16.05.1979
Efri deild: 104. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4842 í B-deild Alþingistíðinda. (4138)

259. mál, lausaskuldir bænda

Frsm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Landbn. Ed. hefur fjallað um frv. til l. um breyt. á lausaskuldum bænda í föst lán, en þar er gert ráð fyrir að veðdeild Búnaðarbankans sé heimilt að gefa út nýjan flokk bankavaxtabréfa sem skulu eingöngu notuð til þess að breyta í föst lán lausaskuldum bænda sem hafa ekki fengið nægileg lán til hæfilegs tíma vegna fjárfestingar sem þeir hafa ráðist í á jörðum sínum á árunum 1970–1979, að báðum árum meðtöldum, svo og lausaskuldum vegna jarðakaupa, véla-, bústofns- og fóðurkaupa á sama tíma.

Hér er um að ræða ákvörðun hæstv. ríkisstj. um að beita sér fyrir aðgerðum til að hægt verði að breyta hluta af lausaskuldum bænda í föst lán. Yfirleitt er hér um að ræða, eins og segir í grg., bændur sem nýlega hafa staðið í framkvæmdum eða nýlega byrjað búskap. Samkv. könnun Stéttarsambands bænda á því, hve margir bændur óskuðu eftir aðstoð við að breyta lausaskuldum sinum í föst lán, kom í ljós að umsóknir bárust frá 406 bændum og lausaskuldir þeirra námu, miðað við fjárhagsstöðu umsækjenda um áramótin 1977–1978, alls um 1.2 milljörðum kr. Hér er um að ræða háa upphæð. En ráð er fyrir því gert að reynt verði að vinsa hér úr það sem nauðsynlegast er, og mun verða unnið að athugunum á aðstæðum umsækjenda og gerðar till. um nánari reglur um mat umsókna eftir mismunandi þörfum og skilyrðum þess að skuldabreytingin komi að notum. Hér er sem sagt gefin út heimild til þess að veðdeild Búnaðarbankans fari út í það að breyta hluta af þessum lausaskuldum bænda í föst lán.

Það má geta þess, að 1969 voru samþ. svipuð lög hér á Alþ. um að breyta lausaskuldum bænda þá í föst lán. Sá starfshópur, sem að þessu hefur unnið, hefur kynnt sér hvernig sú aðstoð kom út. Allt bendir til þess að það hafi breytt fjárhagsstöðu bænda mjög eindregið í átt til hins betra þannig að þeir hafi flestir hverjir bjargast úr sínum fjárhagsvanda, og aðeins fáir þeirra sækja nú um aðstoð.

N. hefur athugað frv. og leggur til að það verði samþ. óbreytt eins og það er komið frá Nd., og undir þetta rita allir nm. landbn. Ed.