29.01.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

215. mál, rannsókn landgrunns Íslands

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar sem hann hefur hér gefið. Því miður er það ekki mikið, sem gerst hefur frá því að þessi till. var flutt hér á hinu háa Alþingi 10. okt. 1978, umfram það sem áður var ákveðið og ekki snertir rannsókn landgrunnsins beinlínis vegna réttargæslu okkar gagnvart öðrum þjóðum og í sambandi við afmörkun ytri landgrunnsmarka. En engu að síður var skýrslan áhugaverð og ég endurtek þakkir fyrir hana.

Ég kemst ekki hjá að lýsa því sem skoðun minni, að slælega hafi verið á þessum málum haldið. Þrátt fyrir einróma samþykkt Alþingis hefur sem sagt enginn erlendur sérfræðingur verið ráðinn t.d., sem ríkisstj. var þó fyrirlagt að gera, og fé til starfsemi innlendra sérfræðinga hefur verið mjög af skornum skammti. En hitt ber að játa, að í sambandi við Jan Mayen-málið hefur verið unnið vel að undanförnu að ýmiss konar upplýsingasöfnun sem ekki kostaði mikið fé og ekki þurfti sérstaka sérfræðinga til. Er það fyrst og fremst að þakka, að ég hygg, Ólafi Egilssyni í utanrrn. sem hefur unnið mjög gott starf. Hann hefur notið atstoðar t.d. Páls Imslands, sem ritað hefur um Jan Mayen-svæðið um nokkurra ára skeið og er talinn jafnvel vita meira um það svæði jarðfræðilega séð en nokkur maður annar í víðri veröld. Eins er það gleðilegt, að ungur maður, Karl Gunnarsson, hefur verið ráðinn starfsmaður Orkustofnunar til þess að flýta fyrir þessum rannsóknum.

Ég er hér með tvær aðrar fsp., sem snerta landhelgismálið, en þar sem hæstv. utanrrh. er hér ekki nú skal ég ekki fara að ræða það mál beinlínis.

En í sambandi við þetta mál sérstaklega er þess að gæta, að bókstaflega ekkert hefur verið gert til þess að afla upplýsinga um hafsvæðið suður af Íslandi, en þar gætu verið jafnmiklir hagsmunir okkar Íslendinga og jafnvel á Jan Mayen-svæðinu. Þar hefur því miður lítið sem ekkert verið að gert. Fulltrúar á Hafréttarráðstefnu hafa að vísu reynt að viða að sér kortum og upplýsingum og í samtölum við menn þar aflað þeirra upplýsinga sem þeir gátu, en þar með er líka allt upp talið. Það hafa engir vísindamenn farið þarna suður á bóginn og engar vísindarannsóknir verið stundaðar.

Það gekk óneitanlega dálitið erfiðlega að fá menn, bæði hér á hinu háa Alþingi, suma hverja a.m.k., og almenning til að átta sig á því haustið 1978, að Íslendingar ættu verulegra hagsmuna að gæta á Jan Mayen-svæðinu. Það tók allmarga mánuði, langt fram á ár 1979, þar til menn gerðu sér grein fyrir því. Síðan hefur verið vel unnið, það skal játað, en þó ekki nægilega að jarðfræðirannsóknum og skortir enn upplýsingar til þess að gæta okkar málstaðar í þeim samningum sem fram undan eru við Norðmenn áður en margar vikur líða, og ég vona að það verði a.m.k., áður en næsti fundur Hafréttarráðstefnu hefst, unnt að taka málið upp.

En þarna suður frá, eins og ég sagði áðan getur verið um gífurlega mikilvæga hagsmuni að ræða sem menn hafa ekki gefið gaum. Þar er um að ræða land sem nefnt er Rockall-hásléttan, og partur af henni er svonefndur Hattonbanki. Þetta er sokkið land, sem upphaflega var áfast við Grænland. Fyrir um það bil 100 millj. ára byrjaði landrek og klofnun þarna suður frá, og þá myndaðist gjá á milli þessa núverandi sokkna lands og Írlands og Skotlands og er nú yfirleitt um 200 mílna breið og um 2–3 þús. m djúp. Það er hin upphaflega klofnun og myndun Atlantshafsins. Þetta sokkna land var þá áfast við Grænland, en síðan kemur nýr rekás, þar sem núna er Reykjaneshryggurinn og framhald hans til suðurs og vesturs, og þess vegna eru full rök fyrir að halda því fram, að þetta svæði sé miklu frekar eðlilegt framhald af Íslandi og Færeyjum og sé á því hafsvæði, en ekki hinu skoska og breska.

Því miður höfum við ekki gætt réttar okkar á þessu svæði sem skyldi. Bretar hófu tilkall til þessa svæðis og hafa gert það allt frá því 1971. Þá byrjuðu þeir að lýsa yfir ýmiss konar friðunarráðstöfunum og öðru slíku á þessu svæði. Írar tóku síðan til við sömu iðju árið 1974. Síðan hafa þeir raunar mótmælt tilraunum Breta á þessu svæði til þess að helga sér mikið land, en við hins vegar ekki.

Þetta kemur allt nánar til umr. þegar þeim fsp. verður svarað, sem ég gat um áðan, en fram hjá hinu verður ekki gengið, að þarna höfum við sofið á verðinum. Mönnum hefði átt að vera ljóst að þarna var um mikilvæg réttindi að ræða, allt frá því að þessi þáltill. var flutt 10. okt. 1978 eða útbýtt væntanlega þann 11., en tíminn sem síðan er liðinn hefur lítið sem ekkert verið notaður. Við erum þess vegna mjög vankunnandi. Við vitum þó að setlagakenningin svonefnda, sem Írar styðjast mest við og eru frumkvöðlar að, getur e.t.v. einmitt hentað okkur á þessu svæði, þar sem mikil setlög, sem borist hafa frá Íslandi, eru einmitt vestast í þessu svæði, og þau setlög af íslensku bergi brotin ná raunar allt suður í Biskayaflóa. Þannig gæti jafnvel setlagakenning Íra komið okkur að haldi í þeirri baráttu sem við eigum fram undan þarna suður frá. Ef við hefðum þær upplýsingar, sem okkur vanhagar um, stæðum við betur að vígi.