11.03.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1021 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

55. mál, tollfrjálst iðnaðarsvæði við Keflavíkurflugvöll

Jóhann Einvarðsson:

Forseti. Það er nú liðið á kvöldið og orðinn þunnskipaður bekkur hér í þinginu, svo ég skal ekki lengja mjög þessar umr. En ég vil taka undir þessa þáltill. sem Kari Steinar Guðnason, hv. 3. landsk. þm., flytur hér og var að lýsa áðan.

Það er rétt, sem fram kom hjá honum, að atvinna á Suðurnesjum er mjög viðkvæm um þetta leyti og hefur farið mjög versnandi á undanförnum árum, m.a. vegna minnkandi afla og ýmissa erfiðleika í rekstri slíkra fyrirtækja sem skapast hefur m.a. vegna þess að stjórnvöld hafa afskipt Suðurnesin mjög svo alvarlega.

Eins og fram kom í ræðu flm., kom þessi till. til umsagnar til okkar í Samtökum sveitarfélaga á Suðurnesjum eða í atvinnumálanefnd þeirra, og var þar einróma samþykkt að mæla mjög með þessari till. Við teljum að það sé kominn tími til að kanna á hvern hátt iðnaðaruppbygging verði aukin og ekki síst þá á Suðurnesjasvæðinu, þar sem orka, samgöngur og mannfjöldi er til, þar sem ekkert af þessu þarf að flytja til.

Ég vil svo að lokum í þessum stuttu áhersluorðum mínum um þessa till. minna á það, að í sameiginlegu skipulagi Keflavíkur, Keflavíkurflugvallar og Njarðvíkur, sem gert var fyrir nokkrum árum, er sérstakt svæði við Keflavíkurflugvöll frátekið fyrir tollfrjálst iðnaðarsvæði. Þetta skipulag er nú í endurskoðun, en samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef um þá endurskoðun, er þar enn gert ráð fyrir þessu svæði og ýmsar framkvæmdir og undirbúningur skipulagsmáta í Keflavík hafa verið við það miðuð að þessi starfsemi komist þarna á sem allra fyrst. Ég vil taka undir það sem fram kom í orðum hv. 3. landsk. þm. Þetta er ekki einungis atvinnuskapandi, þó að það sé líka stórt mál. Það eru líka miklar gjaldeyristekjur sem gætu af þessu skapast. Ég veit ekki hvort hv. þm. hafa gert sér grein fyrir því, að mikið af japönskum sjónvarpstækjum, sem seld eru á markað hér núna og á mjög góðu verði, að sagt er, þó ég þekki það ekki af samanburði, er sett saman hér í Evrópu vegna innflutningshafta til Evrópu á vissum stærðum af japönskum tækjum.

Ég vil að lokum árétta það, að ég tel rétt, að þessi könnun fari fram, og mæli því eindregið með því, að þessi till. verði samþykkt.