28.05.1980
Neðri deild: 87. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3161 í B-deild Alþingistíðinda. (3104)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Það kemur fram í nál. meiri hl. félmn. hv. deildar, að í frv. séu margar nýjungar, svo sem, eins og þar segir, stórátak í byggingu verkamannabústaða og útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis, félagslegi þáttur húsnæðismála aukinn, lánstími lengdur og vextir lækkaðir, stefnt að 80% láni og ávöxtun skyldusparnaðar greidd að fullu. Allt mun þetta vera satt og rétt. En það er líka staðreynd að það frv., sem liggur hér fyrir til umr., er gerbreytt frá því sem það var þegar það var lagt fram. Í hv. Ed. voru samþykktar milli 70 og 80 brtt. við það, misjafnlega viðamiklar að vísu, sumar þeirra mjög stórvægilegar og umdeildar hér á Alþ. og meðal margra þeirra hagsmunaaðila sem félmn. þessarar hv. d. hafði tal af þá tvo daga sem hún hafði frv. til umfjöllunar. Kem ég nánar að því síðar.

Eins og frsm. 2. minni hl. n., hv. 10. þm. Reykv., Friðrik Sophusson, greindi frá teljum við þessir tveir nm. að á frv. séu svo alvarlegir meinbugir að ekki sé hægt að samþykkja það nema á því verði gerðar veigamiklar breytingar. Þó ekki væri fyrir aðrar ástæður en breytingarnar einar, sem á frv. voru gerðar í Ed., var félmn. hv. Nd. og dm. öllum nauðsynlegt að fjalla gaumgæfilega um málið hér í deildinni og málið í heild.

Í þessu máli mínu mun ég einkum dveljast við fáein höfuðatriði frv. sem mér þykir að hafi farið úrhendis við umfjöllun þeirra, sem það sömdu, og í hv. Ed. Alþingis. Þó hafa margir um málið fjallað samkv. því sem upplýst er í grg, með því. Í fyrsta lagi fjallaði um það nefnd, að því er þar er sagt, sex manna nefnd sem skyldi endurskoða félagslegan þátt laganna og var sett til starfa 14. sept. 1977. Í öðru lagi var starfshópur sjö manna skipaður til þessarar endurskoðunar eða skoðunar á húsnæðismálalöggjöfinni 18. okt. 1978. Í þriðja lagi var skipuð þriggja manna nefnd sem lauk störfum 6. sept. 1979. Að síðustu setti ráðh. tvo menn til að semja frv. á grundvelli þeirra gagna sem frá fyrri nefndum og starfshópum komu.

Þrátt fyrir alla þessa vinnu er frv. að mínum dómi meingallað. Megingalli frv. er sá, að aukin og ný verkefni eru lögð á íbúðalánakerfið án þess að því sé séð fyrir viðbótarfjármagni til að mæta hinum auknu þörfum. N. bað Þjóðhagsstofnun um frekari upplýsingar um fjármögnunarþörf miðað við þær breytingar sem gerðar voru í hv. Ed., og ég mun síðar koma nánar að þeim svörum sem um það bárust.

Við, sem skipum 2. minni hl. félmn., erum samþykkir því og leggjum ríka áherslu á að lán Byggingarsjóðs ríkisins séu með þeim lánskjörum að almenningur í landinu og launþegar almennt fái staðið undir þeim af almennum launatekjum. Þess vegna þurfa hin almennu íbúðalán að vera sem hagstæðust, þau þurfa að vera til langs tíma, þau þurfa að vera með sem lægstum vöxtum og í sem hæstu hlutfalli af byggingarkostnaði. Við viljum efla Byggingarsjóð ríkisins með þessa stefnu að markmiði. Jafnframt leggjum við áherslu á mikilvægi Byggingarsjóðs verkamanna til að mæta þörfum þeirra sem lakast eru settir. Þeir þurfa mikillar aðstoðar við umfram aðra og sú aðstoð verður svo best veitt að hún sé takmörkuð við hina verst settu. Við teljum að þessara sjónarmiða sé ekki nægilega gætt í frv. og sumt í því ganga í öfuga átt í stjórn og skipan þessara mála.

Það er augljóst, að um leið og verkefni veðlánakerfisins eru stóraukin eru engar tillögur í þessu frv. um að efla tekjustofna kerfisins til að mæta þeim þörfum sem hin nýju verkefni skapa. Þetta er alvarlegur þverbrestur og svo alvarlegur að furðu gegnir. Þegar húsnæðislöggjöfin hefur verið í heildarendurskoðun áður hefur alltaf verið leitast við að efla tekjustofna veðlánakerfisins með auknum verkefnum. Það er svo, að alltaf hefur verið mikil þörf á að auka tekjustofna þess, þó að jafnframt væri ekki um aukin verkefni að ræða. Það er vegna þess að frá upphafi, þegar þetta kerfi var sett á laggirnar milli 1950 og 1960, ég man ekki greinilega hvert árið, voru lánin allt of lág miðað við byggingarkostnaðinn. En það voru þá strax uppi fyrirætlanir um að þetta yrði smám saman fært til betra horfs. Þegar veðlánakerfið var fyrst stofnað var þetta lánahlutfall miðað við byggingarkostnaðinn um það bil 30% eða milli 30 og 40%, en það var alltaf stefnt að því að lánin kæmust upp í 80%. Það hefur gengið mjög hægt að þoka því hlutfalli upp. Þegar best gegndi, fyrir um það bil 10 árum, var lán Byggingarsjóðsins orðið um 40% af byggingarkostnaði venjulegrar íbúðar. Síðan hefur þessu hrakað. Þess vegna er það, að þurft hefði að efla stórlega tekjur veðlánakerfisins við þessa endurskoðun þó að engin aukning hefði verið á verkefnum Byggingarsjóðs ríkisins eða veðlánakerfisins.

Það er engin ákvæði að finna í frv. sjálfu um auknar tekjur til handa veðlánakerfinu, hvorki vegna þeirra verkefna, sem fyrir voru, né til þeirra verkefna, sem við bætast. Hér er um það alvarlegasta að ræða varðandi þetta frv. og hér er ekki um neitt smámál að ræða. Samkv. grg. frv. er gert ráð fyrir að þegar í framkvæmd séu komnar þær breytingar, sem það felur í sér, þurfi 10 milljarða á ári umfram fyrri fjármagnsþörf veðlánakerfisins. Þessir 10 milljarðar eru miðaðir við verðlag ársins 1979. Svo alvarlegt er það mál sem snýr að fjárhagshliðinni.

Ég hygg að allir hafi gert ráð fyrir að við meðferð þessa máls yrði lögð sérstök áhersla á að sjá veðlánakerfinu fyrir nýjum tekjustofnum eða efla þá sem fyrir eru. Það mátti því ætla að ríkisstj. mundi við meðferð málsins leggja sig fram um að leysa þetta mál. Ekkert af því hefur gerst. Fyrir það, hvernig þetta mál stóð þegar það kom til skoðunar í félmn., óskaði n. eftir því að fá um það ákveðnari útreikninga hvað þyrfti til að byggja þann fjölda íbúða sem talið var nauðsynlegt að gera eða — spurningin var sett þannig fram við Þjóðhagsstofnunina — hvað þeir tekjustofnar, sem frv. gerir ráð fyrir, nægðu fyrir mörgum íbúðalánum á ári. Þessu svaraði Þjóðhagsstofnunin eðlilega með þeim hætti að slíkan útreikning væri mjög erfitt að gera og fyrst og fremst fyrir þá sök að það er mjög óljóst hversu miklar tekjur Byggingarsjóður ríkisins hefur til ráðstöfunar til þessara mála.

Það er Hallgrímur Snorrason, starfsmaður Þjóðhagsstofnunar, sem hefur farið ofan í þetta mál fyrir n. og svarað tilmælum n. Hann segir að þeirri spurningu, hversu tekjustofnar í frv. nægi fyrir mörgum íbúðarlánum næstu 15 árin að teknu tilliti til líklegra annarra lána, sé erfitt að svara og verði ekki svarað nema á grundvelli athugana sem bæði eru mjög tímafrekar og töluvert flóknar. Forsendur slíkra reikninga eru einnig mjög veigamiklar og geta skipt sköpum um niðurstöðurnar. Þannig hefði verið óhjákvæmilegt að forsendur yrðu í nokkrum atriðum ákveðnar í samráði við n. Þetta er ekki síður brýnt vegna þeirrar breytingar sem orðið hefur á frv., að 1% launaskattur er markaður Byggingarsjóði verkamanna til að tryggja þeim sjóði fastan tekjustofn, en ætla má að þetta hafi í för með sér að framlög og lántökur til Byggingarsjóðs ríkisins verði í meira mæli en hingað til háðar ákvörðun ríkisstj. og Alþingis á hverju ári með fjárlögum og lánsfjáráætlun. Spurningunni er því ekki unnt að svara að sinni.

Í svarinu segir svo áfram, með leyfi hæstv. forseta: „Á hinn bóginn hef ég nýlega gert nokkrar athuganir á fjárstreymi húsnæðislánakerfisins. Þessar athuganir beindust einkum að því að kanna hver yrði lánsfjárþörf byggingarsjóðanna miðað við tiltekin markmið um íbúðarlán sem nánar er lýst í orðsendingu til félmrh. 2. apríl s. l. Sá er hins vegar munurinn á þeim forsendum, sem þá var unnið eftir, og frv. eins og það er nú, að þá var reiknað með 21 árs lánstíma almennra nýbyggingarlána, en nú er gert ráð fyrir 26 ára lánstíma. Þessi breyting veikir vitaskuld stöðu Byggingarsjóðs ríkisins og eykur um leið lánsfjárþörf frá því sem reiknað var með í útreikningum 2. apríl. Þótt þessar athuganir svari ekki fsp. félmn. kunna þær e. t. v. að koma að einhverju gagni við umfjöllun málsins í n. og læt ég þær því fylgja hér með.“

En þær niðurstöður, sem Þjóðhagsstofnun vitnar í, hef ég hér við höndina, eins og kom fram í svari stofnunarinnar, og þar segir um niðurstöður þeirra reikninga, sem um var beðið, með leyfi hæstv. forseta:

„Byggingarsjóður verkamanna kemur nú heldur betur út en samkv. reikningunum frá 4. mars“, nú veit ég ekki um hvað var þá fjallað, „einkum þar sem nú er reiknað með minni meðalstaðalíbúð en áður og þar með nokkru minni heildarútlánum, en tekjuöflun breytist núna vegna fastra skatttekna sjóðsins. Samkv. þeim dæmum virðist sjóðurinn stöðugri til lengri tíma litið en í fyrri dæmum, en þar sem þessi breyting byggist að hluta á forsendum um byggingarkostnað er þessi niðurstaða afar ótraust. Dæmið, sem reiknað hefur verið fyrir 6 ár, sýnir að á 6. ári er breyting eigin fjár nettó töluvert neikvæð, þ. e. að greiðslur af teknum lánum eru nær tvöfalt meiri en tekjur af veittum lánum.“

Af því, sem ég hef rakið úr þessum útreikningum, er bersýnilegt að það hefur verið fullkomin ástæða til að gefa sér nægan tíma til að átta sig á þessu fjárhagsdæmi, svo stórt sem það er og svo veigamikill þáttur sem það er í hinni almennu uppbyggingu íbúðalánakerfisins.

Þá segir enn hér, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvað varðar Byggingarsjóð ríkisins valda hinar miklu breytingar á tekjuöflun sjóðsins af launaskatti því, að dæmi um 4–5 ár fram í tímann eru marklítil.

Það dæmi, sem nú hefur verið reiknað, er þó sýnu verra en hin eldri, bæði vegna lækkunar á framlögum ríkisins til sjóðsins og vegna þess vaxtamunar sem er á veittum og teknum lánum eftir núgildandi kjörum. Þessi niðurstaða kemur glöggt fram í meðfylgjandi töflu, sem sýnir dæmi um fjárstreymi miðað við gefnar forsendur um útlán o. fl. árin 1980–1984 og síðan fjórða hvert ár til ársins 2000. Taflan bendir til þess, að sjóðurinn sé óstöðugur þannig að í lok þessa 20 ára tímabils fara lántökur sjóðsins enn vaxandi. Lántökurnar aukast mjög ört á árunum 1984–1993, en þá dregur úr aukningunni og síðustu þrjú árin er lánsfjárþörfin nokkuð stöðug, en þó heldur vaxandi. Endurgreiðslur þessara lána eru í lok tímabilsins orðnar mun meiri en nýjar lántökur. Sé litið á nettótölur þessara lána, þ. e. mismun tekinna lána og endurgreiðslu þeirra með vöxtum og verðtryggingu, kemur og fram veruleg aukning.

Af þessum dæmum, sem hér hafa verið rakin, má álykta að þótt tilfærsla 1% söluskatts frá Byggingarsjóði ríkisins til Byggingarsjóðs verkamanna leysi a. m. k. að hluta vanda síðarnefnda sjóðsins standi fjáröflunarvandi íbúðalánakerfisins í heild eftir óleystur. Niðurstaðan er því sú, að við gildandi kjör á teknum lánum og veittum sé naumast unnt að ná gefnum markmiðum um útlán og uppbyggingu sjóðanna án þess að óafturkræf framlög til íbúðarlánakerfisins séu meiri en hér er reiknað með á því árabili sem útlánaaukning sjóðanna er hvað örust.“

Á þeim tveimur töflum, sem vitnað var til í svari Þjóðhagsstofnunarinnar, kemur það fram, þegar litið er á útreikning á lánsfjárþörf Byggingarsjóðs ríkisins, að á árinu 1980 er reiknað með að um 32% af ráðstöfunarfé sjóðsins verði að koma í gegnum lántökur aðrar en frá Atvinnuleysistryggingasjóði. Árið 2000 er þetta hlutfall sýnu óhagstæðara eða 66% sem Byggingarsjóður ríkisins þarf að taka að láni frá öðrum en Atvinnuleysistryggingasjóði til að mæta áætlaðri þörf.

Lánsfjárþörfin næstu 6 árin er metin þannig í Byggingarsjóði verkamanna að hún mun verða 1.2 milljarðar 1981, fer síðan smáhækkandi og 1986 er lánsfjárþörfin talin þurfa að vera 12 milljarðar kr.

Eins og sjá má af því sem ég hef rakið hér, er að mínum dómi ábyrgðarhluti að ganga þannig frá þessu frv., eins mikilvægt og það er, án þess að taka alvarlega á fjáröflunarvandamálinu.

Ég sé ekki ástæðu til að vitna meira í þessa skýrslu, en ég tel ástæðu til að koma lítils háttar inn á umsagnir þeirra aðila, sem sent höfðu þær félmn. Ed., og þeirra aðila, sem komu til fundar við félmn. Nd. þá tvo daga sem við vorum að starfi.

Í fyrsta lagi kom til okkar stjórn húsnæðismála eða húsnæðismálastjórn, eins og hún er nefnd venjulega. Í umsögn sinni segir húsnæðismálastjórn svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Húsnæðismálastjórn telur tímabært að sett verði ný löggjöf um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Frá því að lög um stofnunina voru sett 1970 hefur starfssvið hennar verið stóraukið, bæði með lögum og reglugerðum, án þess að samræmis hafi stundum verið gætt sem skyldi eða fjármögnunarmöguleikar verið nægilega tryggðir varðandi lánveitingar til nýrra verkefna sem á stofnunina hafa verið lögð. Þá hefur löggjöfin sem heild og einstakir þættir hennar verið í endurskoðun hjá nefndum og starfshópum í 5–6 ár. Mikið starf hefur verið unnið af þessum aðilum og tillögur gerðar til úrbóta og samræmingar á mörgum sviðum húsnæðismála, sem frv. ber augljóslega vitni um þó ljóst sé að ýmislegt í því þurfi nánari athugunar við, m. a. að fella inn í það ýmis atriði sem við koma húsnæðismálum og eru nú í öðrum lögum og m. a. er bent á hér á eftir. Að einhverju leyti hefur nú verið farið að þessum ráðum, en þó ekki að öllu.

Með frv. eru húsnæðismálastjórn og þeim lánasjóðum, sem hún á að stjórna, fengin að auki fjölmörg verkefni sem mikið fjármagn þarf til að framkvæma, en mikið vantar á að dómi stjórnarinnar að nýir tekjustofnar séu tryggðir í frv. eða lánsfé til sjóðanna tryggt með viðunandi hætti.

Engin ákvæði eru í frv. sem ganga í þá átt að koma heildarstjórn á allt það fjármagn sem nú fer til húsnæðismála. Um síðustu áramót voru viðskiptabankarnir með 28 millj. kr. í lánum til húsnæðismála, og lífeyrissjóðirnir hafa byggt upp sérstakt veðlánakerfi í landinu en engin trygging er þó fyrir því, að það fjármagn fari til húsnæðismála.

Húsnæðismálastjórn telur nauðsynlegt að taka fjármögnun veðlánakerfisins fastari tökum en gert er í frv. og samræma það annarri lánastarfsemi til húsnæðismála, sem nú er í framkvæmd í þjóðfélaginu.“

Þegar húsnæðismálastjórn kom á fund til okkar var það eftirtektarvert að stjórnarmenn lögðu allir áherslu á fjármálahliðina og að fjármögnun yrði aukin um leið og aukin voru verkefni stofnunarinnar. Þá var eftirtektarvert að allir húsnæðismálastjórnarmenn töldu sig andvíga því að fjölga mönnum í stjórninni, að einum undanskildum. Einn þeirra tók fram að fjölgun stjórnarmanna gæfi fordæmi fyrir því, að aðrar stéttir og ákveðnir starfshópar mundu krefjast hins sama og nú hefur verið gert með því að veita ASÍ aðild að stjórn Húsnæðisstofnunarinnar. Þá kom það fram hjá stjórnarmönnum að þeir teldu margt, sem í frv. væri fólgið, eiga betur heima í reglugerð en í lagagreinum. — Þetta voru mestu agnúar sem húsnæðismálastjórn taldi á frv. vera. Stjórnarmenn voru yfirleitt allir á því máli, að koma þyrfti fram nýju frv. um Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna, en töldu að ýmislegt þyrfti að laga betur en enn hefði verið gert áður en sú lagasetning kæmi að fullkomnu gagni fyrir húsbyggjendur almennt í landinu.

Í öðru lagi kom til n. framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga, Magnús E. Guðjónsson. Stjórn Sambandsins hafði sent félmn. Ed. umsögn. Ég fer ekki að vitna sérstaklega í það, ekki að neinu ráði. Þó hafði Magnús E. Guðjónsson það til málanna að leggja, þegar hann kom til okkar til viðræðu, að það þyrfti að fjármagna framkvæmdir með miklu ákveðnari hætti en gert væri með þessu frv. Þá lagði hann einnig áherslu á að honum þætti eðlilegra, að þar væri, eins og í upphaflega frv. mun hafa verið, um samráðsnefndir aðila að ræða í sambandi við verkamannabústaðina, heldur en að hafa þann hátt á að fella þetta að öllu leyti undir stækkaða húsnæðismálastjórn. Þá gerði hann þá aths. við það ákvæði frv., að hann taldi, að þar væri frumkvæði ekki nægilega fortakslaust í höndum sveitarstjórna í sambandi við byggingu leiguíbúða eða verkamannabústaða, og taldi mjög alvarleg mistök að hafa ekki skýrari ákvæði þar sem sveitarfélögin eru fjármögnunaraðilar að verulegu leyti í þeim efnum.

Til n. komu einnig aðilar vinnumarkaðarins, frá Alþýðusambandi Íslands og frá Vinnuveitendasambandi Íslands. Í stórum dráttum verður ekki annað sagt en að forsvarsmenn Alþýðusambands Íslands hafi allir verið á því máli, að þeir lögðu áherslu á að þetta frv. yrði að lögum sem fyrst, og töldu ekki ástæðu til að gera verulegar breytingar á því. Að vísu sagði formaður samtakanna, að „þótt við séum ekki alls kostar ánægðir með frv. eins og það er komið frá Ed. hafa þó orðið á því breytingar sem við viljum undirstrika að við höfum óskað eftir að fá“. Þar átti hann við aðild ASÍ að stjórn. Hann sagði enn fremur, að „þó að við séum ekki alls kostar ánægðir með frv. er ekki hættandi á að gera breytingar á því“. Þetta er, eins og menn geta ímyndað sér, ákaflega veigalítil röksemd, að ekki megi hætta á að gera lög vel úr garði af ótta við að þau nái ekki fram að ganga á þessu þingi, — lög sem í raun og veru eiga ekki að taka gildi fyrr en 1. jan. 1981 þó að gildistökutíminn sé talinn vera 1. júní 1980. Í raun munu þau ekki taka gildi fyrr en 1981.

Um forsvarsmann Vinnuveitendasambands Íslands er það að segja, að hann taldi það og sagði það skoðun þeirra samtaka að hagsmunaaðilar ættu ekki að vera í stjórn stofnana eins og þessarar. Ég þarf ekki að rekja það nánar, hvers vegna hann taldi það vera öndvert, en hann sagði síðan: „Ef frv. verður samþ. með einhliða aðild annars aðilans, þá getum við ekki skoðað það öðruvísi en sem ögrun við samtökin í þeim samningum sem fram undan eru.“

Þá kom til fundar við n. fulltrúi Stéttarsambands bænda og hafði þetta um málið að segja: Hann taldi að kerfið, eins og það er upp byggt í frv., horfði til bóta ef það fengist fjármagnað. Það var þetta stóra „ef“ sem hann lagði áherslu á, að lögin gætu staðið til bóta ef þau fengjust fjármögnuð. Þá gerði hann nokkrar aths. um stærð íbúða í sveitum, sem ekki er hægt að láta falla undir þá staðla sem settir eru almennt um húsnæðismálastjórnarhús. Þó að ég hafi ekki tekið það upp til þess að gera till. um að setja það inn í lög vil ég minna á að það er sjálfsagt að setja um þetta ákvæði í reglugerð. Ætti það að vera þar fullgilt í samræmi við þá þörf sem er fyrir aðra gerð bygginga í sveitum en í þéttbýli. Að lokum sagði Hákon Sigurgrímsson í viðræðum við okkur, að hann kæmi ekki auga á þá sérstöðu, sem ASÍ ætti að hafa, að eiga aðild að stjórn Húsnæðisstofnunarinnar frekar en aðrir aðilar sem þetta mál varðar.

Að síðustu vil ég lítils háttar rekja það, að til n. kom forsvarsmaður Meistarasambands byggingarmanna og voru þau samtök búin að senda allmargar brtt. við þetta frv. til Ed. og mun eitthvað af þeim hafa verið tekið þar til greina. Þó sagði hann í viðræðum við n., að hann teldi í fyrsta lagi óeðlilegt að ASÍ kæmi inn í stjórn samtakanna. Í öðru lagi taldi hann eðlilegt að sveitarstjórnirnar hefðu meiri völd í stjórnum verkamannabústaðanna. Það er nokkuð ljóst, eins og ég tók fram áðan, að eðlilegt er að gerðar séu breytingar á uppbyggingu á stjórnum verkamannabústaðanna til samræmis við þetta álit, sem ég tel rétt, þar sem sveitarstjórnirnar eru jafnmikill aðili að fjármögnun kerfisins og hér hefur verið rakið. — Í þriðja lagi hafði Gunnar S. Björnsson um fjármögnunina að segja að hún væri allt of óljós og óákveðin og ekki væri hægt að sjá annað en að taka mundi mjög langan tíma að ná 80% lánahlutfallinu ef ekki væru gerðar breytingar á fjármögnun í þá veru að gera fjármögnunina ákveðnari en hún er í frv. Hann taldi að það stæði þó til bóta eitt og annað í frv. M. a. taldi hann til bóta að afgreiðsla á lánunum er nú ráðgert að gæti orðið í fleiri en einni lánastofnun.

Herra forseti. Ég hef nú í stuttu máli farið yfir helstu þætti þessa frv. og vil leggja á það áherslu að breytingar verði gerðar á frv. í þessari hv. d. Ég tel, af því sem ég hef rakið úr umsögnum og af viðtölum sem n. átti við ýmsa aðila um málið, að knýjandi nauðsyn sé að gera breytingar á frv. Mér er fullljóst, að þótt hv. d. féllist á þær breytingar sem við hv. 10. þm. Reykv. höfum leyft okkur að flytja og eru á þskj. 610, þá eru samt ýmsir gallar á frv., þótt þeir megi heita minni háttar. Með því að samþykkja þær breytingar, sem við höfum lagt fram, teldi ég að frv. ætti að fara í gegn þó svo að á því séu fleiri agnúar. Það hefur verið bent á það af ýmsum aðilum, eins og ég hef rakið hér áður, að margt eitt er enn í greinum frv. sem betur ætti heima í reglugerð. Tel ég nauðsynlegt að breyta því. Frv. er óeðlilega viðamikið, eins og það er, og mætti með auðveldum hætti gera það einfaldara með því að flytja það, sem eðlilega á heima í reglugerð, þangað.

Eins og ég hef tekið fram er það tillaga okkar hv. 10. þm. Reykv., að þær till. verði samþykktar sem við flytjum á þskj. 610. Að þeim brtt. samþykktum mundum við fallast á að frv. yrði að lögum. En ég tel að það sé óbrúkandi eins og það er.