bænda

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur lausaskuldum atvinnuveganna iðulega verið breytt í föst lán. Svo var gert fyrir nokkru í iðnaði og það hefur verið gert í sjávarútvegi reyndar oftar en einu sinni, ekki síst í sambandi við gengisfellingar. Einnig hefur svo verið gert fyrr í landbúnaði.

Árið 1977 lét Stéttarsamband bænda hefja athugun á því, hverjar lausaskuldir bænda væru. Í ljós kom að lausaskuldir bænda, sem bændur eru í erfiðleikum með, eru rúmlega 1.2 milljarðar og skiptast á rúmlega 400 bændur.

Ég skipaði þegar í sept. nefnd til að skoða þetta mál nánar, enda um það samkomulag í ríkisstj. að lausaskuldir landbúnaðar eins og sjávarútvegs yrðu athugaðar. Í nefnd þá skipaði ég Stefán Valgeirsson alþm., formann, Bjarna Braga Jónsson hagfræðing og Árna Jónasson erindreka. Nefndin yfirfór þær upplýsingar, sem lágu fyrir frá athugun Stéttarsambands bænda, og komst að þeirri niðurstöðu að lausaskuldir væru, eins og þar hafði verið reiknað með, rúmlega 1 milljarður og 200 millj. kr. og bændafjöldinn, eins og ég nefndi áðan, rúmlega 400. Nefndin útbjó það frv. sem hér er lagt fram á þskj. 531.

Í frv. þessu er gert ráð fyrir að heimila veðdeild Búnaðarbankans að gefa út skuldabréf sem yrðu með veði í viðkomandi fasteignum. Heimilað er að veðsetja fasteignirnar allt að 75% af matsverði. Má segja að það sé eitt af mikilvægari ákvæðum þess frv.

Ég vil geta þess, að ekki er um það rætt að skuldabréf þessi verði með neinum sérstökum vildarkjörum, heldur er fastlega reiknað með því, eins og reyndar kemur fram í grg. með frv., að skuldabréfin verði á þeim kjörum að þau séu seljanleg á hinum almenna markaði. Er gert ráð fyrir að þau verði verðtryggð, en með lágum vöxtum og til 10 ára. Er því ekki um að ræða nein útgjöld af hálfu ríkisins í þessu sambandi. Þó þykir mér rétt að fram komi, að á lánsfjáráætlun ríkisstj. er gert ráð fyrir 200 millj. kr. sem ráðstafa megi til að létta greiðslubyrði þeirra bænda sem verst eru staddir. Yrði því fjármagni, ef samþ. verður, þá ráðstafað fyrst og fremst fyrsta og annað ár þessa tímabils.

Menn hljóta að vonum að spyrja hvort þau kjör, sem í boði eru, með fullri verðtryggingu, en lágum vöxtum, séu þannig að bændur geti undir þeim staðið, ekki síst þar sem verulegur fjöldi þeirra bænda, sem eiga í þessum erfiðleikum, hefur nýlega byrjað búskap og ekki fengið þær tekjur af búunum sem nægja til að standa undir greiðslum af lánum sem á hvíla. Þessi lán eru þess eðlis, eins og hv. þm. að sjálfsögðu þekkja, að verðtryggingin yrði lögð við höfuðstólinn og þá aðeins greitt árlega af láninu vextir og afborgun miðað við þann árafjölda sem lánað er til. Þannig verður greiðslubyrðin í upphafi stórum minni en af lánum á háu vöxtum, en helst hins vegar nokkurn veginn óbreytt út lánstímabilið. Aftur á móti verður að gera ráð fyrir að staða þeirra bænda, sem nýlega hafa byrjað búskap, styrkist með hverju ári og greiðslan verði þannig auðveldari.

Herra forseti. Ég vil að lokum geta þess, að þetta frv. hefur hlotið samþykki hv. Nd. Er von mín að það fái afgreiðslu á þessu Alþ. Ég vil leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.