14.11.1978
Sameinað þing: 19. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

54. mál, fjárlög 1979

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Að áliti okkar Alþfl.-manna er það meginviðfangsefni þessarar ríkisstj., sem við eigum aðild að, að takast á við verðbólguna og ná þar árangri. Ástæðan liggur að sjálfsögðu í augum uppi. Um sjö ára skeið höfum við búið við verðbólgu um eða yfir 40%. Ekkert annað land á svipuðu menningarstigi og Ísland er hefur þurft að þola annað eins.

Það er almennt talið, að þegar verðbólga fer mikið yfir 30% sé illmögulegt að ráða við stjórn efnahagsmála. Í þeim löndum, þar sem er her eða sterk lögregla, vitum við af reynslunni, að þegar verðbólga er orðin jafnmikil og hún hefur verið á Íslandi undanfarin 7 ár er lýðræði og frelsi í hættu. Slíkt upplausnarástand er m.a. afleiðing af verðbólgu eins og þeirri sem við höfum þekkt.

Að vísu býst ég ekki við að við Íslendingar þurfum að óttast byltingu. Til þess að svo fari höfum við t.d. hvorki her né lögreglu. — Hitt er að sjálfsögðu ljóst, að ef heldur áfram sem horfir í þessum verðbólgumálum, þá hlýtur þjóðfélag okkar að brotna smátt og smátt í mola og ýmsir þeir þættir, sem við höfum verið að byggja upp á umliðnum árum í sambandi við félagsleg málefni og félagslega samhjálp, hrynja til grunna.

Það er því alveg rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði áðan, að verðbólguástandið á Íslandi hefur leitt til slíks neyðarástands, að það hlýtur að vera meginviðfangsefni hverrar ríkisstj. og þ.á m. þeirrar, sem nú situr, að reyna að beita sér af afli gegn verðbólgunni og ná þar árangri.

Minn flokkur, Alþfl., leggur höfuðáherslu á þetta meginverkefni ríkisstj., og við teljum, Alþfl.-menn, að við séum skuldbundnir kjósendum okkar til þess að leggja það á okkur sem við framast megum til þess að ná árangri í baráttunni við veróólguna. Ef það tekst ekki á árinu 1979 er ég sannfærður um að það er voði fram undan, ekki aðeins í efnahagsmálum þjóðarinnar, heldur einnig á stjórnmálavettvangi og í siðferðismálum þjóðarinnar almennt.

Við gerum okkur það ljóst, Alþfl.-menn, og tókum það sérstaklega fram í kosningabaráttunni í vor, að árangur næðist ekki án erfiðleika. Þetta tækist ekki án þess að byrðar yrðu lagðar á þjóðina. Þetta er auðvitað öllum ljóst og það þýðir ekkert að mótmæla því. Það þýðir ekki að láta eins og þeir hlutir, sem yfir okkur hafa dunið s.l. 7 ár, hafi ekki gerst. Við getum ekki hegðað okkur núna, á því herrans ári 1978, eins og við hefðbundið og venjulegt ástand væri að fást í efnahagsmálum þjóðarinnar. Hér er um að ræða hreint neyðarástand. Ef okkur tekst ekki að ná einhverjum árangri í baráttunni við verðbólguna á næstu mánuðum, þá er það skoðun mín að þá sé íslensku þjóðfélagi hætt.

Þess vegna höfum við Alþfl.-menn lagt áherslu á gerbreytta efnahagsstefnu, og ekki aðeins á að stefnunni sé breytt, heldur einnig að önnur vinnubrögð verði upp tekin, bæði á Alþ., af ríkisstj. og af öðrum þeim sem með fjárhags- og efnahagsmál þjóðarinnar fara.

Það er nefnilega alls ekki nóg að leggja byrðar á bök fólksins. Það er ekki nóg að færa fórnir. Það er ekki nóg að fórna bara fórnanna vegna. Ef við, sem eigum aðild að þessari ríkisstj., þurfum að leggja byrðar á þjóðina, eins og við þurfum að gera, þá verður þjóðin að hafa trú á þeim ráðstöfunum sem gerðar eru. Þá verðum við sjálfir að trúa því, að þær séu réttar, og þá verður a.m.k. að vera hægt að skapa þjóðinni þá von, að þessar byrðar séu á hana lagðar í þeim tilgangi að ná árangri í baráttunni við hinn erfiða verðbólguvanda.

Í sambandi við þá gerbreyttu efnahagsstefnu, sem við Alþfl.-menn höfum talað um og barist fyrir, bæði í kosningunum í vor og allar götur til þessa dags, og munum halda áfram að berjast fyrir, fjöllum við um breytingar á stefnunni í fjárfestingarmálum, í vaxta- og peningamálum, í vísitölumálum og í ríkisfjármálum, svo að nokkur dæmi séu nefnd.

Við höfum þegar lagt fram á þingi í frumvarpsformi hugmyndir okkar um breytta stefnu í vaxtamálum. Við höfum innan ríkisstj. og í samtölum við verkalýðshreyfinguna lagt áherslu á vilja okkar um breytta stefnu í vísitölumálum. Við höfum lagt fram till. okkar við samstarfsflokka okkar í ríkisstj. um breytta stefnu í fjárfestingarmálum. Og nú fjöllum við um ríkisfjármálin og þar viljum við Alþfl.-menn stuðla að stefnubreytingu, vegna þess að beiting stjórnunar í ríkisfjármálunum er eitt mikilvægasta tækið í baráttu við verðbólgu.

Þess vegna er það frv. til fjárl., sem hér er nú lagt fram og til umr. er á þessum fundi, mjög afdrifaríkt mál. Það er að sjálfsögðu auðveldast fyrir þessa ríkisstj., eins og þær sem setið hafa á undan henni, að láta allt vaða á súðum í ríkisfjármálum. Það er hin beina og breiða braut. Það er hin auðvelda leið. En sú beina og breiða braut liggur til glötunar. Það höfum við lært á s.l. 7 árum, þ.e.a.s. þeir okkar sem eitthvað hafa af því lært.

Það er öllu erfiðara að feta þann krókótta stig sem liggur að því marki, sem stjórnarflokkarnir, sem að þessari ríkisstj. standa, hafa ásett sér að ná, og það verður talsverður prófsteinn fyrir þessa ríkisstj. einmitt við afgreiðslu fjárl. nú, hvort hún hefur þrótt til þess að feta sig út af hinni beinu og breiðu braut og á þá erfiðu braut sem ein liggur að settu marki.

Fjárlagafrv., sem nú er til umr. og afgreiðslu á þinginu, er prófsteinn á styrk þessarar ríkisstj. og þeirra flokka sem að henni standa.

Frv. eins og fjárlagafrv. er að sjálfsögðu yfirgripsmikið plagg og lengi í smíðum. Eins og hv. 1. þm. Austurl. tók fram í ræðu sinni áðan, lá fjárlagafrv. fullbúið í rn. þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum. Það liggur auðvitað ljóst fyrir, að það þarf mikinn tíma ef menn ætla sér að endurskapa fjárlagafrv. sem hefur verið í mótun í marga mánuði. Það þarf svo mikinn tíma til þess fyrir ríkisstj. að endurskapa fjárlagafrv. að sínum vilja, að óhætt er að fullyrða að fyrstu raunverulegu fjárl. ríkisstj. séu ekki fyrstu fjárl., sem sett eru á starfstíma hennar, heldur fjárl. nr. 2.

Núv. ríkisstj. var engu að síður staðráðin í því að reyna að móta fjárlagafrv. það, sem hér er til umfjöllunar, sem allra mest með tilliti til stefnu sinnar. Og mér finnst það eðlilegt og nauðsynlegt, vegna þess, eins og ég sagði áðan, að það liggur mikið við að þegar í stað verði spyrnt við fótum í verðbólgumálunum.

Ég sagði áðan, að þegar ríkisstj. kom til valda hafi fjárlagafrv. verið fullbúið í rn. og mikill tími mundi fara í að endurgera slíka smíð að vilja núv. ríkisstj. Þess vegna var það rétt, sem hv. 1. þm. Austurl. sagði áðan, að sú var afstaða okkar Alþfl.-manna, sem þingflokkur Alþfl. mótaði, að óska eftir því við hæstv. fjmrh., að það frv., sem var í hans rn. tilbúið þegar hann tók við störfum, yrði lagt fram strax í upphafi þessa þings, svo að fjvn. gæti farið að starfa með eðlilegum hætti. Það yrði fram tekið, þegar frv. væri lagt fram, að hér væri ekki um að ræða frv. hæstv. ríkisstj., heldur mundi hún laga frv. að sinni stefnu í meðferð málsins á þinginu, þannig að það er alveg rétt, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Austurl., að þessa afstöðu mótuðum við Alþfl.-menn og ráðh. Alþfl. báru hæstv. fjmrh. þessa beiðni okkar. Þeir Alþb.-menn voru sömu skoðunar, en engu að síður var ekki við þessum óskum orðið.

Þetta er skýringin á því, hversu frv. er nú seint á ferðinni, og í grg. frv. kemur beinlínis fram, að tími hefur ekki unnist til þess að ná samkomulagi stjórnarflokkanna þriggja um alla þætti frv., þ. á m. ýmis meginefni frv., og þau mál eru því óútkljáð.

Land okkar hefur lengi verið land samsteypustjórna. Undir slíkum kringumstæðum hljóta vinnubrögð að verða önnur en þar sem einn flokkur fer með meiri hl. á þingi og einn með stjórn. Hér á Íslandi verða stjórnarflokkar að semja sín á milli um öll meiri háttar mál. Enginn einn stjórnmálaflokkur í slíku samstarfi getur þannig ætlast til að fá allt sitt fram. Flokkarnir verða að sætta sig við meiri og minni tilslakanir, meira og minna fráhvarf frá þeirri stefnu sem þeir hafa fengið stuðning við.

Margt í því frv., sem hér er lagt fram, erum við Alþfl.menn ánægðir með og getum stutt. Við erum hins vegar óánægðir með annað og atfarið á móti ákveðnum efnisþáttum frv. sem ég mun rekja síðar.

Í þeim umr., sem farið hafa fram milli stjórnarflokkanna, bæði í ríkisstj. og á öðrum vettvangi, höfum við Alþfl.-menn lagt áherslu á eftirfarandi atriði.

Í fyrsta lagi höfum við viljað láta draga úr umsvifum hins opinbera og þá einnig hvað framkvæmdir varðar. Það er alveg ljóst, ég hef sjálfur oft staðið hér í ræðustól á umliðnum árum og gagnrýnt það, að margar framkvæmdir, ríkisframkvæmdir og hálfopinberar framkvæmdir, hafa beinlínis stuðlað að verðbólguþróun í landinu, hafa skapað spennu, og starfshættir við slíkar framkvæmdir hafa verið þannig, að einkaaðilum hefur ofboðið. Við teljum mjög rangt, á sama tíma og við erum að reyna að draga úr þessari spennu, að keyra þá framkvæmdir af slíku tagi á fullu. Þess vegna er það skoðun okkar og stefna, að draga beri úr umsvifum hins opinbera, einnig úr framkvæmdum. Við gerum okkur fyllilega ljóst, að það kann að vera að það sé ekki vinsælt mál, en það er bara ekki hægt að leysa þann efnahagsvanda, sem við er að etja, með eintómum vinsælum aðgerðum.

Það ætti reynsla s.l. 7 ára að hafa kennt okkur.

Í annan stað höfum við Alþfl.-menn lagt mikla áherslu á það, eins og ég sagði áðan, að mörkuð yrði önnur fjárfestingarstefna eða öllu heldur að mörkuð yrði fjárfestingarstefna sem ekki hefur verið finnanleg af hálfu opinberra aðila á umliðnum árum. Við höfum þegar lagt fram við samstarfsflokka okkar hugmyndir um þau efni, tillögur lið fyrir lið, sem þeir hafa til umfjöllunar.

Í þriðja lagi leggjum við höfuðkapp á það, að dregið verði úr rekstrarútgjöldum ríkisins og ríkisstofnana. Ég vil taka undir það með hæstv. fjmrh., að það gerist ekki með því að fyrirskipað sé t.d. í fjárl., að ríkisfyrirtæki og ríkisstofnanir minnki útgjöld sín um þetta og þetta mörg prósent. Sparnaður í rekstrarútgjöldum hjá ríki og ríkisstofnunum getur aðeins náð árangri ef hann er unninn þannig, að teknar eru fyrir einhverjar tilteknar stofnanir og þeim fyrirskipað að gera ákveðnar aðgerðir á mannahaldi sínu, framkvæmdaáformum og fleira sem skapar aukið aðhald. Þetta viljum við Alþfl.-menn að gert verði og viljum einlæglega óska eftir því við hæstv. fjmrh., að þegar lengra fram í sækir í meðferð fjárlagafrv. á Alþ., þá taki hann þau mál til sérstakrar skoðunar frekar en gert hefur verið. Svo dæmi sé nefnt, þá teljum við t.d. koma mjög vel til mála að taka til athugunar rekstur ríkisfyrirtækja eins og t.d. Landhelgisgæslunnar og gera það upp við sig, hvort sé rétt að haga rekstri Landhelgisgæslunnar á árinu 1979 með sama hætti og gert var þegar við Íslendingar áttum í þorskastríði. Þetta er ekki vinsælt mál, að taka fyrir ríkisstofnanir, t.d. eins og Landhelgisgæsluna eða önnur slík ríkisfyrirtæki, og gera tilteknar tillögur um sparnað á rekstri þeirra. En ef menn vilja ná árangri í slíkum málum verða þeir að gera það svona, hvort sem það er vinsælt eða óvinsælt. Öðruvísi næst árangur ekki. Öðruvísi er ráðstöfunin ekki einu sinni þess pappírs virði, sem hún er skráð á.

Í fjórða lagi höfum við Alþfl.-menn í sambandi við uppsetningu þessa fjárlagafrv. lagt á það höfuðáherslu að stöðva þá skuldasöfnun sem einkennt hefur ríkisbúskapinn að undanförnu. Við höfum lagt á það höfuðáherslu, að núv. ríkisstj. breyti um stefnu, skili mjög verulegum rekstrarafgangi hjá ríkissjóði og að þeim rekstrarafgangi verði varið til þess að greiða niður erlendar skuldir þjóðarinnar. Við höfum lifað um efni fram á umliðnum árum. Það er staðreynd sem öllum hlýtur að liggja í augum uppi. Við getum ekki haldið áfram öllu lengur á þeirri braut. Einhvern tíma kemur að reikningsskilum. Einhvern tíma verður íslenska þjóðin að fara að greiða niður þær skuldir sem hún hefur safnað á umliðnum árum. Við Alþfl.-menn teljum að löngu sé orðið tímabært, að það sé gert. Við höfum stutt þá skoðun hæstv. fjmrh., að þetta beri að gera núna, þetta beri að gera þannig, að tryggt sé að mjög verulegur rekstrarafgangur verði hjá ríkissjóði sem notaður sé til þess að greiða niður skuldir þjóðarinnar erlendis. Ég tel að þessi ríkisstj. vinni gott verk, ef henni tekst að snúa við af braut skuldasöfnunar og á braut skuldaskila.

Ég verð að segja eins og er, að það hefur verið tekið mjög verulegt tillit til ýmissa þeirra atriða, sem ég hef nú nefnt, í sambandi við fjárlagafrv. sem hér liggur fyrir. En gagnvart ákveðnum, afmörkuðum efnisþáttum, sem við höfum óskað mjög eindregið eftir að tekið yrði tillit til við gerð fjárlagafrv., hefur ekkert tillit verið til tekið, heldur þvert á móti.

Þetta er í fyrsta lagi fólgið í skattastefnu þeirri, sem boðuð er í fjárlagafrv., og í öðru lagi í þeirri stefnumörkun, sem þar er að finna hvað landbúnaðarmálin varðar.

Ég tek síðasta málið fyrst og lýsi afstöðu þm. Alþfl. til þess, sem um það segir í þessu fjárlagafrv.

Það er ekki ástæða til að tala langt mál um afstöðu Alþfl. í landbúnaðarmálum. Öllum landsmönnum er hún kunn. Við höfum bæði varað við afleiðingum þeirrar stefnu, sem fylgt hefur verið af þeim, sem málum hafa ráðið í landi hér í málefnum landbúnaðarins á undanförnum árum, og við höfum einnig gert till. um breytingar, m.a. hér á hinu háa Alþingi.

Nú er fram komið það sem við vöruðum við. Öllum er nú ljós þörfin á stefnubreytingu. Jafnvel þeir, sem staðið hafa á umliðnum árum í þessum ræðustól til þess að takast á við okkur Alþfl.-menn um landbúnaðarmálin með því að segja, að þar væri ekkert að, þar væri allt í besta horfi, þar væri stefnan mörkuð rétt, koma nú upp í þennan sama ræðustól til þess að lýsa miklum vilja sínum á því að breyta þessari stefnu, sem nauðsynlega þurfi að endurskapa.

Ég vil vara mjög eindregið við því, að fjárlagafrv., sem hér er til umr., verði afgreitt með þeirri stefnumörkun sem það felur í sér hvað landbúnaðarmálin varðar.

Við skulum gera okkur ljóst, að á næsta ári ætlum við að verja til þess að greiða niður vöruverð 18 milljörðum kr. röskum. Við höfum valið þann hátt á, eða öllu heldur sá kostur hefur verið valinn að nota alla þessa peninga til þess að greiða niður ákveðnar tegundir neysluvöru, þ.e.a.s. landbúnaðarvörur. Auðvitað hefði verið hægt að verja þessari upphæð til niðurgreiðslu á öðrum þáttum sem ráða miklu um lífsafkomu manna, t.d. hitunarkostnaði, olíuhitun á húsum, eins og hv. 1. þm. Austurl. var að ræða um áðan. En sú stefna hefur verið mörkuð að nota alla þessa 18 milljarða til þess að lækka verðið á landbúnaðarafurðum. Afleiðingin er sú, að líklegt er talið, að neysla á landbúnaðarvörum innanlands aukist um 16%. Það að auka neysluna á landbúnaðarvörum innanlands um 16% á næsta ári kostar ríkissjóð og íslenska skattborgara 18 milljarða. Engu að síður liggur það fyrir, að framleiðslan í landbúnaði hefur á yfirstandandi ári aukist um 8.4%. Ef við ætluðum að nota þennan framleiðsluauka eingöngu fyrir innanlandsmarkað, mundi hann samkvæmt þessum útreikningum kosta þjóðarbúið milli 9 og 10 milljarða kr. Um það bil helmingurinn af niðurgreiðslunum, sem verja á í búvörur á næsta ári, fer í að hylja þá framleiðsluaukningu sem verið hefur á yfirstandandi ári. Það breytir því ekki, að þrátt fyrir þetta virðist vera þörf á u.þ.b. 6–6.5 milljörðum í niðurgreiðslu á útfluttar landbúnaðarafurðir á árinu 1979.

Í fjárlagafrv. er áætlað, að til þess þurfi 5.3 milljarða röska. Þar kemur líka fram, að yfirleitt hafi þessi tala verið vanáætluð. Hún var vanáætluð fyrir yfirstandandi ár um 537 millj. Og ég hef ástæðu til þess að ætla að raunveruleg fjárþörf í þessu skyni sé 6–6.5 milljarðar kr. þegar allt er talið, þ.e.a.s. skuldagreiðslur frá fyrra ári og þessar 300 millj. kr. af verðjöfnunargjaldi sem flytjast hvað greiðslu varðar á árið 1979. Þá verðum við sem sé að greiða niður landbúnaðarafurðir um 18 milljarða kr. úr ríkissjóði hvað innanlandsneysluna varðar, og 6-6.5 milljarða þurfum við hvað útflutninginn varðar. Engu að síður er haldið áfram óbreyttri stefnu hvað varðar jarðræktarframlög og framlög til framræslu og önnur framlög úr ríkissjóði, sem beinlínis hvetja til aukinnar framleiðslu. Þessi stefna er ósamrýmanleg vilja okkar og skoðun.

Á fjárlögum ársins 1978 var varið til búnaðarmála og til niðurgreiðslu búvöruverðs 11.4 milljörðum kr. Samkv. áætlun fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að verja á næsta ári í þessu skyni 25.4 milljörðum. Á einu einasta ári hækka þessi útgjöld úr 11.4 milljörðum í 25.4 milljarða. Þetta þykir okkur Alþfl.-mönnum vera allstórt stökk. Okkur þykir það vera að hækka útflutningsbætur milli ára um 80–85%. Hlutfall af heildarútgjöldum ríkisins hvað þetta varðar hefur þannig aukist úr 8.3% í fjárl. 1978 í 12.8% í fjárlaga frv. 1979. Og ef niðurgreiðsluþátturinn er tekinn út úr þessum samanburði og aðeins miðað við þau framlög úr ríkissjóði, sem fara á vegum landbrn. til Stofnlánadeildar, jarðræktarframlög, til framræslu, ýmis framlög og uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir, þá hækkar þessi þáttur einn úr 4.5 milljörðum á fjárlögum 1978 í 7.4 milljarða í fjárlagafrv. 1979 og í hlutfalli af heildarútgjöldum úr 3.3% árið 1978 í 3.7 árið 1979.

Við Alþfl.-menn sættum okkur ekki við þennan þátt fjárlagafrv. Við viljum að gerð sé stefnubreyting í landbúnaðarmálunum í átt til okkar sjónarmiða. Við munum beita okkur fyrir því, að þessi breyting verði gerð í meðförum þingsins á fjárlagafrv., og ég tel harla ólíklegt að þm. Alþfl. samþykki þennan þátt frv. ef sú breyt. fæst ekki fram.

Hitt atriðið, sem við erum ósáttir við, er varðandi skattastefnu þá sem í frv. er boðuð, þ.e.a.s. hvað varðar beina skatta sem lagðir eru á einstaklinga samkv. þeim ráðagerðum sem uppi eru í þessu frv. Það hefur verið eitt af meginatriðum í málflutningi okkar Alþfl.-manna undanfarin 7 ár og einnig nú í kosningabaráttunni, að upp skuli taka í landinu nýja stefnu í skattamálum, sem í fáum orðum er fólgin í því að afnema beina skatta á almennar launatekjur, en taka í auknum mæli upp neysluskatta með breytingum á innheimtufyrirkomulagi þess söluskatts sem við nú þekkjum.

Ég ætla ekki að þreyta þingheim með því að fara mörgum orðum um þetta mál. Þeir þm., sem átt hafa sæti á Alþ. áður, þekkja þessi sjónarmið af þremur þáltill. sem Alþfl. hefur flutt. Þm. Alþfl. hafa auk þess flutt á þskj. 84 till. til þál. um virðisaukaskatt í stað söluskatts og um afnám tekjuskatts af almennum launatekjum, sem kemur til umr. og afgreiðslu á þessu þingi. Við getum því beðið með nánari umr. um þessa skattamálastefnu Alþfl. þar til sú þáltill. kemur á dagskrá.

Í haust féllumst við Alþfl.-menn á þau úrræði sem óhjákvæmileg voru að okkar mati svo og allra annarra til þess að koma í veg fyrir þá bráðu hættu sem við blasti í atvinnumálum á Íslandi. Við féllumst á það bráðabirgðaúrræði að beita beinum sköttum til þess að afla ríkinu tekna til þess að greiða niður verð á vöru, sem er í vísitölunni. Allir hljóta auðvitað að gera sér ljóst hvernig á því stendur, að beitt var beinum sköttum til fjáröflunar í þessu skyni. Beinum sköttum var auðvitað beitt til fjáröflunar í þessu skyni vegna þess, að þeir eru ekki inni í vísitölunni. Gagnvart vísitölunni virðist þannig vera um kjarabætur að ræða þegar skattar voru hækkaðir, en niðurgreiðslur auknar.

Við Alþfl.-menn lítum þannig á, eins og ég held að allir stjórnarflokkarnir hafi gert, að þessi úrræði frá því í haust væru neyðarúrræði, væru til bráðabirgða, og m.a. að vilji væri fyrir því og áform í ríkisstj. að taka þessa lausn — þessa neyðarlausn — til endurskoðunar þegar á árinu 1979, m.a. þá skattlagningu sem í henni fólst. Hæstv. fjmrh. hefur skipað þingmannanefnd stjórnarflokkanna, sem einn af þm. Alþfl. á sæti í, til að skoða þennan þátt. En það, sem okkur Alþfl.-mönnum líkar miður, er að fjárlagafrv. gengur mun lengra í þessa átt en brbl., neyðarúrræðin frá því í haust, gerðu. Þar er t.d. skattvísitalan miðuð við breytingar á verðlagi, en ekki breytingar á tekjum. Niðurstaðan af því er sú, að þessi viðmiðun eykur skattbyrðina um 3 milljarða kr. Þessi viðmiðun lækkar skattleysismörk tekjuskattsins og gerir tekjuskattinn að meiri launamannaskatti á árinu 1979 heldur en hann var á árinu 1978. Þessi ráðstöfun hefur það í för með sér, að fleiri lágtekjumenn greiða tekjuskatt á árinu 1979 en á árinu 1978. Og þm. Alþfl. eru ekki reiðubúnir til að samþykkja þetta, nýkomnir út úr kosningum. Það kemur ekki til mála. Þm. Alþfl. munu ekki samþykkja slíka ráðstöfun á árinu 1979. Og til frekari upplýsinga fyrir menn, þá munum við ekki heldur gera það á árinu 1980, á árinu 1981 né á árinu 1982. Það hlýtur að vera öllum ljóst, að Alþfl., sem hafði að meginstefnumáli að leggja niður hinn óréttláta launamannaskatt sem tekjuskatturinn er, getur ekki á árunum 1978, 1979, 1980, 1981 eða 1982 gert þann tekjuskatt að meiri launamannaskatti en hann var fyrir kosningarnar í vor.

Það var sagt hér áðan, að skattbyrði á Íslandi væri ekki mjög mikil í samanburði við önnur lönd. Það fer nú eftir því hvaða lönd eru valin til viðmiðunar. Ég er hér með upplýsingar, unnar af Þjóðhagstofnun, um skatttekjur hins opinbera sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu. Á s.l. 20 árum, frá árinu 1960 til ársins 1979, hefur skattbyrðin, skatttekjur hins opinbera, í hlutfalli af vergri þjóðarframleiðslu aukist úr 27.4 í 38.2%. Á árinu 1974 var t.d. skattbyrðin mæld með þessum hætti í Írlandi 33%, í Bretlandi 36%, í Finnlandi 36%, í Frakklandi 36%, í Þýskalandi 38% og í Austurríki 37%. Samkv. þessari viðmiðun er skattbyrðin þyngri á Íslandi á árinu 1979 heldur en var í þessum löndum, sem ég taldi upp, á árinu 1974. Því miður hef ég ekki nýrri samanburðartölur. En hitt er að sjálfsögðu rétt, að það eru til lönd sem hafa hærra skattbyrðarhlutfall en þetta, svo sem Noregur með 46, Danmörk 46, Svíþjóð 43 og Holland 46. En það er líka ástæða til að vekja athygli á því, að skatttekjur hins opinbera sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu hafa hækkað mjög ört á tiltölulega fáum síðustu árum. Þannig var þetta hlutfall árið 1977 33%, er áætlað á árinu 1978 35% og er spáð á næsta ári, á árinu 1979, 38.2%. Hækkunin er mjög ör, og það er vissulega kominn tími til þess, að stjórnmálamenn fari að spyrna við fótum, fari að hætta þeirri stefnu sinni að mæta ávallt útgjaldaþörf ríkissjóðs með nýrri skattlagningu og nýjum sköttum án þess að leiða hugann að því, hvort væri nauðsynlegt að leysa tekjuvandamál ríkissjóðs með þeim hætti, hvort ekki væri hægt að gera ráðstafanir til sparnaðar og aðhalds í ríkisfjármálum.

Ég hef einnig í höndunum aðrar mjög merkilegar upplýsingar. Þær tölur, sem ég rakti hér áðan, voru skatttekjur hins opinbera, þ.e.a.s. bæði óbeinir og beinir skattar. En ég hef hér áætlun, auk þess sem ég nefndi áðan, um beina skattbyrði einstaklinga á árunum 1964–79, þ.e.a.s. hversu þungbær hin beina skattbyrði var á þessum árum. Samkv. lauslegri áætlun er gert ráð fyrir að á árinu 1979 nemi byrði beinna skatta í prósentum af tekjum fyrra árs 19.7% og hefur aldrei verið hærri frá árinu 1974 nema í eitt skipti, árið 1972, þá nam byrði beinna skatta í hlutfalli af tekjum fyrra árs 20.2%, en er áætlað, eins og ég sagði áðan, 19.7% á næsta ári. Og það er gert ráð fyrir að skattbyrði beinna skatta, mæld með þessum hætti, hækki um rúmlega eitt prósentustig milli ára frá 1978 til ársins 1979 eða úr 18.8% í 19.7%. Þarna viljum við Alþfl.-menn spyrna fótum við. Við erum andvígir því, að farið sé með þessum hætti inn á braut beinnar skattlagningar á einstaklinga. Við erum andvígir því, að tekjuskatturinn, sem við höfum barist á móti í heil sjö ár og talið vera launamannaskatt fyrst og fremst, verði hærri, verði meiri launamannaskattur með Alþfl. í ríkisstj. heldur en hann var með Alþfl. utan ríkisstj.

Með grg. frv. fylgja aths. um einstök atriði sem samkomulag hefur ekki náðst um milli stjórnarflokkanna. Þessar aths. eru oft nefndar fyrirvarar. Ég tek það sérstaklega fram, að þeir þættir þessara aths., sem lúta að þeim málum sem ég hef rakið hér, eru ekki samdir af okkur Alþfl.-mönnum, heldur er hér um að ræða frásögn fjmrh. af því, hvernig þessi mál standa í ríkisstj. Þetta eru því ekki venjulegir fyrirvarar af því tagi sem þeir gera sem fyrirvarana hafa.

Ég hef nú rakið afstöðu þingflokks Alþfl. til þeirra tveggja mála, stefnunnar í landbúnaðarmálunum og stefnunnar hvað varðar skattlagningu með beinum sköttum, sem ég gat um í upphafi að ég mundi gera. Við munum berjast fyrir því á þeim tíma, sem fram undan er þar til fjárlagafrv. kemur til afgreiðslu, að þessum þáttum fjárlagafrv. verði breytt. Við treystum því að mæta þar skilningi og vonandi stuðningi frá samstarfsflokkum okkar í ríkisstj. og finnst sjálfsagt og eðlilegt að þeir taki tillit til sjónarmiða okkar, eins og við höfum tekið tillit til ýmissa sjónarmiða þeirra. Ef þetta fæst hins vegar ekki fram, þá fullyrði ég að þm. Alþfl. munu ekki greiða atkv. með þessum þáttum fjárlagafrv. Það á ekki að koma óvænt sem ég segi hér. Við Alþfl.-menn höfum tjáð hæstv. fjmrh. og samráðherra Alþfl. þetta hvað eftir annað. Síðast gerðum við það formlega við hæstv. fjmrh. skömmu áður en að fjárlagafrv. var útbýtt á Alþingi. Sú stefna og sú afstaða, sem ég hef hér lýst, er því lengi búin að vera samstarfsflokkum okkar ljós.