11.12.1978
Neðri deild: 29. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (956)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér er á dagskrá, mun fara til þeirrar n., sem ég á sæti í, hv. landbn., og kemur þar vitaskuld til nákvæmrar athugunar. Ég mun því ekki ræða þetta mál eins ítarlega nú og ella hefði verið og hafa fyrirvara um afstöðu mína til einstakra þátta þess. Út af meðferð þessa máls vil ég þó taka það fram nú þegar, að ég tel engar líkur til þess, að unnt sé að afgreiða mál sem þetta á þeim dögum sem eftir eru af þessu þingi til jólaleyfis, og raunar hreinan barnaskap að láta sér detta það í hug. Ég tel enda eðlilegt að frv. eins og það, sem hér er á ferðinni, sé rætt ítarlega, ekki einasta hér á Alþ., heldur einnig meðal bænda sem viðast um land. Sú umræða er þegar byrjuð, og ég tel að það sé eðlilegt að niðurstöður þeirrar umræðu meðal bænda um land allt komi til Alþ. áður en frv. er afgreitt. Þetta vil ég taka fram út af meðferð þessa máls og hugsanlegri afgreiðslu þess.

Um þá stefnu, sem ríkt hefur í landbúnaðarmálum undanfarin ár og undanfarna áratugi, hefur hæstv. landbrh. farið nokkrum orðum. Ég skal ekki auka miklu við það. Þar var margt réttilega sagt. E.t.v. má rekja, eins og hann sagði, þá stefnu, sem fylgt hefur verið í framleiðslumálum, til afurðasölulöggjafarinnar. En ýmsar áherslubreytingar hafa orðið á þeirri löggjöf á liðnum áratugum. E.t.v. var síðasta áherslubreytingin, sem verulegu máli skiptir, gerð 1960, þegar gert var samkomulag á milli bændasamtakanna annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar undir forustu Ingólfs Jónssonar um að taka upp 10% verðtryggingu á útfluttum landbúnaðarvörum. Til þess tíma höfðu aðrar reglur gilt, þ.e. að bændur höfðu fengið leyfi til að hækka verð á búvörum á innlendum markaði til þess að mæta halla af útflutningi, en sú stefna hafði gengið sér til húðar og hin nýja stefna um útflutningsbætur, sem hæstv. fyrrv. landbrh. Ingólfur Jónsson innleiddi, bætti mjög úr fyrir bændastéttinni, og sú regla hefur gilt síðan. Ég vil taka það fram nú þegar, að ég tel að það sé ekki fært að gera breytingu á þeirri lagareglu, sem tekin var upp að viðhöfðu samkomulagi á milli réttra aðila, án þess að eitthvað nýtt komi þar í staðinn, er tryggi hagsmuni bændastéttarinnar a.m.k. jafnvel og útflutningsbæturnar hafa gert.

Því má svo bæta við, að sú stefna, sem fylgt hefur verið frá 1960 og mótuð var af þáv. ríkisstj., hefur í raun og veru dugað vel og ekki hefði verið um nein vandræði að ræða í framleiðslu- og markaðsmálum landbúnaðarins ef ekki hefðu orðið breytingar í þjóðfélaginu, sem engin sá þá fyrir. Þessar breytingar eru fyrst og fremst þrenns konar:

1) Fólksfjölgun hefur orðið miklu minni en reiknað var með á áratugnum 1950–1960.

2) Enn hefur það gerst nú allra síðustu árin, að neysla landbúnaðarvara hefur dregist saman. — Ef ekki hefði farið svo sem hér hefur raun á orðið væri sennilega um óverulega umframframleiðslu landbúnaðarvara að ræða í landinu í dag. Hér er vitaskuld ekki við bændur að sakast, þó þeir hafi haldið þeirri stefnu, sem mótuð hefur verið, og fylgt þeirri framleiðslustefnu, sem í upphafi var byggð upp miðað við líklega þróun í innanlandsmálum með fjölda þjóðarinnar og neyslu hennar.

3) Verðlagsþróun í landinu hefur orðið ákaflega neikvæð hvað snertir samanburð við ýmis önnur viðskiptalönd okkar og það orðið til þess, eins og hæstv. ráðh. kom hér nokkuð inn á, að útflutningur búvöru hefur orðið óhagstæðari með ári hverju.

Þessir þrír þættir hafa orðið til þess að raska því, að sú framleiðslustefna, sem fylgt hefur verið og mótuð var um 1960 í landbúnaðarmálum, hefur að nokkru leyti brugðist. Hún hefur brugðist að því leyti, að þjóðinni hefur ekki fjölgað eins og þá var gert ráð fyrir, neysla hefur dregist saman og verðlagsþróunin, miðað við það sem gerist í viðskiptalöndum, hefur orðið mjög neikvæð. Þetta veldur því, að nú er við vanda að etja.

Þessi vandi er vissulega umtalsverður. Hann er e.t.v. fyrst og fremst í mjólkurframleiðslunni, þar sem markaður fyrir mjólkurafurðir er miklum mun takmarkaðri erlendis en þó markaður fyrir sauðfjárframleiðsluna. Nú eru til í landinu birgðir af smjöri sem nema meira en ársneyslu. Er sýnilegt að ef aukning verður á framleiðslu mjólkurafurða, þá mun lítið verða úr því verðmæti, sem þar er geymt, eða einhverjum hluta þess. Þess vegna þarf þarna að spyrna við fótum og grípa til ráða sem hafa hamlandi áhrif á framleiðslu í þessari grein. Ostabirgðir í landinu eru minni en smjörbirgðir, enda þótt ekki beri fyllilega saman þeim heimildum sem ég hef aðgang að, en svokallaður óðalsostur mun þó seljast á Bandaríkjamarkaði fyrir allt að 50% framleiðslukostnaðarverðs, og eru taldar góðar horfur á því að unnt sé að fá hækkandi verð á þeirri vöru erlendis. Þrátt fyrir þetta er því ekki að neita, að verulegur vandi er varðandi mjólkurframleiðsluna og ekki horfur á því, að unnt sé að koma þeirri framleiðslu í lóg sem unnin er í landinu nú í dag, hvað þá meira. Við þessum vanda þarf því að bregðast.

Í sauðfjárframleiðslunni varð dilkakjötsframleiðslan nálægt 15 þús. tonnum á s.l. hausti. Er gert ráð fyrir því, að á innanlandsmarkaði verði neyslan u.þ.b, 2/3 þeirrar framleiðslu. Er þá gert ráð fyrir því, að veruleg neysluaukning verði á dilkakjöti, og tala sumir um allt að 16% aukningu á neyslu. Um hvað þar gerist er auðvitað engu hægt að spá umfram það sem þeir, sem best þekkja til, gera sér vonir um. Birgðir af sauðfjárframleiðslu hafa ekki farið vaxandi og raunar jafnvel fremur hið gagnstæða. Það kom einnig fram í máli hæstv. ráðh. áðan, áð útflutningur dilkakjöts hefur síður en svo farið vaxandi hin síðustu árin. Þrátt fyrir það er vert að gera sér grein fyrir því, að miðað við þessa framleiðslu er útflutningsbótaþörf einvörðungu í sauðfjárframleiðslunni sem nemur 3–4 milljörðum kr.

Ég tel að vandamálin í sauðfjárframleiðslunni séu hvergi nærri á sama stigi og í mjólkurframleiðslunni. Það er í rauninni vafasamt, að hægt sé að tala um að í þeirri framleiðslugrein sé um nein veruleg vandamál að tefla. Þær afurðir, sem hér er talað um að þurfi að flytja út, eða 4–5 þús. tonn, gefa í fyrsta lagi af sér verulegt verðmæti, sem er útflutningsverðið, og þeim afurðum fylgja mikilvægar framleiðsluvörur, ull og gærur, sem eru undirstaða mikils og vaxandi iðnaðar hjá þjóðinni. Ef við hugsuðum okkur að draga saman sauðfjárframleiðsluna sem þessu magni næmi, eða sem svaraði 300–400 þús. dilkum á ári, þá mundi einhvers staðar þrengjast fyrir dyrum fólks. Það mundi þrengjast fyrir dyrum þess fólks sem vinnur að iðnaði úr landbúnaðarframleiðslunni, ull og gærum. Það mundi þrengjast fyrir dyrum þess fólks sem vinnur að framleiðslunni beint. Og það mundi þrengjast hjá því fólki sem vinnur að þjónustu við landbúnaðinn og úrvinnslu þessara greina á mörgum sviðum. Það er því langt frá því, að ég geti fallist á að kalla þessa framleiðslu eitthvert þjóðfélagslegt böl. Hitt er svo annað mál, að ef ekki tekst að ná auknum mörkuðum þarf að verða hóf á þessari framleiðslu. Ég vil þó áður en lengra er horfið koma nokkuð að markaðsmálum.

Hæstv. landbrh. gat þess áðan, að skipuð hefði verið markaðsnefnd landbúnaðarins, hún hefði unnið gott starf, sem ég efa ekki. Henni hefði orðið nokkuð ágengt, en hvergi nærri eins og í raun og veru hefði þurft. Það má taka undir þetta allt saman, en samt er það svo, að það er tortryggt af mörgum að enn sé nægilega vel að verki staðið í sambandi við markaðsmál landbúnaðarins, ekki síst að því er snertir markað fyrir sauðfjárframleiðsluna. Ég er ekki með þessum orðum að kasta steini að þeirri nefnd sem hér hefur verið að starfi. Það er langt frá því. En nefnd, sem vinnur að þessum málum á vegum bændasamtakanna og með fulltingi ríkisvalds, hefur ekki jafnmikið áhrifavald og ef mál þetta væri fært í æðstu hendur, fært yfir til hæstv. ráðh. sjálfra. Ég tel að það þurfi að vinna að þessum málum með þeim hætti, að æðstu menn okkar á sviði landbúnaðarmála — þá á ég við hæstv. landbrh. — vinni að þessum málum sjálfir, og e.t.v. hafi landbrh. samvinnu og samráð við hæstv. viðskrh. og jafnvel utanrrh. Þetta er ekkert smámál, sem hér er um að tefla, og það á ekki að láta við það sitja, að aðeins séu sendar nefndir á vegum bændasamtakanna, þó þær séu góðra gjalda verðar, til þess að fást við þessi mál, heldur þurfa æðstu menn á sviði landbúnaðar, viðskipta og utanríkismála að vinna að þessum málum fyrst og fremst.

Við höfum heyrt um það, að Írar hafa t.d. komist inn á markað í Frakklandi. Ef við ætlum að flytja þangað ófrosið kjöt, ferskt kjöt, þá þurfum við fyrst að borga 22% innflutningstoll Efnahagsbandalagsins, en síðan 27% toll sem greiddur er til bændasamtakanna frönsku. Það er verðugt verkefni fyrir þá menn, sem nú leggja fram till. í landbúnaðarmálum, að huga að þessum þætti mála betur en gert hefur verið.

Dilkakjötsframleiðslan íslenska er ekki mikið magn á mælikvarða heimsmarkaðar eða á mælikvarða markaðar í einstökum nágrannalöndum okkar. Umframframleiðsla miðað við það sem neytt er hér innanlands er sem svarar hálfri neyslu þessarar þjóðar, 200 þús. manna, samkv. neysluvenjum Íslendinga sem svarar neyslu 100 þús. manna. Það ætti ekki að vera neitt stórvirki að fá því til leiðar komið að komast fram hjá tollmúrum efnahagsbandalagslanda með slíkt magn. Ég legg nokkuð þunga áherslu á að þess sé freistað til hins ítrasta. Hefði átt að vera búið að kanna þetta fyrr en nú alveg að fullu og þá beita til þess öllum þeim ráðum sem æðstu menn þessarar þjóðar hafa yfir að ráða. Við stöndum í samningum við aðrar þjóðir að því er varðar fisksölumál og annað slíkt á sviði markaðsmála, sem hefur verið meira metið af forráðamönnum okkar. Hér er að vísu ekki um slíkt stórmál að tefla, en hér er þó um þýðingarmikinn

þátt að ræða í framleiðslumálum, í atvinnumálum og í markaðsmálum þessarar þjóðar, þar sem okkur er skylt að gera hið ítrasta til þess að ná fram því sem kostur er. Ég tel því, að það sé hvergi nærri fullreynt, hvort ekki tekst að komast fram hjá þeim innflutningstollum, sem eru á þessari vöru í hugsanlegum viðskiptalöndum okkar. Meðan það er ekki fullreynt er ekki hægt að fullyrða að hér sé um neitt sérstakt vandamál að tefla. Og jafnvel þó svo að þetta takist ekki, þá er það í sjálfu sér ekki ákaflega viðamikið vandamál þessarar þjóðar að tryggja framleiðslu á sauðfjárafurðum og e.t.v. nokkru af osti, sem seldist fyrir 50–60% af framleiðslukostnaðarverði. Þar þarf þó að vera hóf á, eins og ég hef þegar tekið fram.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þennan þátt þessara mála, um stefnu í landbúnaðarmálum, til þess að ræða þetta ekki í of löngu máli. Ég hef ítrekað það, sem ég vildi koma á framfæri í sambandi við markaðsmálin, og bent á að vafasamt er, og þyrfti á því nánari útreikninga en ég hef fengið til þessa, hversu mikinn eða hvort nokkurn verulegan bagga er um að ræða af þeirri framleiðslu sem við höfum þó markaði fyrir í dag í sauðfjárframleiðslunni. Hitt er ljóst að í heild, ef þessi mál eru tekin öll saman, mjólkurframleiðsla og sauðfjárframleiðsla, þá er þar um verulegt og veigamikið vandamál að ræða.

Það frv., sem hér liggur fyrir og hæstv. landbrh. hefur mælt fyrir, er að stofni til samið af svokallaðri sjömannanefnd. Þetta frv. hefur tekið nokkrum breytingum, en þó ekki mjög veigamiklum, í meðferð hæstv. ráðh. áður en það er lagt fram. Frv. felur í sjálfu sér ekki í sér neina sérstaka nýlundu miðað við umr. síðustu ára og ýmsar till., þó í því séu þó nokkur nýmæli.

Í megindráttum byggist þetta frv. á því, að tekið verði upp mishátt framleiðslugjald í stað verðjöfnunargjalds, sem hefur verið flatt verðjöfnunargjald, sem stundum hefur verið tekið hingað til og heimildir eru fyrir í lögum, og tekinn verði upp fóðurbætisskattur, sem oft hefur verið rætt um, en ekki hingað til náð fram að ganga. Enn er hér nýmæli, sem er á þá lund, að heimildir verði til þess að greiða framleiðendum sérstakt fjármagn fyrir að draga framleiðslu sína saman. Ýmis minni háttar nýmæli önnur eru í frv., en þau eru miklu veigaminni.

Í sambandi við þessa liði, sem hér hafa verið taldir, verð ég að segja það, að þær breytingar, sem gerðar voru á frv. af hálfu hæstv. ráðh. áður en það var lagt fram, sýnast mér sumar hverjar vera til bóta, aðrar mjög vafasamar, en í þriðja lagi enn aðrar að mínum dómi til hins verra. Ég skal ekki rekja það nákvæmlega, en e.t.v. víkja að þeim smám saman.

Í fyrsta lagi vil ég segja það í sambandi við 2. gr. frv. sem er aðalgrein þess, að a-liður þeirrar greinar er á þann hátt, að samkv. lagaheimildinni, sem sá liður frv. mundi fela í sér, er búið að opna fyrir mishátt verð á búvöru í allar áttir. Það er ekki að finna í frvgr. neina takmörkun á því, með hvaða hætti mætti beita mismunandi verðlagningu. Þó hér sé rætt um að þetta byggist á till. sjömannanefndar, þá er e.t.v. varasamt að Alþ. ákveði með löggjöf, að það verði heimildir færðar í lög til þess að í allar áttir og á hvaða hátt sem er megi beita misháu verði til framleiðenda. Þessi möguleiki hefur verið opnaður enn frekar í frv. af hálfu hæstv. ráðh. heldur en þó var í frvgr. frá sjömannanefndinni.

Um þetta svokallaða framleiðslugjald eða kvótakerfi vil ég segja það fyrst og fremst, að það er að mínum dómi ein af þeim leiðum sem geta komið til greina, þó því aðeins að um sé að ræða mishátt framleiðslugjald eftir bústærð. En ég er því andvígur, að upp verði tekinn refsiskattur, sem gert er ráð fyrir að heimild sé til í þessum lögum, á þá bændur sem sýna aukinn dugnað, aukna framleiðni, aukna úrræðasemi eða hagkvæmni á búum sínum, ef þeir fari fram úr einhverju meðaltali, annað tveggja meðaltali sjálfra sín síðustu þrjú árin eða landsmeðaltali, þá sé þeim refsað sérstaklega fyrir það með aukinni skattlagningu. Þetta er andstætt mínum hugmyndum og svona ráðslagi er ég algjörlega mótfallinn. Hitt er frekar viðunandi, að ákveða mishátt framleiðslugjald eftir bústærð. Ef við jöfnum þessu til einhverra annarra atvinnugreina, þá er sjávarútvegurinn kannske nærtækastur. Þá væri þetta hliðstætt því, að útvegsmenn fengju annað tveggja mismunandi fyrirgreiðslu hins opinbera, lánafyrirgreiðslu og annað, eftir stærð skipa sinna, eða þeir þyrftu að greiða leyfisgjald til þess að eignast skip, sem væri mishátt eftir stærð skipa. Nú skulum við segja að það væri talið, sem er nú mjög á reiki, að stærstu togarar væru kannske ekki eins hagkvæmir í rekstri og miðlungstogarar, 500–600 brúttólestir, og við vitum að nú er um það rætt, að fiskiskipastóllinn sé nógu stór til að draga þann afla að landi sem fiskifræðingum sýnist óhætt. Þá væri, til þess að hamla gegn mjög mikilli aukningu á skipastólnum, gripið til þess að setja strangari mörk við skipakaup stærstu skipanna en þeirra minni. Þetta er sambærilegt, og hægt er að hugsa sér að þetta væri gert. En ég tel jafnframt fráleitt að það væri sett í lög, að heimildir væru til þess að refsa þeim skipstjórum og þeim skipshöfnum sem sköruðu fram úr jafningjum sínum á næsta skipi. Það er alveg fráleitt að mínum dómi að setja kvóta á aflaverðmæti hvers skips, alger fjarstæða.

Í annan stað gerir þetta frv. ráð fyrir fóðurbætisskatti, og á fóðurbætisskattákvæði sjömannanefndar hefur hæstv. ráðh. gert nokkrar breytingar. Það er í fyrsta lagi að fella niður heimild til endurgreiðslu á fóðurbætisgjaldi. Hæstv. ráðh. hafði fyrirvara um þessa breytingu. Ég tel að þessi breyting sé til hins verra. í öðru lagi er gert ráð fyrir því í breytingum hæstv. ráðh., að fóðurbætisskatturinn reiknist ekki inn í verðlagsgrundvöll. Þetta sýnist mér vera réttmætt, nema að því er tekur til þess, ef á að nota kjarnfóðurskattinn til annars en að greiða með framleiðslu. Ef á að nota kjarnfóðurskattinn til þess að jafna flutningskostnað eða greiða með graskögglaverksmiðjum t.d., þá eru engin rök fyrir öðru en að þetta komi inn í verðlagsgrundvöll. Þarna er skilsmunur á milli sem hæstv. ráðh. hefði mátt athuga.

Um kjarnfóðurskatt vil ég segja það að öðru leyti, að ég tel að þau ákvæði, sem numin hafa verið burt úr frv., sem gefa heimild til þess að endurgreiða skattinn að hluta eða að meira eða minna leyti, opni leið fyrir það að hafa mishátt verð á kjarnfóðri, sem hæstv. ráðh. taldi ekki eðlilegt áðan. Ég tel sem sé, að best væri ef hægt væri að koma kjarnfóðurskatti fyrir með þeim hætti að tiltekin notkun á búeiningu hvers býlis væri skattfrjáls, það, sem umfram þessa notkun væri, væri skattlagt og það hátt. Þá mundi fóðurbætisskatturinn fyrst verka verulega framleiðsluletjandi. Þó settur væri flatur skattur á kjarnfóður, eins og gert er ráð fyrir með þessu frv., t.d. 25–30%, eins og hæstv. ráðh. orðaði, þá mundu þeir betur stæðu í bændastétt, ekki síst mjólkurframleiðendur, láta það sig engu skipta, því þrátt fyrir það væri stórkostlegur hagnaður að því að gefa mjólkurkúm kjarnfóðrið. Hins vegar mundi þetta fyrst og fremst hitta þá sem eru í erfiðleikum með rekstrarfjárstöðu sína og geta ekki greitt þessa vöru þegar hún hækkar í verði. Þeir, sem eru lakar stæðir í bændastétt, mundu fyrst og fremst verða fyrir barðinu á þessari skattlagningu, það mundi koma niður á þeirra búrekstri og e.t.v. leiða til þess að þeir kæmust í þrot.

Þetta er mjög hættuleg leið, sem á þó sínar röksemdir og þarf mikillar athugunar við. Við vitum að afkoma bændastéttarinnar er mjög misjöfn. Í röðum bænda eru margir, sem betur fer, sem búa við ágæta afkomu og hafa sæmilega rekstrarfjárstöðu. En þeir eru kannske jafnmargir sem búa við bága afkomu og mjög þrönga rekstrarfjárstöðu. Skattlagning af þessu tagi mundi fyrst og fremst koma niður á þessum mönnum. E.t.v. væri þetta liður í því að skipuleggja fátækt meðal bænda á Íslandi. Það mætti komast fram hjá þessu, ef það þætti fær leið, sem ég skal ekki fullyrða, að taka upp kvótastyrkingu, kvótafyrirkomulag, sem hér er vinsælt orð, í fóðurbætisverði til bænda. Þá væri hægt að komast fram hjá þessum annmörkum sem ég hef lýst, og mundi verða til þess, ef skatturinn kæmi fyrir ofan tiltekin mörk, væri verulega hár, 50% eða meira kannske, mundu flestir reyna að halda sig sem næst innan þeirra marka. Það má vera að séu erfiðleikar á framkvæmd í þessu efni, en það er þó, að ég hygg, leið til að framkvæma þetta með endurgreiðslufyrirkomulagi, svo sem gert er ráð fyrir í áliti sjömannanefndar, en hæstv. ráðh. hefur numið burt úr frv.

Ég tel eðlilegt að þessi ákvæði og mörg fleiri verði athuguð og það gaumgæfilega í þn. Ég skal ekki endurtaka það, sem ég sagði fyrr um afgreiðslu þessa máls, að það er fráleitt að stefna að því að afgreiða frv. fyrir jól.

Þriðja leið, sem í raun og veru er sú af þessum þremur leiðum, sem er eitthvert nýmæli, að greiða bændum eftir einhverju fyrirkomulagi bætur fyrir það að draga úr framleiðslu sinni, er e.t.v. að sumu leyti álitlegust að því leyti að hún er kannske áhrifaríkust. Þessa leið hafa ýmsar þjóðir farið, en ég hygg að þær þjóðir hafi ekki mótað þá aðferð með því að byrja á því að skattleggja bændurna til þess að fá fé til þess að greiða þeim síðan til baka til þess að draga úr framleiðslu sinni. Það er mér nýlunda ef það hefur verið gert. Ég er hvergi nærri að mótmæla því, að þessi leið verði farin í einhverjum mæli, en ég tel eðlilegt að fé til þess að koma henni fram verði fengið með öðrum hætti en taka það með framleiðslugjaldi. Þessi leið er annars eðlis. Hún er á þá leið, að þjóðfélagið sjálft taki þátt í því, taki það á sig að greiða mönnum fyrir annaðhvort að leggja niður búskap, — það er sagt berum orðum, þetta þýðir það, — eða draga úr framleiðslu sinni. Þessi leið er þó mjög vandasöm í framkvæmd og má vara sig á henni, ef henni ætti að beita að einhverju verulegu marki. Það er ákaflega erfitt að hugsa sér að sú stefna verði tekin upp í landbúnaðarmálum, að það verði fjárhagslegt keppikefli bænda að draga sem mest saman framleiðslu, að draga saman hver og einn, að fóðra jafnvel búfé sitt svo slaklega að það skili sem minnstum arði og helst drepist nokkuð af bústofninum úr hor, til þess að fá sérstaka umbun þjóðfélagsins fyrir. Það má vara sig á þeirri leið, því að hún getur, ef slíkri leið er beitt að einhverju verulegu marki, orðið það áhrifamikil að ekki verði séð fyrir endann.

Ég hef áður sagt úr þessum ræðustól, að landbúnaðurinn væri atvinnuvegur sérstaks eðlis. Hann er nokkuð svifaseinn í breytingum, og breytingar þurfa að gerast hægfara og fyrir þróun til þess að ekki verði of mikil röskun og breytingunum fylgi ekki of mikill kostnaður. Ef stórkostlegar breytingar ættu að verða í þá átt að draga saman landbúnaðinn, þá mundi því fylgja röskun, sem þýðir í raun stórkostleg fjárútlát fyrir þjóðina. Mannvirki mundu standa ónotuð og mannvirki þyrftu að rísa í staðinn til þess að taka við því fólki sem hyrfi frá landbúnaðinum, fyrir utan alla þá röskun sem verður hjá því fólki sem stundar úrvinnslu landbúnaðarafurða og hefur atvinnu sína af þjónustu við landbúnaðinn. Þess vegna má fara varlega í mjög róttækar breytingar í þessum efnum. En ég vil þó segja um þessa leið, að ég tel eðlilegt að hún verði reynd að einhverju marki og hún verði reynd á þann hátt að greiðsla komi fyrir samdrátt í bústærð, en ekki endilega fyrir samdrátt í framleiðslu. Óhófleg bústærð með lítilli framleiðslu er versta búskaparlag sem til er hér á landi og það kostar mikla fjárfestingu, það kostar mikinn rekstur og mannafla, en skilar sjaldnast arði. Þess vegna er betra að höggva eitthvað í bústærðina, en halda framleiðslunni gangandi eftir þann grip sem bóndinn á. Þessi leið tel ég að geti komið til greina að sé reynd, og skal ég ekki um það segja að hve miklu leyti það skuli gert, en hana má þó taka með sem eina af þeim leiðum sem hugsanlegt er að reyna.

Þetta voru þrír þeir meginliðir sem er að finna í þessu frv. um samdráttaraðgerðir í landbúnaðinum.

Ég sagði í upphafi, að víst væri vandinn mikill og þó fyrst og fremst í mjólkurframleiðslunni, sem því miður er komin út fyrir mörk þess sem er mögulegt að koma í lóg. Ég dreg í efa vandann í sauðfjárframleiðslunni. Ég tel að enn hafi ekki reynt á það til hins ítrasta, hvort við komumst fram hjá þeim viðskiptamúrum fyrir hið litla framleiðslumagn okkar sem sumum öðrum hefur tekist að sleppa við. Við höfum lagt meira kapp á, sem eðlilegt er, að tryggja okkur markaði á sviði sjávarafurða. En þarna má gera betur, og felst í því enginn áfellisdómur um þá nefnd manna sem að þessu hefur starfað. Þar þurfa aðrir menn að koma til. Þess vegna dreg ég það í efa að þarna sé við eins mikinn vanda að etja og stundum er látið í veðri vaka.

En fleiri leiðir eru til í þessum efnum, og þurfa allar leiðir að koma til nákvæmrar athugunar í þn. sem um þetta fjalla. Mér hafa t.d. borist till. um breytingar á þessu frv. frá eyfirskum bændum. Það eru brtt. við a-lið 2. gr. þessa frv., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta — a-liður hljóði svo:

„Að taka upp tvenns konar verð á búvöru. Framleiðendur fái fullt verð fyrir ákveðinn hundraðshluta af framleiðslu sinni, þó þannig að stærri búin njóti hlutfallslega lægri verðtryggingar. Á það, sem framleitt er umfram hið tryggða magn, greiðist einungis útflutningsverð. Söluaðilum landbúnaðarafurða er skylt að veita upplýsingar eins og nauðsynlegt kann að vera og um er beðið í þessu sambandi. Einnig er söluaðilum skylt að halda eftir af andvirði búvöru þeirri fjárhæð, sem framleiðsluráð ákveður til að standa skil á greiðslum til framleiðenda. Framleiðsluráð ákveður gjalddaga vegna þessara heimilda.“

Enn er hér lagt til, að b- og c-liður frv. falli niður. Þá leið, sem hér er bent á, hef ég ekki íhugað mjög mikið, enda fékk ég þetta blað sent nú í morgun. Á það mun þó bent, að það séu vandkvæði á því að framkvæma slíka leið að því er varðar kjötframleiðslu, bæði í sauðfjárafurðum og nautgripaafurðum, vegna þess að það muni verða mjög aukin tilhneiging til þess að fara fram hjá löglegum aðilum í slátrun og sölu og selja utan við kerfið. Í grg. með þessum till., sem ég ætla ekki að lesa að þessu sinni, er að þessu vikið og bent á að það þurfi að setja reglugerð sem hafi að geyma harðari ákvæði um þetta atriði. Um þetta skal ég ekkert fullyrða á þessu stigi. Mér sýnist þó ljóst, að þessa leið þurfi að taka til athugunar eins og aðrar, sem eru mögulegar. Mér er ekki ljóst, hvort unnt er að nota þessa leið að hluta og aðrar leiðir að hluta, þannig að þessi leið t.d. verði mestmegnis ráðandi í mjólkurframleiðslunni, en aðrar leiðir ráði í kjötframleiðslu. Þetta allt þarf að athuga gaumgæfilega og til þess þarf að gefast nægur tími.

Fleiri leiðir hefur verið bent á, svo sem að taka hluta af fé landbúnaðarins, þ.e.a.s. fyrst og fremst útflutningsuppbætur, en e.t.v. eitthvað meira af því fjármagni sem til landbúnaðarins rennur, og greiða það beint til bænda og láta síðan eitthvað vanta á verðið þegar tilteknu framleiðslumagni er náð á hverju býli. Þessi leið hefur auðvitað sína vankanta eins og aðrar. Henni mundi m.a. fylgja að taka yrði verðjöfnunargjald af bændum til þess að jafna á milli sölusvæða, jafnhátt fé og færi í það að greiða þessar greiðslur beint. Yrði þannig að nokkru leyti um tvöfalt kerfi að ræða. Þessi mál þarf öll að athuga mjög gaumgæfilega og njóta til þess aðstoðar hinna færustu manna á þessu sviði. Ég hef allan fyrirvara á um afstöðu mína til þessara leiða í heild tekið, enda þótt ég hafi tekið af um fylgi mitt við einstaka þætti þeirra.

Um leið og við erum að hugleiða hér leiðir, sem flestar eða kannske allar hafa í för með sér samdrátt á möguleikum bænda til tekjuöflunar, þá höfum við mátt horfa upp á það, að í verðlagsmálum fer æ meiri hluti af heildarverðinu til milliliða og m.a.s. alveg nýverið, síðast þegar verð var ákveðið, var hækkuð verulega álagningarprósenta á landbúnaðarvörur. Smásöluálagning á mjólk var 12.2%, en við síðustu verðákvörðun, nú eftir 1. des., var prósentan hækkuð í 16.2% eða um 33% hækkun til kaupmanna. Á nautakjöti var álagning 11.2%, var hækkuð í 12.8% eða um 13%. Á dilkakjöti var álagning 28%, var hækkuð í 37% eða um 32%. Með þessu er auðvitað enn lagst á þá sveif, að milliliðaþátturinn í heildarverði búvöru vex og það stórkostlega. Það er e.t.v. eftirtektarvert, að áður en hæstv. viðskrh. Svavar Gestsson er búinn að vera 4 mánuði í ráðherrastóli, þá er ákveðin hækkun á álagningarprósentu til kaupmanna á búvöru frá 13–33%. Einhvern tíma hefði þótt ástæða til að birta mynd í Þjóðviljanum af hæstv. viðskrh. af minna tilefni — og kannske verður það gert. En þetta gerist vitaskuld í sama mund sem ekki einasta forráðamenn bændastéttarinnar, heldur hæstv. landbrh. leggja fram tillögur og freista þess að fá afgreidd lög sem hafa í för með sér skerðingu á kjörum bænda.

Þetta er auðvitað ekki beint sagt í þessu frv. og grg. þess og ekki beint sagt í till. sjömannanefndar eða nál. hennar, en það er kannske dálitið annað hvað sagt er á tilteknu þskj. eða það sem um er rætt annars staðar. Ég minnist þess t.d., að hæstv. ráðh. Kjartan Jóhannsson sagði í sjónvarpsviðtali fyrir fáum dögum, að hæstv. landbrh. eða þeir framsóknarmenn, samstarfsmenn hans í ríkisstj., hefðu lofað að koma fram breytingum á landbúnaðarlöggjöfinni sem gengi mjög í átt við þá stefnu sem Alþfl.-menn hafa viðrað í þessum efnum. Og hvað er það sem hv. Alþfl.-menn hafa lengi talið brýnast í sambandi við landbúnaðarmálin? Jú, það er samdráttur framleiðslu, stundum mikil fækkun bænda o.s.frv., o.s.frv., sem óþarft er að tíunda. En þetta er auðvitað ekki sagt á þessu tiltekna þskj. Það er ekki heldur sagt á þskj., sem hæstv. landbrh. hefur viðurkennt annað veifið og í öðru orðinu — m.a. áðan — að vænta mætti að þetta hefði í för með sér samdráttaráhrif í kjörum bændastéttarinnar. Nú er það auðvitað eftirtektarvert, að hæstv. landbrh. Framsfl. leggur fram tillögur sem hafa þetta í för með sér. Ég skal ekki fara lengra út í þá sálma, enda hef ég viðurkennt að hér er um verulegan vanda að ræða.

Í sambandi við þessi mál eru e.t.v. nokkur atriði sem væri rétt að vekja athygli á strax við 1. umr. Þar á ég t.d. við ríkisbú. Í þessum hugmyndum að kvótafyrirkomulagi eða misháu framleiðslugjaldi, sem hér er um rætt, er gert ráð fyrir að ríkisbú falli undir þetta kerfi sem önnur lögbýli í landinu eða bú einstakra bænda. Ég tel fyrir mitt leyti, að ef þetta verður niðurstaðan, þá eigi ríkisbúin að verða skattlögð með hæstu prósentu. Ég styð þessa skoðun mína með því, að ríkisbúin eiga í raun og veru ekki að verða til þess að þrengja kosti bænda í neinu tilliti. Kannske ættu ríkisbúin einungis að fá verð fyrir sína framleiðslu sem svaraði útflutningsverði, en þó enn þá fremur hitt, að mér er ljóst að ríkisbúin eru óþarflega stór og óþarflega mörg í landinu. Ég tel t.d., að það sé engin þörf á því að vera að halda uppi fjárbúi vestur í Breiðuvík þar sem eru einn, tveir eða þrír drengir eftir atvikum hverju sinni, eins og búskaparháttum þar er lýst. Ég tel að Bændaskóli á Hvanneyri gæti komist af með það við kennslu og önnur störf er sauðfjárrækt varða að notast við Hestsbúið, það sé engin þörf á því að hafa sérstakt fjárbú á Hvanneyri. Þar má vera myndarlegt kúabú, en engin þörf er á fjárbúi þar. Ég tel enga ástæðu til þess, að á meðan verið er að byggja kálfafjós norður á Möðruvöllum, þá sé þar haldið uppi fjárbúi. Það er engin þörf á því, ef menn eru að tala um offramleiðslu. Og það má setja einhverjar skorður við bústofni á ríkisbúunum yfirleitt, t.d. í Gunnarsholti og auðvitað hvar sem er. Í Gunnarsholti var búið að skera niður fjárstofninn mestan part eða alveg, en síðan var flutt þangað Vestmannaeyjaféð þegar gosið kom. Það má gjarnan reisa einhverjar skorður við þeim stofni, sem er á þessum búum, sem tekin eru af ríkinu og bændur sem stétt hafa engan hag af. Tilraunum þarf að halda uppi, og til þess þarf stofn með eðlilegum hætti, og kynbótum þarf að halda uppi, og ég tel nauðsynlegt að þeim sé haldið áfram á ríkisbúinu á Hesti, en kynbætur má efla mjög á búum bændanna sjálfra, enda hefur það verið gert og tekist allvel.

Þá vil ég taka það sérstaklega fram, að hér er gert nokkuð mikið úr því sem kallað er skipulagning í landbúnaði. Hæstv. ráðh. talar um það sem eitthvert sérstakt nýmæli, að nú eigi að fara að gera úttekt á hverri jörð, búskaparmöguleikum hverrar jarðar. Þetta er í raun og veru ekkert nýmæli, því að ákvæði, er að þessu lúta, eru búin að vera í lögum síðan 1971, lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám o.fl. Hins vegar hefur skort mannafla og fjármagn til þess að þessu yrði komið fram. Hæstv. fyrrv. landbrh. Halldór E. Sigurðsson tók þetta verkefni að verulegu leyti úr höndum Landnáms ríkisins og færði yfir til svokallaðrar landbúnaðaráætlananefndar. Ég hygg að störf þessarar nefndar og það, sem unnið hefur verið í þessum efnum, hafi að mjög miklu leyti haft það að markmiði að stuðla að aukinni framleiðslu.

Ef talað er um að hinn almenni bóndi þurfi að draga saman framleiðslu sína og með því skerða kjör sín, þá hygg ég að ríkisvaldið megi ekki haga aðgerðum sínum á þá lund að auka á þennan vanda á öðrum sviðum. Ég vil líka taka það fram, að ef um er að ræða sérstök landssvæði eða byggðir, sem eðlilegt og nauðsynlegt telst að halda í byggð frá þjóðhagslegu sjónarmiði, þá er það hlutverk ríkisvaldsins í heild og þjóðarheildarinnar, ekki einvörðungu hlutverk bændastéttarinnar. Ef t.d. þarf að grípa til sérstakra aðgerða til að halda við byggðum eins og Hólsfjöllum og Efra-Fjalli, svo að eitthvað sé nefnt, sem ég tel mikilvægt frá samgöngulegu sjónarmiði og ýmsum öðrum, þá er það hlutverk ríkisvaldsins, en á ekki að gera það á kostnað bændastéttarinnar með endilega enn aukinni framleiðslu, þegar talað er um að aðrir eigi að draga saman framleiðslu sína. Þetta þarf að hafa í huga þegar talað er um að grípa til slíkra aðgerða sem hér er um rætt.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þetta mál mitt. Ég vil þó draga saman nokkra þætti sem ég vil leggja að lokum áherslu á. Áður en ég geri það, vil ég þó enn segja, að þetta mál allt er þess eðlis að það má ekki hrapa um of að afgreiðslu þess, það þarf að hlusta eftir þeim niðurstöðum, sem orðið hafa og verða á bændafundum víðs vegar um landið, það þarf að gaumgæfa þær hugmyndir, sem fram eru settar, og taka ákvörðun í ljósi þess, hverjar af þeim hugmyndum sýnast bestar. Ég vil ítreka þetta enn, vegna þess að ég tel ekki fært að verða við þeim óskum sem hæstv. ráðh. setti hér fram um afgreiðslu þessa máls nú á örfáum dögum þegar mest er að gera á hv. Alþingi.

Ég vil að lokum leggja áherslu á nokkur atriði, í fyrsta lagi markaðsmálaþáttinn. Ég ítreka að þar sé einskis látið ófreistað af æðstu ráðamönnum okkar Íslendinga að því er varðar landbúnaðarmál, markaðsmál og utanríkismál.

Ég vil ítreka það, að þó að nokkur umframframleiðsla sé í landinu, þá er það ekkert þjóðarböl. Það kann að vera þjóðarböl í hugum þeirra manna, sem tala stundum á þá lund eins og þeir telji að helsta vandamál þessarar þjóðar séu þessir atvinnuvegir, þegar búið sé að losna við atvinnuvegina sé allt í lagi. — En ég geri ekki ráð fyrir að hv. alþm. vilji taka undir þann söng. Þess vegna ítreka ég það, að nokkur umframframleiðsla er ekkert þjóðarböl. Hún hefur í för með sér mikla atvinnu, mikil viðskipti og framfærir nokkurn hluta þjóðarinnar. Þessu þurfa að vera takmörk sett.

Ég ítreka það, að ég tel að fé, sem notað er til þess að greiða fyrir minnkandi framleiðslu, yrði ekki tekið með skattlagningu af bændum sjálfum.

Ég ítreka það, að athugað verði sérstaklega hvort ekki megi koma fóðurbætisskatti þannig við, að ákveðin grunnnotkun kjarnfóðurs miðað við bústofn sé skattfrjáls, síðan komi hár skattur á þá umframnotkun sem verður. Það mundi að mínum dómi verka sterkast á að draga úr óhóflegri notkun kjarnfóðurs og þannig líklegast til að ná þeim tilgangi sínum.

Ég ítreka það, að ég tel að mishátt framleiðslugjald megi aðeins ná til bústærðar, ekki til afkasta einstakra bænda.

Ég tel að ríkisbúunum eigi að halda innan vissra marka, þau séu óþarflega mörg og óþarflega stór.

Ég ítreka það, að ég tel að skipulagsaðgerðir, sem miða að því að tryggja búsetu á einstökum landssvæðum, séu mál þjóðfélagsins í heild, ekki mál bændastéttarinnar, og þeim þurfi að haga þannig, að ekki verði til þess að stórauka framleiðslu meðan verið er að vinna að því að fá bændur á öðrum svæðum til að draga úr framleiðslu sinni.

Þessi atriði öll vil ég leggja áherslu á og vænti þess, að tóm gefist til að taka þau til rækilegrar skoðunar við meðferð málsins.