22.05.1980
Neðri deild: 86. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3131 í B-deild Alþingistíðinda. (3082)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Þó að mér væri ekki hlátur í huga s. l. nótt gat ég ekki annað en brosað þegar hv. 1. þm. Vesturl., frsm. meiri hl. félmn. þessarar hv. d., sagði að hér væri um þýðingarmikla löggjöf að ræða sem um árabil hefur verið í endurskoðun og mótun hjá mörgum nefndum skipuðum færustu mönnum á þessu sviði, eins og hann orðaði það.

Það er rétt hjá hv. þm., að löggjöfin er mjög þýðingarmikil, líklega þýðingarmesta félagsmálalöggjöf hér á landi um langt árabil. Aftur á móti er það rangt hjá hv. þm. að unnið hafi verið að þessu máli um árabil hjá mörgum nefndum.

Um almenna þáttinn, þ. e. allt annað en verkamannabústaði og leiguíbúðir sveitarfélaga, er það að segja, að alls ekkert nýtilegt hafði verið gert á því sviði þegar ég tók við embætti félmrh., og segi ég þetta líka í tilefni af orðum hv. 9. þm. Reykv. Hins vegar hafði nefnd undir forustu Gunnars Helgasonar unnið að félagsmálaþættinum, þ. e. um verkamannabústaði og leiguíbúðir sveitarfélaga. Sú nefnd klofnaði og skilaði áliti í tvennu lagi. Engar kostnaðaráætlanir hafði hún látið gera eða athuganir á fjármögnunarhlið málsins, hvorki í nútíð né framtíð, en allmargar hugmyndir frá báðum hlutum þessarar nefndar voru notaðar við gerð þess frv. sem ég lagði fram hér í hv. Ed. í des. s. l.

Hitt er hárrétt hjá hv. 1. þm. Vesturl., að mjög færir menn hafa að þessu frv. unnið og lagt í það mjög mikla vinnu, ekki síst við könnun á kostnaðarhlið þess og mat á því, hvernig unnt væri að fjármagna frv. Slíka útreikninga gerðu þeir meira en áratug fram í tímann.

En þá langar mig til að spyrja, fyrst hv. 1. þm. Vesturl. er svona ánægður með undirbúning frv.: Hvers vegna í ósköpunum lætur hann það þá viðgangast orðalaust og það sem formaður félmn. þessarar hv. d., að fjárhagslegum grundvelli sé að verulegu leyti kippt undan frv.?

Við að hlusta á ræðu hv. 1. þm. Vesturl. í nótt komst ég að þeirri dapurlegu niðurstöðu, að formaður félmn. þessarar hv. d. hafði ekkert kynnt sér málið. Hann sagði t. d. að skyldusparnaður unglinga hefði verið betur tryggður nú en í upphaflega frv. Það er rangt. Verðtryggingin er óbreytt, en vextir lækkaðir úr 3.5 í 2%, hækkun lánahlutfalls skyldusparenda fellt niður og forgangur þeirra til lána líka felldur niður. Reyndar var alls staðar felldur niður forgangur þeirra sem voru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn, og má það merkilegt heita. Þetta er t. d. mjög alvarlegt varðandi kaup á eldri íbúðum. Sá lánaflokkur hefur hækkað gífurlega síðustu árin og getur varla haldið áfram að hækka eins mikið og hann hefur gert því að þá færi hann að gleypa meiri hlutann af öllu fjármagninu. Frv. gerir ráð fyrir að stöðva þessa aukningu, láta upphæðina vera óbreytta nema hvað hún vaxi með vaxandi þjóðartekjum. Hin mikla aukning fjármagns, sem í kerfið á að fara, á sem sagt fyrst og fremst að fara til nýbygginga. Á hitt ber að líta, að það er þjóðhagslega mjög mikilsvert að nýta eldri bæjarhverfi, t. d. hér í Reykjavík, á Akureyri og sjálfsagt víðar, betur en nú er gert. Þar er mikið af þjónustumiðstöðvum, t. d. skólum, lítt eða ekki notað. Sama má segja um gatnakerfi o. fl.

Hugmyndin með frv. hvað þetta varðar var að gefa þeim, sem eru að eignast sína fyrstu íbúð, fullt valfrelsi með það að byggja nýtt eða kaupa eldra og fá þá sömu fyrirgreiðslu og um nýbyggingar væri að ræða. Þarna átti þetta fólk að hafa algeran forgang. Þetta var fellt niður. Það átti sem sagt að slá tvær flugur í einu höggi, bæta nýtingu eldri hverfa og gefa frumbyggjendum fullt valfrelsi um hvort þeir byggðu eða keyptu. En öllu þessu var sleppt í hv. Ed. Og eins og ég sagði áðan: Forgangi frumbýlinga var alls staðar sleppt. Það var greinilegt að þeir sem staðið hafa að breytingum á frv., hafa alls ekki skilið ýmsa þá hluti sem hafðir voru í huga við samningu þess.

Þá sagði hv. 1. þm. Vesturl. að lán til verkamannabústaða hafi verið stóraukin með breytingum á frv. Þetta er rangt og kem ég að því síðar.

Ég er ánægður með að þetta frv. skuli nú vera komið til afgreiðslu þessarar hv. d., þótt ég sé óánægður með ýmsar af þeim breytingum sem hv. Ed. gerði á frv. Kem ég að því síðar.

Það er greinilegt að félmn. hv. Ed. hefur lagt á sig talsverða vinnu við frv., þótt sú vinna hefði mátt vera unnin fyrr þannig að frv. fengi eðlilega afgreiðslu í báðum deildum hvað tíma snertir. Sumar brtt. hv. Ed. eru vissulega til bóta. Þannig er ég nokkuð ánægður með flestar þær breytingar, sem félmn. Ed. var sammála um. Einnig eru einstakar, en því miður allt of fáar, brtt. stjórnarliða í félmn. hv. Ed. til nokkurra bóta.

Sumir stuðningsmenn stjórnarinnar gera mikið úr breytingafjöldanum í fjölmiðlum, tala um tugi, jafnvel hundruð breytinga, nýtt frv. og þar fram eftir þeim götunum. Það er ofurauðvelt að fá fram slíkar tölur. Þýðingarlítil innskotsgrein í byrjun, svo að dæmi sé tekið, krefst 80 breytinga á töluröð greina. Að breyta nafni frv, krefst breytinga á fjölmörgum öðrum greinum, þar sem nafnið kemur fram. Að breyta nafni á stjórnum verkamannabústaða í sveitarfélögunum krefst auðvitað breytinga á öllum greinum sem þessi nöfn koma fram í. Þannig er auðvitað auðvelt að fá fram næstum hvaða fjölda breytinga sem menn óska í það og það skiptið. Hinar raunverulegu breytingar eru einhvers staðar á bilinu frá 10–15, eins og kom fram hjá hæstv. félmrh. fyrir nokkrum dögum. En nóg um það.

Þótt ýmsu hafi verið breytt í meðförum hv. Ed. og flestu til hins verra að mínu mati, standa þó eftir flestar af grundvallarhugmyndum frv., en sumar því miður talsvert brenglaðar. Ég legg því ríka áherslu á að frv. fái afgreiðslu á þessu þingi þó að nauðsynlegt sé að lagfæra sumt af því versta sem hv. Ed. gerði í sínum breytingum.

Breytingum hv. Ed. má skipta í fimm flokka. Í fyrsta flokknum eru breytingar sem telja má til bóta, en þær eru því miður fáar. Nefna má þar þáttinn um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis.

Í öðrum flokknum eru ýmis einskis eða lítilsverð smáatriði, óþarfar orðalagsbreytingar, nánast tittlingaskítur. Slíkar breytingar eru margar og kemur mér mjög á óvart að félmn. hv. Ed. skuli hafa lagt svo mikla vinnu og eytt svo miklum tíma í alger aukaatriði. Þessar breytingar virðast fyrst og fremst hafa verið gerðar breytinganna vegna. Þarna er verið að elta ólar við breytingar sem ekkert eiginlegt gildi hafa. Það eru, eins og ég sagði, mjög einkennileg vinnubrögð miðað við það tímahrak sem málið er komið í.

Í þriðja flokknum eru breytingar sem auka mjög á valdsvið og umfang húsnæðismálastjórnar og þó einkum og sér í lagi tæknideildar stofnunarinnar. Henni er troðið inn á öllum mögulegum og ómögulegum stöðum og hlýtur að verða að miklu bákni ef svo fer sem horfir eftir breytingar hv. Ed. á frv. Hún á jafnvel að meta þörf og áætlaðan tilkostnað við endurbætur á hinum margvíslegu mannvirkjum sveitarfélaga sem nú geta fengið lán til endurbóta og meiri háttar viðhalds, sbr. 17. brtt. n. Ég er alls ekki sammála hugmyndum hv. þm. Sjálfstfl. um að það eigi að leggja tæknideildina að mestu leyti niður, en fyrr má nú rota en dauðrota að pota henni inn í öll hugsanleg og óhugsanleg verkefni.

Í fjórða flokknum eru breytingar þar sem sveitarfélögunum er blandað inn í alla skapaða hluti, ekki aðeins í sambandi við félagslegu íbúðirnar, þar sem þau eiga vissulega heima, heldur einnig í flesta lánaflokka Byggingarsjóðs ríkisins, rétt eins og sá sjóður væri ekki síður ætlaður sveitarfélögum en hinum almenna húsbyggjanda eða húskaupanda.

Hlutur sveitarfélaga í verkamannabústaðabyggingum er lækkaður úr 20 í 10% án þess að nokkur ósk kæmi þar um frá sveitarstjórnarmönnum eða frá sambandi sveitarstjórnarmanna, þvert á móti. Í umsögn sambandsins um frv. var sérstaklega tekið fram að það óskaði ekki eftir breytingum á þessum kafla frv. Því hefur verið haldið fram af ýmsum, að það, hve lítið hefur verið byggt af íbúðum á grundvelli núgildandi laga um verkamannabústaði í flestum sveitarfélögum landsins nú hin síðustu árin, sé sökum þess að þeim finnist hlutur sinn of mikill í fjármögnuninni, sem nú er einhvers staðar nálægt 30%, jafnvel meiri. En svo er ekki. Ástæðan er einfaldlega sú, að á undanförnum árum hafa flestöll sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins verið að byggja íbúðir á grundvelli laga um leigu- og söluíbúðir sveitarfélaga, þar sem sveitarfélögin þurfa ekkert fram að leggja ef um söluíbúðir er að ræða, en 20% ef þær eru ætlaðar til leigu. Auðvitað byggja sveitarfélögin fremur eftir lögum þar sem veðlánakerfið lánar svo til allt, fyrst sá möguleiki hefur verið til. Hitt er svo rétt, að endurkaupaskylda sveitarfélaga á verkamannabústöðum hefur verið þeim til trafala, en hún er nú af lögð, nú er séð fyrir peningum til að standa við þær skuldbindingar í frv., og var reyndar í frv. í upphaflegri mynd. Nú er um það bil búið að byggja þær íbúðir sem byggja má eftir þeim lögum sem ég var að tala um. Aftur á móti er lögð mikil fjárhagsleg ábyrgð á sveitarfélögin varðandi félagslegu íbúðabyggingarnar samkv. breytingum hv. Ed. og þar getur verið um miklu stærra mál að ræða en lækkunina úr 20 í 10% þátttöku í lánum til verkamannabústaða. Ég kem að því síðar.

Sveitarfélögunum er, eins og ég sagði, potað inn í velflesta lánaflokka, ekki bara í sambandi við félagslegu íbúðirnar, þar sem þau eiga vissulega heima, heldur í flesta lánaflokka Byggingarsjóðs ríkisins. Ef sveitarfélögunum er lánað til allra skapaðra hluta, eins og breytingar hv. Ed. gera ráð fyrir, sem út af fyrir sig væri gott og blessað ef yfirdrifið væri til af peningum, hlýtur auðvitað að minnka að sama skapi það fé sem til útlána verður fyrir hinn almenna húsbyggjanda. Þetta hlýtur hvert mannsbarn að skilja. Sveitarfélögunum er jafnvel lánað til endurbóta og meiri háttar viðhalds húseigna sinna, en slíkt hefur verið dæmigert verkefni sveitarfélaga um aldir án sérstakrar lánafyrirgreiðslu. Allt er þetta gert án þess að nokkur ósk komi um það frá samtökum sveitarfélaga. Það lítur helst út fyrir að einhver fulltrúi síblanks sveitarfélags hafi komið þessum tillögum öllum á framfæri.

Í fimmta flokknum eru svo þær breytingar sem ég vil meina að stafi af misskilinni góðsemi við húsbyggjendur og aðra lántakendur veðlánakerfisins. Hv. Ed. telur sig vera að gera húsbyggjendum greiða og bæta hag þeirra með því að lækka útlánsvexti um allt að 1.5% og lengja lánstímann nokkuð, auka útlánaflokka og opna allar gáttir til útlána fyrir sveitarfélögin án þess að gera minnstu tilraun til að auka tekjur Byggingarsjóðs ríkisins þar á móti eða sýna fram á hve mikla aukningu tekna hann þurfi breytinganna vegna. Þetta líkaði hv. 1. þm. Vesturl. afskaplega vel. Hv. Ed. gekk reyndar svo langt, og það fæ ég illa skilið ef eitthvað er meint með umbótum í húsnæðislánamálum, að fella till. um að Byggingarsjóður ríkisins héldi óskertum þeim mörkuðu tekjustofnum sem honum ber lögum samkv. Það er alveg eins og blessaðir mennirnir haldi að peningarnir vaxi á trjánum. Allt verður þetta auðvitað til þess, að það tekur miklu fleiri ár að ná því marki, sem frv. stefnir að að ná í áföngum á ekki lengri tíma en 10 árum, að geta lánað öllum húsbyggjendum og kaupendum íbúða 80% af brúttókostnaði byggingarinnar eða hússins. Auðvitað verður að líta á heildarlánsfjárþörf húsbyggjandans. Hún minnkar ekki þótt þeir fái hluta — og eftir breytingu hv. Ed. mun minni hluta en ella að öðru jöfnu — af lánsfjárþörf sinni með lítið eitt lægri vöxtum og til lítið eitt lengri tíma. Mismuninn, sem nú verður mun meiri en ella vegna breytingar Ed., þurfa menn að slást við bankana um að fá og það venjulega til mjög skamms tíma og með lélegum kjörum. Heildarárangurinn verður því meiri erfiðleikar húsbyggjenda — ekki minni — og miklu meiri áhyggjur og fleiri magasár vegna drápsklyfja stuttra lána, einkum fyrstu árin. Allt verður þetta því húsbyggjendum mun erfiðara fyrir misskilda góðsemi hv. þm. Ed.

Ég vil undirstrika að lánstími og vextir voru valdir eftir mjög mikla umhugsun og útreikninga og samþykktir sem stefnumörkun ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar — og af öllum þeim flokkum sem þar áttu hlut að — sem stefnumörkun í lánamálum. Þar komu vextirnir fram og þar kom lánstíminn fram og kjörin öll. Þeir voru valdir af mjög vel yfirlögðu ráði og með það fyrir augum að efla á tiltölulega skömmum tíma veðlánakerfi ríkisins til stórra átaka án þess að íþyngja lántakendum um of. Sem dæmi um það get ég sagt að lán eins og þetta, þ. e. 80% lán, var reiknað út á venjulega 4–5 herbergja íbúð til 21 árs og miðað við 3.5% vexti. Afborganir og vextir voru í lægri kantinum á því sem venjulega gengur og gerist um leigu slíkra íbúða á Reykjavíkursvæðinu.

Eftir þessar breytingar hv. Ed. tekur það mun lengri tíma og kostar ríkissjóð mun meira fé að ná því marki sem við ætluðum okkur: að leggja hornstein að nýrri og djarfhuga stefnu í húsnæðislánamálum, — stefnu sem gerði okkur mögulegt að byggja upp á tiltölulega fáum árum öfluga og sjálfbjarga íbúðalánasjóði sem veitt gætu húsbyggjendum á viðráðanlegum kjörum fullnægjandi fyrirgreiðslu og sambærilega við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar, — stefnu sem gerði ungu fólki kleift að láta hinn íslenska draum eins og hann er stundum kallaður, um eigið húsnæði rætast án þess að bestu árum ævinnar sé kastað á glæ í þrotlausu striti og fjárhagsáhyggjum sem oft hafa bitnað óbætanlega bæði á börnum húsbyggjenda og heimilislífi þeirra. Slíka stefnu markaði upprunalega frv., en breytingar hv. Ed. seinka þeirri þróun um mjög mörg ár, ef hún næst nokkurn tíma með því fyrirkomulagi sem nú er lagt til. Slíku veldur að mínu mati misskilin góðsemi og er auðvelt að komast að raun um það með því að skoða hinar mismunandi töflur sem fylgja grg. frv.

T. d. veldur vaxtabreytingin ein því, að á árinu 1990, þegar 80% markinu átti að vera náð hið síðasta, vantar rúmlega 2.1 milljarð kr. og vegna lánalengingarinnar liðlega 3.2 milljarða í viðbót á því eina ári til þess að áætlunin geti staðist, hvort tveggja á verðlagi ársins 1980. M. ö. o.: það ár vantar alveg fjármagn til að lána í 200 íbúðir. Og ef við tökum svo til viðbótar með í reikninginn, að fastur markaður tekjustofn Byggingarsjóðs ríkisins, launaskatturinn, lækki um 1% og verði 1%, þá vantar á þessu eina ári 21.3 milljarða til að ná þessu marki. Þar við bætist svo, að svo er að sjá sem hæstv. ríkisstj. ætli sér að draga úr tekjum Byggingarsjóðs ríkisins af mörkuðum tekjustofnum, en auka lántökur þess í stað. Þá versnar dæmið auðvitað um allan helming.

Sem dæmi um það vil ég upplýsa, að árið 1979 tók Byggingarsjóður ríkisins að láni um 4 milljarða kr. hjá lífeyrissjóðum til 15 ára með 4% vöxtum og að sjálfsögðu fullverðtryggt. Þetta fé lánaði Byggingarsjóður út með 2% vöxtum til 26 ára þar sem fyrsta árið er afborgunarlaust. Byggingarsjóður endurgreiðir lífeyrissjóðunum á þessu ári og því næsta samtals 842 millj. kr. af þessum lánum, en fær sjálfur af sama fjármagni 320 millj. kr. Af þessum mismun eru 149 millj. kr. hrein útgjöld vegna vaxtamismunar. Ef meiningin er að ganga af Byggingarsjóði ríkisins dauðum í stað þess að byggja hann upp er þetta rétta leiðin.

Nú hrósar hæstv. félmrh. sér af því að taka eigi 1% af launaskatti og verja til félagslegra íbúðabygginga. En hvaðan á að taka þetta 1%? Ef marka má atkvgr. um brtt. hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar í Ed. á að taka þetta 1% af Byggingarsjóði ríkisins. Ef það er meiningin, er lítils góðs að vænta í þessum efnum. Þá mega hinir almennu húsbyggjendur fara að biðja fyrir sér.

Þar sem ekki er að sjá þess nein merki, að hæstv. ríkisstj. ætli að auka tekjur Byggingarsjóðs að sama skapi og útgjöldin eiga að aukast, útlánsvextir að lækka og lán lengjast, hlýtur þetta að leiða til þess að lánshlutfallið hækkar miklu hægar en frv. gerði í upphafi ráð fyrir. Það má jafnvel þakka fyrir ef lánshlutfallið fer ekki lækkandi.

Þau eru ekki gæfuleg fyrstu spor núv. hæstv. ríkisstj. í húsnæðislánamálum. Hún byrjar á því að skerða markaða tekjustofna Byggingarsjóðs ríkisins um hvorki meira né minna en 34% og hún lækkar stórlega í krónum talið fé til Byggingarsjóðs verkamanna á þessu ári, þrátt

fyrir öll loforð og fögur fyrirheit í þessum efnum. Þar við bætist að byggingarsjóðirnir eiga að greiða hærri vexti samkv. brtt. hv. Ed. af teknum lánum en veittum lánum, og þegar þar við bætist enn, að hæstv. félmrh. ætlar að taka 1% eða helminginn af mörkuðum tekjustofnum Byggingarsjóðs ríkisins, fer manni að detta í hug að hæstv. ríkisstj. sé að gera grín að hv. alþm. — og ekki bara alþm., heldur öllum þeim fjölmörgu sem treysta á lán til nýbygginga eða kaupa á húsnæði fyrir sig og sína.

Hæstv. félmrh. hefur haldið því fram og reyndar margir fleiri, að stórauka eigi fjármagn til byggingar félagslegra íbúða frá því sem upphaflega frv. gerði ráð fyrir. Þetta er rangt. Upphaflega frv. gerði ráð fyrir, að ríkissjóður legði fram 20% af byggingarkostnaði félagslegra íbúða og sveitarfélögin önnur 20, væntanlegir íbúðaeigendur legðu fram 10%, eða samtals 50%. Síðan var gert ráð fyrir lántökum hjá lífeyrissjóðum á vegum ASÍ og atvinnurekenda, svonefndum SAL-sjóðum, sem rúmaðist vel innan marka þeirra 20% sem þeir hafa sett sér að lána til veðlánakerfisins. Afganginn átti svo að lána úr Byggingarsjóði ríkisins.

Frv., eins og það er nú breytt, gerir ráð fyrir 30% framlagi ríkissjóðs, þar af er meiri hlutinn tekinn af Byggingarsjóði ríkisins, 10% framlagi bæjarfélaga og 10% framlagi væntanlegra íbúðaeigenda. Samtals 50%, eins og í upphaflega frv. Afganginn á svo að fjármagna með lánum á svipaðan hátt og áður var gert ráð fyrir. M. ö. o.: ekki er króna látin í félagslega kerfið umfram það sem ráð var fyrir gert í upphaflega frv., nema hvað nú verður öllu erfiðara fyrir lífeyrissjóðina að lána til veðlánakerfisins vegna þess að nú er þeim í fyrsta skipti — eða það a. m. k. stóð til — uppálagt að lána svo og svo mikið beint ríkissjóði.

Það hefur heilmikið verið talað um fjármögnun kerfisins, bæði í upphaflegum till. og eins og þær eru núna. Um það vil ég segja það, að í upphafi var unnið geysilega vel að útreikningum og áætlunum í sambandi við þessi mál. Í grg. frv. er sýnt nákvæmlega fram á hver fjárþörfin verði á næstu 10 árum, ár fyrir ár, til að má því marki að geta lánað húsbyggjendum 80% af brúttókostnaði húsa sinna og lánað þeim sem kaupa svipaða upphæð. Þá var reiknað með 2000 íbúðum á ári og 660 af því eða þriðjungi á grundvelli félagslega þáttarins. Þar var sýnt fram á og er sýnt fram á, að ef helmingnum af aukinni fjárþörf er mætt með framlögum úr ríkissjóði og bæjarsjóðum, annaðhvort beint eða með mörkuðum tekjustofnum, og helmingnum mætt með auknum lántökum, þá aðallega frá lífeyrissjóðunum, þurfi framlagið að aukast um 0.4 milljarða kr. á fyrsta ári og fara rólega vaxandi upp í 38 milljarða kr. á tíunda árinu, sem er það dýrasta að þessu leyti. Eftir það má framlagið minnka mjög ört. Lántökur þyrftu að aukast um 2 milljarða kr. á fyrsta ári og hækka rólega upp í mest 6.4 milljarða á tíunda ári og fara síðan ört lækkandi vegna þess að sjóðirnir stæðu þá undir sér sjálfir. Hér er átt við verðlag 1978. Þá stæði Byggingarsjóður ríkisins á eigin fótum eftir þetta og þyrfti ekki frekar á aðstoð að halda, en Byggingarsjóður verkamanna þyrfti að fá áframhaldandi nokkurn stuðning til að vega á móti mismun á innláns- og útlánsvöxtum hans.

Ef ekkert er að gert, en núverandi tekjustofnar kerfisins óskertir, hefði það tekið uppbygginguna 16–17 ár. Það hefði tekið 16–17 ár að ná þessu marki með upphaflega frv., en óskertum tekjustofnum, en það þótti þeim stjórnmálaflokkum, sem stóðu að ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, of langur tími. Því samþykkti hún stefnumótun um fjármögnun kerfisins, þannig að markinu ætti að ná á ekki lengri tíma en 10 árum, en ég hef lýst því áður, hvað til þurfti að koma til þess að það yrði gert. Auðvitað voru inni í því dæmi ákvarðanir um útlánsvexti og lánstíma, svo mjög sem allt kerfið byggist á því að þeir hlutir séu á hreinu, en nú hefur hv. Ed. raskað þessu dæmi öllu og ekki litið á þær yfirlýsingar og þau loforð sem þeir stjórnmálaflokkar gerðu sem stóðu að þeirri ríkisstj.

Herra forseti. Þrátt fyrir að hv. Ed. hefur á ýmsum sviðum stórbreytt því frv., sem ég lagði fram, eru eigi að síður eftir flest grundvallaratriði þess og legg ég mikla áherslu á að það verði lögfest á þessu vori og er ekki sammála hv. 10. þm. Reykv. í því efni, vegna þess að það er ýmis undirbúningsvinna sem þarf að fara í gang. En ég legg líka mikla áherslu á að af séu sniðnir verstu vankantarnir á breytingum hv. Ed.

Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að leggja fram brtt. á þskj. 573, sem ég mun nú lauslega gera grein fyrir.

1. brtt. gengur út á það að draga verulega úr útþenslutilhneigingu kerfisins, ef svo má að orði komast. Það er annarra aðila, m. a. Alþingis, að skipuleggja afskipti opinberra aðila af húsnæðismálum og stefnumótun í húsnæðismálum er alfarið Alþingis.

2. brtt. er við 9. gr. og gengur út á það að tryggja Byggingarsjóði ríkisins óskertan tekjustofn frá því sem nú er í lögum. Það leysir engan vanda veðlánakerfisins þótt tekið sé úr öðrum vasanum og sett í hinn þegar um leið er ætlast til þess að sveitarfélögin greiði líka minna.

Eins og kom fram hjá hv. 11. þm. Reykv. er munurinn á fjárhagsvanda frv., eins og hann er og eins og hann var þegar það var lagt fram, á 10 árum hvorki meira né minna en um 130 milljarðar kr. ef allt er leyst með lántökum. Í brtt. minni við 9. gr. er reiknað með að Byggingarsjóður ríkisins haldi sínum 2% óskertum. Mundi það þýða á þessu sama 10 ára tímabili 50 milljarða á verðlagi 1980, eins og notað er í hinu tilfellinu. Þar sem um er að ræða framlag, en ekki lántökur, mundi það auðvitað nýtast miklu betur og fara langleiðina með að jafna þann mismun sem þarna er á. Aftur á móti, ef þessi till. verður felld og ekkert kemur þarna í staðinn, er tómt mál að tala um miklar endurbætur á þessu sviði.

3. brtt. gengur út á það að Alþ. sleppi ekki við húsnæðismálastjórn og félmrh. því valdi sem það hefur og hafa ber í þessum efnum.

4. brtt. gengur út á það að losna við þuklið eins og framast er unnt. Hvað gagnar manni t. d., sem á íbúð norður á Siglufirði, en þarf á íbúð að halda hér á höfuðborgarsvæðinu, þó hann eigi íbúð á Siglufirði og hvaða ástæða er til þess fyrir húsnæðismálastjórn að fara að kynna sér hvernig sú íbúð er? Auðvitað þarf að takmarka það að menn geti fengið mörg lán, lán eftir lán. Það er best að gera þannig að maðurinn fái einu sinni fullt lán og síðan skert lán og meira skert lán eftir því hvað mönnum sýnist. Ætti þetta að vera í reglugerð. Það er fráleitt að fara að útiloka mann sem á einhvers staðar eina litla íbúð, en lána svo manni sem ætti kannske tvo skuttogara eða 100 millj. kr. í banka, en slíkir menn geta fengið lán orðalaust eins og nú er gengið frá frv. Allar reglur þurfa að vera skýrar og einfaldar. Allir eiga að geta fengið upplýsingar um sinn rétt og þuklið á að hverfa eins mikið og mögulegt er.

5. brtt. er um að sveitarfélög fái ekki sérstaklega lán til kaupa á gömlum húsum. Þau geta fengið lán til að byggja leiguíbúðir í stórum stíl, þau geta fengið lán til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis og mér finnst ofrausn að láta þau einnig fá sérstaka heimild til lána af takmörkuðu fé til kaupa á gömlu húsnæði. Mér finnst rétt að það sé hinn almenni borgari sem fái að njóta þess takmarkaða fjármagns sem fyrir hendi er til þeirra þarfa.

6. brtt. er svipaðs eðlis. Hún gengur út á að það sé ástæðulaust að sveitarfélögin geti fengið lán til meiri háttar endurbóta eða viðgerða á sínu húsnæði. Þau geta fengið lán til byggingar leiguíbúða, eins og ég sagði áðan, og til byggingar íbúða vegna heilsuspillandi húsnæðis, bæði til nýbygginga og til að byggja upp gamalt húsnæði, og það er ástæðulaust að þau fái einnig lán til venjulegs viðhalds.

7. brtt. gengur út á að sveitarfélögin borgi þau 20% sem upphaflega var sett inn í frv. og tekin þaðan út án þess að um það kæmi nokkur ósk frá samtökum þeirra.

8. brtt gengur aftur á móti út á að sveitarstjórnirnar hafi ávallt formann og varaformann í stjórnum verkamannabústaða í sínu sveitarfélagi, en þetta er mjög mikils vert ef sú mikla fjarmálaábyrgð, sem sveitarfélögunum er ætlað að bera samkv. 52. gr., verður óbreytt.

9. brtt. er einmitt um þetta sama. Þar eru sveitarfélögin losuð við þessa miklu ábyrgð, sem getur verið miklu meiri en þessi 10% sem munar á 20 og 10%. Með þessu móti sitja menn í Reykjavík, ef fara á eftir frv. eins og það er, og segja hvað framkvæmdin eigi að kosta, Byggingarsjóður verkamanna lánar 80% af þeirri upphæð, þar með talið framlag sveitarfélagsins, og væntanlegur eigandi greiðir sín 10%, en afganginn eiga svo sveitarfélögin að borga. Ef framkvæmdin fer t. d. 30% fram úr áætlun borga sveitarfélögin 40%, en ekki 10 eða 20%.

Í því sambandi vil ég minnast á goðsögnina sem hv. 10 þm. Reykv. var að tala um varðandi Húsavík — dæmið sem hann var að tala um frá Húsavík og gengur á móti þeirri goðsögn sem hann var að segja að væri til. Það er alveg hárrétt, að það er gífurlegur munur á sveitarfélögunum. Sveitarfélögin úti á landi eiga í mjög miklum erfiðleikum með að byggja á því kostnaðarverði sem hin svokallaða staðalíbúð kemur til með að kosta. Þau hafa ekki til þess tæki, þau hafa ekki til þess verkfæri og þau hafa ekki til þess neina stóra verktaka. Þau verða að bera alla þessa ábyrgð, alla þessa áhættu, og þau munu ekki leggja í hana. Aftur á móti sé ég ekki betur en hér á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri, þar sem alltaf er verið að tala um að menn byggi 20–30% undir kostnaðarverði, geri frv. ráð fyrir að sveitarfélögin þurfi ekkert að borga, heldur fái stórfé í sinn vasa í tengslum við þessar byggingar. Ég sé ekki ástæðu til þess að svo verði.

Í frv. er talað um dagvinnutekjur. Ef það á að búa til reglugerð um viðmiðun vildi ég breyta því í tekjur, því það er orðið svo mikið á huldu, hvað eru dagvinnutekjur og hvað eru ekki dagvinnutekjur, að mér finnst nauðsynlegt, að sú reglugerð miði við tekjur almennt, en ekki dagvinnutekjur einar.

Varðandi 10. brtt. finnst mér að það sé óþarfi og ofrausn að láta sveitarfélögin fá 80% lán til byggingar leiguíbúða sinna meðan hinn almenni borgari fær ekki nema 20–25 eða 30% eins og er. Hitt er annað mál, að til samræmis við lánin í sambandi við byggingu verkamannabústaða finnst mér rétt að þau fái 70%.

Herra forseti. Þótt ég telji, að of mörgu hafi verið breytt til hins verri vegar frá því sem var í frv. sem ég lagði fram í desember, er meginuppistaða þess óbreytt. Ég endurtek, að ég legg mikla áherslu á að frv. nái fram að ganga fyrir þingslit. Ég endurtek einnig, herra forseti, að það þarf að hefla verstu vankantana af þeim breytingum sem hv. Ed. gerði á frv.

Ég tek undir það, sem sagt hefur verið hér, að nauðsynlegt sé að láta Þjóðhagsstofnun reikna út kostnaðinn, bera þetta saman við upphaflega frv. Við þurfum að vita hvað þetta kostar áður en við göngum endanlega frá því. Það væri kannske ekki óeðlilegt að unnið væri við það yfir helgina ef nauðsynlegt reynist.