18.05.1979
Neðri deild: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4969 í B-deild Alþingistíðinda. (4301)

263. mál, eftirlaun aldraðra

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Frv. það til Í. um eftirlaun aldraðra, sem hér er til umr., er flutt sem stjfrv. Þykir mér rétt að hefja framsögu með stuttu yfirliti yfir núverandi skipan lífeyriskerfis okkar í heild.

Þegar talað er um lífeyriskerfið í daglegu máli er í raun átt við tvíþætta tilhögun á greiðslu lífeyris til aldraðra og öryrkja. Annars vegar eru lífeyrisgreiðslur almannatrygginga, sem kostaðar eru af skattfé, og hins vegar lífeyrisgreiðslur hinna frjálsu lífeyrissjóða, sem svo eru nefndir og myndaðir eru af iðgjaldagreiðslum sjóðfélaga og vinnuveitenda þeirra. Eins og hv. þm. vafalaust þekkja er grunnlífeyrir almannatrygginga, sem allir njóta frá 67 ára aldri án tillits til efnahags eða tekna, nú rúmlega 54 þús. kr. á mánuði fyrir einstakling og hækkar um ca. 7 þús kr. á mánuði að jafnaði fyrir hvert ár eftir 67 ára aldur sem dregið er að taka ellilífeyri. Hjón fá 90% af bótum tveggja einstaklinga. Auk hins almenna grunnlífeyris greiða almannatryggingar sérstaka uppbót til allra þeirra sem hafa heildartekjur innan ákveðinna marka. Þessi uppbót, svonefnd tekjutrygging, getur numið tæpum 50 þús. kr á mánuði fyrir einstakling, en hjá hjónum 84 500 kr.

Þótt lífeyrir almannatrygginga hækki lögum samkv. með kaupi og hafi raunar hækkað meira en laun síðustu ár, einkum tekjutryggingargreiðslan, verður ekki um það deilt að lífeyriskerfi almannatrygginga nær hvergi nærri því marki að tryggja almennt nægilega afkomuöryggi fólks í ellinni. Okkur er því nauðsyn á að hafa jafnframt sem allra fullkomnast kerfi lífeyrissjóða, sem starfa við hlið almannatrygginga og stoppa í götin sem þar eru, ef svo má að orði komast.

Lífeyrissjóðirnir og almannatryggingar eru greinar á sama meiði, sprottnar af þeirri sömu hugsjón að bæta mönnum á sanngjarnan hátt varanlegan missi starfsorku vegna örorku eða elli, auka jöfnuð meðal manna og vinna bug á því böli sem öryggisleysið er. Þetta hafa menn löngu gert sér ljóst, og ég hygg að fullyrða megi að nú sé orðin um það tiltölulega almenn pólitísk samstaða að koma þurfi á einum lífeyrissjóði eða einu samræmdu lífeyriskerfi sem taki til allra landsmanna og tryggi öllum ákveðin samræmd lágmarksréttindi. Hins ber að gæta, að það er ákaflega flókið verk og vandasamt að endurskipuleggja núverandi lífeyriskerfi, samræma myndun lífeyrisréttinda og greiðslna og búa til eitt samfellt réttindakerfi fyrir alla landsmenn. Þar fléttast saman fjárhagsleg og félagsleg atriði í flókinn hnút sem torvelt getur reynst að leysa svo að öllum líki. Að þessu verki er þó unnið jafnt og bítandi, þótt tæpast verði því lokið að fullu fyrr en að einu til tveim árum liðnum. Því hefur þótt henta að stiga leiðina að þessu lokamarki í tveimur skrefum, byrja á því að leysa vanda þeirra lífeyrisþega sem nú eru utan verðtryggðra lífeyrissjóða eða eiga alls engan aðgang að lífeyrissjóðum. Sá er tilgangur þessa frv. Með lögfestingu þess væri stórum og merkum áfanga náð að lokamarkinu.

Freistandi væri að rekja hér sögu og þróun hinna liðlega 100 lífeyrissjóða sem starfandi eru í landinu. Tímans vegna mun,ég þó ekki gera það, en vísa til framsöguræðu minnar með þessu frv. í hv. Ed.

Segja má að skipt hafi atgerlega í tvö horn, annars vegar rótgróna og að fullu verðtryggða sjóði opinberra starfsmanna, hins vegar óverðtryggða sjóði sem verðbólgan hefur gert svo til gagnslausa.

Með samkomulagi aðila vinnumarkaðarins í febr. 1976 urðu nokkur straumhvörf í þessu efni. Þá bundust allir lífeyrissjóðir verkalýðsfélaga innan ASÍ samtökum um að leggja hluta iðgjaldatekna sinna í sameiginlegan sjóð til að verðtryggja lífeyri þeirra sjóðfélaga sem látið höfðu af starfi og náð höfðu 70 ára aldri. Tvöfaldaði þessi verðtrygging þegar í stað lífeyri þeirra, sem í hlut áttu, og hefur hann síðan breyst með launum. Þetta samkomulag hefur síðan verið endurnýjað og reglunum um verðtryggingu breytt til hagsbóta fyrir lífeyrisþega. Árið 1976 var ákveðið að lífeyrisgreiðslur skyldu breytast tvisvar á ári, en árið 1977 var samþ. að þær breyttust ársfjórðungslega til samræmis við launahækkanir. Verðtrygging lífeyris hjá svo mörgum og fjölmennum sjóðum, en þeir munu vera um 60 talsins, hafði auðvitað geysimikla þýðingu fyrir stóran hóp lífeyrisþega, auk þess, sem ætla má, að áhrifa þessa samkomulags hafi gætt út fyrir raðir þeirra sjóða sem það tók beinlínis til.

Samfara stofnun hinna almennu lífeyrissjóða verkalýðsfélaganna í ársbyrjun 1970 voru sett lög um eftirlaun aldraðra félaga í stéttarfélögum, nr. 63 frá 1971. Ástæðan til þeirrar lagasetningar var sú, að allstór hópur manna í stéttarfélögunum hafði aldurs vegna ekki möguleika á að ávinna sér umtalsverð réttindi í hinum nýju sjóðum. Var það talið réttlætismál að tryggja þeim nokkur lágmarksréttindi, þótt þeir greiddu lítið eða jafnvel ekkert til hinna nýstofnuðu sjóða, þar sem lítið var eftir af starfsævi þeirra eða henni jafnvel lokið. Lögunum var þannig ætlað að leysa ákveðin upphafsvandamál og gildistími þeirra aðeins ákveðinn 15 ár, eða til ársloka 1984. Eðlilegast kann að virðast að lífeyrissjóðirnir stæðu sjálfir undir kostnaði af þessari tilhögun. Frá því var þó horfið, einkum vegna þess að fjárhagsgrundvöllur sjóðanna var mjög óviss og þeir raunar tæpast teknir til starfa sumir hverjir. Í staðinn var sú tilhögun ákveðin, að Atvinnuleysistryggingasjóður bæri kostnaðinn að 3/4 hlutum og ríkissjóður að 1/4. Eftir að gildistíma laganna væri lokið skyldu hins vegar hlutaðeigandi lífeyrissjóðir taka við þessum greiðslum.

Þegar lífeyrissamkomulagið var gert árið 1976 og lífeyririnn verðtryggður var jafnframt ákveðið að verðtryggja þann lífeyri sem greiddur var samkv. lögum frá 1971. Var þeim lögum breytt samkv. því árið 1976 og aftur 1977. Kostnað af þessari breytingu tóku lífeyrissjóðirnir sjálfir á sig og standa málin þannig nú, að ríkissjóður og Atvinnuleysistryggingasjóður greiða grunnlífeyrinn, en lífeyrissjóðirnir sjálfir hins vegar verðtrygginguna. Hefur kostnaðurinn skipst þannig, að árið 1976 greiddu lífeyrissjóðirnir um 250 millj. á móti 231 millj. frá ríki og Atvinnuleysistryggingasjóði og árið 1977 greiddu lífeyrissjóðir um 400 millj. af um 700 millj. kr. heildarkostnaði. Þegar Lífeyrissjóður bænda var stofnaður árið 1970 fengu aldraðir bændur tilsvarandi réttindi og meðlimir stéttarfélaganna. Var kostnaðinum þar skipt milli Stofnlánadeildar landbúnaðarins og ríkissjóðs, en sjálfur tók lífeyrissjóðurinn hins vegar á sig kostnað af verðtryggingu eftirlaunanna, en hún kom til árið 1976.

Af framansögðu má ljóst vera að lögin um eftirlaun aldraðra félaga í stéttarfélögunum hafa gegnt mjög mikilvægu hlutverki, bæði í fyrstu sem grundvöllur lágmarksréttinda þeirra, sem ekki höfðu tækifæri til að ávinna sér réttindi til iðgjaldagreiðslna frá hinum nýstofnuðu sjóðum, og síðustu ár sem farvegur almennrar hækkunar eftirlaunagreiðslna, því að þau hafa með fordæmi sínu haft veruleg áhrif á lífeyrisgreiðslur til ýmissa annarra en þeirra sem þau beinlínis taka til.

Þrátt fyrir þetta er gildi laganna takmarkað, því að þau ná aðeins til hluta lífeyrisþegahópsins. Áætlað hefur verið, að um s. l. áramót hafi fólk 70 ára og eldra verið nálægt 14 700. Af þessum hóp má ætla að um 6000 njóti með beinum eða óbeinum hætti eftirlauna samvk. lögum frá 1971 og hliðstæðum ákvæðum í lögum um Lífeyrissjóð bænda. Að auki er svo ætlað að um 2400 manns eigi rétt á verðtryggðum lífeyri úr lífeyrissjóðum hins opinbera og bankanna. Eftir stendur þá hópur sem telur um 6300 manns og nýtur ekki verðtryggðs lífeyris úr lífeyrissjóði. Af þessum hóp er talið að um 3000 manns muni öðlast lífeyrisréttindi beint með lögfestingu þessa frv., en mun fleiri með óbeinum hætti þegar makar þeirra, sem réttindin öðlast, eru meðtaldir. Gæti þá látið nærri að allt að 4500 manns öðluðust slík réttindi af þeim 6300 sem hafa þau ekki núna. Þeir u. þ. b. 1800, sem enn standa utan þessa kerfis, eru þá ýmist enn við störf eða hafa ekki haft neinar atvinnutekjur. Gæta verður þess, að þær tölur, sem ég nú hef nefnt um fjölda lífeyrisþega, eru áætlanir og verður ekki fullyrt um nákvæmni þeirra. Skortir enn töluvert á, að nægilega glöggar upplýsingar liggi fyrir um aðstæður þeirra sem náð hafa eftirlaunaaldri. Þær ættu þó að gefa viðunandi heildarmynd af ástandinu.

Ef reynt er að glöggva sig á samsetningu þess hóps, sem fær réttindi með frv. þessu, er ljóst að stór hluti hans kemur úr hópi þeirra sem stundað hafa sjálfstæðan atvinnurekstur í einni eða annarri mynd. Þó mun frv. einnig ná til töluverðs fjölda launþega sem ýmist hafa skipt um starf á síðari hluta starfsævinnar og þannig lagst á milli laga eða hafa stundað störf sem ekki eru gjaldskyld samkv. samkomulagi ASÍ og vinnuveitenda frá 1969. Hluti þessa fólks er nú þegar félagar í lífeyrissjóðum, en með mjög takmörkuð réttindi vegna skamms réttindatíma eða vegna þess að verðtrygging lífeyris hjá sjóðnum er takmörkuð. Langflestir hinna nýju lífeyrisþega standa hins vegar alveg utan lífeyrissjóða.

Tímans vegna mun ég ekki ræða hér um aðdraganda að skipun þeirra tveggja nefnda sem að þessu frv. hafa unnið, en vísa í því efni til framsöguræðu minnar með frv. í hv. Ed.

Í almennum aths. með frv. er athygli vakin á því, að þegar á þessu ári verði að koma á skylduaðild að lífeyrissjóði fyrir alla þá starfandi menn sem þátttökuskyldan nær enn ekki til samkv. kjarasamningum eða lögum. Mundi ella hljótast af misræmi og misrétti, ef þeim, sem látið hafa þátttöku í lífeyrissjóði undir höfuð leggjast, væru veitt þau réttindi án greiðslu sem aðrir skapa sér með iðgjaldagreiðslum. Er vinna við undirbúning þeirrar lagasetningar þegar hafin.

Þetta frv. skiptist í fimm kafla og er það þannig upp byggt, að ákvæði laga nr. 63 frá 1971, um eftirlaun aldraðra félaga í stéttarfélögum, með áorðnum breytingum eru tekin upp í I. kafla þess án efnisbreytinga. Nýmælin eru því einkum fólgin í II. kafla, þar sem kveðið er á um réttindi þeirra sem hvorki eiga rétt samkv. I. kafla né lögum um Lífeyrissjóð bænda. Helstu breytingar eru þar þrjár: Fellt er niður skilyrði um aðild að stéttarfélagi. Fellt er niður skilyrði um skylduaðild að lífeyrissjóði. Í stað gjaldskyldra launatekna er gert ráð fyrir, að vinnsla réttinda geti miðast við atvinnutekjur samkv. skattframtölum.

Í III. kafla eru sameiginleg ákvæði um bótafjárhæðir, um framkvæmd laganna og um tengsl I. og II. kafla frv., svo og tengsl þess við hliðstæð ákvæði í lögum um Lífeyrissjóð bænda.

Í IV. kafla eru reglur um uppbót á lífeyri, eða öðru nafni verðtryggingu lífeyris. Þetta eru sem sagt sömu verðtryggingarákvæðin og bætt var inn í lögin frá 1971 með lögum nr. 33 frá 1976 og aftur með lögum nr. 67 frá 1977 til samræmis við þær verðbætur sem þá var samið um til aðildarfélaga ASÍ-sjóðanna.

Loks eru í V. kafla fjárhagsákvæði frv. Í því sambandi vil ég taka það fram, að full samstaða var í sautján manna nefndinni um tilgang frv, og öll bótaákvæði þess. Í nefndinni var heldur enginn ágreiningur um að allir lífeyrissjóðir greiði 5% af iðgjaldatekjum sínum til að standa að hluta undir kostnaði vegna bótaákvæða frv. Hins vegar komu fram tvær till. um meginleiðir varðandi fjáröflunartillögur frv. í heild. Eru þær til aðgreiningar nefndar tillaga I og tillaga II og vísa ég um samanburð á skiptingu fjáröflunar samkv. þeim til fskj. II með frv. á bls. 16, en þar kemur jafnframt fram hvernig fjáröflun til eftirlauna aldraðra og Lífeyrissjóðs bænda er skipt samkv. núverandi kerfi.

Tillaga nr. I til fjáröflunar var lögð fram af fulltrúum launþega og vinnuveitenda í átta manna nefndinni og við endanlega afgreiðslu málsins í sautján manna nefndinni fékk hún auk þess stuðning frá fulltrúum BSRB, BHM og Landssambands lífeyrissjóða. Fulltrúi Lífeyrissjóðs bænda taldi sig hins vegar geta stutt hvora till. sem væri. Fulltrúar ríkisstj. standa að fjáröflunartillögu nr. II.

Mikið hefur verið reynt til að bræða saman þessi tvö sjónarmið um skipan fjáröflunar, og má raunar segja að þær tilraunir hafi tafið framlagningu frv. um marga mánuði, því að það mátti að öðru leyti teljast fullbúið af hálfu nefndanna strax s. l. haust. Þessar tilraunir hafa þó ekki borið þann árangur, sem vonast var eftir, og málamiðlun ekki náðst.

Munurinn á hinum tveimur leiðum er einkum sá, að útgjöld ríkissjóðs eru stórum meiri samkv. till. I, eða 1664 millj. á móti 673 millj. samkv. till. II. Munar tæpum milljarði á ársgrundvelli. Að sama skapi eru útgjöld samkomulagssjóðanna minni samkv. till: I, og er þar rannar gengið svo langt að leggja til að yfir 500 millj. af þeim útgjöldum, sem þessir sjóðir nú bera sjálfir vegna verðbótagreiðslna á lífeyri, verði fluttar yfir á ríkissjóð. Þá er þátttaka Atvinnuleysistryggingasjóðs töluvert minni í fjáröfluninni samkv. till. I eða 525 millj., sem er sama fjárhæð og sjóðurinn greiðir samkv. núgildandi kerfi, á móti 828 millj. samkv. till. II. Þegar frv. kom til umfjöllunar í ríkisstj. varð þar ekki samstaða um svo stórfellda útgjaldaaukningu fyrir ríkissjóð sem felst í till. I, auk þess sem fullnægjandi rök þótti skorta fyrir allri þeirri tilfærslu útgjalda frá samkomulagssjóðnum yfir á ríkissjóð sem í þeirri till. felst. Varð því að ráði að leggja frv. fram miðað við fjáröflunartill. II með fyrirvara af hálfu einstakra ráðh. um hugsanlegar till. til breytinga á þeirri skipan sem gengju í miðlunarátt.

Heildarkostnaður af hinum nýju eftirlaunum og uppbót á þau er áætlaður á ársgrundvelli, miðað við verðlag þessa árs, 1350 millj. kr., sbr. sundurliðaða kostnaðaráætlun í fskj. I með frv. Þetta fskj. er á bls. 15. Verður þá heildarkostnaður eftirlauna samkv. eftirlaunalögunum frá 1971 og lögum um Lífeyrissjóð bænda frá 1970, að uppbótinni meðtalinni og hinum nýju réttindum, orðinn 3 milljarðar 755 millj. Er hér auðvitað um mikla fjármuni að ræða og von að leitast sé við að dreifa útgjöldunum á sem flestra herðar. Ég vil þó taka fram, að samfara þeirri útgjaldaaukningu fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð sem felst í till. nr. II, hlýtur að verða að koma til innan tíðar breyting á núverandi skipan greiðslna vegna fæðingarorlofs.

Einhverjum kann að þykja langsótt að draga Jöfnunarsjóð sveitarfélaga inn í þetta dæmi sem fjármögnunaraðila. Til þess standa þó fullgild rök. Hið nýja eftirlaunakerfi mun ná til þó nokkurs fjölda fólks sem hefur starfað hjá eða endað starfsævi sína í þjónustu sveitarfélaganna án þess að hafa öðlast réttindi í lífeyrissjóðum þeirra. Ýmis atvik geta orðið þessa valdandi, en mestu ráða þó ákvæði, sem hafa verið í reglugerðum lífeyrissjóða, svo sem að fastráðning í starf væri skilyrði aðildar. Hygg ég að þessu skilyrði hafi t. d. ekki verið breytt hjá Reykjavíkurborg fyrr en á síðasta ári. Sama gildir um það lausráðna fólk sem starfað hefur hjá sveitarfélögunum, en BSRB farið með samninga fyrir. Getur því engan veginn talist óeðlilegt að sveitarfélögin leggi nokkuð af mörkum til að fjármagna lágmarkslífeyrisréttindi til handa þessu fólki. Auk þess má ætla að þetta nýja kerfi muni í allmörgum tilvikum létta framfærslubyrðum af sveitarfélögunum. Enn fremur kemur til nokkur hækkun útsvara, en hún mun að líkindum ekki verða mikil.

Að því er ríkið sjálft varðar er á sama hátt ljóst, að nokkur hluti af starfsfólki þess hefur ekki notið lífeyrisréttinda, en öðlast þau með frv. Á það við um hinn svonefnda biðreikning fólks sem tekið hefur laun samkv. kjarasamningi BSRB, en ekki uppfyllt skilyrðin til aðildar að Lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna.

Ég sagði áður, að ekki hefðu þótt efni til að flytja yfir 500 millj. af kostnaði við eftirlaunauppbótina frá ASÍ-sjóðunum yfir á ríkissjóð. Ber þó engan veginn að skilja þau ummæli mín á þann veg, að mér séu ekki ljósar áhyggjur fyrirsvarsmanna þessara sjóða af þeim síauknu útgjöldum sem lífeyrisuppbótin bakar þeim. Eru þau sjálfsagt orðin langt umfram það sem nokkur maður gerði upphaflega ráð fyrir. Þau 4% af iðgjaldatekjum sjóðanna, sem þeir leggja af mörkum sameiginlega til að kosta uppbótina, hrökkva stöðugt skemmra til, en jafnframt eykst sá hluti sem sjóðirnir verða sjálfir að taka beint á sig. Þetta sameiginlega framlag þeirra, þ. e. 4% iðgjaldateknanna, mun árið 1976 hafa nægt fyrir um 75% af uppbótagreiðslunum, en ekki fyrir nema 60% árið 1977 og enn lægra hefur hlutfallið orðið s. l. ár. Hér hefur verðbólgan gripið í taumana rétt einu sinni og ruglað alla útreikninga, því að auðvitað dregur úr útgjöldum sjóðanna vegna uppbótarinnar samhliða því og að sama skapi og tekst að hægja á verðbólguhjólinu. Er raunar öll fjárhagsáætlun þessa nýja lífeyriskerfis ótraust og viðkvæm vegna þess hve mjög útgjöldin ráðast af verðbólgunni. Þessu til viðbótar er sjálfsagt að benda á að sumir samkomulagssjóðirnir, t. d. Lífeyrissjóður Dagsbrúnar, taka við fjölda fólks sem kemur í raðir þeirra seint á starfsævinni úr öðrum stéttum eða starfsgreinum. Margt flytur það með sér tiltölulega lítil réttindi, en bakar sjóðnum hins vegar miklar skuldbindingar vegna uppbótarinnar. Er slíkur tilflutningur ekki síst algengur meðal sjómanna. Standa því vissulega til þess nokkur rök að einhverjum hluta kostnaðarins af uppbótinni verði létt af þessum lífeyrissjóðum, þó örugglega verði ekki unnt að ganga í því efni eins langt og till. I gerir ráð fyrir, þ. e. að takmarka skyldur þeirra alfarið við 5% af iðgjaldatekjum þeirra.

Þá þykir mér rétt að gera nokkra grein fyrir reikningsaðferð og fjárhæð þeirra lífeyrisgreiðslna, sem menn geta öðlast rétt til samkv. frv. Tek ég dæmi af ellilífeyrinum.

Samkv. 11. gr. frv. gilda sömu reglur um eftirlaunarétt þeirra, sem nú öðlast hann og gilda samkv. lögum frá 1971. Er eftirlaunarétturinn miðaður við áunnin stig og stigin reiknuð þannig út, að í árslaun lífeyrisþegans er deilt með sérstökum grundvallarlaunum, en þau eru árslaun samkv. 2. taxta Dagsbrúnar með fullri starfsaldurshækkun. Geta því áunnin réttindi fyrir hvert ár verið ýmist meiri eða minni en 1 stig eftir því hvort árslaunin voru hærri eða lægri en þessi viðmiðunarlaun. Réttindatími reiknast aftur til ársins 1955, þannig að með því að láta af störfum 70 ára að aldri geta réttindaárin orðið 15, en 20 ef hlutaðeigandi heldur áfram störfum til 75 ára aldurs. 20 ár eru því lengsti mögulegi réttindatíminn. Ítarlegar reglur um réttindatímann eru í 5. gr. frv. og ákvæði um stigaútreikninginn eru í 6. gr.

Fjárhæð ellilífeyrisins reiknast eftir reglum í 12. gr. Eru stigin þá lögð saman fyrir allan réttindatímann og margfölduð með 1.8. Fæst þá það hlutfall sem greiða skal í lífeyri af meðaltali grundvallarlauna undanfarin 5 almanaksár. Þetta hlutfall verður því fyrir þann, sem að meðaltali ávann sér 1 stig á ári í 15 ár, 27% grundvallarlauna, en 36% fyrir þann, sem starfaði til 75 ára aldurs og ávann sér 20 stig eða 1 stig árlega að meðaltali. Auðvitað getur þetta hlutfall svo verið hærra eða lægra eftir því, hve háar árstekjur viðkomandi lífeyrisþega voru. Með þessum hætti er lífeyririnn sjálfur reiknaður. Á hann greiðist síðan uppbót samkv. 22. gr., en uppbót þessi er hin raunverulega verðtrygging, sem eins og áður segir var samið um í kjarasamningum 1976 og 1977 og látin var með lagabreytingum á þessum árum taka til allra þeirra sem nutu réttinda samkv. eftirlaunalögunum frá 1971. Felur uppbótin það í sér, að í stað 5 ára meðaltalslauna er lífeyrisrétturinn miðaður við grundvallarlaunin, þ. e. 2. taxta Dagsbrúnar, eins og þau eru samkv. kauptaxta 1. jan., 1. apríl, 1. júlí og 1. okt. ár hvert. Þessi grundvallarlaun eru nú 171 þús. kr. á mánuði og lífeyrir þess, sem hafði áunnið sér 15 stig, samkv. því 46 200 kr. á mánuði, en um 61600 fyrir þann sem ávann sér 20 stig.

Áður hef ég gert nokkra grein fyrir fjármögnunarákvæðum vegna II. kafla frv., þ. e. hinum nýju lífeyrisgreiðslum. Um þau er nánar fjallað í 25. gr. Samkv. henni greiða sjálfstæðir atvinnurekendur sérstakt eftirlaunaiðgjald, sem nemur 0.5% af launaskattstofni eigin vinnu. Allir lífeyrissjóðir landsins greiða 1% af iðgjaldatekjum sínum, en auk þess greiða þeir lífeyrissjóðir, sem standa utan við lífeyrissamkomulagið svonefnda, 4% til viðbótar af iðgjaldatekjum sínum. Að öðru leyti standa svo ríkissjóður, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga og Atvinnuleysistryggingasjóður að jöfnu undir kostnaðinum.

Því miður hefur orðið meinleg prentvilla á bls. 8 í fjárhagsákvæðunum, þar sem orðið „ekki“ hefur fallið niður í 3. tölul. Þar á auðvitað að standa: „Þeir lífeyrissjóðir, sem ekki eiga aðild að“ o. s. frv. Bið ég hv. alþm. að athuga það, en þessi leiðrétting hefur verið tekin upp í brtt. frá hv. heilbr.- og trn. Ed.

Ég ætla ekki að fjalla ítarlega um hverja einstaka grein frv. í þessari framsögu. Það tæki of langan tíma og væri að mestu óþarft, þar sem aths. með þeim eru tiltölulega ítarlegar. Örfá atriði vil ég þó benda á til viðbótar því sem ég hef þegar sagt.

Þess er þá fyrst að geta, að þó að ég hafi valið að gera sérstaklega grein fyrir eftirlaunum samkv. frv., upphæð þeirra og reikningsaðferð, tekur það að sjálfsögðu einnig til örorkulífeyris og makalífeyris. Um fjárhæð þessara lífeyrisgreiðslna eru einnig ákvæði í 12. gr. frv. og á hana greiðist uppbót samkv. IV. kafla þess. Aðalreglan um fjárhæð örorkulífeyris er sú, að hann reiknist miðað við 100% örorku á sama hátt og ellilífeyririnn. Þó er hér sá mikilsverði munur á, að við örorku eru ekki aðeins talin þau stig sem hlutaðeigandi hafði aflað sér, heldur einnig þau stig sem ætla má að hann hefði náð að ávinna sér með áframhaldandi starfi til 70 ára aldurs. Er að því er þessi ár varðar miðað við meðaltalsstigaávinning þriggja síðustu ára. Ef orkutap er minna en 100% greiðist örorkulífeyririnn í hlutfalli við orkutapið. Hægt er að njóta samtímis örorkulífeyris og makalífeyris að ákveðnu marki, en hins vegar fellur örorkulífeyririnn niður við 70 ára aldur, en ellilífeyririnn tekur við, enda miðast hann þá við sama stigafjölda. Fyrir minna orkutap en 40% greiðist ekki örorkulífeyrir.

Réttur til ellilífeyris yfirfærist til maka, ef hinn látni átti að baki 5 ára réttindatíma með tilteknum lágmarksstigaávinningi og féll frá eftir 31. des 1963. Er makalífeyririnn reiknaður samkv. ákvæðum 12. gr. frv. með áþekkum hætti og örorkulífeyrir, þannig að til grundvallar liggur sá stigafjöldi sem hinn látni hafði aflað sér, þó að viðbættum 5 stigum sem jafngilda 9% af grundvallarlaunum. Auk þessa er svo, ef maður fellur frá áður en hann nær 70 ára aldri, bætt við þeim stigum sem ætla má að hann hefði áunnið sér fram til 70 ára aldurs. Er þá miðað við meðaltalsstigaávinning hins látna 3 síðustu árin fyrir fráfall hans. Uppbót greiðist svo að sjálfsögðu einnig á þessa tegund lífeyris samkv. ákvæðum IV. kafla frv.

Ég gat þess áður, að I. kafli þessa frv. væri að stofni til gömlu eftirlaunalögin frá 1971 með áorðnum breytingum. Rétt er þó að vekja athygli á þeirri breytingu, að heimild, sem ráðh. hafði samkv. 8. gr. laganna til að ákveða fyrir eitt ár í senn greiðslu uppbóta á eftirlaunin að fengnum till. umsjónarnefndar er nú felld inn í 12. gr: frv. sem lögbundið ákvæði. Er sjálfgert að þessi heimild sé ætíð notuð. Má raunar ætla að beiting hennar sé ein af forsendum lífeyrissamkomulagsins milli launþega og vinnuveitenda.

Þá vek ég athygli á ákvæðum í III. kafla frv., einkum 13. gr., sem er ætlað að einfalda framkvæmd þessa nýja réttindakerfis sem vissulega er orðið nokkuð margbrotið. Eiga þessi ákvæði að tryggja að ekki þurfi að athuga réttindi eins og sama umsækjanda hjá nema einu þessara kerfa fyrir sama tímabil nema í undantekningartilvikum. Réttindi, sem lífeyrisþegi kann að hafa áunnið sér samkv. II. kafla laga um Lífeyrissjóð bænda og I. og/eða II. kafla frv., eru þá felld undir það kerfi sem meiri hluti stiga viðkomandi árs segir til um.

Samkv. 14. gr. skal draga frá lífeyri samkv. frv. þessu þær greiðslur sem viðkomandi lífeyrisþegi fær frá öðrum lífeyrissjóðum, svo og hliðstæðar greiðslur úr ríkissjóði eða öðrum opinberum sjóðum. Kemur það heim og saman við þann tilgang þessa frv. að tryggja fólki ákveðin lágmarksréttindi til lífeyris, en ekki að opna því aðgang að mörgum sjóðum samtímis.

Í þessari grein er einnig ákvæði sem girðir fyrir að fólk geti sagt sig úr þeim lífeyríssjóðum, sem það er i, og afsalað réttindum sínum þar, en sótt þess í stað og án iðgjaldagreiðslna tilsvarandi réttindi til þessa nýja kerfis. Í slíku tilviki kemur sá lífeyrir, sem viðkomandi hefur öðlast tilkall til með áframhaldandi aðild að lífeyrissjóði sínum, að fullu til frádráttar þeim greiðslum sem hann kann að eiga rétt á samkv. frv.

Sá sem átti kost á frjálsri aðild að einhverjum lífeyrissjóði, en lét hana undir höfuð leggjast, sætir hins vegar ekki tilsvarandi frádrætti vegna réttinda sem hann hefði getað aflað sér. Slíkur frádráttur yrði ákaflega torveldur í framkvæmd: Hér verður að nægja sú ráðstöfun að setja strax á þessu ári lög sem skylda alla til aðildar að einhverjum lífeyrissjóði, þannig að eftirleiðis öðlist enginn útlátalaust þau réttindi sem öðrum er gert að kosta sjálfur að einhverjum hluta a. m. k.

Í III. kafla eru auk þess ítarlegri ákvæði um framkvæmd eftirlaunagreiðslnanna en gilt hafa hingað til, enda mun samþykkt þessa frv. hafa í för með sér verulegar breytingar á afgreiðstu umsókna og framkvæmdinni allri. Þarfnast þau ákvæði ekki sérstakrar skýringar.

Að lokum er rétt að það komi fram, að sá lífeyrir sem menn kunna að öðlast rétt til samkv. þessu frv. mun að jafnaði ekki valda skerðingu á þeim greiðslum sem menn nú eiga tilkall til frá almannatryggingunum. Ellilaun almannatrygginga og eftirlaun samkv. frv. verða yfirleitt innan hins svonefnda frítekjumarks og skerða því ekki rétt lífeyrisþegans til fullrar tekjutryggingar, svo fremi hann hafi ekki aðrar tekjur.

Í hv. heilbr.- og trn. Ed. kom upp ágreiningur um tekjuöflun frv. eins og raun varð á í sautján manna nefndinni. Vegna mikilvægis frv. varð þó samkomulag um það í hv. heilbr.- og trn. Ed. að leggja til að frv. tæki gildi um næstu áramót í stað 1. sept. n. k., eins og frv. gerði ráð fyrir, og í ákvæðum til bráðabirgða er lagt til að ríkisstj. leggi fram frv. fyrir 1. jan. n. k. sem létti greiðslubyrðar Atvinnuleysistryggingasjóðs og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eða tryggi þeim nýja tekjustofna. Mér þykir miður, að sjálfsögðu, að gildistaka frv. dragist um 4 mánuði, en legg þó eindregið til vegna mikilvægis málsins að brtt. heilbr.- og trn. hv. Ed. verði samþykktar svo og frv. sjálft að öðru leyti óbreytt.

Herra forseti. Ég fer nú að ljúka máli mínu. Lífeyrissjóður eða samræmt lífeyriskerfi, sem tryggt gæti öllum afkomuöryggi í ellinni, virtist fjarlægur draumur fyrir fáum árum, en löng leið hefst gjarnan á litlu skrefi og í þessu efni eru skrefin þegar orðin nokkur. Ég nefni stofnun hinna ýmsu lífeyrissjóða, lög um eftirlaun aldraðra félaga í stéttarfélögunum og lífeyrissamkomulag launþega og vinnuveitenda í febr. 1976. Nú liggur hér fyrir frv: sem mun, ef að lögum verður, marka enn eitt mikilsvert spor að þessu lokamarki. Úrtöluraddir kunna að spyrja hvort það sé réttlátt að stórum hópi fólks séu nú athent endurgjaldslaust mikilsverð réttindi sem aðrir hafi orðið að greiða fullu verði. En þá má spyrja á móti: Er það réttlátt að aðild að ákveðnum stéttarfélögum á síðustu árum starfsævinnar skuli ein sér geta skipt sköpum um framfærsluöryggi fólks í ellinni eins og nú er? Á aldraða fólkið að gjalda þess að lífeyriskerfi okkar hefur mótast án nægilegs heildarskipulags og er enn gloppótt? Ég held að allir sanngjarnir menn hljóti að fallast á að svo má ekki vera.

Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn. þessarar hv. d. Vænti ég þess, að sú n: hraði athugun frv. eftir föngum og að því verði staðfastlega stefnt að ljúka afgreiðslu þess fyrir þinglok í vor. Enn fremur legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr.