22.05.1980
Neðri deild: 86. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3118 í B-deild Alþingistíðinda. (3079)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá að koma að eftirfarandi aths. áður en umr. um dagskrármál er frekar fram haldið. Tilefni aths. minnar er raunar umr. um það mál, sem hér er nú á dagskrá, og umræður um það þótt á öðrum vettvangi hafi verið.

Í viðtali við þingfréttamann Ríkisútvarpsins í gærkvöld sagði forsrh. að sumir þm. Sjálfstfl. hefðu mótmælt því, að frv. til l. um Húsnæðisstofnun ríkisins yrði að lögum á þessu þingi, afgreiðslu þess yrði að fresta til hausts. Þessir menn hafa tafið þingstörfin, sagði forsrh. Í sjónvarpsviðtali síðar um kvöldið hélt hann þessu sama fram með breyttu orðalagi. Vegna þessara orða forsrh. vill þingflokkur sjálfstæðismanna taka fram eftirfarandi:

Þm. Sjálfstfl. mótmæla því, að málefnalegar umr. þeirra innan ramma þingskapa séu túlkaðar sem málþóf af forsrh. í fjölmiðlum. Umr. á Alþingi síðustu daga hafa með engum hætti mótast af málþófi. Stjórnarliðar og þar með taldir ýmsir ráðh. hafa að vísu sett á langar ræður, en þm. Sjálfstfl. hafa hvað eftir annað greitt fyrir framgangi mála ríkisstj. þegar t. d. þm. stjórnarliðsins hafa ekki séð ástæðu til að mæta á þingfundum. Nægir þar að nefna afgreiðslu mála s. l. nótt í Nd. svo og þegar frv. um Húsnæðisstofnun ríkisins var vísað til n. án umr. s. l. laugardag í Nd. — Í Ed. þurftu sjálfstæðismenn að hjálpa til við að koma þessu sama máli út úr deildinni s. l. föstudag.

Nú á síðustu dögum þessa þings er alþm. ætlað að afgreiða nánast umræðulaust eina umfangsmestu löggjöf sem þetta þing hefur fengið til meðferðar. Á það geta sjálfstæðismenn ekki fallist. Ákvörðun um þinglausnir 20. maí var óraunhæf, miðað við að ljúka öllum málum sem getið var á óskalista ríkisstj. frá 18. apríl. Svo virðist nú sem það tímamark hafi verið sett til þess að ríkisstj. hefði frið fyrir þinginu til þess að setja brbl. vegna vandamála sem við blasa um næstu mánaðamót og stjórnin hefur ekki ráðið við. Með hliðsjón af framansögðu er ummælum forsrh. vísað á bug.

Fleira mætti raunar segja um ýmis ummæli hæstv. forsrh. í fjölmiðlum í gær, en til þess að verða nú ekki sakaður um að tefja störf Alþingis læt ég þetta nægja, nema þá frekara tilefni gefist til aths.