20.12.1979
Efri deild: 8. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

4. mál, ferðagjaldeyrir

Frsm. meiri hl. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Fjh.og viðskn. hefur fjallað um frv. til l. um álag á ferðagjaldeyri. N. klofnaði í meiri og minni hl. og hefur skilað tveimur álitum í samræmi við það.

Þetta frv. er í tveimur greinum. 1. gr. fjallar um það, að á árinu 1980 skuli leggja 10% gjald á andvirði erlends gjaldeyris sem gjaldeyrisbankarnir selja til greiðslu á dvalarkostnaði erlendis öðrum en viðurkenndum kostnaði nemenda og sjúklinga og áhafnagjaldeyri. Gjaldið rennur í ríkissjóð og skal innheimt í gjaldeyrisbönkunum eftir þeim reglum sem fjmrh. setur.

2. gr. er um gildistímann. Lög þessi öðlist gildi 1. jan. 1980.

Þetta er í raun og veru framlenging á gjaldi sem lagt var á á seinasta ári. Það mun upphaflega hafa verið lagt á haustið 1978 og var liður í þeim efnahagsráðstöfunum, sem þáv. ríkisstj. beitti sér fyrir, og mun upphaflega hafa verið sett með brbl., ef ég man það rétt.

Ég mæli hér fyrir áliti meiri hl. fjh.- og viðskn. N. hefur fjallað um frv. á fundi sínum í dag og meiri hl. hennar mælir með samþykkt frv. óbreytts. Meiri hl. skipa Ólafur Ragnar Grímsson, Eiður Guðnason, Tómas Árnason og Guðmundur Bjarnason.