16.01.1980
Efri deild: 18. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Helgi Seljan:

Herra forseti. Það er ekki ætlun mín að fjalla um þetta frv. í heild sinni, enda hefur það þegar verið rækilega gert og mun verða áreiðanlega enn betur gert. Er ekki nema gott um það að segja, að svo viðamikill málaflokkur sem hér er um að ræða sé tekinn vandlega til umr. strax við 1. umr., þó að auðvitað eigi að vinna aðalstarfið í þeirri n. sem fær þetta mál til meðferðar.

Ég get ekki stillt mig um að taka alveg sérstaklega undir tvö atriði sem fram komu í máli hv. 5. þm. Norðurl. e., þ.e. þá vöntun sem mér þykir vera á því, að getið sé sérstaklega um byggingarsamvinnufélögin, þátt þeirra í húsnæðismálakerfinu, og þá möguleika, sem þarf að gefa því formi, og að sumu leyti vissan forgang, ásamt því formi sem hér er varðandi félagslegar íbúðabyggingar í sambandi við verkamannabústaðina og leiguíbúðir sveitarfélaga.

Ekki síður vil ég taka undir það með honum alveg sérstaklega, hver nauðsyn er á því fyrir Húsnæðismálastofnunina sem slíka að fylgjast vel með tækninýjungum og þá alveg sérstaklega á sviði byggingartækni, sem getur gert íbúðabyggingar hér ódýrari og viðráðanlegri fyrir fólk. Merkasta tilraunin, sem í því hefur verið gerð, er tvímælalaust sú sem hann nefndi réttilega, einingahúsin. Þá starfsemi þarf vissulega að styrkja og efla. Það er að vísu rétt, að í 67. gr., um tækni- og þjónustudeild Húsnæðismálastofnunar, segir í 4. lið, með leyfi forseta, að hlutverk eða verkefni tækni- og þjónustudeildar sé“ að vera ráðgjafi Húsnæðismálastofnunarinnar og stjórnar hennar um tæknileg málefni og annast samskipti við aðra opinbera aðila sem vinna að áætlunargerð, rannsóknum og tilraunum á sviði húsnæðis- og byggingarmála.“ Hér þyrfti að mínu viti að kveða sterkar að orði og ákveðnara. Ég bendi á það, að á síðasta þingi var samþykkt sérstök till. um ítarlega rannsókn á hagkvæmni og möguleikum þeim sem í því eru fólgnir að framleiða svokölluð verksmiðjuframleidd hús. Ég vona að sú athugun sé komin í gang, menn séu farnir að sinna því verkefni. Það er vissulega brýn nauðsyn, því að hér er um að ræða einu raunhæfu tilraunina, sem ég hef séð á síðustu árum, til þess að lækka byggingarkostnað verulega.

Þetta vildi ég aðeins segja varðandi þessi tvö atriði sem hv. 5. þm. Norðurl. e. kom réttilega inn á og þarf að taka til nánari skoðunar.

Ég kom hingað hins vegar aðeins til þess að mæla fyrir brtt. sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 91 ásamt hv. þm. Agli Jónssyni og Stefáni Jónssyni, en sú till. er þannig, að við 2. gr. bætist, með leyfi forseta:

„Húsnæðismálastofnun ríkisins skal starfrækja útibú frá stofnuninni á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og eystra, Austurlandi og Suðurlandi. Útibúin veiti alla sömu þjónustu og stofnunin sjálf veitir hvað snertir upplýsingar, teikningar og fyrirgreiðslu hvers konar. Útibúin skulu hafa nána samvinnu við skipulagsskrifstofur landshlutanna eða þjónustumiðstöðvar, er þeim verður komið á.

Afgreiðslu lána skal fara fram hjá útibúum Landsbankans á hverju svæði eða útibúum annars ríkisbanka, og skulu bankaútibúin ganga frá öllum skilmálum og veðtryggingum.“

Þetta mál á sér nokkra forsögu. Ég hef ásamt öðrum þm. hér í hv. d. flutt frv. um þetta áður, allmiklu ítarlegra. Síðast var það flutt á þinginu í fyrra og þá flutti ég það ásamt hv. þm. Stefáni Jónssyni. Það frv. fékk þá, eins og reyndar jafnan áður þegar það hafði komið til umfjöllunar, góðar undirtektir. Ég hlýt því að leggja áherslu á þetta atriði, að það komi verulega til skoðunar í n. Það er mikilvægt fyrir alla landsbyggðina að reynt sé til hins ítrasta að finna leið til að auðvelda fólki þar viðskipti við þessa annars ágætu stofnun og þar með að auðvelda alla þjónustu hennar við landsbyggðina svo sem kostur er. Ég bendi á það, að fyrir nokkrum árum var frv. þessa eðlis flutt hér í nokkuð öðrum búningi og enn ítarlegri og fékk þá afgreiðslu hér frá hv. d., að því var vísað til endurskoðunarnefndar sem þá var í gangi, og ég hygg að að hluta til a.m.k. hafi verið sömu menn í þeirri endurskoðunarnefnd og voru í þeirri nefnd sem hefur samið þetta frv. Þessu var vísað til endurskoðunarnefndarinnar með mjög jákvæðri umsögn héðan úr d. Ég veit raunar að þetta frv. og sú umsögn, sem frv. fékk hér, mun aldrei hafa komið til umr. í endurskoðunarnefndinni neitt að ráði. Ég kenni því alveg sérstaklega um, að það var enginn landsbyggðarmaður í þessari nefnd til þess að fylgja þar málum eftir hvað snertir landsbyggðina sérstaklega. Ég er ekki að segja að hér sé um þann kost að ræða sem sé endilega sá eini rétti eða sá æskilegasti. En okkur er það a.m.k. öllum ljóst, sem höfum kynnst viðskiptum fólks úti á landi við þessa ágætu stofnun, að þar er mikillar breytingar þörf. Það má auðvitað segja að víða hafi ástandið batnað til mikilla muna. Sveitarfélögin hafa ráðið sér — sum ein sér, önnur sameiginlega byggingarfulltrúa sem eru mjög vel menntir víða, og þeir veita fólki ýmsa ráðgjöf og nauðsynlega varðandi allt það pappírsflóð sem þarf að fylgja með hverri umsókn til þessarar stofnunar. Ég er ekki að draga í efa að á því sé full þörf, þó að manni þyki nóg að gert á stundum. Og þessir byggingarfulltrúar hafa farið í læri hjá Húsnæðismálastofnuninni og fengið þar nokkra tilsögn í því, hvernig þeir gegni hlutverki sínu sem allra best gagnvart stofnuninni. Engu að síður er auðvitað allt of víða um það að ræða, að einhver byggingarfróður maður, húsasmiður eða einhver slíkur, er fenginn til að hafa þessa vinnu í hjáverkum hjá sveitarfélaginu, og sá maður getur auðvitað aldrei gegnt því hlutverki sem byggingarfulltrúi í fullu starfi eða hálfu gegnir í hinum stærri sveitarfélögum. Menn vita að allar umsóknir og allt sem þeim fylgir, þetta þarf að koma á aðalskrifstofuna syðra, smátt sem stórt, umsókn með öllum vottorðum þarf að berast og ekki má vanta eitt smávottorð, og allt stendur fast, jafnvel langan tíma, ef menn hafa ekki því betri gætur á því. Og svo er hið sama þegar lánveitingar hafa verið ákvarðaðar, þá þarf að senda ný vottorð, ný plögg til þessarar sömu stofnunar. Þetta hlyti að vera hægt að einfalda og alveg sérstaklega í sambandi við afgreiðslu lánanna, því að afgreiðsla lánanna er í höndum veðdeildar Landsbankans og útibú Landsbankans, og útibú annarra ríkisbanka eiga vitanlega að geta séð um þessa hlið mála, bæði varðandi alla skilmála og að ganga frá veðtryggingum þessu tengdum.

Í þessari brtt. er ekki gengið eins langt og í frv. sjálfu um ítarlegt orðalag. Ég ætla, ef þetta kemur til alvarlegrar skoðunar í n., að þá verði þar frá því gengið á þann hátt sem fullnægjandi mætti teljast, ef hv. n. sér ástæðu til að taka eitthvert slíkt fyrirkomulag upp. En þó er á það minnt, að tenging útibúa af þessu tagi væri sjálfsögð við hugsanlegar skipulagsskrifstofur í landshlutunum eða einhvers konar þjónustumiðstöðvar sveitarfélaga. Ég held að ef þessi útibú yrðu tengd nógu rækilega samtökum sveitarfélaganna ætti ekki að verða hér mikill aukakostnaður af. Og ég trúi því varla að hann yrði mikill, ef tekið yrði tillit til þess um leið, að vissulega ætti þá að vera hægt að sama skapi að fækka starfsliði hér syðra sem yfirfer þessa pappíra.

Ég hef áður flutt ítarlega framsögu fyrir því, hvers vegna ég tel þetta fyrirkomulag nauðsynlegt, að þjónusta Húsnæðismálastofnunar ríkisins verði færð út í landshlutana meir og betur en verið hefur, og ætla ekki að fara að þreyta menn hér á að endurtaka það. Þetta hefur fengið jákvæðar undirtektir hér. Ég ætla því að vona að svo verði áfram í þessari hv. þd., að það verði vel skoðað, með hvaða fyrirkomulagi verði hægt að koma á nánara sambandi stofnunarinnar við landsbyggðina og enn bættri þjónustu frá því sem nú er. Og ég trúi því og treysti, að góð athugun n., sem fær þetta mál til umfjöllunar, verði til þess að hér fáist a.m.k. einhver lágmarksúrbót fyrir íbúa landsbyggðarinnar, en á því er full þörf.