28.05.1980
Neðri deild: 87. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3171 í B-deild Alþingistíðinda. (3106)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það hefur margt verið sagt um það mál, sem hér er nú á dagskrá, og sjálfsagt ættu margir hv. þm. margt ósagt miðað við eðlilegar aðstæður hér í þinginu. Ekki skal ég þó hafa hér langt mál um, en vil samt drepa á örfá atriði.

Allt frá árinu 1974 hefur ríkisvaldið, og þá fleiri en ein og fleiri en tvær ríkisstj., lofað við samningsgerð hjá aðilum vinnumarkaðarins að renna traustari stöðum undir svokallaðar félagslegar íbúðabyggingar. Þau loforð hafa á þessum árum, þ. e. 6 árum, ekki verið efnd. Á s. l. hausti lagði þáv. hæstv. félmrh., Magnús H. Magnússon, fram frv., sem var eitt af tiltölulega fyrstu málum þingsins, og var þar, að ég held, á nokkuð raunhæfan hátt gerð tilraun til að standa við þau gefnu fyrirheit og reyna að færa mál í þann búning að með sanni mætti segja að vonast mætti til þess að raunhæf lausn á þessum loforðum fengist.

Það verður að segja, að það gegnir furðu að þessi marggefnu fyrirheit skuli ekki hafa verið efnd, því að eins og áður var að vikið var það við samningsgerð 1974 sem loforð var um þetta gefið. Enn þá furðulegra er þetta þegar tillit er til þess tekið, að verkalýðshreyfingin eða sjóðir hennar hafa að verulegu leyti fjármagnað íbúðabyggingakerfið hér í nokkuð mörg ár. Það verður þó að segja að það frv., sem nú er hér til umr., er vart nema svipur hjá sjón miðað við það frv. sem Magnús H. Magnússon lagði hér fram og fyrr var getið, því að frv. hinu fyrra fylgdu, að ég held að mati flestra sem það mál hafa skoðað, nokkuð nákvæmir og raunhæfir útreikningar á því, hvernig á raunhæfan hátt mætti fjármagna þann framkvæmdaþátt sem þar var gert ráð fyrir. Fingraför hæstv. núv. félmrh. hafa síður en svo betrumbætt málið í nokkuð veigamiklum tilfellum né þær breytingar sem málið hefur tekið undir handleiðslu núv. hæstv. félmrh. eftir afgreiðslu málsins í Ed. eða við afgreiðslu málsins þar. Má segja að hér sé meira um gefin fyrirheit en að ástæða sé til að ætla — a. m. k. sést það ekki enn í dag — að hægt verði við að standa að því er varðar fjármögnunarþátt málsins.

Það má því segja að eins og málið liggur nú fyrir Alþ. eftir samþykkt í Ed. sé verið að gefa fyrirheit um óútfylltan víxil á framtíðina. Það hefur ekki verið mótmælt þeim tölum sem birtust í nál. á þskj. 608, þ. e. frá 1. minni hl. félmn. þessarar hv. d. Samkv. þeim upplýsingum, sem þar liggja fyrir og fengnar eru frá Þjóðhagsstofnun, er ljóst að æðimikið — vægast sagt — gat virðist vera í fjármögnunarþætti frv. Það virðist liggja ljóst fyrir, að rösklega 200 milljarða vantar í kerfið til þess að hægt sé að standa við þau gefnu fyrirheit sem frv. gerir ráð fyrir á árunum 1980–1990. Og hvað sem líður þeim aths. einstakra hv. stjórnarliða, sem reynt hafa að vefengja þessar upplýsingar og útreikninga, liggur það þó fyrir nú samkv. enn þá nýrri upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun, að þeir útreikningar, sem eru í nál. á þskj. 608 frá 1. minni hl. félmn., standast og raunar nýjustu útreikningar, sem að vísu eru ekki lokaútreikningar af hálfu Þjóðhagsstofnunar varðandi málið sýna fremur fram á að eilítið stærra gat sé á fjármögnunarþættinum en þó þær tölur sýna sem áður var vitnað til í nál. 1. minni hl. félmn.

Það er því ljóst, hvað sem stefnumarkmiðum frv. líður eins og það nú liggur fyrir, að allsendis er óljóst með hvaða hætti á að standa við þá fjármagnsþörf sem er fyrir hendi ef á að standa við hin gefnu stefnufyrirheit. Það er blekking ein, sem hæstv. núv. félmrh. og málgagn hans hafa haldið fram, að hér sé vel fyrir málum séð og hér sé í rauninni verið að auka mjög það fjármagn sem komi frá opinberum aðilum í byggingarkerfið. Það liggur alveg ljóst fyrir, að það er engin aukning á fjármagni eins og frv. nú er, miðað við það sem var lagt til í frv. Magnúsar H. Magnússonar, nema síður sé. Það eina, sem breyst hefur í raun og veru, miðað við það kerfi sem nú er, er að áður fjármögnuðu sveitarfélög 20% og ríkissjóður 20% af framkvæmdum, en tilfærslan er sú, að sveitarfélög skulu nú fjármagna 10% og ríkissjóður 30%. Status quo er því í þessu ef tekið er mið af fjármögnun sveitarfélaganna, eins og hún hefur verið, og ríkissjóðs. Einnig þarf auðvitað að taka inn í þessa umræðu þær till. hæstv. ríkisstj. í frv. til lánsfjárlaga sem gera ráð fyrir 34% skerðingu Byggingarsjóðs ríkisins miðað við þau fjárframlög sem gildandi lög gera ráð fyrir.

Ég hygg því að öllum þeim, sem þetta mál hafa skoðað, sé ljóst að þó að stefnumiðin í frv. séu út af fyrir sig góð og góðra gjalda verð er það ekki nema hluti af málinu, því að ef á að koma þeim í framkvæmd og við þau að standa þarf einnig að sjá fyrir fjármagninu. Það er síður en svo að ljóst sé með hvaða hætti það á að gerast eins og frv. nú liggur fyrir.

Hegðun hæstv. félmrh. í þessu máli er svo kapítuli út af fyrir sig, að hann skuli um tveggja mánaða skeið hafa legið á upplýsingum eða útreikningum frá opinberri stofnun sem þetta mál varða. Hvað ástæður hæstv. ráðh. hefur haft til þess skal ósagt látið, en furðu gegnir það eigi að síður að hæstv. ráðh. skuli hegða sér með þeim hætti. Er það raunar forkastanlegt. En ég skal ekki hafa fleiri orð um það. Nú liggja þessar upplýsingar fyrir, eftir að málið er komið til 2. umr. í seinni deild, sem hefði þó verið æskilegra að legið hefðu fyrir strax við umr. málsins í fyrri deild.

Ég sagði áðan að það mundu allir gera sér ljóst, að miðað við þau fyrirheit, sem gefin eru, vantaði fjármagn sem svaraði til um 20 milljarða á ári næstu 10 árin til að standa við gefin fyrirheit. Auðvitað hlýtur sú spurning að vakna í ljósi þessa, hvernig hæstv. ríkisstj. eða hæstv. ráðh. ætli sér að standa við orð sín og brúa þetta bil.

Menn hljóta að spyrja í fyrsta lagi: Á að auka skattlagningu til að ná inn fjármagni til að standa við hin gefnu loforð og þá með hvaða hætti? Á e. t. v. að skera niður einhverja þætti ríkisbáknsins til að gera tilraun til að brúa bilið? Og þá er eðlilegt að spurt sé: Hvaða þáttum hafa hæstv. ráðh. augastað á? Hafa þeir augastað á einhverjum sérstökum póstum sem þeir telja að megi skera niður til að ná fjármagni í húsnæðismálin? Á kannske að hækka það lögbundna fjármagn sem lífeyrissjóðirnir í landinu eiga að leggja af mörkum til þessa þáttar, sem nú er 40%? Það gefur vissulega tilefni til að ætla að með einhverjum hætti eigi það að gerast sem hæstv. félmrh. ræddi um fyrr í dag. Hann var með hugleiðingar um að á næstu 2–3 árum mundi hlutur lífeyrissjóða í landinu til fjármögnunar byggingarbáknsins geta aukist, eins og hann orðaði það. Þetta gefur að mínu viti ástæðu til að ætla að enn séu hæstv. ráðh., a. m. k. hæstv. félmrh., með hugmyndir um að ganga enn nær ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna í landinu með auknum skuldbindingum um að fjármagna Byggingarsjóð ríkisins. Talið er að ef ætti að brúa þetta bil, sem nú er upplýst að er í fjármögnunarþætti frv., þyrfti að hækka lögbindingu ráðstöfunarfjár lífeyrissjóðanna úr 40%, eins og nú er, í 80% af ráðstöfunarfénu. Ef ekki á að gera þetta nema að einhverju eða litlu leyti hljóta menn að spyrja enn: Hvar ætla menn þá að taka peninga í þetta? Þessu er hægt að ná með því að hækka t. d. söluskatt um 3.5 prósentustig. Það mundi slaga hátt upp í þá tölu sem á vantar til að fjármagna framkvæmdirnar. Á e. t. v. að taka þetta fjármagn að láni? Það þýddi að sjálfsögðu að slíkar auknar lántökur mundu bæði sprengja fjárlagadæmi framtíðarinnar svo og byggingarkerfið eins og það nú er. Hvaða hugmyndir hefur hæstv. félmrh. og ríkisstj. um hvernig og hvaðan eigi að fá fjármagn til að standa við gefin loforð? Það er ekki óeðlilegt að slíkar spurningar vakni þegar sýnt hefur verið fram á að hér er geysimikið óbrúað bil miðað við gefin fyrirheit. Mönnum leikur hugur á að vita hvort ætla megi að hægt verði að standa við gefin fyrirheit um fjármögnun á þessum framkvæmdaþáttum.

Það mun hafa verið s. l. fimmtudag sem var lesin ályktun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands varðandi þetta mál og raunar fleiri þætti. Ég tel ástæðu til að fara nokkrum orðum um það. Ég held að hæstv. ríkisstj. og hæstv. félmrh. hljóti að gera sér ljóst að sú ályktun gefur skýrt tilefni til að ætla að þeim, sem að henni standa, þ. e. miðstjórn Alþýðusambands Íslands, sé fullljóst að hér sé einungis um að ræða, eins og frv. er nú, stefnumörkun, en ekki raunhæfar tillögur um hvernig eigi að fjármagna fyrirtækið. Þrátt fyrir að verkalýðshreyfingin verði, að ég hygg, þakklát fyrir ef frv. yrði lögfest, þó með þessum annmörkum væri, vegna margra ára svika við hreyfinguna í þessu máli, þá er þó nauðsynlegt að gera sér ljóst viðhorf forustumanna hreyfingarinnar við því að ekki er séð fyrir fjármagninu sem þarf til að frv. geti orðið að veruleika. — Það segir á einum stað í þessari ályktun, með leyfi forseta:

„Miðstjórn treystir því, að stjórnvöld muni á hverjum tíma tryggja það fjármagn sem þarf til þess að markmiði frv. í heild verði náð.“

Engum dytti í hug að setja slíkt inn í ályktun ef menn teldu sig sjá svart á hvítu í frv., eins og það nú er, að fyrir þessu fjármagni væri séð. Það er því augljóst mál að miðstjórn Alþýðusambandsins er þeirrar skoðunar að ekki sé séð fyrir því fjármagni sem fyrirheit frv. gefa tilefni til að ætla að eigi að verða í reynd. Ég tel ástæðu til að vekja sérstaklega athygli á þessu og í framhaldi af því að vona að þm. almennt geri sér ljóst að það væri miklum mun stórmannlegra af hæstv. ríkisstj. og Alþ. að sjá svo um, áður en þetta mál fær lokaafgreiðslu á þessu þingi, að betur væri séð fyrir fjármagnsþörfinni til framkvæmdanna en frv. gerir nú ráð fyrir.

Ég vil þó taka það sérstaklega fram að því er varðar Alþfl., að hann hefur lýst því yfir að hann muni á engan hátt gera tilraun til að tefja þetta mál. Hann mun að sjálfsögðu gera tilraun til að fá lagfæringar að því er varðar fjármagnsþáttinn, en hann mun á engan hátt gera tilraun til að tefja málið. Því hefur raunar verið lýst yfir af hálfu flokksins áður, að hann muni styðja það og standa að því að málið fái afgreiðslu nú. Það er litið á það af hálfu a. m. k. verkalýðssamtakanna sem nokkuð mikils virði að eftir 6 ára svik verði þó a. m. k. á blað sett með löggjöf að hverju er verið að stefna, þó að þeir vankantar séu á, sem væntanlega fáist þó leiðréttir að einhverju leyti, að ekki séð fyrir fjármagningu séð.

Ég taldi ástæðu til að vekja athygli á þeim þætti málsins, að miðstjórn Alþýðusambandsins er þeirrar skoðunar að ekki sé séð fyrir fjármagninu.

Auðvitað væri æskilegast allra hluta vegna að áður en málið verður afgreitt héðan úr þinginu yrði betur séð borgið fjármagnsþörfinni en frv. nú gerir ráð fyrir. Það er hægt að gera enn án þess að það þurfi á nokkurn hátt að hafa þau áhrif að málið dragist. Á þskj. 573 er brtt., þ. e. 2. brtt, frá Magnúsi H. Magnússyni og Jóhönnu Sigurðardóttur, sem mundi að verulegu leyti bæta hér upp og tryggja að langtum meiri líkur yrðu til þess að við værum hér að samþykkja annað en stefnumörkun eða pappírsgagn. Ég sé ekki, ef það er í raun og veru, sem ég vil ekki draga í efa, a. m. k. ekki að svo stöddu, meining hæstv. ríkisstj. að nú eigi að standa við þessi gefnu fyrirheit, að neitt mæli gegn því af hálfu ríkisstj. eða stjórnarliða á Alþ. að samþykkja þessa brtt. Hún gerði það að verkum að fjármagnsþætti málsins væri langtum betur borgið en nú er eftir þær till. sem hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir að samþykktar hafa verið til breytinga á frv. Ég vil því vænta þess að 2. brtt. á þessu þskj. verði samþykkt. Þó svo verkalýðshreyfingin taki að sjálfsögðu fegins hendi löggjöf með þessu sniði er víðs fjarri að hún telji málinu borgið meðan slíkt gap er í fjármagnsþætti framkvæmdanna sem frv. nú gefur tilefni til. Það væri vissulega til að létta róðurinn í samningaþófi aðila vinnumarkaðarins, sem nú stendur yfir og allt bendir til að haldi áfram nokkra hríð enn, ef hæstv. ríkisstj. beitti sér nú fyrir því eða tæki raunar undir það og legði sitt af mörkum til að efna betur en frv. gerir ráð fyrir hin marggefnu fyrirheit fyrri ríkisstjórna í þessu máli.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa um þetta öllu fleiri orð, en ég ítreka að það er skoðun verkalýðshreyfingarinnar, sem greinilega kemur fram í ályktun miðstjórnar Alþýðusambandsins, að þrátt fyrir þá stefnumörkun frv., sem þar birtist, þarf betur á að taka til þess að hægt sé að gera sér vonir um að raunhæft verði á þessu máli tekið í sambandi við fjármögnunina.

Ég vil svo ítreka það út af því sem hæstv. félmrh. sagði fyrr í dag um útreikningana, sem eru í nál. á þskj. 608, standa enn óhraktir og enn frekari stoðum hefur verið rennt undir, að þeir eru réttir og það, sem kemur fram með hinum seinni útreikningum Þjóðhagsstofnunar, sem komu í dag og a. m. k. sumir hverjir þm. — ég vænti hæstv. félmrh. líka — hafa fengið í hendur, ber ótvírætt merki þess, að í nál., sem fyrr er til vitnað, er ekkert ofsagt um þá fjármagnsþörf sem er fyrir hendi og hæstv. ríkisstj. og ríkisstjórnir, sem á eftir henni koma, komast ekki hjá að sjá fyrir ef á að standa við hin gefnu fyrirheit um stefnumörkun í þessum málum. Þetta er nauðsynlegt að menn geri sér ljóst. Þó að verkalýðshreyfingin leggi mikið upp úr samþykkt frv. telur hún þó þá ágalla vera enn á því, að það vantar, má segja, að verulegu leyti það sem við á að éta, það vantar peningana til þess að hægt verði að framkvæma það sem um er að ræða, og þá vantar mikið.

Ég vænti þess, að í meðförum þessarar hv. d. verði frv. breytt til hins betra frá því sem er og á þann hátt verði enn frekar og betur orðið við óskum og marggefnum loforðum verkalýðshreyfingunni til handa, sem hún raunar hefur margkeypt í samningum undanfarinna ára.