08.01.1980
Sameinað þing: 7. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

37. mál, bifreiðakostnaður öryrkja

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Vegna þess sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði, að það væri hægt að finna þetta út strax, þetta væru um 250 bílar vil ég segja það, að sumir eigendur þessara bíla eru ekki lágtekjumenn. Sem betur fer hafa nokkrir þeirra ágætistekjur, þannig að það er ekki mjög auðvelt að finna út úr þessu.

Brigsl um hjartakal finnst mér varla svaravert, alla vega hefði sá ágæti þm. þá getað komið með till. — hann á sæti í tryggingaráði — um breytingu í þessum efnum. (Gripið fram í.) Ég veit ekki betur en rn. og tryggingaráð séu alltaf í hálfgerðu stríði, þar sem rn. er miklu frjálslyndara og vill ganga lengra til hagsbóta fyrir bótaþega en tryggingaráð, því miður.

Ég er sammála því, sem kom fram hjá hv. 5. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Reykv., að það er verulegur stuðningur fyrir þessu máli í þinginu. Og ég er sammála því líka, að þetta verður að hafa forgang.