17.05.1979
Sameinað þing: 96. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4886 í B-deild Alþingistíðinda. (4208)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins skýra frá því, að ég hygg að það sé rétt hjá hæstv. forsrh. að þetta mál hafi verið rætt í ríkisstj. Hæstv. sjútvrh., sem hér er ekki staddur nú, hefur tjáð þingflokki Alþfl. að málið hafi verið rætt í ríkisstj., en ekki ákvarðað um það, en í þeim umr. hafi komið fram og sé bókað í fundargerð ríkisstjórnarfundarins þegar málið var þar rætt, og ég hugsa að þá bókun sé auðvelt að finna, að hann hafi þar greint frá því áliti þingflokks Alþfl., sem ég las upp áðan, og tjáð sig ekki samþykkan því að þinglausnir færu fram fyrr en væri séð fyrir endann á því, hvort niðurstaðan ætti að verða sú að hæstv. ríkisstj. hygðist grípa til þess úrræðis að setja lög í tengslum við þau efnahagsvandamál sem nú er við að fást. Ég vil aðeins taka það fram, að hæstv. sjútvrh. tjáði mér að hann hefði látið þessa afstöðu sína koma í ljós á ríkisstjórnarfundi og að sú afstaða hefði verið færð til bókar.