18.05.1979
Neðri deild: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4977 í B-deild Alþingistíðinda. (4302)

263. mál, eftirlaun aldraðra

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir og hæstv. félmrh. mælti hér fyrir í tómum sal fyrir kvöldmat, er gott mál. Það hefur verið undirbúið allmikið og ég ætla ekki að fara að ræða hér mikið efnisatriði frv. sjálfs. Um það er ekki ágreiningur. Ágreiningur um málið er um fjáröflunarleiðirnar.

Forsaga þessa máls er sú, að í samningum verkalýðsfélaganna 1977 gaf þáv. ríkisstj. út yfirlýsingu varðandi þetta mál, þ. e. að ýmsum, sem hafa verið út undan í tryggingakerfinu, skyldi reynt að veita lífeyri á svipaðan hátt og gert var 1969, þegar samið var við hina almennu lífeyrissjóði og samkomulag varð um að lög skyldu sett, eins og var síðan gert, um eftirlaun til aldraðra í stéttarfélögum. Um þær mundir voru nokkrir erfiðleikatímar, atvinnuleysi allverulegt og bar þá mikið á uppsögnum aldraðra á vinnumarkaðinum, t. d. hjá Eimskipafélagi Íslands sem þá sagði upp tugum manna. Þá var samið um þennan þátt, að þeir, sem ekki áttu neinn rétt í lífeyrissjóðum og gátu ekki eignast hann, voru orðnir það fullorðnir, skyldu fá sem svaraði 15 ára rétti í lífeyrissjóði.

Þessi lög hafa tekið ýmsum breytingum á þeim tíma sem liðinn er, síðast í samningunum 1977 þegar verðtrygging þeirra var enn endurbætt. Sá háttur er a, að þeir, sem njóta lífeyris samkv. þessum lögum, hafa fengið hann verðtryggðan, en lífeyrissjóðirnir, sem eru á samningssviði þeirra aðila sem þarna eiga hlut að samningum, greiða verðtrygginguna. Þeir hafa tekið hana á sínar herðar og verðtryggingin er orðin stór hluti af greiðslunum. Það var gert með þeim hætti að 1976 sömdu aðilar sín í milli um að mynda jöfnunarsjóð og allir sjóðirnir greiddu 4% af iðgjaldatekjum sínum til að standa undir þessari sérstöku verðtryggingu. Hjá ýmsum sjóðum eru þetta býsna miklar greiðslur. Ég get getið þess t. d., að á s. l. ári, árinu 1978, greiddi Lífeyrissjóður Dagsbrúnar og Framsóknar 66% af þeim tryggingum sem þarna er um að ræða, en aðeins þriðjungurinn kom frá því sem upphaflega var ætlað að stæði undir þessum tryggingum. Lífeyrissjóðirnir eru því búnir að taka á sig að segja má meginþunga þessa þáttar tryggingamálanna.

Þegar þetta samkomulag var gert 1977,— og ríkisstj. gerði það til þess að greiða úr málum þá og greiða fyrir samkomulagi í þeirri miklu vinnudeilu sem þá var, — þá var ekkert um það rætt á hvern hátt þessi nýi þáttur skyldi fjármagnaður og við spurningum þar að lútandi fékkst ekki neitt viðhlítandi svar. Ég var við þessa samninga og alveg sérstaklega um þennan þátt málanna. Að sjálfsögðu var gengið út frá því að ríkissjóður mundi að meginhluta til standa undir þessum greiðslum.

Síðan 1977 hefur verið unnið að þessum málum á vegum lífeyrisnefndar, sem kölluð hefur verið sjö manna nefnd og er mynduð af fulltrúum Alþýðusambands Íslands annars vegar og fulltrúum samtaka vinnuveitenda hins vegar, Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna. Í þessari n. var fullt samkomulag um aðferð til þess að tryggja þennan hóp með líkum lífeyrisgreiðslum og hinn fyrri hafði fengið. En alveg frá byrjun var álitamálið hvernig ætti að afla fjár til þessara nýju trygginga.

Það kom fljótt í ljós að lífeyrissjóðirnir, sem á þessu samningssviði voru, lýstu sig reiðubúna til að taka einhvern þátt í þessum nýju tryggingum og gáfu yfirlýsingu um að 1% til viðbótar þeim 4%, sem þeir höfðu áður greitt í hinn fyrri jöfnunarsjóð, gæti vel komið til mála. En eins og hæstv. félmrh. kom inn á í ræðu sinni tók kostnaður við þessar tryggingar miklum breytingum, allar upphæðir breyttust mikið, má segja næstum frá degi til dags, og undir lokin, þegar gengið var frá þessum málum, voru allar upphæðir orðnar allt aðrar en þær sem voru þegar byrjað var að ræða þessi mál.

Ég ætla ekki að rekja þetta nánar. En það er önnur n. einnig á þessu sviði, svokölluð sautján manna nefnd. Þar koma til viðbótar þeim sjö, sem ég áður nefndi, fulltrúar frá ýmsum samtökum lífeyrissjóða og jafnvel einstökum lífeyrissjóðum og auk þess nokkrir embættismenn, en sú n. hefur fyrst og fremst haft það á sínu verksviði að ræða möguleika og leiðir til þess að koma á einu samfelldu lífeyrissjóðskerfi fyrir alla landsmenn.

Í sjö manna nefndinni var fullt samkomulag milli allra aðila, bæði fulltrúa verkalýðssamtakanna og einnig fulltrúa atvinnurekendasamtakanna. um aðferðir til fjármögnunar, og það geta menn séð á öftustu síðu frv. Það er svo kölluð leið I. Það var fullt samkomulag í sjö manna nefndinni um þessa leið. Þegar til hinnar stóru nefndar kom, sem fjallaði um málið þegar búið var að ganga frá því í sjö manna nefndinni, stóðu allir lífeyrissjóðaaðilar undantekningarlaust að þessari tillögu, tillögu I. Þar með var ærið drjúgur meiri hl. í n. fyrir þessari leið. Það voru hins vegar embættismennirnir, fulltrúar ríkisvaldsins, og aðrir úr þeim herbúðum sem hins vegar héldu fram leið II. Sú leið felur það í sér í stuttu máli sagt, — ég ætla að það sé kjarni málsins um þessar nýju tryggingar sem samkomulag var um að koma á með yfirlýsingu ríkisstj. í samningunum 1977,— að reikningurinn skyldi sendur þeim sem átti að greiða fyrir í þessari vinnudeilu, þeir skyldu borga reikninginn, allan kostnaðinn. Það er „billega“ sloppið, verð ég að segja, þegar ríkisstj. tekur að sér að hafa milligöngu í málum eins og þessu og eins og á stóð 1977, að láta svo þá, sem verið er að greiða fyrir, borga brúsann.

Staða lífeyrissjóðanna er nú orðin býsna mikið önnur en hún var 1977 varðandi greiðslubyrði vegna verðtryggðs lífeyris þeirra sem njóta lífeyris samkv. lögunum frá 1971, um eftirlaun til aldraðra í stéttarfélögum. Ég gat um Lífeyrissjóð Dagsbrúnar og Framsóknar áðan, en það er fjöldi annarra lífeyrissjóða, einkum í hinum almennu verkalýðsfélögum, sem nákvæmlega eins er ástatt um. Það munar ekki miklu á stöðu þessara sjóða og Lífeyrissjóðs bænda sem einn er tekinn út úr í þessu frv. og á að hlaupa undir bagga með. Hann á ekki að greiða, heldur að fá verulegar greiðslur. Það á að létta af honum þeirri verðtryggingarbyrði sem þegar er komin á þann sjóð. Hún er að vísu örlítið meiri en hjá einstaka öðrum sjóðum, en það munar ekki miklu.

Þetta er almennt að segja um stöðu lífeyrissjóðanna í þessu efni. Það var lagt til í till. I að ríkissjóður kæmi miklu meira inn í þetta en gert er með þessu frv. og till. II, eins og hún er úr garði gerð. Það var ætlun þeirra, sem stóðu að till. I, að létt yrði á lífeyrissjóðunum sem nú eru komnir með svo mikla byrði af verðtryggingunni að ekki er sjáanlegt að þeir geti til lengdar staðið undir því. En sem sagt, nú er í stað þess að létta þar eitthvað enn bætt byrði á þessa sjóði.

Nú vil ég aðeins að menn hafi það í huga, að þeir, sem hér eru að koma inn í þessa nýju tryggingu, hafa ekki eða að ákaflega litlu leyti verið á sviði þeirra lífeyrissjóða sem nú eiga að greiða kostnaðinn. Það er ekki eins og var 1969. Þeir, sem þá fengu greiðslurnar, hefðu fallið undir þá lífeyrissjóði sem þá voru að taka til starfa ef þeir hefðu ekki verið orðnir jafnaldraðir og raun var á, enda er í lögunum frá 1971 ákvæði um að lífeyrissjóðirnir taki smátt og smátt á sig allar greiðslur vegna þessa fólks, og 1985 deyr út það sem lögin frá 1971 áttu að þjóna. Þá áttu lífeyrissjóðirnir að hafa tekið við að fullu, eins og hæstv. félmrh. gat um í ræðu sinni. Hér er t. d. um að ræða allstóran hóp atvinnurekenda, einyrkja kannske fyrst og fremst. Þess vegna er ekki neinu saman að jafna að leggja byrðar á lífeyrissjóðina vegna þessa fólks eins og var með þá sem féllu undir lögin frá 1971.

Til viðbótar við þessa sjóði á samningssviði Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins og reyndar nokkra fleiri er nú ætlast til að allir lífeyrissjóðir í landinu, bæði samningsbundnir og lögbundnir, greiði 5% af iðgjaldatekjum sínum til að standa undir þessum tryggingaþætti. Það er út af fyrir sig ekki nema sjálfsagt, ef þessir sjóðir eiga að greiða 5%, að aðrir sjóðir í landinu geri það líka.

Ég skal láta útrætt um þennan þátt málsins. En það eru fleiri sem eiga að koma til og greiða kostnaðinn vegna þessara trygginga. Þegar málið kemur núna frá Ed., sem hefur afgreitt það, og búið er að telja upp hverjir greiði í lífeyrissjóðina, þá er það fram tekið að að öðru leyti skuli ríkissjóður, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga og Atvinnuleysistryggingasjóður standa að jöfnu undir kostnaði af greiðslum samkv. þessari mgr. Það er æðimikið sem kemur í hlut þessara tveggja aðila utan ríkissjóðs, þ. e. Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Ég ætla ekki að gera Jöfnunarsjóð sveitarfélaga mikið að umtalsefni hér. Það er kannske ekki óeðlilegt að hann komi þarna inn í, vegna þess að þó nokkur hluti af því fólki, sem hér á að tryggja, mun hafa starfað hjá sveitarfélögunum. Hins vegar hef ég orðið þess áskynja, að sveitarfélögin og ráðamenn þeirra eru engan veginn sátt við að þetta sé lagt á Jöfnunarsjóð eins og hér er gert. En ég ætla að fara hér nokkrum orðum um Atvinnuleysistryggingasjóðinn.

Samkv. lögunum frá 1971 greiðir Atvinnuleysistryggingasjóður 3/4 af kostnaði þeirra trygginga, þ. e. a. s. af grunnlífeyri, en ríkissjóður 1/4. Þegar samið var um þetta á sínum tíma var ekki ákveðið neitt hlutfall í samningunum. Það var hins vegar ákvörðun þáv. ríkisstj., sem var við völd 1969–1970, að þetta hlutfall skyldi vera, og út af fyrir sig voru ekki hávær mótmæli gegn því. Það mátti teljast eðlilegt að Atvinnuleysistryggingasjóður, sem þá var vel stæður sjóður, tæki þátt í þessum kostnaði, og ekki síst vegna þess að fyrir alla þá, sem falla undir lögin frá 1971, hafði verið greitt árum saman til atvinnuleysistryggingasjóðs. Því er hins vegar allt öðruvísi farið núna. Ég hygg að vandfundnir séu þeir einstaklingar, sem nú falla undir þessa nýju tryggingu sem áætluð er, sem hafi verið greitt fyrir til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég ætla ekki að fullyrða að það sé enginn, en þeir eru áreiðanlega mjög fáir. Ég álít að það sé alger fjarstæða að leggja þennan bagga nú á Atvinnuleysistryggingasjóð.

Oftar en einu sinni hefur staða Atvinnuleysistryggingasjóðs eins og hún er í dag komið til umr. hér á hv. Alþ. Hún er slík að það má ekkert út af bera, ekkert verulegt atvinnuleysi koma til svo að sjóðurinn verði ekki algerlega greiðsluvana. Hann er með stóran höfuðstól, en lausafjárstaða sjóðsins er slík, að hún mun nú vera eitthvað nálægt 500 millj. Vegna þeirra bagga, sem á þennan sjóð hafa verið lagðir af löggjafarvaldinu, er staðan sú sem ég nú sagði.

Hæstv. ráðh. kom aðeins inn á þessi mál í ræðu sinni hér fyrr í kvöld og taldi að nauðsynlegt væri að létta byrðum af Atvinnuleysistryggingasjóði. En ég álít að það sé algert ábyrgðarleysi, svo að ekki sé meira sagt, að ætla sér að leggja þennan viðbótarbagga á Atvinnuleysistryggingasjóð án þess að búið sé áður að létta verulegum útgjöldum af honum sem hann nú stendur undir auk þess verkefnis síns að greiða bætur þegar atvinnuleysi steðjar að. Á öllum stigum málsins, þegar það var rætt í þeim n. sem ítafa undirbúið það, lágu alltaf fyrir mótmæli gegn því að Atvinnuleysistryggingasjóður tæki þessar greiðslur á sig. Þegar endanlegar till. voru gerðar var greiðslan frá Atvinnuleysistryggingasjóði á engan hátt með í greiðsluáætlun þeirra sem stóðu að tillögugerðinni, nema embættismannanna, á engan hátt reiknað með að Atvinnuleysistryggingasjóður ætti neitt að greiða í þessum efnum.

Ég ætla ekki að fara að telja hér upp hvaða baggar það eru sem Atvinnuleysistryggingasjóður er skuldbundinn til að verja fé sínu til. Það má minnast á að fyrir helming allra iðgjaldatekna, — ríkissjóður greiðir helming af þeim iðgjöldum sem Atvinnuleysistryggingasjóður fær, — fyrir þessa fjármuni á sjóðurinn að kaupa verðbréf af Byggingarsjóði, þannig að það er ekki til ráðstöfunar. Síðan eru þær greiðslur sem eru samkv. lögum frá 1971, um eftirlaun til aldraðra í stéttarfélögum. Ráðgert er að á þessu ári verði það röskar 500 millj. Loks er sá baggi sem ég hef átt erfiðast með að þola, þ. e. fæðingarorlofið, sem á þessu ári mun áreiðanlega ekki verða undir 700 millj. kr., var á s. l. ári um 520 millj. og hærri upphæð en nam atvinnuleysisbótum.

Svo að ég komi aðeins nánar inn á Atvinnuleysistryggingasjóðinn, þá hefur stjórn sjóðsins einróma mótmælt því, að þessi greiðsla falli nú á sjóðinn sem viðbótargreiðsla sem var áætlað á þessu ári samkv. frv. að næmi röskum 300 millj. kr., en verður náttúrlega miklu hærri upphæð á næsta ári. Ég verð að segja það, að það er a. m. k. frá mínum bæjardyrum séð hreint og beint ömurlegt að núv. hæstv. ríkisstj. skuli standa að slíkri aðför að Atvinnuleysistryggingasjóði sem hér er gert.

Ég vænti þess, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, athugi þetta vel. Það liggja sjálfsagt æðimörg plögg fyrir orðið hjá nefndinni í Ed., en ég held að það sé sjálfsagt að heilbr.- og trn. þessarar d. kynni sér málin á sama hátt og Ed.- nefndin gerði og fái menn til sín til þess að sú mynd af þessu, sem fyrir liggur, verði sem allra skýrust fyrir nm.

Ef ekki verður nein breyting á þessum málum í n. mun ég flytja brtt. við frv. Ég álit að það sé í raun og veru fráleitt að málið verði afgreitt með þeim hætti sem það nú er. Ég álit að gildistíminn, sem breytt var í meðferð Ed., sé í raun og veru ekki til neinna sérstakra bóta út af fyrir sig. Það er aðeins verið að draga málið á langinn. Ákvæði til bráðabirgða álít ég að séu einskis virði hreinlega einskis virði um það að fyrir 1. jan. 1980 skuli ríkisstj. leggja fram frv. til l. sem létti greiðslubyrði á Atvinnuleysistryggingasjóði og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eða tryggi þeim nýja tekjustofna. Ég hef ekki þá tiltrú, ef þetta fer þannig í gegn eins og nú er að þá komi mikið út úr því sem sagt er í þessu ákvæði til bráðabirgða.

Ég held að það sé algerlega ljóst, að eins og lífeyrismálum er komið í landi okkar sé engan veginn sæmandi aðferð að senda þeim, sem átti að aðstoða, reikninginn fyrir kostnaðinum á sama tíma og stór hluti lífeyrisþega hefur fulltryggðan lífeyrissjóð á kostnað skattgreiðendanna í landinu. Ég held að með þessu sé slík mismunun gerð að það eigi ekki að líðast og þó að hér sé um mjög gott mál að ræða út af fyrir sig, þ. e. a. s. tryggingu til þessa fólks, þá séu ágallarnir á fjáröflun til þess að standa undir þessum tryggingum svo slæmir og áberandi mismunun, að þetta mál sé betur geymt einhvern tíma þangað til endanlegt samkomulag næst um fyrirkomulag kostnaðarhliðar málsins.