24.01.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í B-deild Alþingistíðinda. (580)

219. mál, hagræðingarlán til iðnaðar

Iðnrh. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Fyrrv. iðnrh. lagði hinn 15. okt. s.l. fyrir ríkisstj. tillögu þess efnis, að umræddum 400 millj. kr. yrði varið til hagræðingar í iðnaði og yrði Iðnlánasjóði falið að veita fyrirtækjum lán í þessu skyni. Tillaga þessi fékk ekki afgreiðslu á þeim fundi. Tveim eða þrem dögum síðar hygg ég það hafi verið sem fyrrv. ríkisstj. fór frá.

Það er rétt, að á þessum ríkisstjórnarfundi var formlega samþykkt skipting á þeim 1 milljarði kr. sem verja átti til hagræðingar í undirstöðugreinum atvinnulífsins samkv. 26. gr. laga nr. 13/1979 og samkv. heimild í lánsfjáráætlun ríkisstj. Skiptingin var, eins og hv. þm. tók held ég fram, að til landbúnaðarins ættu að fara 200 millj., 400 millj. til sjávarútvegsins og 400 millj. kr. til iðnaðarins.

Núv. ríkisstj. tók þá ákvörðun að erlend skuldasöfnun yrði takmörkuð sem frekast væri kostur, og var því ákveðið að fresta um sinn útvegun þessa fjár, enda má vísast líta svo á að hér hafi fremur verið um stefnumark að ræða og heimild en lögbundna skyldu þótt ugglaust hafi menn á því mismunandi skoðanir.

Annað get ég í raun og veru ekki sagt um þessa fsp. en það, að hvorki fyrrv. né núv. ríkisstj. hefur útvegað þetta fé. Ég held að fyrrv. ríkisstj. hafi heldur enga tilburði haft til þess, nema ég verð að nefna eina undantekningu sem virðist hafa farið eftir dálítið sérstakri leið. Rn. landbúnaðarins hafði, þegar ég kom þar inn fyrir dyr, útvegað 100 millj. kr. hjá Framkvæmdastofnun ríkisins til að fjármagna byggingu og uppsetningu refabúa við Eyjafjörð. Ég varð fyrst var við þetta þannig að það komu menn frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins og óskuðu eftir sérstakri ráðstöfun á 100 millj. kr. sem eftir væru. Þegar ég fór betur ofan í þetta var ég leiddur í allan sannleika um þessar eitt hundrað milljónir og hvernig að útborgun þeirra hefði verið staðið. Áframhald af þessu var það, að þegar kom lengra fram á þann tíma sem ég hef setið í landbrn. reyndust 100 millj. ekki nægilegar til þess að fullljúka refabúunum og kaupum á dýrum þangað, þannig að það hefur verið að því staðið að fá til viðbótar hjá sama lánsaðila 40 millj. kr. Þannig má segja að 140 millj. kr. hafi verið útvegaðar til landbúnaðarins, en ekkert til iðnaðarins og ekkert til sjávarútvegsins. Þetta held ég að sé nokkurn veginn sannleikurinn í málinu.