14.05.1980
Efri deild: 88. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2660 í B-deild Alþingistíðinda. (2631)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Forseti (Helgi Seljan):

Út af orðum hv. þm. held ég að rétt sé að við gerum örstutt hlé á fundinum, því að menn vilja kannske tjá sig enn frekar um þetta mál, ef svo er að menn vilja halda umr. áfram fram eftir nóttu. Ég hef út af fyrir sig ekkert á móti því. Hins vegar skal ég taka það fram, að þessi ósk kemur alveg flatt upp á mig vegna þess að ég hef haft samband við þá þm., sem hér hafa verið í dag, ég held allflesta, og gert þeim grein fyrir atkvgr. og enginn gert þar athugasemd við. Þetta er alveg ný ósk borin fram um það leyti sem umr. er algjörlega að ljúka. Ég held að það sé rétt að við gerum 5 mínútna fundarhlé til þess að menn geti ráðgast um málið. Ég slít ekki umr., en gef 5 mínútna fundarhlé til þess að menn geti ráðgast um hvað menn vilja gera í þessu. Ég vil halda fullri sátt í deildinni, en hins vegar taldi ég mig hafa sinnt öllum forsetaskyldum við þm. í dag með því að gera þeim grein fyrir því, hvaða afgreiðsla yrði á þessu máli. Ég vil taka það skýrt fram. Það er því ekki við mig að sakast í því efni að þessi ósk kemur fram núna rétt fyrir miðnætti. Þar hefur einhver annar ruglast, sennilega við lestur þessara mörgu brtt., úr því að þessi ósk kemur fram svo síðla. Satt er það, að brtt. eru margar, en ég verð að játa að einmitt vegna þess að brtt. eru margar — menn hafa haft þær hér á borðunum í dag — og atkvgr. um þær tekur nokkurn tíma, langaði mig hreinlega, og ég hélt að alla þm. langaði til þess að ljúka þessari leiðinlegu atkvgr. af því hún er löng og leiðinleg. — En við skulum gefa 5 mínútna fundarhlé til þess að ráðgast um hvaða aðferð skal hér hafa. Ég bið þingflokksmenn að ráðgast um þetta mál einn frá hverjum þingflokki til að ganga frá frekari afgreiðslu. — [Fundarhlé.]