14.01.1980
Neðri deild: 16. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

26. mál, óverðtryggð framleiðsla landbúnaðarvara

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Það er rangt hjá hv. síðasta ræðumanni að umr. hér á þingi um landbúnaðarmál hafi nánast eingöngu snúist um útflutningsbætur og það sem á hefur skort þar. Á þinginu 1978–1979 voru hér ákaflega miklar umr. um stefnumörkun í landbúnaði. Einnig hafa legið fyrir þinginu tillögur um stefnumörkun í landbúnaði. Hér er aðeins um einn þátt í vandamálum landbúnaðarins að ræða, þ.e.a.s. skort á útflutningsbótum til að jafna verð á milli þess, sem er selt innanlands, og hins, sem er flutt út. Það er mikilvægur liður í slíkri stefnumörkun. Því þótti mér það misskilningur, sem kom fram hjá hæstv. landbrh. áðan, að ekki bæri að veita viðbótarútflutningsbætur af því að árið hefði verið gott. Raunar er ekki um slíkt að ræða. Reyndar var s.l. ár sérstaklega erfitt. Um er að ræða víðtækt samkomulag við bændur um stefnumörkun í landbúnaði, að draga á nokkurra ára bili úr umframframleiðslu vissra landbúnaðarafurða, þ.e.a.s. sauðfjárafurða og mjólkurframleiðslunni, ná henni sem næst niður í það sem þarfir þjóðarinnar og iðnaðarins ákveða, en jafnframt í staðinn að veita bændum aðstoð vegna þess tekjumissis sem þeir hafa orðið fyrir á undanförnum árum. Þetta er kjarni málsins. Þetta tvennt er tengt saman og ber að skoða það saman, þótt hér verði að sjálfsögðu að afgreiða þessi mál sitt í hvoru lagi. Það er ákaflega mikilvægt, þegar til framtíðarinnar er lítið, að ná samstóðu við bændur um framleiðslumagn sem hentar okkur Íslendingum.

Í frv. að framleiðsluráðslögum er gert ráð fyrir að taka upp beina samninga við bændur um framleiðslumagn. Þar er gert ráð fyrir að framleiðslumagnið verði ákveðið og ábyrgð veitt fyrir fullri greiðslu þess framleiðslumangs. Þannig ætti að vera unnt, með þó vissum og mjög nauðsynlegum hliðarráðstöfunum, að ná framleiðslu á búsafurðum niður án þess að það skaði bændur tilfinnanlega og án þess að byggðaröskun verði. Þetta eru lykilatriði sem verður að hafa í huga þegar svo vandasamt mál er til umfjöllunar.

Mér þykir undarlegt að hlusta á menn tala annars vegar um tekjujöfnuð í þjóðfélaginu, en mæla því svo bót hér að bændur verði nánast teknir kverkataki og snúnir niður, því um það er að ræða. Það er í raun og veru eina lýsingin sem hægt er að hafa á tillögum minni hl. í svokallaðri harðindanefnd. Þar á að nota sér örðugleika landbúnaðarins og knýja fram framleiðslusamdrátt, ekki í samráði við bændur, heldur með slíkum brögðum.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Það er rétt, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Vesturl., að dregist hefur að afgr. málið. Það brást að tækist að afgr. málið s.l. vor, þegar komið var með útgöngu í veg fyrir að það fengi hér afgreiðslu. Þetta muna menn. Menn vita að sjálfsögðu einnig, að ekki var samkomulag í harðindanefnd. Fulltrúi eins stjórnarflokksins var á móti meirihlutaálitinu og því ekki samstaða í ríkisstj. um að afgr. málið. Þess vegna voru þessi mál flutt sem þmfrv. á þinginu í október, og það endurtekur sig nú. Þetta að sjálfsögðu skýringin sem allir menn þekkja.

En á þeim tveimur frv., sem hér liggja fyrir, er einn munur, og hann er sá, að í því frv., sem nú er til umr., er gert ráð fyrir að endurgreiða 3 milljarða úr Byggðasjóði. Ég vil lýsa andstöðu minni við það. Ég held að verkefni Byggðasjóðs séu svo gífurlega mikil að ekki beri að skerða hann um slíka fjárupphæð. Ég hygg að ég hafi tekið rétt eftir því, að hér liggi einnig fyrir þáltill. um að Byggðasjóður jafni raforkukostnað í landinu. Þetta er dæmi um annað stórt verkefni. Og sannarlega vaknar einnig sú spurning, hvort heimilt sé að ráðstafa fjármagni Byggðasjóðs í því skyni sem hér er gert ráð fyrir. Byggðasjóður hefur hingað til veitt lán eingöngu til framkvæmda, en ekki til rekstrar. Lögð hefur verið mikil áhersla á að greina þar á milli. Ég skal ekki útiloka þetta þó, en þarna er um verulega stefnubreytingu að ræða, og ég leyfi mér að fullyrða að verkefni Byggðasjóðs í alls konar framkvæmdum, t.d. til þess að lækka raforkukostnað um landið, séu gífurleg og sannarlega verðug og það nauðsynleg að fremur þurfti að auka fjármagn Byggðasjóðs en að draga úr því. Ég lýsi því efasemdum mínum um þá hugmynd sem kemur fram í þessu frv. um að endurgreiða umrætt lán úr Byggðasjóði.

Fram kom áðan hjá hv. 6. þm. Norðurl. e., að Samband ísl. samvinnufélaga tæki umboðslaun af útflutningsbótum. Nú má ætíð um það deila af hverju slíkur kostnaður er reiknaður. En ég get upplýst hér, að þessu fyrirkomulagi var breytt. Starfandi er samstarfsnefnd með sláturleyfishöfum og búvörudeild Sambands ísl. samvinnufélaga. Hún skiptir þeim kostnaði, sem verður við þá þjónustu sem búvörudeildin veitir og við þann útflutning sem hún tekur að sér, niður á afurðir og sláturleyfishafa, ekki tengur sem hundraðstölu, heldur sem krónutölu. Þetta mun vera reiknað, að því er ég best veit, í tvennu lagi: annars vegar fast gjald fyrir ákveðna þjónustu, sem samstarfsnefndin óskar eftir, og hins vegar svo og svo mikið á hvert kg þegar um útflutning á t.d. kjöti er að ræða. Hitt breytist að sjálfsögðu ekki, að upphæðin verður svipuð. Því má satt að segja um það deila, hvort er hagkvæmara að skipta henni niður eftir á sem hundraðshluta og þá á hvað. En þarna er sem sagt greiddur kostnaður og skiptingu hans var breytt að ósk minni. — Ég vil að þetta komi hér fram, þar sem það var nefnt áðan.

Ég vil að lokum lýsa einnig þeirri von minni, að þessi aðstoð við bændur fái fljóta afgreiðslu hér á hinu háa Alþingi. Málið hefur dregist, eins og fram hefur komið. Vandamálin í landbúnaði eru gífurlega mikil, ekki bara af þessari ástæðu, heldur einnig vegna þeirra harðinda sem yfir hafa gengið.

Mér þykir mjög leitt til þess að vita, hvað dregist hefur úr hömlu að veita þá aðstoð sem ákveðin var og samþ. af fyrrv. ríkisstj. og með brbl. af núv. ríkisstj. ákveðið á hvern máta skuli með fara í Bjargráðasjóðnum. Þykir mér satt að segja undarlegt að ekki skuli vera gengið í það af meiri hörku að ná því fjármagni sem nauðsynlegt er til þess að afgr. þessi mál. Mér sýnist ekki fylgja mikil alvara.

En ég vil jafnframt leggja á það höfuðáherslu, að halda verður áfram þeirri stefnumörkun sem var í undirbúningi, en eins og ég sagði áðan er það mál, sem hér er til umræðu, aðeins liður í henni. Það er ekki síður stóra málið, hvað menn ætla að gera á næstu árum. Eftir því sem ég best veit er viðbótarútflutningsbótaþörfin á því ári, sem nú er hafið, um 6 milljarðar. Þetta stafar að hluta af því að mjög miklu hefur verið slátrað. Að sumu leyti koma tekjuerfiðleikar bænda af þessu fram á næstu árum. Þetta er einnig liður í hinu mikla vandamáli landbúnaðarins og sýnir glöggt að ekki verður lengur svo áfram haldið. Þetta skilja bændur ekki síst sjálfir. Það hefur komið mjög greinilega fram hjá bændum. Bændur hafa sjálfir leitað leiða til að fá á þessu breytingar. Þess vegna legg ég á það höfuðáherslu að unnið verði með bændum að þessari stefnumörkun og þeirri breytingu sem er nauðsynleg upp á framtíðina. Það er kannske stærsta málið.