11.03.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

50. mál, jöfnun húshitunarkostnaðar

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er ekki vonum fyrr að sú till. til þál., sem hér liggur fyrir, sé tekin á dagskrá í hv. Alþingi. Till. hefur legið frammi síðan snemma þings, og hefði vissulega verið ástæða til að fá hana á dagsrá fyrr til að ræða þessi mál hér í hv. Sþ. Þó er ekki fyrir það að synja að nokkuð hefur verið fjallað um þetta mál á Alþ. og þá ekki síst vegna þess frv. sem 4. þm. Vestf. ásamt nokkrum öðrum þm. flutti í Ed. Þingið hefur því unnið nokkurt verk í þessu máli nú þegar.

Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða. Ég skal strax taka það fram sem mína skoðun að ég tel að hér sé úrbóta þörf. Ég tel að hér sé um það mikið misrétti að ræða varðandi upphitun húsa að ákveðinna aðgerða sér þörf. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar, að þær aðgerðir eigi að vera meira í því formi, að um eins konar viðlagaaðgerðir sé að ræða, en forðast eigi í lengstu lög að setja upp fast kerfi sem dragi úr hvöt manna til að gera ráðstafanir til orkusparnaðar eða til að taka sem fyrst í notkun þá innlenda orkugjafa sem við höfum yfir að ráða til húshitunar, þ.e. einkum jarðvarma og raforku.

Það koma að sjálfsögðu fleiri en ein leið til greina í þessu máli. Sú leið, sem hingað til hefur verið farin, en þó ekki að því marki sem talið er nægja, er að greiða olíu niður úr ríkissjóði. Það vekur nokkra athygli, að í fjárlagafrv. því, sem lagt var fram hér á hv. Alþ. í gær, er tekið út úr frv. Það sem áður var í fyrri frumvörpum sem hér hafa verið lögð fram: Þær upphæðir sem ætlaðar voru til niðurgreiðslu á olíu, 2.3 milljarðar, að því er mig minnir, og ekkert kemur í staðinn. Það vekur óneitanlega grun um að fyrirhugað sé að leggja á nýjan skatt, sérstakan orkuskatt sem hætta er á að verði til frambúðar í skattkerfinu hvað sem líði framtíðarþörf til þessa málaflokks. Ég verð að segja fyrir mig, að ég tel það vafasama leið, en það hlýtur að verða sjálfstætt umræðuefni hér síðar, þegar tillögur um það sjá dagsins ljós. En það er þó alveg ljóst, að upphæðin, sem ég gat um áðan, hefur verið tekin út úr fjárlagafrv. nú til þess að rýma fyrir öðrum útgjöldum ríkissjóðs. Eftir stendur þá að afla tekna til þeirra niðurgreiðslna sem fyrir voru, svo að ekki sé talað um þær sem eiga að verða til viðbótar því sem var og menn virðast vera sammála um að þurfi að hækka að einhverju marki.

Í þessari umr. hefur verið vikið nokkuð að þeim samanburði sem gjarnan er viðhafður þegar verið er að bera saman hitakostnað annars vegar hér í Reykjavík og hins vegar víða úti um land. Auðvitað er sá samanburður líklegur til að vekja óánægju, svo mikill munur sem er á því verði sem menn greiða fyrir hitaorku. En ég vil vekja sérstaka athygli á því og undirstrika það, sem kom fram hjá hæstv. iðnrh. áðan, að þessi samanburður er ekki réttur vegna þess að verði á heitu vatni í Reykjavík hefur verið haldið niðri óeðlilega mikið undanfarin ár vegna þess að sá liður í vísitölu framfærslukostnaðar, sem heitir upphitunarkostnaður, er eingöngu miðaður við verð á heitu vatni frá Reykjavík. Er þar að sjálfsögðu um mjög óeðlilegt fyrirkomulag að ræða í vísitöluútreikningi. Ég vil undirstrika þetta frekar með því að kynna í þessari umr. grg. sem stjórn veitustofnana Reykjavíkurborgar hefur nýlega látið frá sér fara og er undirrituð af öllum fulltrúum í þeirri stjórn, fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga í borgarstjórn Reykjavíkur, en þar er vakin athygli á því, hversu alvarlegt ástand sé nú orðíð hjá Hitaveitu Reykjavíkur. Ég vil, með leyfi forseta, lesa nokkuð upp úr þessari grg., en þar segir:

„Stjórn veitustofnana hefur undanfarið fjallað margoft um hina vaxandi fjárhagserfiðleika sem Hitaveita Reykjavíkur á við að búa og torveldar henni að standa undir eðlilegum vexti. Gjaldskrá Hitaveitunnar hækkaði um 20% þann 1. febr. 1980 þrátt fyrir að stjórn veitustofnana og borgarráð hefði samþykkt 37% hækkun. Fyrir þann tíma voru liðnir 9 mánuðir án þess að Hitaveita Reykjavíkur hefði fengið nokkra hækkun á gjaldskrá, þrátt fyrir þá staðreynd að flestar aðrar hitaveitur í landinu höfðu fengið hækkun á þessu tímabili.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Hitaveitu Reykjavíkur hefur verið synjað um eðlilega hækkun, og má eflaust reka fjárhagserfiðleika fyrirtækisins til þeirrar staðreyndar, að gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur er tengd framfærsluvísitölu ein allra hitaveitna landsins.

Síðan fjárhagsáætlun Hitaveitu Reykjavíkur fyrir árið 1980 var gerð í nóv. 1979 hefur hækkun átt sér stað bæði á rekstrar- og framkvæmdakostnaði, og er nú svo komið að fjárvöntun fyrirtækisinu fyrir þetta ár er orðin um 1600 millj. kr. Ef ekki á að koma til niðurskurðar á verulegum framkvæmdum þýðir þetta 58% gjaldskrárhækkun frá 1. maí 1980.

Allt frá síðari hluta árs 1970 hefur verð á heitu vatni frá Hitaveitu Reykjavíkur lækkað stöðugt miðað við almennt verðlag í landinu. Nú er svo komið, að það er um 57% af því sem það var fyrir 10 árum. Þetta má greinilega sjá á meðfylgjandi súluriti, sem sýnir núgildisverð á heitu vatni í Reykjavík allt frá árinu 1940.

Á síðustu 10 árum hefur Hitaveita Reykjavíkur staðið undir miklum framkvæmdum og stækkunum og þjónar nú fjórum nágrannasveitarfélögum. Til þess að ná þessum árangri í viðbót við stækkun á Reykjavíkursvæðinu var gripið til þess úrræðis að taka erlend lán til framkvæmda. En lántökur héldu áfram eftir að útvíkkun kerfisins til nágrannasveitarfélaganna átti sér stað eða allt til ársins 1978. Eftirstöðvar þessara lána eru nú 5–6 milljarðar kr., og árlegar greiðslur afborgana og vaxta eru um 1200 millj. kr. Ef eðlileg gjaldskrárhækkun hefði fengist á framkvæmdatímabilinu, eins og óskað var eftir, þá væri búið að greiða þessi lán niður án þess að verð á heitu vatni væri hærra en það er í dag.“ — Þetta finnst mér vera mjög athyglisverð staðreynd í þessari grg.

„Afborganir lána og vaxtagreiðslur eru nú nokkru lægri en fjárvöntun til framkvæmda. Þrátt fyrir erlend lán, sem tekin voru á síðasta áratug, hefur orðið að fresta ýmsum nauðsynlegum framkvæmdum sem varða eðlilega þjónustu við viðskiptavinina. Miðað við eðlilegan vöxt nemur stærð þeirra húsa, sem árlega eru tengd Hitaveitu Reykjavíkur, um 900 þús. rúmmetrum. Þetta samsvarar allri byggð í Keflavík eða álíka og helmingi byggðar Akureyrar, svo að einhver samanburður sé nefndur. Þessi dæmi sýna glögglega hvað árlegar framkvæmdir eru umfangsmiklar hjá Hitaveitu Reykjavíkur. Árlegur kostnaður við þessar framkvæmdir nemur um 3–4 milljörðum kr. og sýnir meðfylgjandi tafla framkvæmdaáætlun fyrir árið 1980, — en þar kemur fram, að hér er um að ræða bæði framkvæmdir við ný dreifikerfi í öll þessi fjögur sveitarfélög svo og virkjanir og boranir, bæði hér innan borgarlandsins og á Reykjum.

Á síðustu árum hefur orðið að skera niður nauðsynlegar framkvæmdir, og er nú svo komið, að ekki má fresta lengur þeim verkum sem lagt er til að unnin verði, ef halda á því rekstraröryggi sem hitaveitan hefur tryggt síðasta áratuginn. Það nálgast óðum sá tími sem Hitaveita Reykjavíkur getur ekki fullnægt hitunarþörf höfuðborgarsvæðisins. Að óbreyttu mun framboð á heitu vatni ekki fullnægja þörfum komandi vetrar. Stjórn veitustofnana telur að ekki komi til greina erlend lántaka til að standa undir eðlilegri stækkun, slíkt muni aðeins magna vandann á næstu árum. Ef gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur verður ekki fljótlega færð í þá átt að hún geti staðið undir eðlilegum vexti og rekstri, þá verður ekki komist hjá annaðhvort að hætta við að tengja nýbyggð hús Hitaveitunni eða þola kulda á köldustu árstíðum, nema hvort tveggja verði.“

Þetta er úr greinargerð sem stjórn veitustofnana hefur látið frá sér fara um ástand hjá Hitaveitu Reykjavíkur. Og það er í rauninni kaldhæðnislegt, að við skulum standa hér upp á hv. Alþ. og vera að ræða orkukreppu, þann geysilega kostnað sem af því leiðir að hita upp hús með olíu um landið, þegar stærsta hitaveita landsins er í þeirri stöðu vegna stefnu stjórnvalda, að það er á næsta leiti að þurfi að taka upp hitun með olíu á svæði þessarar hitaveitu. Og ekki nóg með það. Sannleikurinn er sá, að ef Hitaveita Reykjavíkur hefði fengið eðlilegar hækkanir væri hún búin að byggja sig enn frekar út. Þá væri væntanlega búið að ná samningum við ýmis önnur nágrannasveitarfélög sem bíða og hafa óskað eftir samvinnu við Hitaveitu Reykjavíkur. Þar vil ég t.d. nefna Kjalarneshrepp og Kjós og jafnvel Bessastaðahrepp. En vegna stefnu stjórnvalda hafa þessi sveitarfélög þurft að bíða og nota olíu til upphitunar sinna húsa. Þessi stöðugi vísitölufeluleikur hefur gert þetta að verkum, og því fer fjarri að þessi vísitöluleikur hafi orðið til þess, sem stefnt er að, þ.e. að launþegar fái betri lífskjör. Ég held að það ætti að reyna að vinda bráðan bug að því, að reynt verði að semja sérstaklega um þennan þátt í vísitölunni, því auðvitað er það hagsmunamál launþega um land allt að reynt verði að flýta sem allra mest nýtingu innlendra orkugjafa. En þetta fordæmi, sem við höfum nú í Reykjavík og þessi stefna stjórnvalda um mörg ár er vissulega ekki hvatning til þess að svo sé gert.