29.05.1980
Neðri deild: 91. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3218 í B-deild Alþingistíðinda. (3176)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. 2. minni hl. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég byrja á því að þakka hæstv. félmrh. fyrir þau svör sem hann hefur gefið við spurningum mínum og annarra þeirra sem til máls hafa tekið í umr. á hv. Alþ. um það mál sem hér er til umr. Ég skil það mætavel, að hjá ráðh. gátu ekki komið fram æskileg svör við ýmsum áleitnum spurningum. Það er eðlilegt þegar tillit er til þess tekið, hve vissir þættir frv. standa veikum fótum.

Ég hef því miður ekki tíma til á þessari stundu að ræða við hæstv. félmrh. um ýmis efni sem hefur borið á góma í umr. á hv. Alþ., um félagslega þætti og þess háttar, en verð þó að taka undir með honum um að ég tel eðlilega þá skýringu, sem hann gaf, að allar þær framkvæmdir, sem unnar væru á vegum eða með tilstyrk úr byggingarsjóðnum almenna og eins sjóði verkamannabústaðanna séu í eðli sínu félagslegar framkvæmdir og félagslegar aðgerðir. Þetta hefur talsverða þýðingu fyrir málið, vegna þess að verið er að skilja á milli félagslegs hlutverks þess fjármagns, sem rennur til húsnæðismála, og annars hlutverks. Auðvitað verður slíkt ekki skilið sundur nema þá liggi að baki eitthvert mat um það sem kallað er „félagslegt“ í það og það skiptið. Þetta er að vísu ekki stórmál, en þó eðlilegt að það sé rætt og ætti kannske oftar að ræða það í sölum hv. Alþingis, hvað menn eiga við með „frösum“ og yfirlýsingum sem stundum má jafnvel halda að menn skilji ekki sjálfir.

Varðandi lántökugjaldið, sem ráðh. ræddi, skal ég vera stuttorður. Það kemur í ljós að ekki er enn endanlega ákveðið hvernig staðið verður að afgreiðslu lána og innheimtu, hvort það verður gert með aðstoð eða á vegum veðdeildar Landsbankans eða með því að húsnæðismálastjórn eða Húsnæðisstofnun hafi beint samband við fleiri afgreiðslustaði á landinu. Allt um það er ljóst að heimild er til lántökugjalds sem fyrst og fremst er hugsað sem þóknun til handa þeim aðilum sem taka að sér þjónustuhlutverk í þessu skyni. Samkv. hugmyndum sjálfstæðismanna hefði lántökugjaldið verið eitt af tekjustofnum sjálfs byggingarsjóðsins, en með því að fella brtt. okkar fæ ég ekki annað séð en Alþ. hafi komið í veg fyrir að svo geti orðið.

Ég og hv. þm. Steinþór Gestsson höfum skilað nýju nál., framhaldsnál., sem er á þskj. 638. Þar gerum við grein fyrir meginviðhorfum okkar sjálfstæðismanna til þess frv., sem hér er til umr., og ákvörðunar Alþingis. Það kemur skýrt fram í því nál. og reyndar í öðrum nál., bæði nál. allra félmn. og aðeins í nál. 1. minni hl., að full ástæða hefði verið til að skoða þetta mál enn betur en kostur er á þeim stutta tíma sem nú er til þinglausna. Það er því alveg ljóst, og á það legg ég mikla áherslu, að sá tími, sem hefur farið í þetta mál, er ósköp eðlilegur. Það er því aldeilis út í hött þegar því hefur verið haldið fram, að stjórnarandstaðan og þá einkum Sjálfstfl. hafi staðið að því að þæfa þetta mál eða koma í veg fyrir afgreiðslu þess. Staðreyndin liggur á borðinu með þessum þremur framhaldsnál. Hún er sú, að Alþ. hefði jafnvel þurft að fá enn lengri tíma til að kanna þetta mál og þó sérstaklega einn þátt þess, fjármögnunarþáttinn. — Þetta vil ég að komi hér skýrt fram og fari ekki fram hjá neinum og allra síst þeim hv. þm. sem hafa sagt annað í fjölmiðlum að undanförnu.

Aðalatriðin í framhaldsnál. okkar eru þessi:

Við teljum að hlutverk tæknideildarinnar eigi að þrengja og hún eigi ekki að stunda samkeppni við teiknistofur í landinu. Við bendum á að samkv. 70. gr. er tæknideildinni nánast ætlað að standa undir sér, en slíkt er eiginlega útilokað þegar á það er litið að margvísleg þjónusta tæknideildarinnar er þannig, að ekki verður fyrir hana tekið. Það hlýtur að leiða til þess, að kostnaður við þá þætti færist yfir á annan kostnað deildarinnar og hún verður ekki samkeppnisfær. — Á þetta bendi ég því að það er gamalt mál sem hefur verið rætt í fjvn. Á sínum tíma lá fyrir á grundvelli skýrslu um tæknideild húsnæðismálastjórnar hugmynd hjá hv. fjvn. um að setja tæknideildinni ákveðin skilyrði ef hún ætlaði að fjölga hjá sér stöðugildum. Ég hef ekki tíma til þess hér að rekja það lið fyrir lið, en þau skjöl eru til í fórum hv. fjvn. Þar er gerð í sjö liðum grein fyrir þeim viðhorfum sem þá voru uppi hjá fjvn., þótt það plagg fengi ekki endanlega afgreiðslu í nefndinni.

Í öðru lagi höfum við sjálfstæðismenn bent rækilega á að við teljum að eðlilegt sé að ASÍ og önnur samtök vinnumarkaðarins hafi áhrif á þær mikilvægu ákvarðanir sem teknar eru hjá Húsnæðismálastofnun ríkisins, en við teljum að það eigi ekki að gerast með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í lagafrv. eins og það er nú. Við teljum hvergi koma fram í þeim gögnum, sem við höfum undir höndum, að ASÍ eigi eitt rétt til að tilnefna tvo menn í stjórn Húsnæðisstofnunar. Við teljum að slíkt framsal Alþingis sé afskaplega óeðlilegt. Við höfum hins vegar lagt fram till. um og erum því sammála því að Alþýðusambandið hafi áhrif á stjórnir verkamannabústaðanna með beinni aðild.

Ég ætla ekki á þessum fáu mínútum, sem ég hef til ráðstöfunar, að fara frekar út í þessa sálma, ég gerði það mjög ítarlega í framsöguræðu minni við 2. umr. málsins. En ég get bent á það sem dæmi um hvernig pólitískt hlutfall er í stjórnum mikilvægustu launþegasamtakanna, að í 18 manna stjórn Verkamannasambands Íslands sitja 9 Alþfl.-menn og 9 Alþb.-menn og enginn úr öðrum flokkum. Og í stjórn Alþýðusambands Íslands, sem er 15 manna, situr einn flokksbundinn sjálfstæðismaður. Ég spyr hv. þm.: Teljið þið að þetta sýni í raun þann pólitíska styrkleika sem er í Alþýðusambandi Íslands og í Verkamannasambandi Íslands? Svar mitt liggur í augum uppi. Það sýnir hann ekki, aðallega vegna þess að kosningareglum í þessum stóru samtökum háttar þannig að þar fara ekki fram hlutfallskosningar, þar eiga sér ekki stað kosningar eftir sömu lýðræðisreglum og gilda í þjóðfélaginu og þess vegna geta myndast meiri hlutar sem jafnvel eru bornir uppi af minni hluta. Þetta er sér í lagi alvarlegt mál þegar tillit er tekið til þess, að hver sá maður, sem er á launamarkaðnum, er nánast skyldugur til að vera í viðkomandi stéttarfélagi, rétt eins og menn eru skyldaðir til að vera í íslenska þjóðfélaginu. Við gerum ekki sömu lýðræðiskröfur fyrir verkalýðsfélögin og við gerum fyrir þjóðfélagið í heild, þótt nánast sé um skylduaðild að ræða hjá báðum aðilum. Á þetta legg ég sérstaka áherslu. — Það liggur fyrir till. hér í þinginu. Hún fær væntanlega afgreiðslu næsta vetur. Ég hef þær fregnir, að yfirgnæfandi meiri hl. Alþingis muni styðja þá till. hv. þm. Péturs Sigurðssonar o. fl.

Í þriðja lagi erum við sjálfstæðismenn á móti því, að lögfest sé að þriðjungur fjárins eigi að ganga til félagslegra bygginga. Þetta hef ég rökstutt áður í mínu máli núna og enn fremur í framsöguræðu minni við 2. umr. Við teljum að almenni byggingarsjóðurinn eigi að vera svo sterkur að hann geti sinnt því meginhlutverki að allir þeir, sem hafa venjulegar tekjur í landinu, geti komið sér upp húsnæði, geti búið í eigin húsnæði. Það er stefna okkar sjálfstæðismanna og henni viljum við framfylgja með þessum almennu reglum, en takmarka hinar svokölluðu félagslegu aðgerðir við þá, sem virkilega þurfa á þeim að halda, og gera þá því betur fyrir þá fáu sem eftir eru.

Í fjórða lagi, og það þarf ég ekki að ítreka því að það hafa allir talað um á undan mér, teljum við að það fjármagn, sem þarf að vera til ráðstöfunar, sé ekki fyrir hendi þegar litið er til framtíðar, þó ekki sé meira en 2–3 ár. Nýjar upplýsingar hafa komið fram um að þær breytingar, sem voru gerðar á frv. í Ed., leiði til enn aukinna útlána sjóðsins og verði þess vegna enn lengra bil á milli fjárþarfarinnar og hinnar eiginlegu fjármögnunar hins vegar. Auðvitað hljótum við að setja traust okkar á ríkisstj., en það vill svo til að við alþm. höfum ekki sama traust á öllum ríkisstj. Ég verð að segja að því miður er traust mitt á þessari ríkisstj. ekki mjög mikið í þessum efnum eins og mörgum öðrum.

Þær breytingar, sem hafa verið gerðar á þessu frv., og það, að till. okkar sjálfstæðismanna hafa verið felldar, gerir að verkum að við sjáum okkur tilneydda að mæla með því að frv. verði fellt. Við gerum okkur þó grein fyrir því, að í frv. eru ýmsar umbætur, en þær breytingar, sem gerðar hafa verið á frv., eru þess eðlis, að þær eru þyngri á metunum en þær breytingar sem til bóta horfðu og voru í upphaflega frv.