21.01.1980
Efri deild: 22. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í B-deild Alþingistíðinda. (483)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af þeim umr. sem hér hafa orðið um fjármagn til íbúðabygginga og fjárveitingar til þeirra. Eins og hv. þm. er kunnugt er megintekjustofn Byggingarsjóðs ríkisins launaskattur. Ég kemst ekki hjá því vegna þeirrar umr., sem hér hefur orðið í þessari hv. d., að vekja athygli á þeim tvískinnungi sem verið hefur bæði af hálfu fyrrv. ríkisstj. og núv. í þessum efnum. Í fjárlögum fyrir árið 1979 voru 10% af launaskattinum tekin til almennra þarfa ríkissjóðs og þessu fjármagni kippt úr Byggingarsjóði ríkisins. Þarna var um allálitlega fjárhæð að ræða. Nú er enn vegið í sama knérunn og þessi prósentutala hækkuð upp í 15%. Í stað þess, að að óbreyttum lögum ætti allur launaskatturinn að renna til Byggingarsjóðs ríkisins og þar með til húsnæðislána, þá er gert ráð fyrir að skerða tekjur Byggingarsjóðs ríkisins með þessum hætti um hvorki meira né minna en 2.5 milljarða kr., ef ég man rétt. Í þessu felst náttúrlega mjög mikill tvískinnungur,svo að ekki sé meira sagt, og mér er í rauninni óskiljanlegt að menn skuli, á sama tíma sem þetta er gert og þannig að því staðið að veita fé til íbúðabygginga í landinu, koma fram og halda langar tölur um hversu mikið þeir hugsi sér að gera til þess að bæta hag húsbyggjenda, bæði að því er varðar íbúðabyggingar á vegum einstaklinga og svokallaðra félagslegra húsbygginga.

Ég held að í þessu dæmi, sem ég hef hér vakið athygli á, megi í rauninni sjá, svo að ekki verði um villst, hversu mikinn loddaraleik menn eru að leika á þessu sviði, eins og raunar á fleiri sviðum í þ jóðfélaginu, nú hin síðustu ár.