16.01.1980
Neðri deild: 19. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (440)

39. mál, óverðtryggður útflutningur búvara

Iðnrh. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég kveð mér nú hljóðs, er sú, að ég vil leiðrétta að nokkru það sem ég sagði hér í gær, vegna þess að ég hef nú aflað mér betri upplýsinga en ég hafði þá. Ég tók að vísu fram, að Bjargráðasjóður og greiðslur úr honum heyrðu ekki undir rn. landbrh., og hafði þess vegna ekki kynnt mér málið niður í kjölinn varðandi þau atriði sem hér bar á góma í sambandi við frv. hv. þm. Pálma Jónssonar o.fl. En ég held að það væri ágætt fyrir hv. þd. að fá þær upplýsingar, sem ég aflaði mér, og vil því koma þeim á framfæri.

Það er í fyrsta lagi fyrirgreiðsla Bjargráðasjóðs vegna harðindanna vorið 1979. Afgreiðslur á grundvelli tillagna hafís- og harðindanefndar, þeirrar fyrri sem mætti kalla, hafa orðið sem hér segir:

1. Styrkir vegna hráefnisflutninga á hafíssvæðinu, og snertir ekki bændur út af fyrir sig. Það eru fimm greiðslur. Jökull hf. á Raufarhöfn fékk styrk vegna hráefnisflutninga 4 millj. 307 þús. kr., Kaupfélag Langnesinga, Þórshöfn, 2 millj. 752 þús., Kaupfélag Vopnfirðinga, Vopnafirði, 2 millj. 230 þús., Hraðfrystihús Þórshafnar 1 millj. 290 þús. og Síldarvinnslan, Neskaupstað, 4 millj. 640 þús. Þetta eru samanlagt 15 millj. 221 þús. kr.

2. Lán vegna veiðarfæratjóns af völdum hafíss voru veitt samtals 103 aðilum í 19 sveitarfélögum, 129 millj. 480 þús. kr.

Lántaka vegna þessara fyrirgreiðslna, sem ég hef nú nefnt, var hjá Viðlagatryggingu Íslands 110 millj., og var það verðtryggt lán til 5 ára með 2% vöxtum sem sjóðurinn tók til þess að standa undir þessum greiðslum.

3. Styrkir vegna heyflutninga vorið 1979 voru veittir 72 aðilum, alls 6 millj. 228 þús. kr.

4. Lán vegna aukafóðurkostnaðar vorið 1979 á grundvelli umsókna. Voru 39 sveitarfélögum veitt slík lán til að endurlána 124 bændum, alls að fjárhæð, 69 millj. 665 þús. kr. Lánskjör voru: Lánstími þrjú ár, lánin verðtryggð, en vaxtalaus og heimild til að breyta lánskjörum síðar til hagsbóta fyrir skuldara. Lánin voru borguð út eftir síðustu áramót, þ.e. í byrjun þessa mánaðar.

Fyrirgreiðsla á grundvelli harðindanefndar veitt samkv. þessu til bænda nam því 75 millj. 893 þús. kr., en fyrirgreiðsla alls samkv. tillögum hafísnefndar og harðindanefndar, sundurliðuð eins og ég nefndi, 220 millj. 594 þús. kr. Ég endurtek það, að þessi lán voru yfirleitt lögð út þannig að það voru vaxtalaus lán — eða þá styrkir, eins og ég hef nefnt áður — en verðtryggð.

Mér þykir rétt að koma því að hér, að það var fyrrv. ríkisstj. sem samþykkti þessi kjör, og bréf, send út til að afla skýrslna um þetta, voru undirrituð af fyrrv. landbrh., Steingrími Hermannssyni, og þá voru þessi lánakjör kynnt þannig. Að ég sé stoltur yfir mínum hlut, eins og hv. þm. sagði áðan, þá hlýtur Steingrímur Hermannsson að vera stoltur líka yfir sínum hlut.

Það, sem mig langaði líka til þess að upplýsa hv. þd. um, er að tillögur harðindanefndar — hinnar síðari sem við getum kallað — vegna uppskerubrests á garðávöxtum og grasbrests sumarið sem leið og álitsgerð lágu fyrir 10. okt. 1979. Tjónið var flokkað eftir efni: Tjón vegna heyvöntunar, kostnaður vegna hey- og graskögglaflutninga sumarið og haustið 1979 og tjón vegna uppskerubrests á garðávöxtum sumarið og haustið 1979. Um þetta segir svo:

„Þótt endanlegar upplýsingar liggi ekki enn þá fyrir er þegar ljóst, að tjón bænda samkv. lið 1–3 hér að framan mun vera á bilinu 1–2 milljarðar kr. Svo sem fram kom á liðnu sumri er ljóst, að Bjargráðasjóður er þess ekki megnugur af eigin ráðstöfunarfé að veita fyrirgreiðslu vegna þessara tjóna og til þess þarf að koma fé annars staðar frá, þ.e. lán frá bönkum og framlög frá ríkissjóði.“

Í framhaldi af þessu voru samþykkt brbl. um það, að Bjargráðasjóði yrði heimilað að útvega ákveðna upphæð til þess að standa undir þessu. Ég vil taka það fram, að ég hélt að búið væri að útvega þessi lán, en ég fékk þær upplýsingar að könnun á lántöku væri skammt komin vegna þess að enn lægi ekki fyrir hve þetta tjón væri mikið, þó að hér sé nefnt að sennilegast sé það á bilinu 1–2. milljarðar. Búnaðarfélag Íslands hefur það verkefni að kanna bótaumsóknir, meta þær og skoða. Sú könnun er ekki fullunnin enn, og mér er tjáð að sennilega verði henni ekki lokið fyrr en á bilinu 20.–30. þ. m. En eins og ég sagði áðan skiptist þetta í tjón vegna heyvöntunar, kostnað vegna hey- og graskögglaflutninga sumarið og haustið 1979 og tjón vegna uppskerubrests á garðávöxtum sumarið og haustið 1979. Ég endurtek að það er skoðun mín, að ekki sé við því að búast, að nokkur aðili, þó að fyrir tjóni verði, geti reiknað með því að fá öllu hagstæðari lánakjör en þau að fá lánin vaxtalaus, en verðtryggð, og ég held að flestir bændur hafi þann metnað að endurgreiða lán sem þeir taka á því sem mætti kalla eðlilegum kjörum. Það er verulegur stuðningur að sleppa vöxtum, eins og allir skilja, en bændur geta varla búist við því frekar en aðrir að þurfa ekki að greiða lánin verðtryggð til baka.

Mig langar svo að lokum að fara aðeins ofan í það sem hv. þm. talaði hvað eftir annað um, tekjuskerðingu bænda, af því að þeir hefðu ekki fengið fram yfir 10% útflutningsbæturnar. Í mínum huga er það ekki út af fyrir sig tekjuskerðing. Þeir hafa fengið búvöruverðið á innlendum markaði og lögum samkv. 10% bæturnar greiddar, en þeir fá ekki 10% bæturnar greiddar á það sem er fram yfir þá framleiðslu, sem lögum samkv. á að bæta. Segja má, að það sé tekjutap fyrir bændurna að hafa ekki fengið það, en lögum samkv. er það ekki tekjuskerðing.

Afurðatjón og afurðarýrnun, það má kannske deila um þau orð. Ég get fallist á að það sé afurðarýrnun að dilkarnir eru léttari í haust en í venjulegu ári. En í mínum huga er afurðatjón ofurlítið annað en afurðarýrnun. En þetta er kannske orðaleikur sem maður á ekki að innleiða hér. Lambadauði og slíkt er afurðatjón í mínum huga, en afurðarýrnun þegar lömbin verða ekki eins þung á haustin og æskilegt eða eðlilegt væri í meðalári.

Ég held að ég sjái ekki ástæðu til þess að greina hér frekar frá þeim upplýsingum sem Bjargráðasjóður gaf um þessi mál. Það er kannske forvitnilegt fyrir hv. þm. að vita það, að t.d. tjón vegna uppskerubrests á garðávöxtum er ugglaust afar mikið í vissum hreppum, bæði norðan- og sunnanlands. Það er ekki búið að kanna það til fulls og er þar ýmislegt, sem þarf að athuga, en ég leiði ekki orð að því að sinni.