12.03.1980
Neðri deild: 42. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það má nú segja að hv. þm. Vilmundur Gylfason er blessunarlega búinn að fá málið aftur. Hann talaði lítið á meðan hann var í ráðherrastól, en hann er hættur að vera ráðh. núna, og ég var svo sem ekkert óhress með það þegar hann hætti, en þrátt fyrir allt hefur það kannske sína galla að hann skuli ekki vera ráðh. lengur.

Ég kem bara til þess að gera örlitla aths. út af tali Vilmundar um að hér sé um að ræða styrk, en ekki lán. Hann hefur farið um það mörgum orðum í tveimur ræðum sem ég hef hlýtt á. Ég hlustaði ekki nema á fyrsta hring hjá Sighvati, en ég hef hlustað á tvær ræður hjá hv. þm. Vilmundi Gylfasyni. Hann fjölyrti í báðum þeim ræðum sínum að þetta væri styrkur, en ekki lán. Ef hv. þm. Alþfl. væru frekar á því og vildu að þetta væri framlag, þessir 3 milljarðar, hefðu þeir átt að koma því á framfæri í ríkisstj. á meðan þeir sátu þar í fyrravor, þegar málið upphaflega komst á dagskrá. Ég vil vitna til aths. sem fylgja frv., þ.e. aths. við 2. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við það er miðað, að innan tíðar skapist nokkurt svigrúm innan þess ramma, er lög nr. 101/1966 setja um útflutningsbætur, og losni þar með fé er nota megi til endurgreiðslu lánsins.“

Nú er ég ekki að fullyrða að þetta gerist. Raunar hefur hv. Ed. tekið af okkur ómak að hluta til og létt á þessum 10% sem vonandi verða ekki fullnýtt alltaf, svo að hægt verði að endurgreiða þetta lán með þeim fjármunum sem afgangs yrðu af 10% útflutningsbótaréttinum. Með því að ávísa á Byggðasjóð hefur þessari kvöð að hluta til verið létt af 10%.

Jarðræktarlagabreyting í fyrravor var m.a. gerð til að skapa svigrúm og hvetja bændur til bættrar heyverkunar. Sumir þm. Alþfl. hafa verið að halda því fram, að það hafi ekkert verið gert í því máli og ekkert verið gert til að örva menn til bættrar heyverkunar. Það er mesti misskilningur, og þetta mundu þeir geta aflað sér upplýsinga um með þægilegum hætti.

Hv. þm. Vilmundur Gylfason ávítaði það sem hann kallaði fleðutón um bændastéttina. Ég er alltaf tilbúinn að hæla bændum ef þeir standa sig vel. Og ég er líka tilbúinn að hæla sjómönnum þegar þeir standa sig vel, og hef margoft gert það. Sem betur fer eru flestar okkar atvinnustéttir mjög nýtar í þjóðfélaginu og nauðsynlegar til að við getum lifað í þessu samfélagi og vel menntar og duglegar. Ég væri m.a.s. tilbúinn að taka undir að hæla lögfræðingastéttinni, þó að hún sé kannske skyldari Sjálfstfl. en okkur framsóknarmönnum, ef hv. þm. Vilmundur Gylfason vildi vera forsöngvari fyrir mig í því máli.