08.11.1978
Neðri deild: 13. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

9. mál, Seðlabanki Íslands

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég get heitið hæstv. forseta og þm. því að vera mjög stuttorður að þessu sinni, því að ég er ekki ýkja-áhugasamur að taka þátt í þeim umr. og því sjónarspili, sem hv. 1. þm. Austurl. hefur sett hér á svið í þremur löngum ræðum.

Þetta mál, sem hér er til umr., er alls ekki flókið eða yfirgripsmikið mál. Það er ákaflega einfalt. Það snýst aðeins um það, hvort sá aðill, hvort sem það er einstaklingur eða atvinnufyrirtæki, sem fær að láni fé annars manns, eigi að skila lánveitandanum fénu aftur til baka í jafnmiklum verðmætum a.m.k. og hann tók við því til eigin nota. Þetta er ekkert flókið eða torskilið mál. Þetta er ákaflega einfalt mál og eðlilegt, vegna þess að vaxtagjöld eru ekki annað en þóknun manns eða fyrirtækis fyrir að fá að nota fé annars manns í sína þágu. Peningar eru ekki annað en gjaldmiðill til þess að einfalda viðskipti. Það væri alveg eins hægt að stunda þessi viðskipti með raunverðmætum eins og peningum, og ég er ansi hræddur um, svo að slegið sé á léttara hjal, að hv. 1. þm. Austurl. væri t.d. ekki reiðubúinn að lána hv. 4. landsk. þm. bifreið sína, sem er amerísk bifreið af vandaðri gerð, t.d. til næsta vors og fá hana þá endurgreidda í bifreið hv. 4. landsk. þm., sem er Skodabifreið af árgerð 1971. Ég býst ekki heldur við því, svo að haldið sé áfram léttara hjali, að hv. 1. þm. Austurl. væri reiðubúinn til þess að lána hæstv. menntmrh. sumarhús sitt á Þingvöllum út kjörtímabilið og fá það svo rétt fyrir næstu kosningar endurgreitt í risherbergi í Víðishúsinu.

Ég veit að hv. 1. þm. Austurl. er allra manna klókastur í pólitík og skilur pólitískar röksemdir ákaflega vel. Nú var hann svo lánsamur, hv. 1. þm. Austurl., að stuðningsmönnum hans í Austurlandskjördæmi fjölgaði allverulega í síðustu kosningum, en að sama skapi fækkaði stuðningsmönnum Framsfl. í sama kjördæmi. Skyldi nú hv. 1. þm. Austurl. verða yfirtakshrifinn af því, ef honum byðist það að lána nú hv. þm. Vilhjálmi Hjálmarssyni stuðningsmenn þá sem hann fékk á Austurlandi í síðustu kosningum og fá þá svo endurgreidda í næstu kosningum með stuðningsmönnum hv. þm. Vilhjálms Hjálmarssonar? Þetta er ákaflega einfalt og auðskilið mál, og ég veit að hv. þm. Lúðvík Jósepsson skilur þessar röksemdir miklu betur en röksemdir hagfræðinga og annarra manna sem stundað hafa langskólanám úti í löndum. Og þetta mundi hv. þm. aldrei detta í hug. Honum mundi aldrei detta það í tifandi hug að lána hv. 4. landsk. þm. bifreið sína og fá hana greidda í vor með Skodabifreið hv. 4. landsk. þm. Honum mundi aldrei detta í hug að lána hæstv. menntmrh. sumarhús sitt á Þingvöllum og fá það síðan borgað aftur með risherbergi í Víðishúsinu. Og honum mundi ekki heldur og síst af öllu detta í hug að lána Framsfl. stuðningsmenn sína í Austurlandskjördæmi og fá þá endurgreidda eftir 4 ár með stuðningsmönnum Framsfl. í sama kjördæmi. Þetta er ég alveg sannfærður um að er fjarri hv. þm.

En það vill nú svo vel til, að hv. þm. sat í n. sem samdi skýrslu um verðbólguvandann. Það er ýmislegt athyglisvert sem kemur fram í þeirri skýrslu sem hv. þm. skrifaði undir. T.d. stendur á bls. 64, með leyfi hæstv. forseta:

„Telja má, að eftirspurn eftir lánsfé frá íslenskum lánastofnunum ráðist að hluta af raunvöxtum, þ.e. nafnvöxtum að teknu tilliti til verðbólguhraða, og að hluta af tekjum af atvinnu að sjálfsögðu.“

Hv. þm. sagði það og hefur sagt það í þremur löngum ræðum, að raunvaxtakjör skiptu sáralitlu eða engu máli varðandi sparifjármyndun í landinu. Ekki veit ég til þess, að hann hafi gert aths. við þessi ákvæði í skýrslu verðbólgunefndar þegar hann sat í henni sjálfur.

Við skulum halda áfram að blaða í þessari skýrslu sem hv. 1. þm. Austurl. átti aðild að. Á bls. 67 segir svo, með leyfi forseta:

„Því er augljóst, að gefnu framleiðslustigi og tekjum, að tiltölulega hátt gengi og lágir raunvextir hafa í för með sér lágt hlutfall frjáls sparnaðar.“

Ekki veit ég til þess, að hv. 1. þm. Austurl. hafi hreyft mótmælum þegar hann ásamt öðrum nm. lagði fram þessa viturlegu og réttu niðurstöðu í skýrslu verðbólgunefndar. (LJós: Það er bara, að þú veist ekkert hvað gerðist í n.) Ja, alla vega veit ég að hv. 1. þm. Austurl. hafði litlar aths. að gera þegar n. skilaði störfum og enga um þessi atriði. (LJós: Jæja.) Nei, alls enga. (Gripið fram í:) Hann hefur þá gert það prívat, en það stendur hér á bls. 151, með leyfi forseta:

„Undanfarna þrjá áratugi hafa útlánavextir sjaldnast náð hraða verðbólgunnar. Vaxtabreytingum hefur lítt verið beitt í hagstjórnarskyni fyrr en á allra síðustu árum og þá reyndar ekki í þeim mæli sem verðbólgunni svarar. M.a. af þessari ástæðu hefur nær stöðugt ríkt umframeftirspurn eftir lánsfé.“

Þetta var lagt fram sem niðurstaða n. sem hv. 1. þm.

Austurl. átti sæti í. (LJós: Þetta er alger misskilningur.) Ég gæti vel trúað því, að þegar hv. 1 þm. Austurl. þagði við þessum upplýsingum, þá hafi hann verið að leiða hugann að stuðningsmönnum sínum í Austurlandskjördæmi en ekki þeim útlistunum í vaxtamátum sem hann hefur í frammi nú að kosningum loknum.

Á bls. 230 í þessari sömu skýrslu, svo að maður haldi áfram að blaða í skýrslu hv. 1. þm. Austurl., kemur m.a. fram í tölu 47, og ekki er vitað til að hv. þm. hafi hreyft mótmælum við því, að árið 1974, — það er eins og mig minni að hv. þm. hafi þá átt sæti í ríkisstj., — voru raunvextir neikvæðir um 39.1% og hafa aldrei verið neikvæðari á árunum 1963–1977, slógu þá sem sé öll met, neikvæðu raunvextirnir, því að þá töpuðu menn á ári 39.1% af fé sínu fyrir að lána það öðrum manni. Ég er hræddur um að það hefði orðið lítið eftir af stuðningsmönnum hv. þm. á Austurlandi ef hann hefði átt að lána framsóknarmönnum þá með slíkum kjörum í 4 ár. Þá nam útlánaaukningin, þegar verðrýrnun fjárins var 39.1% á ársgrundvelli, hvorki meira né minna en 55%. Þá jókst streymið — út úr bönkunum um 55% miðað við árið áður.

Árið 1966, var hv. 1. þm. Austurl. alls ekki í ríkisstj., en þá voru raunvextir hæstir frá því sem þeir hafa verið á árabilinu 1963–1977, eða 2%. Þá hefði hv. 1. þm. Austurl. hagnast um 2% á ári við það að lána framsóknarmönnunum í Austurlandskjördæmi stuðningsmenn sína, ef sömu vaxtakjör hefðu gilt í þeim efnum og giltu í peningastofnunum. Þá var útlánaaukningin í bankakerfinu aðeins um 12.5% og hefur síðan aldrei orðið lægri.

Þetta leiðir auðvitað í ljós það, sem hv. þm. virðist ekki skilja, samræmið milli vaxtakjara og eftirspurnar eftir lánsfé. Hvers vegna skyldi vera mest eftirspurn eftir lánsfé þegar raunvextir eru neikvæðastir? Að sjálfsögðu vegna þess að þá græða menn mest á því að hafa fé annarra manna til afnota fyrir sjálfa sig. Og skyldi það nú vera það fólk, sem við Alþfl.-menn og hv. 1. þm. Austurl. eigum að bera helst fyrir brjósti, sem nýtur þessara vildarkjara í lánum bankanna? Eða skyldi það vera það sem hv. 3. þm. Vestf. kallaði í blaðagrein nýlega Coca-Cola- greifana og aðrir slíkir.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þetta mál mitt. En ég vil aðeins ljúka því í gamansömum tón, því að gamansamur tónn hæfir þeim ræðuflutningi sem við höfum hlustað á, þm. í þessari deild þrívegis frá hv. 1. þm. Austurl. Eitt af því, sem hv. þm. Austurl. hélt fram í ræðum sínum, — ég man nú ekki í svipinn hvort það var fyrsta ræða, önnur ræða eða þriðja ræða hv. þm., enda skiptir það ekki máli því að þær eru allar eins, — var að það væri ekki af efnahagslegum orsökum sem verðþensla hefði verið á Íslandi, heldur vegna þess að blöðin væru alltaf að hvetja fólk til þess að kaupa. Það er þá ekki mikill vandi að stöðva verðbólguþróun á Íslandi. Hæstv. ríkisstj. gæti þá væntanlega sett lög sem bönnuðu þessum blöðum að vera alltaf að hvetja fólk til þess að kaupa, því að hvaða vit er í því, hv. 1. þm. Austurl., að 5 dagblöðum á Íslandi skuli haldast það uppi að halda uppi í landinu 50% verðbólgu í 7 ár. Þetta nær ekki nokkurri einustu átt. Það verður að stöðva þetta umsvifalaust. Hvernig? Með því að banna blöðunum að segja þetta. Þá líklega lagaðist þetta allt saman. Með því að banna blöðunum að biðja fólk um að kaupa varning væri væntanlega grundvellinum kippt undan verðbólguþróuninni.

Svona eru þær röksemdir sem hv. 1. þm. Austurl. hefur að flytja í þessum málum. Ég trúi því ekki, að hv. þm. meini þetta. Ég veit að hann talar af allra manna mestum sannfæringarhita og það gæti jafnvel verið á stundum að hann tryði sjálfum sér. En ég trúi því ekki, að hann trúi sjálfum sér þegar hann segir þetta. Ég held miklu frekar að hann sé að segja þetta í hálfgerðri kerskni og gamanmálum, ekki vegna þess að hann trúi því í sjálfu sér sem hann er að segja, heldur kannske vegna þess að hann haldi að það séu einhverjir aðrir sem geti trúað því.