16.01.1980
Efri deild: 18. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (423)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. 8. þm. Reykv. og reyndar öðrum þeim hv. þm. sem hafa talað í dag, fyrir hversu jákvætt þeir hafa tekið í þetta frv. Ég tek undir till. hans um nafnbreytingu á stofnuninni, að hún heiti Húsnæðisstofnun ríkisins, en ekki Húsnæðismálastofnun. Við erum að reyna að losna við þetta „mál“ úr sem flestum nöfnum, ráðuneyta t.d., þó að enn þá höfum við ekki treyst okkur til að gera það í félmrn.-nafninu.

Það er misskilningur hjá hv. þm. og fleiri að meiningin sé að fjölga mönnum í stjórn stofnunarinnar. Það er verið að breyta nöfnum og færa þau til þess sem í reyndinni er, og kem ég að því síðar.

Hv. 8. þm. Reykv. talaði um lántökur hjá lífeyrissjóðum og að þeir væru tilbúnir og viljugir til að kaupa skuldabréf af Byggingarsjóði ríkisins, að maður nú ekki tali um Byggingarsjóð verkamanna. Þetta er rétt, enda er þetta einn höfuðmöguleikinn sem við sjáum til fjármögnunar þessa kerfis. Hefur mikið verið rætt við þá aðila einmitt um þessi mál.

Hv. 2. þm. Austurl. minntist á að rétt væri að það yrði aðalregla að almennar innlánsstofnanir, hvar sem væru á landinu, sæju um það sem veðdeildin gerir hér í Reykjavík. Ég er honum sammála um það, enda er gert ráð fyrir því í frv. Þar er að vísu talað um heimild, en ekki er hægt að setja frv. fram öðruvísi fyrr en búið er að tala við bankastofnanir. Það er einmitt verið að gera það þessa dagana.

Æskilegt væri að lánstíminn væri 26 ár fremur en 21, eins og kom fram hjá honum og hv. 5. þm. Norðurl. e., það er auðvitað rétt. En eins og við sjáum á töflu 4 breytist greiðslubyrðin ekki svo ýkjamikið frá ári til árs. Þegar um er að ræða annuitetslán er lengingin ekki eins mikið til bóta og menn kannske hefðu haldið. Að öðru leyti er svo að sjálfsögðu verið að hugsa um það, eins og víðar í þessu frv., að byggja sem fyrst upp sjóðina sjálfa þannig að þeir standi á eigin fótum að mestu og þurfi ekki á ríkisframlögum að halda nema tiltölulega takmarkaðan tíma.

Það er talað um að æskilegt sé að flýta lánahlutfallinu upp í 80%, að gera það á styttri tíma en 10 árum. Ég er þar hjartanlega sammála, en það er eins þar og annars staðar, að verið er að reyna að finna samnefnara þess æskilega og þess mögulega. Ef við breyttum 10 ára reglunni í 6 ára reglu yrðum við að tvöfalda fjáröflunina á þessum 6 árum miðað við það sem frv. þó gerir ráð fyrir. — Þá á ég við viðbótarfjármögnunina.

Það er auðvitað rétt að kannske hefði verið rétt að festa í lögum hvernig 80% ættu að nást. En grg. og stefnuyfirlýsing fyrrv. ríkisstj. og samþykkt þessa frv. tel ég að bindi fjárveitingavaldið með að ná því marki í allra mesta lagi á 10 árum.

Auðvitað er mjög þýðingarmikið að gera sem mest fyrir tækninýjungar. Það er einmitt nú fyrst opnaður möguleiki til að lána sérstaklega til tækninýjunga.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. vakti athygli á því, sem við reyndar öll vitum, hvað erfiðleikarnir eru miklir hjá fólki með háa vexti, stutt lán. Það er einmitt höfuðtilgangur þessa frv. að koma því fólki til hjálpar.

Hv. þm. minntist á leiguíbúðirnar sem sveitarsjóðirnir eiga að borga 30% af, en þeir fá 70% lán, að það væri í reynd meira sem sveitarfélögin greiddu. Það er misskilningur, vegna þess að sveitarfélögin greiða þessi 20% eingöngu af verkamannabústöðum, af hverri íbúð fyrir sig eða hverjum flokki fyrir sig, en ekki í sjóðinn sem slíkan.

Hann minntist líka á að það væru í reynd ekki nema 50% lánuð til frumbýlinga til kaupa á eldra húsnæði. Það er rétt, vegna þess að talað er um að lánuð séu 80% af umframfjárþörf og þá er það sett sem lágmark að seljandi láni 30%, ekki ýtt undir að það verði enn þá meiri útborgun en nú gerist, að menn fari að krefjast alls á borðið í trausti þess að Byggingarsjóður komi og láni allt saman. Sem bremsa á það er þessi 30% regla sett þarna inn. Hvort hún er sú rétta eða ekki má að sjálfsögðu deila um.

Þegar talað er um uppfærð lán er átt við að lánið sé „regulerað“ eftir þeirri vísitölu sem lánin færast upp eftir, þ.e.a.s. þau hækka með lánskjaravísitölu Seðlabankans. Þá er átt við raunverulega skuld á hverjum tíma.

Hann minntist á að það væri mjög æskilegt að 80% lán kæmu strax til frumbýlinga. Ég er honum hjartanlega sammála. En þá rekumst við aftur á það sem ég sagði áðan, að slíkt hefur í för með sér óhemjulega mikinn aukinn fjármögnunarvanda, því að álitið er að u.þ.b. helmingurinn af öllum lánunum sé til frumbýlinga. Því væri óhemjulega mikill vandi á ferðinni ef það yrði gert, en vissulega væri æskilegt að tíminn til að ná því marki varðandi lán til frumbýlinga styttist mjög verulega.

Vitnað er í lán núna — ég kem nú reyndar að því síðar — og 2% vexti, að ekki megi hækka þá. Þessi 2% regla, sem var tekin upp í ágúst í fyrra með leyfi Seðlabankans, var bráðabirgðaráðstöfun og var reiknað með að þeir vextir breyttust. Þeir eru breytilegir í þeim skjölum og er reiknað með að það verði sömu vextir af 2%-lánunum og verða samkv. þessu frv., hvernig sem það verður afgreitt, hvort það verða 3 eða 3.5%. 2%-reglan er því bráðabirgðaráðstöfun og vextirnir breytilegir af þeim lánum. Eins og ég sagði áðan er lenging annuitetsllána ekki eins mikill ávinningur fyrir lántakandann og menn hefðu haldið. Aftur á móti er verulegur ávinningur fyrir sjóðinn að lengja lánin ekki um of. Auðvitað er, eins og við höfum oft komið inn á, reynt að finna samnefnara þess æskilega og þess framkvæmanlega.

Það er talað um að það vanti ákvæði um byggingarsamvinnufélög. Þegar þessi lög eru komin í fulla framkvæmd er ekki eins mikil þörf fyrir byggingarsamvinnufélög og áður. Eigi að síður er í athugun og hefur verið hugmyndin að setja um þau sérstök lög. Það má auðvitað segja að æskilegra hefði verið að hafa þau þarna með, en hugmyndin var að sérstök lög yrðu sett um þau.

Varðandi skyldusparnaðinn er það að segja að það var rétt, sem hv. 5. þm. Norðul. e. sagði, að haft hefur verið verulegt fé af ungmennum á undanförnum árum. Verðbæturnar eru reiknaðar út einu sinni á ári, í febr. Síðan eru þær settar á sérstakan reikning og ekkert verðbættar meira. Einungis grunnurinn er verðbættur. Við höfum þannig snuðað ungmennin um kannske helminginn af þeim vöxtum sem þau hefðu raunverulega átt að fá.

Þannig eru gömlu lögin. Það hefur verið látið reyna á þetta fyrir rétti og þessar reglur dæmdar löglegar, en þær eru langt frá því að vera eðlilegar. Það er tekinn af allur vafi um það í kaflanum um skyldusparnað, VI. kaflanum, skyldusparnaður skuli vera verðtryggður eins og best er gert annars staðar. Það á ekki að vera neinn vafi á því í sjálfum kaflanum og í reglunum, að verðtryggingin á að vera eins og best er á verðtryggðum bréfum.

Ég mun þá víkja að þeim gagnrýnisatriðum sem komu fram hjá hv. 11. þm. Reykv. síðast þegar þetta mál var hér til umr.

Hann talaði um 10 meginatriði sem hann taldi gagnrýnisverð. Hið fyrsta var, að samkv. frv. færu lánskjörin versnandi á næstu árum. Hér er væntanlega átt við lánskjör almennu veðlánanna, því að tæplega verður að því fundið að kjör félagslega lánakerfisins séu of þung, 33 ára lánstími og aðeins 0.5% vextir.

Hagsmunir húsbyggjenda eru í þessu efni margþættir. Lánskjörin eru vissulega einn þessara þátta, en aðeins einn af mörgum. Ýmsir aðrir eru ekki síður mikilvægir. Aðgangur að fullnægjandi lánafyrirgreiðslu á einum stað er auðvitað geysistórt atriði, einnig að greiðslubyrði af öllu því lánsfé, sem afla þarf, sé jafnað á langan tíma. Þá er afar mikilvægt að fjármagn fáist útborgað í samræmi við framvindu verksins. Það er óhugsandi að fjalla af nokkru viti um einn þátt þessara mála án þess að gæta samhengis við alla hina. Sú stefna, sem miðar að úrbótum í öllum þessum atriðum, og hún ein er skynsamleg og getur talist þjóna hagsmunum húsbyggjenda. Slík stefna tel ég að sé mörkuð í þessu frv. Lánskjörin eru vel viðráðanleg, eins og ljóslega er sýnt fram á í töflu 4 í aths. með frv. Greiðslubyrðin af láni, sem er aldrei meiri en sem svarar rúmum tveggja mánaða tekjum ófaglærðs og kvænts verkamanns eftir að beinir skattar hafa verið dregnir frá þeim. En jafnframt gera þessi lánskjör okkur mögulegt að byggja upp öflugan íbúðarlánasjóð, sem getur með tímanum fullnægt öðrum þörfum húsbyggjandans, mætt að fullu þörf hans yfir lánsfé, greitt það út í samræmi við byggingarhraðann og jafnað heildargreiðslubyrði hans á rúma tvo áratugi.

Þá hlýt ég að minna á að lánskjörin eru samkv. frv. mun vægari en þau kjör sem giltu þegar endurskoðun laganna hófst. Viðmiðun við þau kjör, sem voru tekin upp á síðasta ári, er óraunhæf. Sú ákvörðun var tekin til bráðabirgða, meðan lokið var endurskoðun laganna, og vextir af þeim lánum eru breytanlegir.

Ég hlýt að lokum að minna á það, sem þó ætti að vera óþarft, að ráðstöfunarfjár Byggingarsjóðs ríkisins er að töluverðum hluta aflað með lántökum og þær munu fara vaxandi á næstu árum ef menn vilja auka útlánagetu hans. Það er því óhjákvæmilegt að nokkurt samræmi sé á milli útlánskjara sjóðsins og þeirra vaxta sem hann greiðir af teknum lánum ef eigið fé hans og framlög eiga ekki að étast upp í greiðslum vaxtamunar. Einfalt reikningsdæmi sýnir þetta glöggt.

Á síðasta ári mun sjóðurinn hafa tekið að láni um 4 milljarða af lífeyrissjóðunum til 15 ára með 4% vöxtum. Þetta fé lánaði hann með 2% vöxtum til 26 ára þar sem fyrsta árið er afborgunarlaust. Hann endurgreiðir lífeyrissjóðunum á þessu ári og því næsta samtals 842 millj. kr., en fær sjálfur til baka 320 millj. kr. frá lántakendum sínum. Af þessum mismun eru 149 millj. kr. bein útgjöld vegna vaxtamunar. — Ef hv. 11. þm. Reykv. telur þetta réttu aðferðina til að efla húsnæðislánakerfið er honum annað betur gefið en fjármálavit. Í því efni taka honum langt fram þeir flokksbræður hans tveir, sem tilnefndir voru til að vinna að undirbúningi þessa frv., svo og þrír fyrrv. ráðh. Alþb., sem áttu sæti í vinstri stjórninni fyrrv. Allir þessir ágætu menn voru samþykkir þeim lánskjörum, sem hv. 11. þm. Reykv. telur nú óalandi og óferjandi. (ÓRG: Frv. var aldrei borið upp í síðustu ríkisstj.) Þessar tölur voru allar samþykktar í stefnuyfirlýsingu af ríkisstj. Á þessi aths. raunar við um ýmsa aðra þætti í gagnrýni þm.

Önnur aðfinnsla þm. var sú, að aðild sveitarfélaganna að fjármögnun félagslega íbúðarlánakerfisins mundi útiloka öll stór átök á því sviði. Heldur þykja mér þetta kaldar kveðjur til sveitarstjórnarmanna og að sama skapi ómaklegar. Staðreyndin er, að sveitarstjórnir hafa frá öndverðu átt veigamikinn þátt í fjármögnun félagslega lánakerfisins, miklum mun meiri en gert er ráð fyrir í frv., og þær hafa alls ekki brugðist þeirri skyldu sinni. Á vegum eldra verkamannabústaðakerfisins, þ.e. kerfisins fram að 1970, voru byggðar 1748 íbúðir, eins og ég skýrði frá í framsöguræðu minni, og þó lögðu sveitarstjórnirnar lengst af sem næst helming lánsfjárins á móti ríkissjóði.

Samkv. gildandi lögum greiðir íbúðarkaupandinn sjálfur 20% kostnaðarins, Byggingarsjóður ríkisins lánar venjulegt nýbyggingarlán, en það, sem þá vantar á, leggja ríki og sveitarfélög fram að jöfnu. Svo að tekið sé dæmi af íbúð, sem kostaði á síðasta ári 20 millj. kr. í byggingu, var framlag sveitarfélags til hennar 5.3 millj. kr., en væri samkv. frv. 4 millj. Auk þess byggir frv. á því, að sveitarstjórnir þurfi ekki að leggja fram neitt fé vegna endursölu félagslegra íbúða, andstætt því sem nú gildir, og að eignarfé sjóðsins skuli m.a. varið til að lækka enn framlög sveitarfélaganna er það tekur að vaxa með tímanum. Samkv. gildandi lögum kemur eiginfjármyndun sjóðsins sveitarfélögunum aldrei til góða.

Af þessu máli er ljóst að með frv. er verulega dregið úr kostnaðarhlutdeild sveitarfélaganna frá því sem gilt hefur. Er það eindregin skoðun mín, að þau muni hafa bæði vilja og getu til að valda þessu hlutverki sínu.

Það er alrangt að draga af núverandi ástandi þær neikvæðar ályktanir um afstöðu sveitarstjórnarmanna sem þm. gerði. Ástæður þess, að dregið hefur úr byggingu verkamannabústaða á síðari árum, eru fyrst og fremst þær stórfelldu lánveitingar til byggingar leigu- og söluíbúða á vegum sveitarfélaga sem hafnar voru árið 1973. Með byggingu þeirra, en það var gert með sérstökum lögum, má ná sama markmiði og með byggingu verkamannabústaða, en án þess að sveitarfélagið þurfi að leggja til neitt af lánsfénu. Er því eðlilegt að sú leið sé frekar valin, fyrst hennar er kostur og meðan hún er fyrir hendi, en eftir mun vera að byggja milli 200 og 300 íbúðir eftir slíku kerfi.

Í þriðja lagi kvað þm. frv. gera ráð fyrir áframhaldandi hindrunum í vegi þeirra sem vildu kaupa eða endurbæta eldra húsnæði. Mér er illskiljanlegt hvað hann á eiginlega við. Eins og skýrt kom fram í framsögu minni með frv. hefur aldrei verið varið jafnmiklum fjármunum úr Byggingarsjóði ríkisins til að lána þeim sem kaupa eldra húsnæði og á síðasta ári. Skiptir þá engu hvort miðað er við fjölda lánveitinga, raungildi lánsfjárins eða hlutfall þess af heildarlánveitingum. Fjöldi lánveitinga var 85% af umframmeðaltalsfjölda áranna 1974–1979, og er þá 1979 meðtalið, sem hækkar auðvitað meðaltalið. Lánsfjárhæðin hækkar úr 1500 millj. kr. á árinu 1978 í 3800 millj, kr. eða um tæp 150%. Hlutfall þessara lánveitinga var um fjórðungur alls ráðstöfunarfjár sjóðsins, hærra en nokkru sinni áður. Stefna frv. er að halda óskertu raungildi þess fjár, sem varið er til þessara lánveitinga, frá því sem var á síðasta ári og auka það raunar sem svarar vexti þjóðartekna.

Hvað varðar lán til endurbóta á húsnæði gerir frv. ráð fyrir að nú verði í fyrsta skipti komið á stofn sérstökum útlánaflokki sem veiti almennan aðgang að lánum til endurbóta og endurnýjunar á eldra húsnæði. Slík lán hefur aðeins verið heimilt að veita öryrkjum og ellilífeyrisþegum. Hér er því um stórfellda rýmkun lánsréttar að ræða, en ekki hindranir eins og hv. þm. talar um.

Í fjórða lagi var að því fundið, að ítök og áhrif verkalýðshreyfingarinnar á meðferð húsnæðismála væru skert til muna. Ég fæ ekki skilið hvaða tilgangi svona þvættingi er ætlað að þjóna eða af hvaða hvötum hann er sprottinn. Hið sanna er, að ítök launþegasamtakanna eru í frv. stóraukin, þótt ekki sé gert ráð fyrir beinni aðild verkalýðsfélaga að stjórn Húsnæðismálastofnunar, enda eiga þau núna enga slíka aðild. Með ákvæðum 36. gr. frv. er fulltrúum Alþýðusambands Íslands og BSRB hins vegar opnuð formleg leið til áhrifa og stefnumótunar í málefnum Byggingarsjóðs verkamanna og til að fjalla um fjármagns- og framkvæmdaáætlun sjóðsins og annað sem máli skiptir. Verkalýðshreyfingin hefur samkv. gildandi lögum enga slíka aðstöðu til beinna áhrifa innan félagslega lánakerfisins.

Þýðingarmestu aðilarnir í framkvæmd hinna félagslegu íbúðabygginga eru að sjálfsögðu framkvæmdastjórnirnar á hverjum stað. Þær kanna þörfina, gera áætlanir og tillögur um framkvæmdamagn og framkvæmdahraða, stjórna framkvæmdum og annast ráðstöfun íbúðanna. Í framkvæmdastjórnunum eiga samkv. gildandi lögum sjö menn sæti og er aðeins einn þeirra skipaður samkv. tilnefningu verkalýðsfélaga á staðnum. Frv. gerir ráð fyrir sex manna stjórn, þar sem samtök launafólks tilnefni helming stjórnarmanna og verkalýðshreyfingin þar af tvo. Ef þetta er að draga úr áhrifum verkalýðsfélaganna veit ég ekki hvor endinn snýr upp og hvor niður á hv. 11. þm. Reykv.

Fimmta ádeiluefnið varðaði daglegan rekstur Húsnæðismálastofnunar, aukningu stjórnunarbáknsins og væntanlegt pólitískt misferli við embættisveitingar þar. Ég hef einu sinni — og mér til undrunar — hlýtt á hv. þm. gagnrýna stöðuveitingu mánuði áður en umsóknarfrestur rann út og veiting hennar kom til umr. Það fannst mér vel að verki verið. En að gagnrýna væntanlega pólitíska veitingu starfa, sem stofna á til með lögum, meðan frv. til þeirra laga er enn til l. umr. í fyrri deild, hlýtur að vera hámark allrar árvekni. Mikið má það nú vera flekklaus maður og hreinn sem þannig talar, og furðumikil er trú hans á langlífi núv. starfsstjórnar.

Staðreynd þessa máls er sú, að það þykir eðlileg afleiðing af auknum verkefnum og sjálfstæði stofnunarinnar að stjórnendur hennar beri önnur starfsheiti en þeir gera nú. Í því þarf hins vegar alls ekki að felast nein aukning á mannahaldi og stendur ekki til. Það er t.d. engin aukning á mannahaldi þó að Guðmundur Vigfússon, sem nú er titlaður deildarstjóri, yrði titlaður framkvæmdastjóri, svo dæmi sé tekið. Sú deildaskipting, sem gert er ráð fyrir að koma á innan stofnunarinnar, er í raun miklu fremur formleg staðfesting á skipan, sem þegar gildir, en drög að einhverri nýrri tilhögun. Auðvitað mun breytingin þýða einhverja tilfærslu í launum hjá helstu stjórnendum stofnunarinnar, en ekki fjölgun. Fæ ég ekki betur séð en slíkt væri í fullu samræmi við þau stórauknu verkefni og stjórnunarlega ábyrgð sem leiða mundi af samþykkt frv. Ég vil taka fram í þessu sambandi, að starfsmenn stofnunarinnar, fyrir utan tæknistofnun sem á að standa sjálf undir sér, eru tíu menn í fullu starfi og fjórir í hálfu starfi, og það er yfirstjórnin og stjórn beggja lánaflokkanna.

Í sjötta lagi var að því fundið, að markmiðið með byggingu þriðjungs árlegrar íbúðaþarfar innan félagslega lánakerfisins væri allt of langt fram í tímann. Sú gagnrýni er á misskilningi byggð. Því markmiði eru engin tímamörk sett í frv. Vísa ég í því sambandi til 2. mgr. 34. gr. Að vísu þurfti, þegar reiknuð var fjárþörf íbúðalánakerfisins í heild, að gefa sér einhverjar forsendur um hvernig árlegt framkvæmdamagn gæti skipst á milli almenna og félagslega lánakerfisins. Slíkt er auðvitað engin stefnumörkun, heldur aðeins aðferð til að sýna fram á mismunandi áhrif þess á fjárstreymi sjóðanna, hvernig byggingarmagnið skiptist milli þeirra, svo og áhrif þess á framlög ríkis og sveitarfélaga. Það ætti að vera hverjum manni ljóst, að þótt samþ. væru á þessu ári lög sem miða að því, að þriðjungur árlegrar íbúðaþarfar landsmanna sé byggður á félagslegum grunni, taka nauðsynlegur undirbúningur og framkvæmdirnar sjálfar lengri tíma en svo, að slíkt gæti komið til framkvæmda strax á næsta eða allra næstu árum.

Í sjöunda lagi sneri gagnrýnin að því, að byggingu leiguíbúða væri of þröngur stakkur skorinn og að kaupleigusamningar þyrftu að komast á hér á landi líkt og annars staðar á Norðurlöndum. Um síðara atriðið vil ég segja, að verði hér á landi lögfestar reglur um kaupleigufyrirkomulag eiga þær betur heima í sjálfstæðum lögum, áþekkum lögunum um húsaleigusamninga, en lögum um opinber veðlán til íbúðabygginga. Eftir því sem ég veit best er rangt að vitna til löggjafar um þetta efni á Norðurlöndum. Ég hygg að slíkt fyrirkomulag sé ekki almennt í gildi á neinu Norðurlandanna, þó að það sé í einstaka sveitarfélögum, en er þó í undirbúningi í Finnlandi. Ég kannast hins vegar við að um kaupleigusamninga séu til lagareglur á Írlandi, í Hollandi og Sviss auk Englands, en þar hafa slíkar reglur verið lengi. Á vegum félmrn. starfar nú nefnd, sem falið var að gera álitsgerð um þetta efni, og mun sú vinna vera á lokastigi. — Um fyrra atriðið, að í frv. sé leiguíbúðum sniðinn of þröngur stakkur, vil ég hins vegar segja það eitt að samkv. frv. á bygging slíkra íbúða að fara fyrst og fremst eftir því, hver þörfin fyrir þær er, og samkv. þeim könnunum sem framkvæmdastjórnum verkamannabústaða er ætlað að standa fyrir hverri á sínum stað. Sjálfsagt er mat manna á því, hve mikla áherslu skuli leggja á byggingu leiguhúsnæðis, eitthvað misjafnt og verður svo að vera.

Í áttunda lagi var gagnrýnt að í frv. skorti sveigjanleika í lánum til mismunandi tegunda húsnæðis innan félagslega lánakerfisins, meiri áherslu þyrfti að leggja á einbýlis- og raðhús. Um þetta segir í 39. gr. frv. að framkvæmdastjórnir verkamannabústaða skuli í tillögum sínum til sveitarstjórnar gera tillögur um það m.a., hvaða húsgerðir skuli byggðar. Í 40. gr. segir enn fremur, að húsgerðir skuli velja með tilliti til þess að þær falli vel í umhverfi sitt. Þessar reglur eru því ákaflega rúmar, mun rýmri en í gildandi lögum, og fæ ég ekki séð að þessi gagnrýni eigi við nein rök að styðjast.

Í níunda lagi var það svo gagnrýnt, að frv. seinkaði útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis. Það er furðulegt að halda slíku fram, því að breytingin frá gildandi lögum er einkum fólgin í því, að sveitarstjórnir eru leystar undan þeirri kvöð að leggja fram jafnháa fjárhæð og með sömu kjörum og ríkissjóður lætur renna til þessara framkvæmda. Var ekki áður verið að tala um að fjárskortur sveitarfélaga stæði framkvæmdum fyrir þrifum? Manni koma í hug orð skáldsins er það sagði:

„Eitt rekur sig á annars horn, eins og graðpening hendir vorn.“

Loks var það svo í tíunda lagi gagnrýnt að ákvæði skorti um hlutfallslegt hámark greiðslubyrðar lánþega með lægri laun. Að þessu er ítarlega vikið í aths. með frv., en auk þess gerði ég grein fyrir því í framsöguræðu minni. Nenni ég ekki að endurtaka það hér. Málið er það, að mikil vinna hefur verið lögð í að kanna ýmsar leiðir til að ná þessu marki. Allar hafa þær hins vegar reynst við ítarlega athugun hafa í för með sér fleiri galla en kosti. Er því í frv. látið við það sitja að sýna fram á með skýrum útreikningum að greiðslubyrðin er langt innan þeirra marka sem rætt hefur verið um í þessu sambandi. Komi fram í meðförum þingsins einhver tillaga um þetta efni, sem ekki er slíkum annmörkum háð, skal ekki standa á mér að samþykkja hana.

Í ræðu hv. 11. þm. Reykv. var að því fundið, að ég hefði sent frv. til umsagnar, eftir að það var lagt fram, og sýnt með því Alþingi lítilsvirðingu. Því fer víðs fjarri að nokkuð slíkt hafi verið ætlan mín. Þykir mér rétt að skýra þetta nokkru nánar ef hér er á ferðinni einhver misskilningur.

Eftir að lokið var gerð endanlegra draga að frv. þessu í nóv. s.l. þótti sjálfsagt að ýmsir aðilar fengju tækifæri til að yfirfara það, einkum þó allir þeir sem höfðu beint eða óbeint tekið þátt í undirbúningi þess. Frv. var með aths. og fskj. orðið afar mikið að vöxtum eða um 200 vélritaðar síður. Var óhentugt að senda það og yfirfara í því formi. Því voru drögin fyrst prentuð sem handrit í mjög takmörkuðu upplagi og send út þannig til athugunar og yfirlestrar. Um þetta leyti var í fullum gangi undirbúningur að kjaramálaráðstefnu ASÍ, sem haldin var í byrjun des. Þótti sýnt að húsnæðismál kæmu til rækilegrar umfjöllunar á ráðstefnunni, enda hafa þau komið mjög til umræðu í mörgum undangengnum kjarasamningum við heildarsamtök launafólks. Fulltrúar ASÍ óskuðu eindregið eftir því við mig að fá að skoða frv.-drögin, og þótti mér það eðlileg ósk. Varð úr að þeir fengu handritið að því til umsagnar, enda benti allt til þess, að á því yrðu ekki gerðar neinar efnisbreytingar. Tekið var fram, að álitsgerð sína skyldu þeir senda hv. félmn. þessarar hv. d. Ég afréð síðan að það væri að svo komnu máli eðlilegt að BSRB, húsnæðismálastjórn og Samband ísl. sveitarfélaga fengju handritið einnig til athugunar, enda létu þau einnig umsagnir sínar ganga beint til félmn. og var ég þá fyrst og fremst með í huga að flýta allri vinnu við frv. Ljóst er að með þessu vannst tími, því að reikna verður með að umfjöllun þessara aðila sé fjölþætt og tímafrek. Fæ ég ekki séð að í þessu sé fólgin nein óvirðing af minni hálfu í garð Alþingis, enda bjó mér að sjálfsögðu ekkert slíkt í huga. Mér var auk þess tjáð að fyrir því væru ýmis fordæmi að hagsmunaaðilar fengju til athugunar drög eða handrit að frv. áður en þau kæmu til umfjöllunar á Alþingi.

Áður en ég vík alveg frá gagnrýni hv. 11, þm. Reykv. á frv. vil ég segja þetta: þótt óvenjumikil vinna hafi verið lögð í undirbúning og gerð þessa frv., þar sem komið hafa við sögu hinir hæfustu menn og úr öllum stjórnmálaflokkum, er það ekki lagt fram af minni hálfu sem einhver guðleg opinberun. Eflaust má þar færa ýmislegt til betri vegar, og mun ég taka feginsamlega öllum ábendingum eða tillögum hv. þm. sem horfa í þá átt. Ég hefði hins vegar kosið að umr. um það gætu orðið jákvæðari og málefnalegri en mér þykir gilda um gagnrýni hv. 11. þm. Reykv. Þar þótti mér fara meira fyrir rembingi og hroka en ég tel hæfa svo mikilvægu málefni.

Ég ætla þessu næst að víkja nokkrum orðum að atriðum í ræðu hv. 4. þm. Vestf. um frv. Í máli hans kom fram gagnrýni á að ekki væru í frv. ítarlegri ákvæði um fjáröflun til íbúðarlánasjóðanna. Ég held að í þessu frv. séu alveg jafnítarleg ákvæði um fjáröflun og venja er að hafa í lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Hér verður auðvitað að hafa í huga að fjáröflunarkerfið er gerbreytt frá því sem var er Alþ. heimilaði úfboð eins veðlánaflokks í senn á vegum veðdeildar Landsbanka Íslands.

Í 8. gr. er talið upp í fimm liðum hvernig ráðstöfunarfjár Byggingarsjóðs ríkisins skuli aflað. Að því er framlög varðar eru þar taldir þeir mörkuðu tekjustofnar sem renna árlega til sjóðsins. Um þá eru ákvæði í öðrum lögum sem óþarft er að taka einnig upp í þetta frv. Hvað framlög ríkissjóðs varðar er það rétt að ekki er tilgreint í frv. hvað af tekjum ríkisins skuli notað til greiðslu þeirra. Um tekjuöflun ríkissjóðs gilda einnig önnur lög sem óþarft er að endurprenta í þessu frv. Þess í stað er lögð áhersla á að sýna fram á hvaða áhrif útlánamarkmið frv. og einstakar ákvarðanir um lánskjör hafi á þörfina fyrir fjárstreymi til sjóðsins. Það er skoðun mín, að verði þetta frv. samþykkt sé fjárveitingavaldið bundið af þeim ákvörðunum sem í því felast um fjárstreymi til íbúðalánasjóðanna. Um það má svo sjálfsagt deila hvort eðlilegra sé að þess fjár verði aflað með mörkuðum tekjustofnum eða það tekið af almennum skatttekjum ríkissjóðs. Mér þótti réttara að hafa þetta opið, enda hefur mér virst fyrir því tiltölulega almennur vilji á Alþ. að draga fremur einmitt úrnotkun hinna svokölluðu mörkuðu tekjustofna.

Hvað varðar lántökur sjóðanna þarf að mínum dómi ekki heldur sérstök ákvæði um þær í þetta frv. umfram það sem leiðir af ákvæðum VI. kafla um skyldusparnað.

Skýr lagafyrirmæli eru til um skuldabréfakaup Atvinnuleysistryggingasjóðs af Byggingarsjóði ríkisins, og í gildi eru einnig lög sem kveða á um þá skyldu lífeyrissjóðanna í landinu að kaupa fyrir 40% af ráðstöfunarfé sínu skuldabréf af fjárfestingarlánasjóðum. Ég skýrði frá því í framsöguræðu minni, að athugunin benti til að lánsfjárþörf íbúðarlánasjóðanna mætti fullnægja með því einu að þeir lífeyrissjóðir, sem starfa á samningssviði Alþýðusambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og vinnuveitenda, fullnægðu lögbundinni kaupskyldu sinni með því að kaupa skuldabréf byggingarsjóðanna. Hér skortir því ekki lagaákvæði, heldur einungis ákvarðanir innan núgildandi lagaheimilda sem eðlilegt virðist að teknar séu í fárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj., svo sem vísað er til í 8. gr. frv. Raunar benti ræðumaður einnig á að innan lífeyrissjóðakerfisins væri mjög mikið laust fjármagn sem beina mætti í ákveðinn farveg. Sú er einmitt meginstefna frv.

Hv. 4. þm. Vestf. fann raunar að því hvoru tveggja í senn, að ávöxtun sjóðanna væri óþarflega góð, en einnig að sá hámarkstími sem settur er í reglugerðardrögin til að ná 80% lánahlutfallinu væri allt of langur. Ekki þykir mér þessi ádeiluefni fara reglulega vel saman. Augljóst er og ítarlega skýrt í aths. með frv., að verði ávöxtun sjóðanna skert að einhverju marki frá því sem frv. gerir ráð fyrir stóraukast jafnframt erfiðleikarnir á að ná því lánshlutfalli sem stefnt er að.

Loks vil ég víkja að þeirri gagnrýni þm., að með frv. sé verið að stórauka vaxtabyrði á lánum til byggingar leiguíbúða á vegum sveitarfélaga. Það er að vísu rétt, að samkv. þeim útlánakjörum, sem tekin voru upp í ágúst s.l., eru vextirnir aðeins 2%. En eins og ég hef áður sagt tel ég ekki raunhæft að gera samanburð við þau kjör. Þau voru aðeins ákveðin til bráðabirgða meðan lokið var endurskoðun laganna. Auk þess eru vextir þeirra lána breytilegir og ekki ósennilegt að þeim verði breytt. Raunhæfara er að bera lánskjör frv. saman við þau kjör sem giltu fram til loka júlí í fyrra. Þau jafngiltu þá frá 5.6% raunvöxtum á ári miðað við 40% verðbólgu eða meira og allt að 7.1% raunvöxtum miðað við 10% verðbólgu. Samkv. frv. er því um að ræða verulega tilslökun á lánskjörum að þessu leyti. Auk þess er svo greiðslubyrðin mun jafnari samkv. lánskjörum frv., sem einnig skiptir miklu máli.

Um lánstímann vil ég segja að nú er hann að vísu 33 ár. Ástæðan er sú, að heimilt er að selja leiguíbúðir þessar láglaunafólki og mun það gert í flestum tilfellum. Lánstíminn er því valinn með tilliti til þess að hann hæfi væntanlegum kaupendum íbúðanna úr hópi lágtekjufólks, sem yfirtaka lánin, en ekki vegna þess að nokkur maður telji í alvöru nauðsynlegt eða skynsamlegt að veita sveitarfélögum lán til svo langs tíma. Samkv. frv. verður ekki leyfð endursala leiguíbúða fyrr en 30 ár eru liðin frá byggingu þeirra og því óþarft að taka tillit til greiðslugetu hugsanlegra kaupenda þeirra við ákvörðun lánskjaranna. Um það má sjálfsagt deila hvort 15 ár séu hæfilegur lánstími þegar sveitarfélög eiga í hlut. Ætli sé ekki rétt að bíða með þær umr. þar til umsögn Sambands ísl, sveitarfélaga um frv, liggur fyrir?

Herra forseti. Með þessu frv. er reynt, eins og ég hef áður sagt, að finna samnefnara þess sem er æskilegt og þess sem er framkvæmanlegt. Það er fjarri mér að halda að ekki megi bæta margt í frv. í meðferð Alþ., og vona ég að svo verði gert. En ég leyfi mér einnig að ítreka þá von mína, að félmn. þessarar hv. d. hraði störfum við frv. eftir því sem föng eru á.