11.03.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1016 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

55. mál, tollfrjálst iðnaðarsvæði við Keflavíkurflugvöll

Flm. (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Uppbygging atvinnuvega er oft til umr. á Alþingi. Einkum er rætt um landbúnað og sjávarútveg, en minna fer fyrir umr. um sköpun nýrra starfstækifæra í iðnaði.

Á undanförnum árum hefur aflarýrnun hér suðvestanlands verið mjög tilfinnanleg og skapað margháttuð vandamál í atvinnulífi þeirra byggða er nær eingöngu hafa byggt á sjávarútvegi. Hvergi hefur aflarýrnun verið eins hrikaleg og á Suðurnesjum, sem sjá má af því að árið 1970 komu þar á land samtals 65 998 lestir af þorski, en á s.l. ári aðeins 45 281 lest. Fiskvinnsluhús á Suðurnesjum hafa samfara minnkandi verkefnum dregist aftur úr miðað við önnur fiskvinnsluhús á landinu hvað hagræðingu og tæknivæðingu snertir og er ástandið svo alvarlegt að einungis eitt frystihús á Suðurnesjum nær framleiðni sem talist getur þokkaleg. Atvinnutækifæri fyrir þann hóp, sem líklega hverfur frá fiskveiðum, fiskiðnaði, og fyrir þann fjölda ungs fólks, sem væntanlegt er á vinnumarkaðinn á Suðurnesjum á næstu árum, verða að vera í iðnaði eigi ekki að verða um brottflutning að ræða frá Suðurnesjum. Menn segja oft að koma þurfi upp iðnaði, en því miður eru menn úrræðalitlir þegar innt er eftir hvers konar iðnaði skuli koma á fót. Það er ekki að undra að svo sé, því að uppbygging iðnaðar á Suðurnesjum hefur átt mjög erfitt uppdráttar til þessa. Fyrir því eru að sjálfsögðu margar samverkandi ástæður, en auðvitað fyrst og fremst að áður en aflahrunið átti sér stað var atvinna þar mikil og stöðug. Þá hefur þetta landssvæði verið afskipt að fyrirgreiðslu er aðrir hafa fengið, og á ég þar við lánveitingar Byggðasjóðs.

Skömmu fyrir síðustu áramót gerði stjórn Byggðasjóðs samþykkt um að breyta útlánareglum á þann veg að afnema svokölluð landamæri, opna sjóðinn fyrir lánveitingum á þá staði sem áður hafa veríð afskiptir, en átt við byggðavandamál að stríða. Hins vegar hefur ekki reynt á þessa samþykkt, en það er von mín að ný stjórn Framkvæmdastofnunar virði hana, enda um réttlætismál að ræða.

Eitt aðalatriðið varðandi stuðning við iðnaðaruppbyggingu er skipulegt starf í leit að nýiðnaðarhugmyndum og nýiðnaðartækifærum. Síðan verður að fara fram skipuleg úrvinnsla hugmynda, fjármögnun rannsókna- og þróunarkostnaðar og síðan röðun hugmyndanna í forgangsröð eftir hagkvæmni. Vinna verður að athugun á nægilega mörgum iðnaðartækifærum í einu til þess að iðnaðaruppbygging verði jöfn og með þeim hraða sem atvinnuástand gerir kröfu til.

Talið er að um 200 manns komi út á vinnumarkaðinn á Suðurnesjum á ári næstu 5–10 árin. Um helmingur þess fólks mun leita sér starfa í þjónustugreinum. Er þá gert ráð fyrir að skiptingin stefni í að verða svipuð á Suðurnesjum og hún hefur verið yfir allt landið í heild milli framleiðslu- og úrvinnslugreina og þjónustugreina. Nú er atvinnuskiptingin þannig t.d. í Keflavík, að hlutur fiskvinnslu er 24.2%, en fyrir landið allt 8.2%. Þetta hefði í för með sér að um 100 manns leituðu eftir starfi í framleiðslu- og úrvinnslugreinum. Ljóst er því, ef ekkert yrði að gert til að skapa ný starfstækifæri á svæðinu, að helmingur þess fólks, er kemur á vinnumarkaðinn, má búast við að eiga erfitt með að fá atvinnu. Líklegt er að atvinnuleysi verði verulegt ef ekkert verður að gert. Að vísu eru Suðurnesin ekkert einsdæmi í þessum efnum, því að í rauninni er framtíðarsýn okkar Íslendinga í atvinnumálum heldur dapurleg ef ekki verður hafin sókn í átt til uppbyggingar í iðnaði.

Ef við lítum á reynslu annarra þjóða er eðlilegast að horfa þangað er finna má hliðstæður og verður Írland fyrst á vegi. Sjávarútvegurinn er og hefur verið undirstaða efnahagslífs okkar. Nú fer þeirri atvinnugrein hnignandi vegna ofveiði. Írar hafa við svipuð vandamál að stríða og við erum nú að reyna í sjávarútvegi og reyndar landbúnaði líka, þó með öðrum hætti sé. Landbúnaður hefur sem kunnugt er löngum verið aðalatvinnuvegur Íra. Á þeirri atvinnugrein byggðist afkoma þjóðarinnar að verulegu leyti fram á síðari ár. Er óþarft að fara mörgum orðum um það, að landbúnaðurinn var ekki fær um að veita landsbúum þá bót lífskjara sem almennt hefur orðið í löndum Vestur-Evrópu. Sú staðreynd varð til að skapa gífurlegt atvinnuvandamál í landinu, sem enn hefur ekki tekist að leysa að fullu þrátt fyrir mikið átak af hálfu stjórnvalda síðari árin. Þannig hafa fólksflutningar frá Írlandi verið mjög miklir og eru ekki mörg ár síðan þjóðinni beinlínis fækkaði af þeim sökum. Með ýmsum aðgerðum til atvinnusköpunar hefur stjórnvöldum þar þó tekist að draga mjög verulega úr fólksflóttanum.

Eitt af hagrænum einkennum Írlands er mikilvægi utanríkisviðskipta í efnahagslífinu. Landbúnaðarafurðir voru lengi vel meginútflutningur Íra, en þar sem verulegur hluti þess útflutnings var búfé á fæti skapaðist aldrei neinn teljandi vinnsluiðnaður til útflutnings í þeirri atvinnugrein. Jafnframt átaki til atvinnusköpunar hafa Írar lagt mikla áherslu á það hin síðari ár að renna fleiri stoðum undir efnahagslífið. Sú viðleitni hefur fyrst og fremst beinst að iðnþróun, og er nú svo komið að áberandi er aukið mikilvægi iðnaðarins á kostnað landbúnaðar. Verðmæti iðnaðarframleiðslu til útflutnings er nú mun meira en útflutningsverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar.

Írar hafa beitt ýmsum úrræðum til að skapa ný starfstækifæri. Eitt þeirra var að setja á stofn tollfrjálst iðnaðarsvæði við Shannon. Í fyrra flutti ég till. um athugun á stofnun slíks svæðis og endurflyt ég nú þá till. á þskj. 55. Þáttill. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta rannsaka hvort hagkvæmt er að starfrækja tollfrjálst iðnaðarsvæði við Keflavíkurflugvöll.“

Írar hafa náð stórkostlegum árangri með stofnun tollfrjáls iðnaðarsvæðis og því tel ég fyllstu ástæðu til að kanna hvort við getum ekki fetað í fótspor þeirra. Umferð um flugvöllinn við Shannon var afar mikil þar til langfleygar þotur voru teknar í notkun. Þá minnkaði flugumferð um völlinn verulega. Gripu Írar því til margvíslegra ráðstafana til að nýta betur hið mikla fjármagn sem bundið hafði verið í mannvirkjum á staðnum.

Árið 1958 var með lögum stofnað félag til að annast uppbyggingu við Shannon og tryggja arðbæra nýtingu þess fjármagns sem þar var þegar bundið. Með lögunum var félaginu heimilað að taka hverja þá ákvörðun sem með góðu móti mátti búast við að væri nauðsynleg til að hindra minnkandi flugumferð um flugvöllinn sem stafaði af tilkomu langfleygra flugvéla. Skyldi það gert með því að nýta alla möguleika sem flugvöllurinn hefði að bjóða. Eitt af því, sem gert skyldi, var að koma upp tollfrjálsu iðnaðarsvæði með iðnaðar- og verslunarfyrirtækjum sem væru að verulegu leyti háð flugflutningum með framleiðsluvörur sínar og hráefni. Jafnframt stofnun framkvæmdafélagsins og framkvæmdaráðs árin 1958 og 1959 var mikil stefnubreyting gagnvart erlendri fjárfestingu í landinu. Írar höfðu verið dæmigerðir einangrunarsinnar, en horfið var þá frá hefðbundinni stefnu verndartolla og skilyrðum um meirihlutaaðild inntendra aðila að fyrirtækjum og frjálslyndari stefna tekin upp. Erlendum fyrirtækjum var ekki aðeins leyft að rekja verksmiðjur og hvers konar starfsemi á Shannon og raunar öðrum stöðum, heldur gerðu Írar stórt átak til þess að hvetja þau til að hefja þar starfsemi.

Tollfrjálsa iðnaðarsvæðið og fríhafnarverslunin á Shannon voru fyrsta framtak sinnar tegundar í heiminum og náðu þegar gífurlegum vinsældum. Umferð fór strax að aukast, því að flugstjórar, sem þurftu að millilenda, völdu nú Shannon fremur en aðra flugvelli. Brátt var svo starfsemin aukin verulega og stofnuð svokölluð Alþjóðleg verslunarmiðstöð, þar sem vöruúrval er mjög fjölbreytt. Það er ekki aðeins að reksturinn hafi efnahagslega gengið vel, heldur hafði fyrirtækið mikið auglýsingagildi fyrir flugvöllinn. Auk þess hefur fyrirtækið tekið drjúgan þátt í ferðamálastarfsemi á Írlandi.

Vegna legu sinnar á flugleiðum Atlantshafsins er Shannon að mínu mati og einnig Keflavíkurflugvöllur ákjósanlegir staðir til að geyma iðnaðarvörur og dreifa þeim síðan í austur og vestur. Ávinningurinn af því að geyma þær vörur er aðallega sá, að ekki er nauðsynlegt að tollafgreiða í innflutningslandi fyrr en raunverulega þarf á vörunum að halda. Með því má koma í veg fyrir fjármagnsbindingu og vaxtakostnað. Varahlutir í t.d. margar bandarískar vélar í Þýskalandi eru geymdir í Shannon og má koma þeim flugleiðis þaðan á skömmum tíma. Eru hlutir þessir þá tollafgreiddir í Þýskalandi um leið og þeirra er þörf. Annars þyrfti viðkomandi verksmiðja að liggja langtímum saman með nauðsynlegar varahlutabirgðir sem greiddur hefði verið tollur af.

Sérstakt svæði við hliðina á flugfragtstöðinni í Shannon hefur verið skipulagt fyrir vörugeymslur eingöngu. Fullunnar vörur, hálfunnar eða hráefni má flytja á staðinn og ýmist geyma, vinna frekar við eða setja í aðrar umbúðir áður en þær eru endurútfluttar, allt án greiðslu tolla. Allt eykur þetta umferð um flugvöllinn og stuðlar að hagkvæmari gjöldum fyrir flugfragt.

Þá er málum svo komið nú, að verksmiðjubyggingar á tollfrjálsa iðnaðarsvæðinu við Shannon þekja hundruð þúsunda fermetra. Alls konar vörur eru framleiddar þar, og má nefna t.d. svo fjarskylda hluti sem alls konar elektrónískan iðnað, píanó o.s.frv. Upphaflega áttu Írar í erfiðleikum með að fá fyrirtæki til að setjast að á Shannon, þrátt fyrir öfluga auglýsingastarfsemi í mörgum löndum. Það var ekki fyrr en þeir höfðu byggt fullkomið verksmiðjuhús og skrifstofuhúsnæði að fyrstu fyrirtækin fengust til að hefja starfsemi þar. Írar töldu þetta stafa af því, að keppnin um að fá fyrirtæki til sín væri mjög hörð, sérstaklega byðu ýmsar þróunarþjóðir mjög góð kjör.

Nú er svo komið að um 500 fyrirspurnir koma árlega til Shannon og geta Írar valið þau fyrirtæki sem þeir telja sér hagkvæmast að fá. Það, sem þeir hafa einkum í huga við val fyrirtæk ja, er atvinna fyrir bæði karla og konur, og þá helst lærða iðnaðarmenn sem fá tiltölulega hátt kaup, svo og að fyrirtæki noti sem mest af hráefni frá landinu sjálfu.

Eins og ég hef áður sagt, var einn höfuðtilgangur aðgerðanna á Shannon í fyrstu að freista þess að nýta betur það mikla fjármagn sem þar var bundið. En minnkandi umferð um flugvöllinn varð til þess að skapa ótta um að öll hin miklu fjárútlát vegna mannvirkja þar mundu gefa lítið í aðra hönd. Sú uppbyggingarstarfsemi, sem ráðist var í af þessum sökum, var og hluti af alhliða ráðstöfunum sem hið opinbera stóð fyrir til lausnar tveimur tengdum þjóðfélagsvandamálum, þ.e. atvinnuleysi og fólksflótta úr landi annars vegar og vanþróuðum iðnaði hins vegar.

Þessi vandamál voru Írum mjög alvarleg, eins og flestum er kunnugt, og nú er svo komið að slík vandamál yfirskyggja margt annað hjá okkur Íslendingum, a.m.k. hjá þeim er horfa vilja til framtíðarinnar. Flugumferð um Keflavíkurflugvöll fór að vísu vaxandi nokkur s.l. ár. Árið 1972 var umferðin þó mest, en þá nam farþegafjöldinn 543 344 manns. Síðan varð veruleg fækkun. Um tíma jókst umferðin nokkuð aftur, og árið 1979, á s.l. ári, var farþegafjöldinn 553 385. Það er þó mun minni umferð en spáð var fyrir 10 árum. Samkvæmt þeirri spá var reiknað með að nú yrði farþegafjöldinn um 1 millj.

Framtíðarhorfur flugsins hér á landi eru mjög tvísýnar, því nú á Norður-Atlantshafsflugið í afar miklum erfiðleikum. Fjöldauppsagnir starfsfólks hafa þegar átt sér stað og er jafnvel rætt um að hætta Ameríkuflugi. Þegar hefur ferðum þangað fækkað. Nú er ástandið vægast sagt geigvænlegt. Fyrirsjáanlegt er að Keflavíkurflugvöllur verður nokkurs konar draugastöð ef svo heldur áfram sem horfir. Spáð er að fækkun farþega, er hafi viðkomi á Keflavíkurflugvelli, verði mjög mikil í ár, ekki síst ef áframhald verður á því að þotur Flugleiða haldi áfram að yfirfljúga, hætti viðkomu á Keflavíkurflugvelli.

Þrátt fyrir að ástandið sé nú alvarlegt er ekki ástæða til að fyllast vonleysi, því í fluginu skiptast vissulega á skin og skúrir. Það er aftur á móti ljóst, að margs konar aðgerðaleysi í málum, er varða flugstöðina og þá miklu umferð sem þrátt fyrir allt er enn um Keflavíkurflugvöll, hefur svipt Íslendinga margvíslegum ágóða.

Á síðustu árum hefur bryddað á atvinnuleysi og fólksflutningum úr landi hér. Það er uggvænleg staðreynd, að á s.l. 5 árum fluttust af landi brott samtals 3700 manns umfram þá er fluttust til landsins. Þetta jafngildir því, að á þessum árum hefðu allir íbúar í Sandgerði, allir í Garði og allir í Grindavík flutt úr landi. Ég hygg að allt of fáir hafi gert sér ljóst hve þessi vandamál eru hrikaleg. Það er vissulega ekki uppörvandi framtíðarsýn er við okkur blasir, því landbúnaður og sjávarútvegur munu engan veginn færir um að taka við því aukna vinnuafli sem leiðir af eðlilegri fólksfjölgun. Aukin áhersla á iðnþróun er því það ráð, sem flestir eru sammála um að taka beri til lausnar því vandamáli, og sökum smæðar heimamarkaðarins verði iðnaðarframleiðsla til útflutnings til að koma.

Þegar öllu er á botninn hvolft eru þessi frumvandamát því ekki óskyld þeim sem Írar stóðu frammi fyrir þegar þeir hófu þær aðgerðir sem ég hef leitast við að lýsa hér að framan. Þegar tollfrjálsa iðnaðarsvæðið á Shannon var ákveðið vantaði allt til alls á staðnum. Vinnuafl varð að sækja að aðallega til Limerick í 25 km fjarlægð. Við Shannon hefur nú risið mjög myndarleg byggð eða kaupstaður. Keflavíkurflugvöllur stendur ólikt betur að vígi, þar sem við næsta nágrenni hans búa tæplega 13 þús. manns og höfuðborgin í aðeins 40 km fjarlægð. Þá eru Hafnir í lítilli fjarlægð frá vellinum. Má benda á að þegar varnarliðið fer héraði losnar gífurlega mikið húsnæði sem nota mætti í sambandi við tollfrjálst iðnaðarsvæði með margvíslegum hætti. Ef það húsnæði væri ekki notað í þeim tilgangi er hætt við að langan tíma tæki að fá viðunandi arð af því.

Flugvellirnir í Keflavík og á Shannon eru á margan hátt sérstæðir. Þeir komast báðir næst því að vera miðja vegu milli Evrópu og Ameríku, því að við Norður-Atlantshaf eru þeir einu keppinautarnir um þær flugvélar sem millilenda til að taka eldsneyti. Enginn vafi er á því, að hinar margvíslegu ráðstafanir til að auka umferð um Shannon hafa borið árangur og þá á kostnað Keflavíkurflugvallar. Því má ætla að hliðstæðar ráðstafanir hér muni auka umferðina að mun.

Í grg. fyrir till. minni er aðeins vikið að tollabandalögunum. Ekki er ólíklegt að þjóðir, sem eru utan við þau bandalög, muni sækja eftir aðstöðu á tollfrjálsu iðnaðarsvæði hér. Í þessu sambandi þarf að kanna málefni tollabandalaganna sérstaklega.

Ég hef hér að framan borið saman aðstæður hér og á Írlandi og rætt um nauðsyn þess, að við Íslendingar færum sömu leið og Írar til að skapa ný starfstækifæri. Til frekari áherslu ætla ég hér að benda á eftirfarandi:

1. Samgöngur Íslendinga við umheiminn hafa raskast að undanförnu í kjölfar þeirra örðugleika sem Flugleiðir hf. eiga við að etja. Aukin þörf fyrir fragtflutninga til landsins gæti breytt því tapi er samdráttur eftirspurnar eftir farþegarými hefur myndað í hagnað þannig að flugsamgöngur við útlönd aukist aftur.

2. Kaupskipastóll Íslendinga hefur næg verkefni á leiðinni til Bandaríkjanna og frá Evrópu, en er lítt notaður á leiðinni frá Bandaríkjunum til Evrópu. Hugsanlegt er að með fullri notkun í báðar áttir á þessum tveimur leiðum mundu farmgjöld hækka minna en ella.

3. Flugvöllurinn í Keflavík er afmarkað svæði nú þegar með nægilegt rými þar í kring til stækkunar, en landið lítt nytsamlegt til annarra þarfa. Gæsla er þegar fyrir hendi.

4. Hinn áðurgreindi samdráttur í starfsemi Flugleiða hf. mun hafa skaðleg áhrif á atvinnutækifæri á Suðurnesjum, en vörugeymslusvæði mundi bæta úr þessu.

5. Sem framhald af þessari starfsemi er hugsanlegt að unnt yrði að koma á fót léttum iðnaði á svipuðu og e.t.v. nálægu svæði, svo sem samsetningu tækja, smíði varahluta og þess háttar, þar sem aðföngin eru flutt inn tollfrjáls, unnin á svæðinu og hinar fullunnu vörur síðan fluttar út tollfrjálsar eða keyptar með venjulegum hætti til neyslu á innlenda markaðinum.

Meðal breyttra aðstæðna, sem gera kleift að framkvæma þessa till., eru bætt samskipti við umheiminn sem fylgja í kjölfar hinnar nýju jarðstöðvar í Mosfellssveit.

Ég flutti þessa till. á síðasta þingi. Till. varð ekki útrædd, en atvmn. sendi hana til umsagnar. Umsagnir bárust m.a. frá atvinnumálanefnd Suðurnesja, og segir m.a. í þeirri umsögn, með leyfi forseta:

„Var einróma samþykkt í nefndinni að mæla með þessari þáltill. Mikil vöntun er á iðnfyrirtækjum á Suðurnesjum til þess að taka við þeim mannafla sem misst hefur atvinnu sína vegna samdráttar í sjávarútvegi. Er hér því um mikið hagsmunamál að ræða.

Það skal tekið fram, að gífurleg orka er nú að myndast á Suðurnesjum með tilkomu hitaveitunnar, sorpeyðingarstöðvarinnar og saltverksmiðjunnar. Vatnsorka er mikil og raforkuvinnsla er nú þegar 4 mw., en gæti orðið milli 20 og 30 mw. ef leyfi fengist til framleiðslu.“

Aðrar umsagnir um till. voru jákvæðar, sem sýnir að menn hafa áhuga á að kanna þetta mál til hlítar, athuga hvort við Íslendingar getum ekki farið að dæmi annarra við mótun nýrra starfstækifæra í því skyni að forðast atvinnuleysi sem fyrirsjáanlegt er ef ekkert verður að gert.

Herra forseti. Ég legg til að er umr. lýkur verði till. vísað til atvmn.