11.03.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í B-deild Alþingistíðinda. (1080)

50. mál, jöfnun húshitunarkostnaðar

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það er vissulega engin tilviljun að jöfnun húshitunarkostnaðar er mjög á dagskrá yfirstandandi þings, og raunar hefur það verið svo síðan olía tók hið mikla stökk til hækkunar í ársbyrjun 1979, að ljóst varð að bregðast þurfti við vanda þeirra sem við olíukyndingu búa. Ríkisstj., sem var við völd 1979, tók á þessum vanda þá með því að hækka mjög verulega styrk til þeirra sem búa í olíukyntu húsnæði. Raungildi olíustyrks var þá tvöfaldað, og það raunar áður en ljóst var að hverju stefndi varðandi hækkun olíuverðs, og síðan hækkaði olíustyrkurinn frá ársfjórðungi til ársfjórðungs á liðnu ári. Aðstaða þeirra, sem fengu það áfall sem hækkun olíuverðsins fylgdi, var því bætt að nokkru leyti. Hins vegar er ljóst að hlutfallslega auknar byrðar voru lagðar á fólk, sem bjó við þennan hitagjafa við upphitun á húsnæði sínu, og að taka yrði þessi mál til enn frekari athugunar og með víðtækari hætti en fólst í hækkun olíustyrksins sem ég gat um áðan.

Það hafa verið ýmsir ágallar á formi olíustyrksins frá því að það var innleitt 1974, fyrir utan það, að sá tekjustofn, sem þá var markaður til þess að greiða olíustyrk, var rýrður mjög verulega á árunum þar á eftir og stuðningur við þá, sem bjuggu í olíukyntu húsnæði, fór þá lækkandi að raungildi um nokkurt skeið. Í málefnasamningi nýlega myndaðrar ríkisstj. er fjallað um þetta atriði í kafla um orkumál, og segir þar m.a., með leyfi hæstv. forseta: „Unnið verði að verðjöfnun á orku, ekki síst á sviði húshitunar.“

Að þessum málum er nú unnið af ríkisstj., bæði að því er varðar tekjuöflun til þess að greiða olíustyrk og varðandi aðrar leiðir til jöfnunar húshitunarkostnaðar. Ég vænti þess, að ekki líði á löngu þangað til hv. Alþ. fái grg. og tillögur af hálfu ríkisstj. um þetta efni.

Það er afar brýnt, eins og fram kemur efnislega í þeirri þáltill. sem hér er til umr., að stefna verði mörkuð um þetta, og ég vil taka undir með hv. flm. till. um að brýnt sé að marka stefnu um þessi efni og ná sem víðtækastri samstöðu um málið hér á þinginu. Ég vænti þess, að það verði áður en þingi, verður slitið að vori, að við höfum gengið frá þessum málum þannig að viðunandi verði talið frá sjónarmiði þeirra sem eru þolendur þess ástands sem hér ríkir og hv. frsm. þáltill. gerði mjög glögga grein fyrir í máli sínu áðan.

Það þarf, eins og hv. flm. benti réttilega á, að gæta að ýmsu við ákvörðun um þessi efni og þá m.a. að ekki verði í sambandi við verðjöfnun á hitunarkostnaði keppt á óeðlilegan hátt við þá innlendu orkugjafa sem við erum að taka í notkun og þurfum að stefna að að hraða á næstunni að komist í gagnið hvarvetna þar sem þeirra er völ, og það á að vera unnt víðast hvar á landinu, annaðhvort með hitaveitum eða með beinni rafhitun eða þá blöndu af þessu og með olíu til að taka af toppa, þ.e. með svokölluðum fjarvarmaveitum.

Það kom fram í máli hv. frsm. að áætlanir væru um að olíunni yrði útrýmt eða unnt yrði að útrýma henni á árunum fram til 1990. Það er einmitt stefna sem þarf að marka. Alþ. þarf að taka afstöðu til, hversu hratt skuli að þessu brýna máli unnið, og jafnhliða að tryggja að viðunandi jöfnuður sé milli þegnanna að þessu leyti.

Í þeim hugmyndum, sem fram komu hjá hv. frsm., 1. flm. þáltill., held ég að hann hafi nefnt viðmiðunina milli 56 og 57% sem hlutfall varðandi niðurgreiðslu á olíunni og taldi að það mundi steppa í samanburði við þær nýjustu veitur sem nú er unnið að, hitaveitur eða fjarvarmaveitur. Ég vil ekki leggja neinn fullnaðardóm á þetta, en geri þó ráð fyrir að það sé í efri kantinum hvað niðurgreiðslur snertir. Það er ekki óeðlilegt að menn vitji ganga langt í þessum efnum, en þarna þarf ákveðna aðgæslu til þess að ekki verði raskað rekstrargrunni fyrir þær veitur sem unnið er að og verið er að taka í notkun eða reisa þarf á næstu árum. Í mínu rn. er unnið að greiningu þessa máls, og eins og ég gat um áðan vænti ég að það líði ekki langur tími þangað til afrakstur af því starfi komi fram hér á Alþingi.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar, en tel að sá ríki áhugi, sem birtist í flutningi till. um jöfnun húshitunarkostnaðar í báðum þingdeildum og í Sþ., sé mjög góðra gjalda verður og sýni að það er ríkur skilningur á þessum vanda hjá hv. þm.