24.01.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í B-deild Alþingistíðinda. (571)

51. mál, ráðstöfun á aðlögunargjaldi

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég leyfði mér fyrir jól að bera fram fsp. til hæstv. iðnrh. um ráðstöfun á aðlögunargjaldi. Fsp. er í fjórum liðum og varðar ráðstöfun á tímabundnu aðlögunargjaldi sem lagt var á samkv. lögum nr. 58/1979, en Alþ. samþ. lög um þetta efni s.l. vor.

Ég ætla í upphafi að leyfa mér að lesa fsp. og víkja síðan að henni nokkrum orðum.

Fyrst er spurt: „Hvernig rökstyður ríkisstj. ráðstöfun sína á tímabundnu aðlögunargjaldi á árinu 1979 með tilliti til ákvæða 7. gr. laga nr. 58/1979 og þeirrar kynningar á málinu, sem fyrrv. ríkisstj. beitt'i sér fyrir gagnvart EFTA og EBE og leiddi til þess að EFTA samþ. formlega að gjaldið yrði lagt á?“

2. liður: „Hvert er í einstökum atriðum það „uppsafnaða óhagræði“ og hverjar eru forsendur fyrir þeim endurgreiðslum til útflutningsiðnaðar og annarra greina samkeppnisiðnaðar, sem ríkisstj. ákvað í nóv. s.l. að fá skyldu samtals 516 millj. kr. af aðlögunargjaldi á árinu 1979?“

Í þriðja lagi: „Hvaða tillögur hefur ríkisstj. mótað um ráðstöfun tekna af tímabundnu aðlögunargjaldi á árinu 1980?“

Og í fjórða lagi: „Hefur ríkisstj. tekið afstöðu til þess, með hvaða hætti og hvenær eigi að afnema „uppsafnað óhagræði“ innlends samkeppnisiðnaðar eða afla tekna til endurgreiðslu þess framvegis?“

Varðandi þessa fsp. vil ég minna á að tilgangurinn með álagningu hins tímabundna aðlögunargjalds var fyrst og fremst: Í fyrsta lagi að skapa innlendum samkeppnisiðnaði lítils háttar framlengingu á tollvernd frá því sem ella hefði orðið samkv. ákvæðum fríverslunarsamninga, og var það í samræmi við stefnuyfirlýsingu fyrrv. ríkisstj. Og í öðru lagi að skapa fjárhagslegt svigrúm til nauðsynlegra iðnþróunaraðgerða, sbr. 7. gr. laganna um tímabundið aðlögunargjald, en hún hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Tekjum af aðlögunargjaldi á árinu 1979 skal varið til sérstakra iðnþróunaraðgerða samkv. nánari ákvörðun ríkisstj., að fengnum tillögum iðnrh.

Á sama hátt skal tekjum af gjaldinu á árinu 1980 varið til eflingar iðnþróunar samkv. ákvæðum fjárlaga.“ Samkv. ákvörðun fyrrv. ríkisstj. 6. febr. 1979 var tekin stefna á að leggja þetta gjald á, en jafnframt var samþ. í ríkisstj. að áður en endanleg ákvörðun yrði tekin skyldi sendinefnd fara til EFTA og Efnahagsbandalags Evrópu til að kynna viðhorf Íslands og kanna undirtektir, eins og segir í þessari ríkisstjórnarsamþykkt.

Tvær nefndir unnu síðari hluta vetrar að kynningu þess máls hvor á eftir annarri. Hin fyrri var eins konar embættismannanefnd, en hin pólitísk nefnd, báðar undir forustu Inga R. Helgasonar hrl. Með honum voru í síðari nefndinni tveir valinkunnir alþm., þeir Einar Ágústsson fyrrv. utanrrh. og Eiður Guðnason, hv. núv. 5. þm. Vesturl. Sú nefnd heimsótti ríkisstjórnir EFTA-landa, allra nema Portúgals, og náði mjög góðum árangri þar eð EFTA-ráðið samþykkti formlega álagningu gjaldsins. Sá rökstuðningur, sem fram var borinn gagnvart EFTA-ráðinu, var iðnaðarpólitísks eðlis og reistur á fyrirvara sem Ísland gerði við inngönguna í EFTA og fallist var á á ráðherrafundi EFTA 3. des. 1970, en sá fyrirvari heimilaði okkur að gripa til ráðstafana til bjargar ýmsum iðngreinum sem ættu í vök að verjast vegna tollalækkana sem af EFTA-aðildinni leiddi.

Mál þessi eru ítarlega rakin í grg. með frv. um aðlögunargjald, sem lagt var fram í þinginu af hæstv. fjmrh. í fyrra. Þar kemur m.a. greinilega fram það mat íslensku kynningarnefndanna, að ekki var unnt að vinna álagningu gjaldsins stuðning með rökum um skattaóhagræði eða aðra mismunun gagnvart íslenskum samkeppnisiðnaði sem stafaði af íþyngjandi gjöldum hér innanlands og mismunun gagnvart atvinnuvegunum innbyrðis, svo sem með mismunandi háu aðstöðugjaldi og launaskatti. Talsmenn okkar lögðu áherslu á nauðsyn á lengdum aðlögunartíma fyrir íslenskan samkeppnisiðnað, sem notaður yrði jafnframt til að treysta undirstöður iðnaðar hérlendis. Var í því sambandi m.a. vísað til stefnumörkunar um iðnþróun, sem þá hafði verið undirbúin í iðnrn. og á vegum samstarfsnefndar um iðnþróun. Lögin taka líka af tvímæli um að tekjum af gjaldinu skyldi varið til sérstakra iðnþróunaraðgerða, en tekjurnar voru áætlaðar um 600 millj. kr. á síðari árshelmingi 1979 og hafa verið áætlaðar allt að 1700 millj. kr. fyrir árið 1980.

Iðnrn. fól samstarfsnefnd um iðnþróun s.l. sumar að gera tillögu um ráðstöfun tekna af gjaldinu. Flutti ég tillögu þessarar samstarfsnefndar, sem í eiga sæti fulltrúar frá helstu samtökum iðnaðarins og starfsfólks í iðnaði, óbreytta í ríkisstj. fyrri hluta októbermánaðar s.l. Hún fól í sér í fyrsta lagi ráðstöfun á fé til sérstakra tiltekinna iðnþróunarverkefna að upphæð 250 millj. kr. og í öðru lagi að leggja það, sem afgangs var, til Iðnrekstrarsjóðs, 350 millj. kr., með það fyrir augum að sjóðurinn verði því til úthlutunar lána og styrkja til að stuðla að nýsköpun og brýnum verkefnum í iðnaði eftir nánari athugun. Stefnumörkun ráðuneytisins var að efla sjóðinn þannig og fá honum aukið verksvið. Jafnframt skyldi tryggt að fjármagn þetta nýttist sem best til undirstöðuaðgerða varðandi iðnþróun og í nýiðnaðarverkefni og yrði ávaxtað fram yfir gildistíma hins tímabundna aðlögunargjalds sem rennur út við lok þessa árs.

Ég ætla ekki að gera að sérstöku umtalsefni tillögur hæstv. fyrrv. fjmrh. um meðferð þessa aðlögunargjalds, því það væri of langur lestur og varðar ekki beinlínis þá fsp. sem hér er til umr., en þá ráðstöfun gagnrýndi iðnrn. harðlega s.l. haust. Hins vegar lýtur fsp. að meðferð núv. hæstv. ríkisstj. á gjaldinu samkv. ákvörðun sem tekin var af henni að tillögu núv. hæstv. iðnrh. í nóv. 1979. Með þeirri ákvörðun var að verulegu leyti snúið við blaði frá því sem áður var fyrirhugað og ákveðið að ráðstafa meginhluta tekna af gjaldinu til að endurgreiða svokallað „uppsafnað óhagræði“, allt að 516 millj. kr. af um 700 millj. kr. sem þá hafði verið áætlað að gjaldið mundi gefa á s.l. hálfu ári sem það var innheimt. Eins og ég gat um áður tel ég að sú ráðstöfun á gjaldinu stangist á við ákvæði laga um gjaldið og undirstöðu þeirra samninga sem tókust við EFTA um álagningu gjaldsins og Efnahagsbandalag Evrópu gerði ekki sérstakar athugasemdir við.

Ég tel að með ráðstöfun hæstv. núv. ríkisstj. á aðlögunargjaldinu á liðnu ári sé verið að grípa til handahófsaðgerða til að reyna að bæta úr rekstrarerfiðleikum íslenskra iðnfyrirtækja, sem bregðast hefði átt við með öðrum hætti en verja þessum dýrmæta tekjustofni til þess að rétta þar við. Og það er spurt um hvert stefni á árinu 1980 með ráðstöfun gjaldsins og hvað ríkisstj. hyggi á í því efni.

Ég vil segja að það kom mér mjög á óvart að þessi stefna var tekin af hæstv. ríkisstj., og ég veit að margir aðilar í iðnaði hafa mikið við það að athuga. Það sýna t.d. ljóslega viðbrögð Sambands málm- og skipasmiðja, sem óskuðu sérstaklega eftir því við iðnrn. að gjaldinu yrði varið til iðnþróunarverkefna, en ekki úthlutað til umbjóðenda þeirra, fyrirtæk ja í málmiðnaði og skipaiðnaði. Á það var svo fallist eftir þrábeiðni þessa sambands. Ég hygg að ólíkt happadrýgra hefði verið að ráðstafa þessu gjaldi til tiltekinna verkefna og sérstaklega til Iðnrekstrarsjóðs, þannig að hann gæti íhugað hvernig gjaldinu yrði best ráðstafað til undirstöðuverkefna í íslenskum iðnaði og til að treysta iðnþróun til frambúðar.