22.01.1980
Sameinað þing: 14. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í B-deild Alþingistíðinda. (524)

217. mál, kaup og sala á togurum

Páll Pétursson:

Herra forseti. Þetta eru orðnar nokkuð ítarlegar umr. í fsp.-tíma, en ég get ekki stillt mig um að drepa á örfá atriði sem hér hafa komið fram, og ég held að sé ekki rétt að láta umr. ljúka öðruvísi en gera þeim fyllri skil.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson byrjaði á að belgja sig út yfir sölum togara frá Siglufirði erlendis. Það hafa fleiri togarar siglt en Siglufjarðartogararnir. Hv. þm. var að vísu með háa tölu, en úr kjördæmi hans hafa þeir látið sig hafa það að sigla líka, og ef hann legði saman hygg ég að hann fengi talsvert hærri tölu þar.

Hv. þm. beindi fsp. til hv. þm. Tómasar Árnasonar, hvers vegna hann hefði samþykkt sölu á togara til Siglufjarðar. Þannig er mál með vexti, að þessi togari, sem nú er á Siglufirði, á sér töluvert langa sögu. Einu sinni reyndu þeir að gera hann út frá Suðurnesjum. Þá hét hann Suðurnes. Svo fór hann til Þórshafnar. Þeir skírðu hann Font. Á hvorugum staðnum tókst að gera þetta skip út. Þegar Siglfirðingar voru búnir að eignast skipið stóð ekki á því að það fór að afla. Þá komst allt í lag, þá reyndist þetta vera prýðilegasta skip. Það voru engin vandræði með skipið lengur þegar komnir voru á það góðir sjómenn og dugandi forstöðumenn fyrir útgerðinni.

Á Siglufirði eru tvö frystihús, en ekki sama fyrirtæki sem á þau. Annað fyrirtækið heitir Þormóður rammi. Það er rekið með ríkisaðild og gerir út tvo togara. Þeir hafa stundum, eins og hér hefur komið fram, orðið að sigla vegna þess að útgerðarfélagið hefur verið í miklu basli og hefur orðið að láta skipin sigla stundum til að útvega sér peninga til þess að þau kæmust út til veiða, hreinlega til þess að þurfa ekki að binda skipin. Hitt fyrirtækið, Ísafold, átti ekki skip fyrr en í fyrravor, að það eignaðist Siglfirðing. Þar hefur allt gengið með skaplegum hætti og raunar með blóma síðan.

Svo er á Siglufirði útgerðarfyrirtæki sem heitir Togskip hf. Það átti um tíma tvo togara. Þetta fyrirtæki er brautryðjendafyrirtæki í skuttogaraútgerð á Íslandi og hefur verið rekið af miklum dugnaði og þrótti, en ekki í tengslum við frystihús á Siglufirði, og það er ástæðulaust að vera að kasta steinum að forráðamönnum þess.

Togskipið Dagný átti að leggja upp á Þórshöfn, en minna varð úr því en upphaflega var ætlað. Eru ýmsar orsakir til þess. Það er ekki rétt, að það hafi verið allt saman svikið. Það voru ýmsar orsakir sem ég vil ekki, úr því að forseti er farinn að hraða málinu, fara nánar út í á þessu stigi málsins, en þar var um bilanir að ræða, það var um miklu óhagstæðara fiskmat að ræða á Þórshöfn en annars staðar, og þar var um vandræði í höfninni að ræða og ýmislegt fleira.

Ég er ekki sérstakur talsmaður þess að togarar sigli með afla, en í sumum tilfellum getur verið þjóðhagslega mjög hagkvæmt og hagkvæmt fyrir bæjarfélögin og hagkvæmt fyrir útgerðirnar að sú aðferð sé viðhöfð, sbr. tölur ráðh. um 4 milljarða meiri gjaldeyrishagnað af að sigla með aflann en vinna hann hérlendis. Við þurfum á gjaldeyri að halda, og fiskverð og olíuverð er þannig, að eina leiðin til að halda útgerðarfyrirtækjum gangandi í sumum tilfellum er að skipin sigli að einhverju marki.