21.01.1980
Efri deild: 22. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í B-deild Alþingistíðinda. (484)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það hafa nú þegar orðið langar umr. hér í d. um þetta frv. Eins og ég sagði í minni fyrstu ræðu við þessa 1. umr. er hér á ferðinni svo veigamikið frv. og á því eru það umfangsmiklir gallar og hægt er að hafa svo ólíkar skoðanir á fjölmörgum atriðum, að það er heppilegra til þess að hraða þingstörfum, að slík umr. fari fram í þeirri n. deildarinnar sem fær frv. til meðferðar.

Hæstv. félmrh. reyndi í sinni svarræðu að gera mjög lítið úr þeim aths. og þeirri gagnrýni sem ég setti fram á þetta frv. Ég gæti farið mörgum orðum um þetta svar hæstv. ráðh., en ég ætla hins vegar að geyma mér það þar til kemur að 2. umr. þessa máls hér í d. og brtt. félmn. — meiri eða minna hluta eða n. allrar — við frv. liggja fyrir. Þá verður hægt að ræða með tilliti til brtt. kosti og galla þeirra ákvæða sem í frv. eru.

Hæstv. ráðh. lét að því liggja, að hjá sveitarstjórnum og hjá verkalýðshreyfingunni væri mikill og almennur stuðningur við þetta frv. Hæstv. ráðh. er væntanlega kunnugt um það, að það framtak hans rn. að senda Sambandi ísl. sveitarfélaga frv. til umsagnar hefur leitt til þess, að nú þegar hefur Samband ísl. sveitarfélaga sent frá sér bréf með 15 aths. við þetta frv. Sumar þeirra eru allveigamiklar, þótt aðrar kunni að vera minni háttar.

Mér er kunnugt um það, að í einstökum sveitarstjórnum hér á landinu fer fram nánari skoðun áfrv. sem mun leiða til fleiri aths. Mér er líka kunnugt um það, að innan stofnana og stjórna samtaka launafólks eru gerðar mjög alvarlegar aths. við frv. og hv. félmn. þessarar d. munu berast mjög gagnrýnar aths. frá samtökum launafólks við þetta frv. Það er því mikill misskilningur hjá hæstv. ráðh., ef hann heldur að það sé eingöngu ég og kannske örfáir aðrir þm. í þessari d. sem hafi leyft sér að gera aths. við frv. Öflug og veigamikil samtök í landinu, sem hafa átt verulega hlutdeild í meðferð húsnæðismála, bæði stýringu þeirra og fjármögnun, t.d. sveitarfélögin og samtök launafólks, gera mjög veigamiklar aths. við þetta frv. Það er líka rangt hjá hæstv. ráðh., að það sé sjálfsagt mál að fjölga í því stjórnunarapparati sem húsnæðismálastjórn er nú þegar. Ég vil í því sambandi nefna aðeins eitt dæmi til að sýna hve linlega sú yfirstjórn, sem er nú á stofnuninni, hefur sinnt ýmsum veigamiklum þáttum.

Tækninýjungar, sem leiða til sparnaðar í húsnæðismálum, ættu að vera og eiga að vera mikilvægt viðfangsefni þessarar stofnunar. 1 sept. á s.l. ári sendi Sturla Einarsson byggingameistari húsnæðismálastjórn bréf, þar sem hann gerði ítarlega grein fyrir þeirri tilraunastarfsemi með byggingaraðferðir sem hann hefur verið að gera og felur í sér algerar grundvallarbreytingar hvað snertir einangrunaraðferð húsa. Tilraunir á þeim tveimur húsum, sem þær nýjungar hafa beinst að, hafa leitt í ljós bæði umfangsmikinn sparnað í byggingarkostnaði og enn fremur umfangsmikinn sparnað í rekstri húsanna, sérstaklega kyndingarkostnaði, þar á eftir.

Húsnæðismálastjórn hefur ekki enn þá svarað þessu bréfi. Þessi tilraunamaður í byggingariðnaði á Íslandi á tvímælalaust rétt á því, að málefni hans séu tekin til ítarlegrar skoðunar, vegna þess að ef þarna er verið á réttri braut getur það skipt milljörðum fyrir samfélagsheildina. En húsnæðismálastjórn hefur hvorki treyst sér til þess að svara þessu erindi né heldur leggja fram hið minnsta fjármagn til þess að þessi tilraunastarfsemi geti haldið áfram. Ég held að það væri nær að setja fjármagn í að styrkja þá einstaklinga og samtök í þjóðfélaginu, sem eru af veikum mætti að reyna að koma á framfæri nýjungum í byggingariðnaði á Íslandi, en að vera að hlaða nýju bákni við stjórn viðkomandi stofnunar.

Ég verð að segja það við hæstv. ráðh., að mér finnst það heldur leiðinlegt, bæði í þessari umr. og eins í Sþ. fyrir nokkrum dögum, að ávallt þegar maður gagnrýnir það nýja ástfóstur, sem hv. þm. og hæstv. ráðherrar Alþfl. hafa tekið við embættis- og stjórnsýslubáknið, og þann boðskap í útþenslu kerfisins, sem þeir hafa tekið að sér, þá skuli hæstv. ráðh. alltaf nefna einstaklinga, sem eru flokksbundnir félagar í mínum eigin flokki, og gera því skóna, að nú sé verið að mótmæla því að viðkomandi einstaklingar fái hinar eða þessar stöður. Eða m.ö.o.: Hæstv. ráðh. ber hér á borð hinar klassísku gömlu röksemdir samtryggingarkerfisins, sem úr flokki hans hafa verið hvað háværastar raddir um á undanförnum mánuðum og árum. Það er því ekki bara í hinum smáu málum, sem þessi málflutningur kemur fram, það er líka í umræðum um hin stóru mál eins og þetta húsnæðismálafrv.

Eins og ég sagði í upphafi ætla ég ekki að lengja þessar umræður. Þetta mun vera fjórði dagurinn sem þetta frv. er til umræðu hér í hv. deild. En ég mun beita mér fyrir því í samvinnu við nefndarmenn í félmn., að þetta frv. og sú gagnrýni, sem fram hefur komið, fái mjög ítarlega meðferð í deildinni, og flytja brtt. við frv. Þá skulum við ræða við hæstv. bráðabirgðaráðherra — sem kannske verður þá ráðherra og kannske ekki — um ágæti þessa frv.