22.05.1980
Neðri deild: 85. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3053 í B-deild Alþingistíðinda. (3004)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. S. l. laugardag, er frv. til l. um Húsnæðisstofnun ríkisins, 17. máli, var vísað til félmn. Nd., varð óformlegt samkomulag um það, að n. hefði tvo virka daga til að skoða frv. eftir meðferð Ed. og skila nál. Við þetta stóð nefndin. Nefndin hefur á fjórum fundum haft frv. til meðferðar. Eins og fram kom í nál. félmn. Ed. hafði n. fjallað ítarlega um frv. á fjölmörgum fundum, sent frv. til umsagnar hinum ýmsu aðilum og fengið í hendur aths. og brtt. frá þeim flestum. Enn fremur hafði félmn. Ed. kvatt á sinn fund fulltrúa frá mörgum félagasamtökum og aðilum sem hagsmuna eiga að gæta varðandi skipulag húsnæðismála. Að baki þeim breytingum, sem gerðar voru á frv. í meðferð Ed., var mikil vinna og ítarleg skoðun á málinu. Félmn. Nd. fékk í hendur flest þau gögn er Ed. hafði undir höndum við athugun á frv. Enn fremur kvaddi nefndin á sinn fund formann félmn. Ed., hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson, og frsm. n., hv. þm. Guðmund Bjarnason, til að skýra ólík sjónarmið í málinu er fram komu í brtt. við afgreiðslu frv. í d. Jafnframt kvaddi n. á sinn fund ýmsa aðila til viðræðna um frv., svo sem húsnæðismálastjórn, fulltrúa Landssambands almennra lífeyrissjóða, framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga, fulltrúa Meistarasambands byggingamanna, Alþýðusambands Íslands, Stéttarsambands bænda, Vinnuveitendasambands Íslands, Verktakasambandsins, Óskar Hallgrímsson frá vinnumáladeild félmrn., Hallgrím Snorrason frá Þjóðhagsstofnun og fulltrúa frá stjórn verkamannabústaða í Reykjavík.

Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu frv. Við, sem myndum meiri hl. n., leggjum til að frv. verði samþ. óbreytt eins og það var afgr. frá Ed. Hér er um þýðingarmikla löggjöf að ræða sem um árabil hefur verið í endurskoðun og mótun hjá mörgum nefndum skipuðum færustu mönnum á þessu sviði. Miðað við þær umsagnir, sem fyrir liggja, er ljóst að þetta frv., ef að lögum verður, markar tímamót í húsnæðismálum hér á landi. Í frv. eru margar nýjungar, aukið verkefnasvið sem er til framfara, stórátak í byggingu verkamannabústaða, útrýming heilsuspillandi húsnæðis, hinn félagslegi þáttur húsnæðismála er aukinn, lánstími lengdur og vextir lækkaðir, stefnt að 80% lánamarki og ávöxtun skyldusparnaðar tryggð að fullu. Meiri hl. n. er fullljóst að æskilegt hefði verið að fjármögnunarþáttur frv. væri fyrirfram ákveðinn til að ná þessum markmiðum. En frv. gerir ráð fyrir að ríkisstj. og Alþ. ákveði árlega í fjárlögum og lánsfjáráætlunum að verulegum hluta hversu mikið fjármagn verði til ráðstöfunar fyrir húsnæðiskerfið í heild.

Í frv. svo og með yfirlýsingu ríkisstj., dagsettri 29. apríl, sem birt hefur verið og ég sé ástæðu til að lesa upp við þetta tækifæri, er tryggður fastur ákveðinn tekjustofn til byggingar verkamannabústaða. Í yfirlýsingu frá félmrh., dagsettri 30. apríl 1980, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í tilefni af viðræðum fulltrúa frá samninganefnd Alþýðusambands Íslands í yfirstandandi kjarasamningum við félmrn. um húsnæðismál vill félmrh. taka fram eftirfarandi atriði í umboði ríkisstj.:

Ríkisstj. minnir á yfirlýsingu ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar frá 26. febr. 1974, sem gefin var í sambandi við lausn vinnudeilu sem þá stóð yfir. Með þeirri yfirlýsingu var því heitið, að ríkisstj. beitti sér fyrir því, að hraðað væri íbúðarbyggingum fyrir efnalítið fólk í stéttarfélögum innan Alþýðusambands Íslands og að stefnt skyldi að því, að eigi minna en þriðjungur af íbúðarþörf þjóðarinnar skyldi leystur á félagslegum grundvelli. Þessi yfirlýsing var síðan áréttuð af ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar 26. febr. 1976.

Með hliðsjón af þessari yfirlýsingu fellst samninganefnd Alþýðusambands Íslands á að lagður væri á launaskattur, sem gengi til húsnæðislánakerfisins, og að lífeyrissjóðir stéttarfélaganna keyptu skuldabréf af Byggingarsjóði ríkisins til þess að fjármagna umræddar íbúðabyggingar. Þessir tekjustofnar eru nú uppistaðan í fjármagni húsnæðislánakerfisins.

Veðlán til íbúðarbygginga hafa aukist mjög verulega á síðustu árum og nýir lánaflokkar verið teknir upp, svo sem lán til leiguíbúða fyrir aldrað fólk, leigu- og söluíbúða sveitarfélaga og lán til kaupa á eldra húsnæði.

Byggingar verkamannabústaða hafa hins vegar dregist saman, en samkv. lögum nr. 30 frá 1970 ber þeim að greiða ca. 25% af byggingarkostnaði slíkra íbúða. Endurskoðun þeirra laga hefur staðið yfir um allangt skeið og dregist úr hömlu af ýmsum ástæðum, en nú liggur sú endurskoðun fyrir Alþingi í frumvarpsformi.

Með hliðsjón af stöðu þessara mála mun ríkisstj. vinna að lausn á húsnæðismálum láglaunafólks í landinu í samræmi við óskir verkalýðshreyfingarinnar og leggja áherslu á eftirfarandi:

1) Að lánveitingar á þessu ári til húsnæðismála fari fram með sama hætti og undanfarin ár, en jafnframt verði þegar á þessu ári hafinn undirbúningur að framkvæmdum við byggingar verkamannabústaða á næsta ári.

2) Ríkisstj. mun beita sér fyrir því, að frv. um Húsnæðismálastofnun ríkisins verði samþykkt.

3) Tekjur ríkissjóðs af 1% launaskatti renni frá næstu áramótum óskertar til Byggingarsjóðs verkamanna. Með þessum hætti mun ríkisstj. beita sér fyrir því að unnt verði að hefja byggingar á 400 íbúðum í verkamannabústöðum á árinu 1981 og síðan 500 íbúðum á árinu 1982 og 600 íbúðum á árinu 1983.

4) Að framlög sveitarfélaga til verkamannabústaða verði lækkuð.

5) Að gert verði verulegt átak á næstu þremur árum til þess að útrýma því húsnæði sem enn er í notkun um allt land og talist getur heilsuspillandi.

6) Að lögum um skyldusparnað unglinga verði breytt á þann veg, að skyldusparendur fái fulla verðtryggingu og vexti af sínu fjármagni, en framkvæmd laganna og innheimta jafnframt endurbætt.“

Eins og fram kemur í nál. leitaði nefndin m. a. til Þjóðhagsstofnunar og sendi Hallgrími Snorrasyni hjá Þjóðhagsstofnun ákveðnar aths. eða fsp. í sambandi við fjármögnunarkerfið. Þar sem ég sé að hv. 10. landsk. þm. hefur látið prenta þessar umbeðnu upplýsingar sem fskj. með nál. sínu tel ég ekki ástæðu til að lesa það sérstaklega hér upp. Hins vegar barst nefndinni skriflegt svar frá Þjóðhagsstofnun við þessum fsp., dagsett 19. maí, s. l., og vil ég lesa hér upp úr því, með leyfi hæstv. forseta:

„Í bréfi frá félmn., sem mér barst síðari hluta þessa dags og svara á samdægurs, er í fyrsta lagi spurst fyrir um hvað ætla megi að tekjustofnar í frv. til l. um Húsnæðisstofnun nægi fyrir mörgum íbúðalánum næstu 15 árin, að teknu tilliti til líklegra annarra lána. Þessi spurning er erfið og verður ekki svarað nema á grundvelli athugana sem bæði eru mjög tímafrekar og töluvert flóknar. Forsendur slíkra reikninga eru einnig mjög veigamiklar og geta skipt sköpum um niðurstöðurnar, þannig að óhjákvæmilegt hefði verið að forsendur yrðu í nokkrum atriðum ákveðnar í samráði við nefndina. Þetta er ekki síður brýnt vegna þeirrar breytingar sem orðið hefur á frv., að 1% launaskattur er markaður Byggingarsjóði verkamanna til að tryggja þeim sjóði fastan tekjustofn. Ætla má að þetta hafi í för með sér að framlög og lántökur til Byggingarsjóðs ríkisins verði í meira mæli en hingað til háð ákvörðun ríkisstj. og Alþingis á hverju ári með fjárlögum og lánsfjáráætlunum. Spurningunni er því ekki unnt að svara að sinni.

Á hinn bóginn hef ég nýlega gert nokkrar athuganir fyrir félmrh. á fjárstreymi húsnæðislánakerfisins. Þessar athuganir beinast einkum að því að kanna hver yrði lánsfjárþörf byggingarsjóðanna miðað við tiltekið markmið um íbúðalán sem nánar er lýst í orðsendingu til félmrh. 2. apríl s. l. Sá er hins vegar munurinn á þeim forsendum sem þá var unnið eftir, og frv. eins og það er nú, að þá var reiknað með 21 árs lánstíma almennra nýbyggingarlána, en nú er gert ráð fyrir 26 ára lánstíma. Þessi breyting veikir vitaskuld stöðu Byggingarsjóðs ríkisins og eykur mögulega lánsfjárþörf frá því sem reiknað var með í reikningunum 2. apríl s. l.

Þó þessar athuganir svari ekki fsp. félmn. kunna þær e. t. v. að koma að einhverju gagni við umfjöllun málsins í nefnd.

Í annan stað er að því spurt, hve langan tíma taki að ná 80% markinu miðað við tekjustofna þá sem frv. gerir ráð fyrir, miðað við frv. eins og það var upphaflega lagt fram og miðað við frv. eins og það kemur breytt frá Ed. Um þessa spurningu gildir líkt og þá fyrri. Henni er ekki unnt að svara með skjótum hætti. Vísbendingu að svari má hins vegar fá úr grg. hins upphaflega frv., einkum með skoðun á bls. 32–34 og töflum eins og þar er tilgreint. Miðað við forsendur þeirra reikninga, m. a. um fjölda íbúða, er þar sett fram sú niðurstaða, að miðað við 3.5% vexti, 21 árs lánstíma, en óbreytta tekjuöflun Byggingarsjóðs ríkisins að öðru leyti mætti ná 80% lánshlutfalli á 17. ári. Samanburður við töflur sýnir að í þessum dæmum mundi því seinka um u. þ. b. fimm ár að ná 80% lánshlutfalli, ef miðað væri við 2% vexti, 26 ára lánstíma, en sömu tekjuöflun að öðru leyti.“

Í framhaldi þessa var það rætt í n. og ákveðið þrátt fyrir greinargerð með svarinu að kalla viðkomandi aðila úr Þjóðhagsstofnun á fund n. og við hann var rætt. Það kom fram hjá honum, að hægt væri að gefa sér margvíslegar forsendur fyrir slíkum útreikningi sem um er beðið og að hans mati væri hægt að gefa ítarleg svör við ýmsum slíkum spurningum og forsendum, en það tæki vissulega langan tíma. Hann nefndi í þessu sambandi að komið gæti til greina ein vika, en einnig gæti komið til greina langur tími. Samt sem áður varð það að samkomulagi í n., að það væri ástæðulaust annað en að óska eftir því, að Þjóðhagsstofnun ynni úr þessum gögnum og þær upplýsingar yrðu síðan sendar til Húsnæðismálastofnunar. Og í dag gerði ég uppkast að bréfi sem verður sent í umboði n. til Þjóðhagsstofnunar, þar sem fram kemur ósk um að slíkir útreikningar verði gerðir og sendir til Húsnæðismálastofnunar ríkisins sem liður í upplýsingaöflun um ákvörðun stjórnvalda um fjármögnun byggingarsjóðanna.

Ég vil þó taka það fram, að það er raunar óvíst hve langan tíma slík athugun tekur, eins og ég hef áður sagt. Og alger óvissa um gildi slíkra útreikninga eða spár, þar sem forsendur fyrir slíku eru ólíkar og vandséð hvernig taka á mark á slíkum óþekktum stærðum sem hljóta að verða í slíkri heildarlöggjöf sem er fyrst og fremst stefnumarkandi.

Veigamiklar breytingar á frv., sem gerðar voru í Ed., eru að mínu mati þessar:

Í fyrsta lagi er lánstími lengdur úr 21 ári í 26 ár og lánstími úr 33 árum í 42 ár að því er varðar verkamannabústaði. Þá er það vaxtabreyting, þ. e. lækkun vaxta úr 3.5% í 2%. Vextir verkamannabústaðalána eru óbreyttir frá frv. eða 0.5%. Fjármögnun sjóða byggist eftir breytinguna í vaxandi mæli á fjárlögum og lánsfjáráætlun í stað markaðra tekjustofna. Verkefni eru verulega aukin. Framlög sveitarfélaga til verkamannabústaða eru verulega lækkuð og það sem er þýðingarmikið, að sveitarfélögin fá nú aðgang að lánsfé í hinu almenna veðlánakerfi húsnæðismála í allar tegundir lána, til að greiða fyrir félagslegum byggingum og endurbótum á húsnæði svo og byggingu íbúða fyrir aldraða, dagheimila o. fl. En í núgildandi lögum er þessi aðgangur sveitarfélaga mjög takmarkaður að því er varðar byggingu verkamannabústaða, leiguíbúða og íbúða til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði. Skyldusparnaður er gerður aðgengilegri og öruggari fyrir sparendur sem með frv. fá að fullu tryggðan sparnað sinn.

Bygging verkamannabústaða er stóraukin. Lán úr einum sjóði til slíkra bygginga eru mjög til bóta, en þau voru áður úr almennum Byggingarsjóði ríkisins að hluta og úr Byggingarsjóði verkamanna. Í gildandi lögum er framlag sveitarfélaga og ríkis jafnhátt, svo og í sambandi við endursölu slíkra íbúða, sem hefur orðið til þess að flest sveitarfélög hafa lítið getað byggt eftir núgildandi lögum. Hér er um að ræða eitt stærsta baráttumál launþegahreyfingarinnar í landinu. Og eins og raunar fram kom í ummælum hæstv. forsrh. í sjónvarpsþætti nú í kvöld, er hér verið að uppfylla sex ára loforð ríkisstj. við verkalýðshreyfinguna. Þetta er því eitt þýðingarmesta atriðið í frv.

Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp úr áliti stjórnar verkamannabústaða í Reykjavík sem undirstrikar mikilvægi eftirtalinna breytinga í frv.:

„Stefnt er að því, að Byggingarsjóður verkamanna fjármagni a. m. k. 1/3 hluta af íbúðaþörf landsmanna. Lán út á verkamannabústaði eru hækkuð úr 80% í 90%. Eitt lán verður veitt út á hverja íbúð í stað tveggja áður, sem hafa verið með mjög mismunandi kjörum og raskað öllum hlutföllum innan kerfisins. Í öllum kaupstöðum og kauptúnahreppum landsins skulu starfa stjórnir verkamannabústaða. Lán úr Byggingarsjóði verkamanna skulu verðtryggð og þannig komið í veg fyrir að verðbólgan gereyði þessu fjármagni.“

Þetta er úr álitsgerð stjórnar verkamannabústaða í Reykjavík sent til nefnda þingsins.

Það kom greinilega fram í viðtölum við ýmsa aðila, að þeir telja frv. tvímælalaust til bóta og telja það marka framfaraspor í húsnæðismálum. Síðustu 10 ár er talið að byggðar hafi verið 2000–2500 íbúðir á ári í landinu. Nýjasta spáin gerir hins vegar ráð fyrir 1700–2100 íbúðum á ári næstu 10 árin, og er talið að þessi byggingarþörf verði mjög mismikil eftir árum. Erfitt er að gera nákvæma spá um hvaða þýðingu hin auknu verkefni og nýjungar hafa í för með sér í sambandi við eftirspurn eftir lánsfé. Þetta atriði þarf að kanna vandlega á vegum Húsnæðismálastofnunar og leggja til grundvallar við ákvörðun stjórnvalda um fjármögnun til Byggingarsjóðs. Sú úrvinnsla, sem n. hefur beðið Þjóðhagsstofnun um, á að auðvelda þá ákvörðunartöku, svo fremi að þær forsendur, sem unnið er eftir, skili því markmiði sem að er stefnt.

Ég vil taka fram, að ýmislegt, sem er í þessu frv., getur orkað tvímælis. Við framsóknarmenn lögðum mikla vinnu í það að ná fram veigamiklum lagfæringum á frv. Sumt hefur tekist, svo sem um lengingu lánstíma. Við hefðum að vísu kosið að hægt væri að lengja lánstímann í 30 ár. Þá má nefna 80% lán strax til frumbýlinga, lækkun vaxta, lækkun framlaga sveitarfélaga, en um leið greiðari aðgang að ýmsum lánaflokkum, aukin verkefni, meiri möguleika fyrir viðurkennda byggingaraðila að fá framkvæmdalán — undir það flokkast m. a. byggingarsamvinnufélög — öruggari trygging skyldusparnaðar og margt fleira. Allt er þetta vissulega til bóta.

Um ýmis atriði í frv., ef að lögum verður, þarf að setja vandaðar reglugerðir. T. d. er það mikilvægt þegar ákveðið verður hvernig staðlaðar íbúðir skuli vera, sem frv. leggur mikla áherslu á, að tekið verði sérstakt tillit til íbúðabygginga í sveitum, þar sem augljóslega þarf á stærra rými að halda en í kaupstað í flestum tilfellum. Þá er nauðsynlegt að skoða vandlega tekju- og eignaákvæði í 47. gr. frv. að því er varðar rétt til kaupa á verkamannabústöðum, t. d. hvort réttara væri að ákveða þetta með reglugerð í samræmi við breyttar aðstæður. Þá tel ég nauðsynlegt að láta koma hér fram, að ekki má dragast að í húsnæðislöggjöfina verði settur kafli um samvinnubyggingarfélög. Þarf á næsta þingi að koma því máli í höfn. Vaxandi áhugi er í landinu fyrir því að nota þetta félagsform til byggingar íbúða. Hefur þetta form sannað áþreifanlega gildi sitt í ódýrari íbúðarhúsabyggingum og því er nauðsynlegt að slíkt komi inn í hina nýju húsnæðismálalöggjöf.

Herra forseti. Það væri freistandi að tala langt mál um þennan stóra og þýðingarmikla málaflokk. Ég vil að lokum leggja áherslu á mikilvægi þess, að þetta frv. um Húsnæðisstofnun ríkisins nái fram að ganga. Þrátt fyrir ýmis vandkvæði á frv. er hér um að ræða heildarlöggjöf sem lengi hefur verið beðið eftir og horfir áreiðanlega til framfara í húsnæðismálum þjóðarinnar ef rét? verður á haldið.