18.10.1978
Efri deild: 4. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

11. mál, þingsköp Alþingis

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það frv. til l. um breyt. á þingsköpum, sem hér liggur fyrir, er ákaflega einfalt. Í upphafi síðasta kjörtímabils var þingsköpum breytt á þá lund, að 10 menn skyldu eiga sæti í fjvn. Það var gert af sanngirnissjónarmiðum þar sem þingflokkar voru þá fimm og ef þessu hefði ekki verið breytt hefði einn þingflokkurinn ekki átt fulltrúa í nefndinni. Nú hafa ástæður breyst þannig að þingflokkar eru ekki nema fjórir og þess vegna hefur það orðið sammæli formanna þingfl., sem allir eiga sæti í Nd., að breyta þessu til hins fyrra horfs og að í fjvn. skuli aðeins eiga sæti 9 menn eins og áður hefur verið. Þeir fluttu frv. um þetta efni í hv. Nd. og þar hefur það nú verið afgreitt shlj., að ég hygg.

Ég vildi aðeins leyfa mér að skýra frá þessu og jafnframt formsins vegna mega óska þess, að málinu verði vísað til hv. allshn. þessarar d., þar eð ég sé að því hefur verið vísað til n. í hv. Nd. Ég vil því leggja til að að lokinni þessari 1. umr. verði því vísað til allshn.