19.05.1980
Neðri deild: 80. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2873 í B-deild Alþingistíðinda. (2876)

184. mál, Iðnrekstrarsjóður

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það hafa sumir hv. þm. hér í kvöld kvartað undan því, að það væri verið að fjalla um málefni, sem tefðu þingstörf, og haldið væri hér uppi málþófi af þm., og það menn sem komið hafa upp utan dagskrár. Ég get ósköp vel skilið að það gæti óþolinmæði hjá hv. þm. að vita hvert stefnir með þinghald og hvenær hugmynd er að þinghaldi ljúki. Það hafði verið gert ráð fyrir að það gerðist á morgun. Ég hygg þó að allir viti af hvaða ástæðum það er, sem ekki hefur verið settur punktur aftan við þetta: að ekki mun hafa tekist um það full samstaða enn sem komið er, hvenær þingstörfum ljúki, milli stjórnarsinna og stjórnarandstöðu. Ég vænti þess, að úr því fáist nú skorið áður en mjög langt um líður, þó að mér sé út af fyrir sig ekkert að vanbúnaði að taka hér þátt í þingstörfum næstu daga og vikur, ef áhugi er á því. Ég held að menn þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af sauðburði úti um byggðir landsins nú á þessum góðu vordögum. Það hefði sjálfsagt legið verr á bændum hér, sem áttu sæti á þinginu í fyrra, að komast ekki á bú sín til þess að fylgjast með gangi mála þar. En sem betur fer árar nú öðruvísi, þó að svo hátti að vísu einkennilega í okkar landi að árgæska til lands og sjávar sé ekki endilega talin af hinu góða reiknað á mælistiku okkar einkennilega efnahagslífs, en ég ætla ekki að víkja að því hér.

Ég kvaddi mér hér hljóðs til þess að víkja að fáeinum atriðum sem fram komu hér í máli tveggja hv. þm., hv. 10. þm. Reykv. og hv. 6. þm. Reykv., vegna þess máls sem hér er til umr., þ. e. frv. til l. um Iðnrekstrarsjóð. Þeirra málflutningur var í fyllsta máta þinglegur, og ekki þótti mér neitt lakara að vera minntur á efni úr fskj. með þáltill. sem hér var tvíflutt á s. l. ári, út af fyrir sig, þó að ég hafi heyrt grunsemdir um það, að lestur úr þeirri bók væri að einhverju leyti til þess að stytta nóttina hér á hv. þingi. En ég er ekki að gera því skóna, að sú hafi verið ætlan þeirra sem hér töluðu.

Það voru sem sagt atriði, sem þeir véku að og beindu til mín fsp., og ég tel mér skylt að víkja að þeim, þó að ekki verði það í löngu máli, því ég hygg að allir hafi áhuga á því að þingstörfum miði hér nokkuð. Væri þó ærin ástæða til þess að fjalla um málefni iðnaðarins nokkuð vítt, eins og reyndar hefur komið fram hjá mönnum hér á þinginu áður. En stutt þinghald og annríki hér á síðustu dögum þingsins veldur því, að svigrúm til slíkrar víðtækrar umræðu er tæpast fyrir hendi og tilefni kannske ekki til þess þegar fjallað er um annars merkilegt málefni eins og það sem hér er til umr.

Ég vil þá aðeins í upphafi víkja að því, sem fram kom hjá hv. 10. þm. Reykv., þ. e. fsp. um það, hvers vegna ekki hefði verið borin hér fram þáltill. um iðnaðarstefnu á þessu þingi, en flutt var slík till. tvívegis á s. l. ári, þá á tveimur þingum. Ástæðan fyrir því er ekki sú, að það sé ekki hugur núv. ríkisstj. að standa að slíkri stefnumótun. Þvert á móti er í upphafskafla í stjórnarsáttmála um iðnaðarmál að því vikið, að ríkisstj. hyggist móta slíka langtímastefnu um iðnþróun í landinu. Ég veit ekki annað en það sé í öllum aðalatriðum samstaða um það mál, svipað og það var lagt hér fyrir í fyrra, enda hefur komið fram að undirtektir við þá till., það litla sem hún hefur komist til umr., hafa verið góðar og það í flestum atriðum og óháð því, hvar í flokki menn hafa staðið, enda var undirbúningi málsins háttað með það í huga, að það væri reynt að sameina menn um iðnþróunarátak í landinu. Ég held að það hafi tekist með sæmilegum hætti, þó ég vilji gera greinarmun á þáltill., sem er kjarnaatriði sem þó byggir að verulegu leyti á því fskj. sem hér var vitnað í áðan. En ástæðan fyrir því, að till. var ekki flutt nú á þessu þingi, var sú, að okkur sýndist að það væri óvissa um að málið fengi lyktir á þinginu. Og vegna þess að það er víðfeðmt og vekur eðlilega áhuga margra og þarfnast verulegrar umr., þá var það mat ríkisstj. og mitt mat eftir að hafa heyrt í mönnum í ríkisstj., að það væri ekki rétt að fara að flytja málið nú með svo knappan tíma fyrir stafni eins og sýnilegt var hér á þessu þingi, en frekar að leggja það fyrir að hausti. Ég geri ráð fyrir því, að ef ég gegni starfi iðnrh. þegar þing kemur saman í haust, muni ég beita mér fyrir því að málið komi þá snemma fram á þinginu þannig að hægt verði að ræða það eins og ég heyri að áhugi er um.

Hv. 10. þm. Reykv. vék í upphafi máls síns að spurningunni um þróunaraðgerðir, sem tengjast því frv. sem hér liggur fyrir um Iðnrekstrarsjóð, og hvað líði aðgerðum af hálfu ríkisstj. til að örva slíkar aðgerðir m. a. innan fyrirtækja. Ég vil vísa til þessa frv. sem hér liggur fyrir, að því er beinlínis ætlað að verða hvati til slíkra aðgerða. Það er að því vikið, að þarna verði um mótframlög að ræða í mörgum tilvikum til fyrirtækja, þar sem þau leggi fjármagn á móti til rannsóknar- og þróunarstarfsemi á sínum vettvangi og markaðsstarfsemi og fái stuðning á móti úr þessum sjóði sem hér er verið að efla. Ég vil einnig geta þess, að mér finnst það vera mjög til athugunar að það verði reynt að örva rannsóknar- og þróunarstarfsemi í iðnaði með því að gefa fyrirtækjum kost á skattfríðindum í einhverju formi til örvunar. Þetta er leið sem farin hefur verið í ýmsum nálægum löndum, og mér finnst að það sé fullkomlega réttmætt að athuga það, og ég mun láta líta á málið út frá því. Ég held að það sé of lítið gert að því hér að beita ákvæðum skattalaga til þess að hvetja með eðlilegum hætti til uppbyggingarstarfsemi í atvinnulífi, og þurfa það ekki alltaf að vera þættir sem kosta ríkissjóð mikið eða muna miklu að því leyti, en geta riðið baggamuninn þegar um það er að ræða hvort fyrirtækin sinna viðkomandi máli og leggja þar rokkuð af mörkum. Mig minnir að þessi hvati sé á erlendu máli kenndur við „gulrót“ og að sýna gulrót, eins og það er orðað, í slæmri þýðingu þó.

Það var í máli beggja hv. þm., sem hér töluðu áðan um málið, vikið að iðnaðarstefnu nokkuð vítt og þ. á m. að stóriðjustefnu og hvað liði vinnu á vegum núv. ríkisstj. að slíku máli og hvað ég hefði í huga í sambandi við það. Ég skal víkja að því í örfáum orðum, það getur ekki orðið í löngu máli. En það gladdi mig að heyra að hv. 6. þm. Reykv. túlkaði hér mál af skynsemi, að mér þótti, í sambandi við viðhorf til iðnaðaruppbyggingar í landinu, og af meiri skynsemi en ég stundum heyri frá talsmönnum í hans flokki, þar sem á honum mátti skilja að stóriðjustefna eða uppbyggingu orkufreks iðanaðar í landinu leysti ekki allan vanda hér og væri kannske ekki það mál mála í sambandi við iðnþróun, þótt mikilvægt geti talist. Ég er honum alveg sammála um að við þurfum að hyggja hér að fjölþættri atvinnustarfsemi og þ. á m. fjölþættri iðnaðaruppbyggingu hjá okkur, þar sem saman fer stuðningur við smárekstur, arðvænlegan smárekstur af ýmsu tagi, smá og miðlungsstór fyrirtæki, sem nú eru mjög á dagskrá eins og hv. þm. vék réttilega að. Hann nefndi Bandaríkin í því sambandi, en ég vil bæta við Norðurlöndum þar sem þetta mál hefur verið til sérstakrar meðferðar á vettvangi Norðurlandaráðs. Nýlega er komið út nál. um málefni lítilla og meðalstórra fyrirtækja og hvernig að þeim er staðið í hinum einstöku löndum og ábendingar um hvernig stjórnvöld geti búið að slíkum rekstri. Um þetta verður haldin ráðstefna fyrir tilstuðlan iðnaðarráðherranefndar Norðurlanda í næsta mánuði, — ráðstefna sem ég mun sækja. Þetta mál er allrar athygli vert. Á sama hátt hlýtur það að vera áhugavert fyrir okkur að hugleiða og gera á því athugun hvernig best verði að því staðið að hagnýta hinar tiltölulega miklu orkulindir landsins: fallvatna og jarðvarma, til atvinnuuppbyggingar í landinu. Þar er á ferðinni sannarlega stórmál, vandasamt mál, sem ég tel fulla ástæðu til að gaumgæft sé. Mitt rn., iðnrn., mun, eins og reyndar fram kemur í fjárlögum, þar sem sérstök fjárveiting er til athugunar á orkufrekum iðnaði, vinna að greiningu á þeim kostum sem helst sýnast koma til greina í sambandi við orkufrekan iðnað í landinu og iðnað sem nýtir orkulindir landsins. Ég tel að það þurfi að fara fram fordómalaus úttekt á þeim kostum og athugun á því, hvernig að slíkri atvinnuuppbyggingu verði staðið með skynsamlegum hætti og hún felld inn í okkar efnahagslíf og atvinnulíf á komandi árum og áratugum, því að engum dettur í hug, jafnvel ekki þeim sem ákafastir virðast í sambandi við svokallaða stóriðju eða orkufrekan iðnað, að þarna verði allt gert í einn, og væna eflaust margir mig um það að vera heldur hægfara í þessum efnum. Ég játa það, að ég vil fara þarna að með mikilli gát, sérstaklega í sambandi við fjármögnun og hvernig að uppbyggingu slíkra fyrirtækja er staðið, þannig að ekki sé neinu hætt til í sambandi við fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. En þarna er einnig að ýmsum fleiri þáttum að hyggja, þetta varðar ýmsa fleiri þætti, félagslegs eðlis, umhverfislegs eðlis, sem taka þarf inn í þessa mynd.

Ég tek undir það, að það er full ástæða til að samhæfa iðnaðarstefnu í landinu og orkustefnu í landinu. Það er að vísu svo, að virkjanir í þágu raforkukerfis okkar, einnig stórvirkjanir sem svo eru kallaðar, upp á hundrað mw. í afli, eru taldar hagkvæmar umfram smærri virkjanir, nokkra tugi mw., þó að ekki komi til orkufrekur iðnaður, — hagkvæmari að tiltölu. Hins vegar er það mat manna, að ef menn hafa hagkvæm iðnaðartækifæri, iðnaðarkosti til þess að fella að slíkri uppbyggingu raforkukerfisins, þá geti það verið hagkvæmt, og á það ber að sjálfsögðu að líta í einstökum tilvikum. M. a. af þessum ástæðum er nauðsynlegt, eins og ég gat um, að greina þá kosti sem hér sýnast helstir fyrir hendi, og er þar af mörgu að taka og ætla ég ekki að fara út í þau efni.

Ég vil samt rifja það upp, sem hér hefur þó fram komið, að við erum með í mótun — og um það var raunar spurt hér áðan — miðlungsstóra iðnaðarkosti sem nota innlendar orkulindir: jarðvarma og raforku, að vísu ekki í ríkum mæli, en styðjast við orkulindirnar og þar sem innlend orka er undirstaðan í þeim iðnaðarkostum. Við erum farin að kalla þetta til styttingar hin „fjögur S“ uppi í iðnrn., svona sem skammstöfun, því það vill til að þarna er um að ræða verksmiðjur sem allar hefjast á S: steinullarverksmiðja, sykurverksmiðja eða sykurhreinsunarverksmiðja, saltverksmiðja og stálbræðsla, sem svo er kölluð. Allar þurfa á innlendri orku að halda og byggja á því, ef úr þeim verður. Um eitt af þessum fyrirtækjum var sérstaklega spurt hér áðan, þ. e. um steinullarverksmiðjuna, hvar það mál sé statt. Það er alveg rétt, að það var gert ráð fyrir að svo kynni að fara að það væri hægt að leggja frv. um þetta fyrirtæki fyrir núverandi þing. Það varð ekki niðurstaðan að athuguðu máli, að svo yrði gert. Það er unnið að því að greina alla þessa iðnaðarkosti, þ. á m. steinullarverksmiðju, og ég vænti þess, að það liggi fyrir fyrir haustið og þá væntanlega einnig hvar menn teldu æskilegt að reisa slíka verksmiðju, en það er eitt af því sem eftir er að fara ofan í saumana á og nú er unnið að. Það er unnið að greiningu allra þessara kosta.

Þá vil ég aðeins víkja að því, sem ég var sérstaklega spurður um af hv. 10. þm. Reykv., hvort ég teldi að það bæri að hyggja að arðsemi í íslenskum iðnfyrirtækjum. Það er nú dálítið undarlegt kannske, að svona spurning sé fram borin. En ég vil, til að taka af allan vafa, svara því svo, að ég tel skipta meginmáli að þess sé gætt í sambandi við þau fyrirtæki, sem hér eru reist, — ég tala nú ekki um stærri fyrirtæki, þar sem hinu opinbera er ætlað að leggja fram verulegt fjármagn, — að þar sé ekki teflt í tvísýnu að bestu manna yfirsýn í sambandi við arðsemi slíkra fyrirtækja. Þannig tel ég að þurfi að standa að málum, og m. a. af þeim sökum höfum við ekki flýtt okkur mjög að knýja á um ákvarðanir af hálfu hv. Alþ. í sambandi við iðnaðarkosti af þessu tagi.

Það var fjölmargt fleira sem hv. þm. véku að, þ. á m. hvar væri stödd athugun á tollamálum, þar sem iðnaðinum, samkeppnisiðnaði okkar, væri enn íþyngt. Það er mál sem liggur á borðum rn., bæði iðnrn. og fjmrn. Einhver úrlausn fékkst um daginn þegar veitt var eftirgjöf á tollum fjárfestingarvara fyrir fiskiðnað sérstaklega, en þar flutu með nokkur atriði sem varða einnig annan iðnað en fiskiðnað, þannig að þar fór eitthvað út af listanum sem við hv. 10. þm. Reykv. berum fyrir brjósti að iðnaðurinn fengi leiðrétt. Hitt verður athugað í sumar og væntanlega fæst úr því skorið hvar mörkin verða dregin, og ég vænti að sú niðurstaða verði iðnaðinum í hag eins og réttmætt er. En þarna er, eins og um var getið, í ýmsum tilvikum um allflókin markamál eða jaðarmál að ræða, þar sem getur munað ríkið allverulega í tekjum, en skiptir iðnaðinn kannske ekki teljandi máli, þó að það geti verið íþyngjandi fyrir einstök fyrirtæki alveg sérstaklega.

Svo aðeins varðandi iðngarðana sem hv. 6. þm. Reykv. vék að. Hann hefur sennilega ekki tekið eftir því, af því hann var ekki kominn á Alþing þá, að í fyrravetur var sett löggjöf um breyt. á l. um Iðnlánasjóð þar sem stofnað var til sérstakrar Lánadeildar iðngarða hjá Iðnlánasjóði og henni ætlað nokkurt fjármagn. Þessi lánadeild á að taka til starfa á þessu ári, og ég hygg að þegar sé búið að taka á fyrstu umsóknunum úr þessari deild, sem sérstaklega er ætlað að styðja sveitarfélög sem ætla að ráðast í byggingu iðngarða. Ég held t. d. að Selfosshreppur hafi lagt þar inn umsókn og fengið afgreiðslu nýlega eða vilyrði fyrir því að fá slíkt.

Þó að hugsað sé til byggðaviðhorfa hygg ég að það sé ekki ætlunin að einskorða fyrirgreiðslu í sambandi við iðngarða við slíkt, en það er hugmyndin að setja fyllri reglur um slíka starfsemi, því að það er held ég mjög þýðingarmikið að húsnæði af þessu tagi verði ekki tekið undir aðra starfsemi, eins og því miður hefur verið nokkuð um varðandi húsnæði sem reist hefur verið með lánafyrirgreiðslu úr sjóðum iðnaðarins og hefur farið í önnur not fyrr en varði, önnur og óskyld not, og það er ekki til fyrirmyndar að svo sé.

Svo var spurt um sjóði iðnaðarins og hv. 6. þm. Reykv. þótti sem þar væri nokkur frumskógur á ferð. Ég get vel skilið það, að þeim, sem að þessum málum koma og eru ekki í þeim mun meiri snertingu við þau frá degi til dags, finnist það nokkuð flókið kerfi sem þarna er á ferðinni. Og sams konar spurningar hafa komið upp í mínum huga varðandi þetta.

Hvað snertir Iðnrekstrarsjóð var sérstaklega ofan í það farið á vegum hv. núv. forsrh. á árinu 1975, af nefnd sem hann skipaði þá, hvort réttmætt væri að sameina Iðnrekstrarsjóð og Iðnlánasjóð, en niðurstaða af þeirri athugun varð sú að gera það ekki. Það hefur verið stefnt að einföldun lánamála iðnaðarins með því að tryggja samstarf þessara sjóða, sem hér voru nefndir, og reyna að koma þar á skipulegri verkaskiptingu jafnhliða því sem þeir viti hver af öðrum. Slík samvinna — ég vil segja góð samvinna — hefur tekist með sjóðunum, og þá er meginverkaskiptingin þessi:

Iðnlánasjóður er aðalstofnlánasjóður hins almenna iðnaðar í landinu, enda greiða iðnfyrirtæki sérstakt iðnlánasjóðsgjald í þann sjóð og hann mun hafa til útlána um 6 milljarða kr. á yfirstandandi ári, þ. á m. til iðngarða — það er innifalið — og til skipaiðnaðar.

Iðnþróunarsjóður var stofnaður í tengslum við inngang Íslands í EFTA með samnorrænu átaki, og hér er reyndar frv., sem liggur fyrir þinginu um breyt. á lögum um hann, sem ég vænti að samþykkt verði hér á næstu klukkutímum eða dögum. Þessi sjóður, sem hefur haft verulegt gildi og á að hafa til ráðstöfunar um 2.5 milljarða á yfirstandandi ári, — stjórn hans hugsar til þess að styðja einkum við stærri iðnfyrirtæki, stærri iðnaðarkosti, uppbyggingu þeirra, þó að það einskorðist ekki við það, en áherslan verði lögð á slíkt. Það held ég að sé mjög skynsamleg stefna sem þar er á ferðinni. En vegna þess hve sá sjóður er sérstakur hlýtur hann að hafa sérstaka löggjöf og er með stjórnaraðild annarra Norðurlanda, eins og kunnugt er. En Iðnrekstrarsjóður er, eins og ég gat um hér um daginn, stuðningssjóður við iðnþróun af ýmsu tagi, hann á að vera eins konar fjörefnisgjafi í þeirri iðnþróun, sem að er stefnt, og hann starfar í samvinnu við Iðnlánasjóð eða þar veit hvor af öðrum. Báðir hafa aðstöðu í Iðnaðarbanka Íslands, og það er ákveðin samhæfing þar á milli. En hlutverk þessa Iðnrekstrarsjóðs, sem hér er stefnt að því að efla, er allnokkuð annað en hinna sjóðanna, eins og fram kemur í fyrirliggjandi frv.

Ég gæti haldið hér áfram að svara fsp., þ. á m. um Landssmiðjuna, sem fram hafa verið bornar. Um það efni vil ég aðeins segja að fyrirtækið hyggst flytja á nýjan og hentugri stað og endurreisa þar starfsemi sína. Það er áhugi á því hjá forráðamönnum fyrirtækisins að það tengist skipaverkstöð í Reykjavík við Sundahöfn, en ákvarðanir þar að lútandi eru mjög í höndum borgaryfirvalda Reykjavíkur og sókn í því máli hlýtur að koma frá sveitarfélaginu Reykjavík, uppbygging þeirrar skipaverkstöðvar. Núv. ríkisstj. hefur reyndar tekið það mál inn í sinn málefnasamning með þeim hætti að lýsa yfir stuðningi við það fyrirtæki, og það á að auðvelda sveitarfélaginu Reykjavík að sækja það mál. Ég held að það verði þessari skipaverkstöðvarhugmynd til verulegs framdráttar ef Landssmiðjan rís þar í tengslum við hana og getur orðið einn af stuðningsaðilum við þá skipaverkstöð, þar sem ég tel að ýmis skipaiðnaðarfyrirtæki á Reykjavíkursvæðinu og náttúrlega innan Reykjavíkurborgar, sem hafa búið við heldur þrönga aðstöðu í vesturbænum eða vesturhöfninni, geti flutt þangað, kannske smátt og smátt, sína aðstöðu, en gjarnan megi hugsa til víðtækari samvinnu skipaiðnaðarstöðva í nálægum sveitarfélögum sem gætu þarna orðið aðili.

En varðandi hugmyndina um að selja Landssmiðjuna til annarra, þá hefur hún heyrst frá ýmsum, og vegna þess að hv. 10. þm. Reykv. vék sérstaklega að því máli, held ég að sé einfaldast að vísa honum á að líta inn í Landssmiðjuna og heyra í mönnum þar. Ég hygg raunar að hann hafi heimsótt starfsmenn Landssmiðjunnar fyrir síðustu kosningar. Ég vænti þess, að hann sjái ástæðu til þess að koma þangað aftur, og þar mun hafa komið fram, ef ég er rétt upplýstur, að áhugi þeirra á að breyta rekstrarformi hafi ekki verið mjög mikill. Vil ég þó taka það fram, að ég tel það enga goðgá að hugsa til þess að starfsmenn fyrirtækja séu eigendur þeirra eða eigi með einum og öðrum hætti verulega aðild að stjórn viðkomandi fyrirtækja og gjarnan sem meðeigendur.

Læt ég svo svörum við þessum fsp. lokið, en vil þakka þeim hv. þm. sem rætt hafa þetta efni hér, frv. til l. um Iðnrekstrarsjóð, fyrir stuðning við málið.

Vegna þeirrar brtt., sem hér liggur fyrir við 3. umr., get ég endurtekið það, að ég tel að hún skipti ekki miklu efnislega í þessu máli og það sé nokkur misskilningur sem búi þar að baki hjá hv. flm. Það eru ekki byggðaviðhorf eða þess háttar sjónarmið sem er meginhvati þess sem þar kemur fram, heldur að tekið sé mið af þeim áætlunum sem gjarnan eru unnar svæðisbundið og staðið er að á vegum stjórnvalda, þ. á m. sveitarfélaga, og að stjórn Iðnrekstrarsjóðs geti haft hliðsjón af slíkum staðfestum áætlunum þegar hún tekur á málum.