29.04.1980
Sameinað þing: 50. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2164 í B-deild Alþingistíðinda. (2014)

Umræður utan dagskrár

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég hefði talið enn heppilegra að þessi umr. hefði farið fram í Ed. í dag, því þar höfðu þeir lítið fyrir stafni. Þá hefðum við Halldór Blöndal, hv. þm., sloppið við að standa hér upp, Eyjólfur Konráð Jónsson hefði t. d. getað tekið til máls í staðinn fyrir okkur, og Nd. unnið að þeim málum, sem þar voru á dagskrá, og hefði getað haft tíma til að klára sína dagskrá. Mér er það alveg ljóst, hv. þm., að við erum í Sþ. sem stendur.

Sem betur fer er fjöldi fólks á Íslandi að fást við bókmenntalega iðju. Þetta er meira og minna hæft fólk og þetta er eitt af okkar aðalsmerkjum, að fjöldi manna í þessu þjóðfélagi er að sýsla við að setja saman bækur. Þessar bækur eru náttúrlega misjafnar. Þessi hugverk, sem menn eru að vinna, eru misjöfn að gæðum.

Hér hefur verið varpað fram þungum ásökunum á tiltekna nefnd, sem unnið hefur trúnaðarstarf. Það hefur verið glósað með pólitískar skoðanir þessara nefndarmanna héðan úr ræðustól. Ég vil nota þetta tækifæri og ég vil ekki láta vin minn Björn Teitsson liggja undir því, að hann sé kannske Alþb.-maður. Ég vil fullyrða að hann er framsóknarmaður. Og ég þekki vel til annars nefndarmanns, Sveins Skorra. Það vill svo til að hann var einu sinni erindreki Framsfl. og m. a. fyrir hans orð gekk ég í Framsfl. á sínum tíma. Ég hef ekki orðið var við hann í flokksstarfi okkar framsóknarmanna undanfarin ár, en ég gæti vel trúað því að hann hefði kosið Framsfl., vegna þess að ég þekki það að hann er skynsamur maður. Ég hef ekki haft þá ánægju að hitta frú Fríðu Sigurðardóttur og veit ekkert um hennar stjórnmálaskoðanir. Mér sýnist að þessi nefnd sé líkleg til þess að geta unnið trúverðugt starf. Ég a. m. k. vil ekki gefa mér það, að hún sé ekki til þess hæf.

Mergurinn málsins er náttúrlega sá, hvort Ólafur Jóhann Sigurðsson og þessir fjórir, sem fengu 9 mánaða starfslaun, eru líklegir til þess að semja góð verk á þessum meðgöngutíma sem ríkið ætlar að borga þeim kaup. Ég næstum því þori að fullyrða það, að Ólafur Jóhann Sigurðsson mun semja gott verk á 9 mánuðum. Ég þori að fullyrða það, að frú Svava Jakobsdóttir er vís til að semja gott verk á 9 mánuðum. Ég vonast til að hin geri það líka. Ég þekki reyndar verk Jakobínu Sigurðardóttur að nokkru og veit að þau eru að ýmsu leyti góð. Ég veit minna um ritverk Ólafs Hauks Símonarsonar, enda er hann yngstur af þessu liði.

Í þeim flokki, sem úthlutað var 6 mánaða starfslaunum, eru ágætir höfundar. Ég sé menn þar sem ég tel ekki líklega til þess að skrifa betri verk heldur en þá í efri flokknum. Ég t. d. stórefa það, að þó að bætt væri t. d. þriggja mánaða launum við Njörð P. Njarðvík, sem hér er nefndur, þá yrði hann betri höfundur eða líklegri til að semja betri verk eða þá væri þeim peningum betur varið heldur en að launa frú Svövu í þessa þrjá mánuði. Ég efast um að Þorgeir Þorgeirsson eigi þetta fremur skilið en Ólafur Jóhann Sigurðsson.

Svona samanburður er frekar fánýtur — og þó. Það er hægt að hafa ýmislegt form á úthlutun til lista og ýmislegt mat á listum og því starfi öllu. Ég er hér með þskj. sem við fjölluðum um fyrir nokkrum dögum, rétt fyrir páskana. Það er brtt. við fjárlög frá báðum menntmn. þessa þings, þar sem 12 menn eru teknir út úr og fá sérstök heiðurslaun samkv. ákvörðun Alþingis. Þetta er allt saman heiðursfólk. En það er fleira af heiðursmönnum hér í þjóðfélaginu. Og það er pólitískur „ballans“ í vali þessara manna. Það var passað og óumdeilt. En ég er ekki endilega viss um að þetta sé réttari aðferð eða ábyggilegri heldur en það mat sem hin nefndin notaði eða að hér séu þeir 12 einir sem eru þessa heiðurs verðir.