17.12.1979
Efri deild: 3. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

16. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Iðnrh. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort ég get gefið viðhlítandi svör við öllu sem hv. 4. þm. Norðurl. e. spurði hér, en ég mun ekki út af fyrir sig svara því, hvað er einum eða öðrum að kenna. Hins vegar skal ég reyna að gefa þær upplýsingar sem ég hef á hraðbergi um þessi mál, og er þá fyrst að nefna orkuöflun við Kröflu, að það er í athugun, svo að ekki sé meira sagt, að boraðar verði tvær eins konar rannsóknar- og vinnsluholur við Kröflu á komandi sumri. Það er þegar farið að bora lítils háttar fyrir annarri þeirra, en ég veit ekki fremur en hv. 4. þm. Norðurl. e. hvort forsjónin veitir okkur orkuöflun þó að þær holur verði boraðar. Persónulega er mér ekki kunnugt um að Alþfl. hafi í nokkru hindrað samtengingu þá sem hann drap á. En þó að þessar holur verði boraðar þarna við Kröflu, þá hygg ég að ekki verði hægt að komast hjá því að svona mikil dísilkeyrsla fari fram á næsta ári, því að hvað hraðhentir sem menn verða mun ekki takast að koma neinni nýrri orkuöflun í gang fyrir lok næsta árs nema ef vera skyldi lítils háttar í sambandi við Svartsengi.

Annað man ég nú ekki eftir að hv. 4. þm. Norðurl. e. væri beinlínis að spyrja um. Eins og ég segi, svara ég þessu áreitnislaust, hvernig sem spurningarnar voru, og ég veit ekki fremur en hann hvort drottinn gefur okkur nýja stjórn fyrir þessi jól eða n.k. áramót eða hvenær það verður.