20.12.1979
Neðri deild: 9. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í B-deild Alþingistíðinda. (179)

16. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Frsm minni hl. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti minni hl. iðnn. sem liggur fyrir á þskj. 58, og ég vil byrja á því að lesa þetta nál. sem er ekki margort, með leyfi forseta:

„Minni hl: n. er efnislega samþykkur frv. og mælir með samþykkt þess. Hins vegar leggur minni hl. áherslu á að hluti af tekjum af verðjöfnunargjaldinu verði notaður til að ná fram verðjöfnun frá því sem nú er á töxtum til heimilisnotkunar og iðnaðar hjá þeim aðilum, er gjaldsins njóta, og telur eðlilegt markmið, að þessir taxtar verði í mesta lagi 20% hærri en hjá Rafmangsveitu Reykjavíkur síðari helming ársins 1980.

Þá vill minni hl. ítreka það sjónarmið, sem samstaða varð um í fyrrv. ríkisstj. við undirbúning fjárl. fyrir árið 1980, að frá og með því ári beri ríkissjóður allan kostnað af félagslegum framkvæmdum, sem Rafmagnsveitum ríkisins er falið að ráðast í og standa fyrir. Slík stefnubreyting í reynd varðandi fjármál Rafmagnsveitnanna ætti að auðvelda að ná fram eðlilegri verðjöfnun á raforku í landinu og gera kleift að endurskoða þau ákvæði um verðjöfnunargjald, sem gilt hafa frá árinu 1974 og enn er þörf fyrir.“

Og með mér standa að þessu nál. hv. þm. Páll Pétursson og Karvel Pálmson.

Ég tók til máls í umr. um þetta mál í gær hér í hv. þd. og gat þess, að ég hygðist flytja brtt. við frv. eins og það liggur fyrir. Að athuguðu máli féll ég frá þessu, sérstaklega til þess að tryggt væri að mál þetta næði fram að ganga fyrir jólahlé og yrði lögfest. En það atriði, sem ég hafði þar í huga og gerði raunar að umræðuefni í gær, var einmitt það sem fram kemur í áliti minni hl. í 1. efnislið, að tryggt yrði að hluti verðjöfnunargjaldsins yrði notaður til að draga úr núverandi verðmun hjá gjaldendum Rafmagnsveitnanna og Orkubús Vestfjarða annars vegar og þorra af rafveitum sveitarfélaga hins vegar. Þessi munur er nú nálægt 55%.

Vegna orða hv. frsm. meiri hl. áðan, Guðmundar G. Þórarinssonar, um að það væri ekki raunhæft að taka Rafmagnsveitu Reykjavíkur þarna inn í dæmið, vil ég geta þess að hún sker sig á engan hátt úr hvað snertir gjaldskrár annarra rafveitna sveitarfélaga, nema jafnvel síður sé, því að sumar rafveitur sveitarfélaga hafa jafnvel enn þá lægri gjaldskrá en Rafmagnsveita Reykjavíkur. Hitt er svo annað mál, að það hefur ekki verið orðið við óskum Rafmagnsveitu Reykjavíkur um hækkanir á gjaldskrá oft og tíðum, og það hefur eflaust bakað því fyrirtæki eins og fleiri þjónustustofnunum erfiðleika og þær þurft að leysa sín mál með öðrum hætti en þær hefðu kosið.

Ég tel að raunhæft markmið sé að draga úr verðmun, eins og fram kemur í nál. minni hl. iðnn. Ég leitaði mér upplýsinga um það hjá rafmagnsveitustjóra ríkisins í morgun, hvað það þýddi í reynd ef stefnt væri að því að munur á gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins og Rafmagnsveitu Reykjavíkur yrði 20% allt árið 1980. Þær upplýsingar komu fram, að til þess að það mætti takast þyrfti að verja sem svaraði 45% af verðjöfnunargjaldinu til þessa. Þetta sýnir okkur ljóslega að drjúgur hluti gjaldsins fer í að hamla gegn verðhækkunarþörf sem ella kæmi til hjá Rafmagnsveitum ríkisins og auðvitað einnig hjá Orkubúi Vestfjarða.

Það er auðvitað ekki alls kostar rétt, sem hefur komið fram hér í umr. og raunar oft áður, að ég trúi, hér á þinginu, að heiti gjaldsins sé ekki réttnefni. Það er vissulega umdeilanlegt. Þó er alveg ljóst að innheimta gjaldsins á liðnum árum hefur dregið úr frekari hækkunarþörf á gjaldskrám þeirra sem gjaldsins hafa notið og að því leyti stuðlað að því að hamla gegn auknu misrétti í þessum efnum.

En þau ákvæði, sem sett voru inn í frv. í fyrra að minni till., þegar það var hækkað úr 13% í 19%, að tekjum af hækkuninni yrði eingöngu varið til að draga úr verðmismun, urðu til þess að markvisst var að því unnið og það tókst að minnka þann mun að nokkru marki eða úr 88% í milli 53 og 54%, eins og munurinn er nú.

Það var vikið að því af hv. 12. þm. Reykv. áðan að verðjöfnunargjaldið kæmi illa við íslenskan iðnað og samkeppnisaðstöðu hans. Það má til sanns vegar færa. Ég tek undir það sjónarmið, að þetta er íþyngjandi fyrir samkeppnisiðnað okkar, og vil geta þess hér, að ég skipaði sem iðnrh. fyrr á þessu ári nefnd til þess að fara yfir verðlagningu á orku til almenns iðnaðar í landinu. Ég veit ekki annað en sú nefnd sé að störfum. Þá hafði ég einnig í huga þetta gjald og gjaldskrár sem iðnaður okkar býr við og þarfnast endurskoðunar.

Það kemur fram í nál. meiri og minni hl. svipað viðhorf um hvaða leið beri að velja til þess að brjótast út úr þeim erfiðleikum sem Rafmagnsveitur ríkisins búa við og þá einnig Orkubú Vestfjarða, sem svipað stendur á fyrir og Rafmagnsveitunum, til þess að unnt verði að koma fjárhag þessara fyrirtækja á sæmilega heilbrigðan grundvöll. Það er að tryggja að þær framkvæmdir, sem félagslegar eru kallaðar og skila ekki arði út frá sjónarmiðum þessara fyrirtækja, verði fjármagnaðar með beinum framlögum frá eigendum sínum og þannig verði hægt að draga úr þörfinni fyrir lántöku, sem hefur reynst afar þungur baggi hjá Rafmagnsveitunum og fyrir Orkubú Vestfjarða auðvitað einnig á undanförnum árum og leitt þar til árvissra erfiðleika og hallarekstrar.

Ég tel að það skipti afar miklu máli við undirbúning fjárlaga fyrir næsta ár, að við þá stefnumörkun verði staðið sem samkomulag varð um í fyrrv. ríkisstj. í sambandi við framlög til Rafmagnsveitnanna, og þarf auðvitað að líta einnig á málefni Orkubúsins í þessu samhengi og þannig að það verði hægt að tryggja þá verðjöfnun sem við gerum að umtalsefni í áliti minni hl. og teldum eðlilegt spor í átt til sanngjarnrar verðjöfnunar. Þó má auðvitað um það deila hvort nákvæmlega sama gjald af raforku eigi að gilda um allt land, en ég hygg að menn geti verið sammála um að sá verðmunur, sem við nú búum við að þessu leyti og þá enn frekar varðandi upphitunarkostnað, sé með öllu óviðunandi.

Ég er út af fyrir sig ánægður með, að það er mun minni andstaða gegn lögfestingu þessa gjalds og framlengingu þess um eitt ár nú í hv. þd. en var á þinginu í fyrra, og met það við þá aðila sem eru óánægðir — sumpart af skiljanlegum ástæðum — með þessa gjaldtöku, að þeir skuli ekki ætla að standa gegn framgangi þessa máls hér nú. Ég vænti að það verði samþykkt þó að meiri hl. iðnn. treysti sér ekki að greiða því atkv. sitt.